Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

fimmtudagur, júlí 31, 2003miðvikudagur, júlí 30, 2003mánudagur, júlí 28, 2003
Bíræfnu bísarnir í Grindavík

Hversu kaldhæðnislegt er það þegar
Vísir.is talar um að þjófar hafi nánast „ryksugað“ öll rafmagnstæki í út úr einbýlishúsi í Grindavík?

Í sömu frétt segir að þeir hafi komist undan og „að öllum líkindum“ verið á rúmgóðum bíl!

en ek heiti Sverrir 16:21




föstudagur, júlí 25, 2003
Kindurnar á Spáni

Þegar Spánverjarnir, sem nú dvelja á Aragötunni, borðuðu sína fyrstu „íslensku“ máltíð í fyrradag barst í tal hvað þætti „hefðbundið“ í íslenskri matargerð. Og á einhvern óútskýranlegan hátt blandaðist íslenska sauðkindin inn í þessa umræðu.

Þar sem orðið yfir kind á spænsku var ekki mönnum ekki tamt var gripið til hljóðlíkinga. Fyrst var jarmað á íslensku „meeehehehe“ en svo mundi bloggari eftir því að
spænsku kindurnar segja „beeehehehe“ og samstundis rann það upp fyrir gestunum um hvað væri verið að ræða.

Það á samt eftir að koma í ljós hvort þeir verði „heppnir“ og fái að bragða svið.

Á kaffihúsi um kvöldið lærði bloggari að djarfasta matarpöntunin á BSÍ gengur undir nafninu „kjammi og kók“.

(Er það rétt að íslenskir hestar segi „hoho“? Væri „íhohoho“ ekki nær lagi? Og hvað ætli fíllinn geri í Búahéruðum S-Afríku?)

en ek heiti Sverrir 09:35




Slæm máltilfinning

Kræsturinn.

Það hlaut að koma að því að þeir notuðu orðið „heitt“ yfir ískaldar lindár.

en ek heiti Sverrir 09:34




fimmtudagur, júlí 24, 2003miðvikudagur, júlí 23, 2003
Bloggkortið góða

Páll Melsted hefur drifið í því sem Ormurinn ætlaði að demba sér í að gera handvirkt fyrir fáeinum mánuðum, þ.e. að kortleggja tengsl á milli þeirra bloggara sem finna má á rss-molunum.

Þetta er massakúl.

Afríkubúar koma heim

Nú eru u.þ.b. þrjár vikur þangað til Eyjólfur og móðir bloggara koma heim. Þá verða miklir fagnaðarfundir. Heimilisfaðirinn kemur ekki heim fyrr en í nóvember/desember. Þá mun Ormurinn flytja að heiman í annað sinn.

Framundan eru spennandi tímar.

en ek heiti Sverrir 17:35




þriðjudagur, júlí 22, 2003
Vísindablaðamennska Morgunblaðsins

Ormurinn hefur það fyrir satt að langafi hans og nafni hafi iðulega sagt að Mogginn lygi alltaf. Sá maður treysti ekki einu sinni veðurfréttunum í blaðinu (reyndar er yfirleitt varlegt að treysta þeim).

Framúrstefnuleg túlkun blaðamanna mbl.is á nýbirtum rannsóknarniðurstöðum í stjörnufræðinni gera sitt til að styðja kenningu Sverris langafa:


(af mbl.is) „Ástralskir stjarnfræðingar hafa, að sögn BBC, tekið sig til og reiknað upp á nýtt hve margar stjörnur eru í þeim sólkerfum sem sýnileg eru frá jörðinni með fullkomnustu stjörnukíkjum. Kom þá í ljós að þær eru nokkru fleiri en almennt hefur verið talið hingað til.

Hófu þeir útreikninginn með því að mæla það birtumagn sem einn hluti hins sjáanlega svæðis sendir frá sér. Þannig áætluðu þeir fjölda stjarna á svæðinu. Næst margfölduðu fræðingarnir útkomuna þannig að út fengist fjöldi stjarna allan sjóndeildarhringinn frá jörðu talið.“

Röng þýðing og slakt málfar leiða til þess að fréttin er með öllu óskiljanleg.

Á mannamáli myndi frétt BBC útleggjast á þessa leið (svo fremi sem hugtakið (*)„hinn sýnilegi alheimur“ og önnur hugtök stjörnufræðinnar teljist til mannamáls):

„Rannsóknir Ástralskra stjörnufræðinga benda til að stjörnur í hinum sýnilega alheimi séu mun fleiri en talið hefur verið. Niðurstöðurnar fengust með því að mæla ljósstyrk allra vetrarbrauta sem sjáanlegar voru á litlu svæði á himninum og áætla út frá ljósstyrk vetrarbrautanna hve margar stjörnur þær hefðu að geyma. Þar sem gert er ráð fyrir að alheimurinn sé álíka þéttur hvert sem litið er má áætla heildarfjölda stjarna í hinum sýnilega alheimi út frá þessum niðurstöðum.“

Frétt mbl.is verður væntanlega notuð sem dæmi í stjörnufræðinni í vetur um hve varlegt er að treysta fregnum úr vísindaheiminum í íslenskum fjölmiðlum.

(*)Af hverju talað er um „hinn sýnilega alheim“? Jú, talið er að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli fyrir 13,7 milljörðum ára. Ef einhver hluti hans er í meira en 13,7 milljarða ljósára fjarlægð frá okkur hefur ljósið þaðan ekki náð að berast til okkar og við sjáum hann því ekki. Hinn sýnilegi alheimur (sem er „fræðilega“ mögulegt að kanna) er því svæðið innan alheimsins með radíusinn 13,7 milljarðar ljósára.

en ek heiti Sverrir 14:33




mánudagur, júlí 21, 2003
Hringtorg í Nóatúni og heimilisveitingar

Á
vef Umferðarstofu kennar margra grasa. Ormurinn rakst m.a. á hollráð fyrir ferðalög sumarsins en þar stendur:

„Við árekstur geta lausir hlutir orðið að byssukúlum, jafnvel fallbyssukúlum, gegn þeim sem eru að öðru leyti vel spenntir í sæti og geta þannig stórskaðað ökumann og farþega. Slíka muni á að hafa á gólfi eða í farangursgeymslu.“

Best að sleppa því að hafa trívíalkassann í afturglugganum líkt og tíðkaðist í lödunni í gamla daga og halda sig frekar við anorakkana.

Á þessum sama vef sá sá, sem hér ritar, stórskrýtið flashsskjal sem sýnir hvernig á að aka um hringtorg bæjarins. Þar á meðal eru Eskitorg, Melatorg og „hringtorgið við MacDonalds“ [plebbatal forritara]. Hringtorgið á gatnamótum Nóatúns og Hátúns er þó það eina sem þarfnast leiðbeininga. Ekki hefði heldur veitt af því að hafa leiðbeiningar fyrir Eggertstorg.

Þeir Umferðarstofumenn reyndust hafa bætt við enn einu bráðnauðsynlegu þjónustumerki fyrir vegakerfi landsins frá síðustu heimsókn:



Heimilisveitingar

Hvernig ætli þetta skilti sé notað?

en ek heiti Sverrir 12:13




sunnudagur, júlí 20, 2003
Níræður gestur er bestur

Bloggari er í góðum fíling á safninu. Hingað hafa komið þrír gestir í dag en annars hefur deginum verið varið í netráp við undirleik Megasar, Röyksopp og 4 Hero, ásamt skipulagningu á stjörnufræðikennslu vetrarins.

Sá fyrsti sem kom var 92 ára gamall rafvirki. Sá hafði hafið nám 1929 og þekkti því gjörla til raflagnanna á Hótel borg sem hann tók þátt í að leggja 1930 (gamla rafmagnstaflan þaðan er einn safngripanna). Hann hafði og unnið við Laxárvatnsvirkjun hjá Blönduósi, Gönguskarðsárvirkjun í Skagafirði og í Andakílnum í Borgarfirði 1946-47.

Skömmu síðar kom þýskt par í heimsókn frá Nürnberg. Maðurinn var efnaverkfræðingur og höfðu þau bæði mikinn áhuga á umhverfismálum og raforkuframleiðslu. Bloggari gat ekki stillt sig um að benda þeim óhreina barnið hennar Evu; gömlu Varastöðina í Elliðaárdalnum. En jafnframt fullvissaði hann gestina um að hún væri ekki lengur í notkun (og hefði ekki verið í 15 ár), enda innan við 0,1% rafmagns á Íslandi framleitt með olíu (og þá að miklu leyti með varastöðvum þegar kerfið dettur út). Einnig barst talið að hlutfallinu milli vatnsafls og jarðhiti við raforkuöflun, en sem stendur er það um 18% á móti 82%, vatnsaflinu í vil. Er útlit fyrir að hlutdeild jarðhitans muni verða um 15% (eða þar um bil) næstu tvo áratugina eða svo þegar Kárahnjúkar, Hellisheiðarvirkjun, Þjórsársvæðið, Reykjanesskagi og stækkanir núverandi jarðvarmavirkjana eru teknar með í reikninginn.

Þynnkudagur

Ekki má heldur gleyma að minnast á þynnkunni eftir teiti á Lynghaganum í gær. Er það trúlega tímanna tákn að þar voru trúlega aðeins 8 manns, sem ekki höfðu einhvern tíma bloggað. Hinir 20 hafa hins vegar reynst misvirkir.

Annar stór atburður í gær var brúðkaup Sigurjóns Sveinssonar frá Galtalæk og Önnu Rósu Einarsdóttur í Hjallakirkju (en brúðgumi og bloggari unnu saman við Hrauneyjafossvirkun sumurin 1995-98). Athöfnin tókst vel og reyndist presturinn vandanum vaxinn. Brúðkaupsveislan var einnig stórfín og ekki spillti fyrir að framhald var á fjögurra ára gömlu samtali um landgræðslu og uppblástur í Landsveit við föður brúðgumans, Svein á Galtalæk. Sagði hann m.a. að lúpína hefði hörfað í grennd við bæinn eftir að landið var orðið nægilega niturauðugt og víðir og birki höfðu náð sér á strik. Um þessa meintu hörfun hefur Ormurinn nefnilega haft sínar efasemdir, enda ekki gjarn á að treysta bókstafstrúarmönnum eins og þeim sem ráða ríkjum í skógræktarfélögum landsins.

en ek heiti Sverrir 15:58




föstudagur, júlí 18, 2003
Opnun heimssýningarinnar í Chicago 1933

Bloggari las
það á netinu áðan að skipuleggjendur hefðu beint geislum stjörnunnar Arktúrusar að ljósnæmri díóðu (sem þá var nýbúið að uppgötva) og notað til að hleypa straumi á sýningarsvæði heimssýningarinnar 1933 í Chicago.

Af hverju varð Arktúrus fyrir valinu en ekki einhver önnur stjarna? Jú, hún var talin vera 40 ljósár í burtu og ljósið sem barst til jarðar 1933 hafði þá lagt af stað heilum 40 árum áður, á sama tíma og heimssýningin var haldin í Chicago 1893.

en ek heiti Sverrir 11:21




fimmtudagur, júlí 17, 2003
Hanar

Það var
strætódaginn mikla sem bloggari tók eftir litnum á brunahönunum á Esjumelum á meðan hann þaut framhjá í Kjalarnesvagninum. Ólíkt því sem gerist í Reykjavík þá voru þessir hanar bláir. Seinna kom á daginn að bæði á Selfossi og í Hafnarfirði höfðu brunahanar þennan sama bláa lit. Þessir hanar litu jafnframt út fyrir að vera yngri en almennt gerist og gengur í Reykjavík.

Eftir þessa reynslu (reyndar heldur fátækleg gögn) var því ekki órökrétt að varpa fram þeirri glæfralegu tilgátu að brunahanar væru almennt bláir á litinn utan Reykjavíkur. Undantekningin á þessu eru þó málmlitir brunagoggar eins og sá sem stingst út úr Top Shop húsinu í Lækjargötu (og eykur mjög á borgarbraginn). Einhverjum datt í hug að blái liturinn væri að undirlagi Evrópusambandsins (rétt eins og hvítu akreinamerkin á þjóðvegunum), sem er ekki svo galin hugmynd, enda fátt mannlegt sem því batteríi er óviðkomandi.

A.m.k. var bloggari í góðri trú að hægðarleikur væri að greina ólíkar stefnur í brunahanamálun á Íslandi. Í gær kom í ljós að svo er ekki.

Oft er sagt að lítil þúfa geti velt þungu hlassi, og má segja að þau orð hafi átt vel við á kvöldgöngu Ormsins og Jónatans í gærkvöldi.

Þar sem félagarnir gengu út Nesið, fram hjá Sæbóli, Ökrum og hinum gömlu húsunum sem má finna þar innanum nálægt Nesveginum, var tekin sú afdrifaríka ákvörðun að beygja af leið og ganga sunnan blokkanna við Nesveginn. Eitt það fyrsta sem þar sást var rauður brunahani, sem væri náttúrulega ekki í frásögur færandi ef blár frændi hans hefði ekki dúkkað upp um 100 m neðar við sömu götu. Þvílík smekkleysa! Allt í einu var hin einfeldningslega heimsýn á fallanda fæti. Ástandið átti þó síst eftir að batna. Bloggari gat samt enn um sinn huggað sig við að það væri a.m.k. einn brunahani á Seltjarnarnesi sem væri örugglega rauður (a.m.k. á annarri hliðinni).

Eftir að hafa farið sér hægt eftir merktri gönguleið Kiwanismanna meðfram vegi 41 og út með Suðurströnd sáu fótgangendur þá einu leið færa að ganga Lindarbrautina til þess að sleppa við áreiti frá kríum Seltjarnarnesbæjar. Sem félagarnir nálgast norðurströndina þá dúkkar þar upp gulur hani með rauðan gogg og kamb, eins og tíðkast í Reykjavík. Það er þá ekki bara allt hitt (fyrir utan heita vatnið) sem Seltirningar deila með borginni, gömlu brunahanarnir eru eins á Seltjarnarnesi og í Reykjavík. Til að bíta höfuðið af skömminni var rauðan hana að finna við Lindarbrautina um 100 m nær Esjunni.

Og hver er mórall sögunnar? Jú, aldrei að treysta því að bæjartæknifræðingar séu samkvæmir sjálfum sér.

(Ætli menn þurfi nú að leita langt eftir rökstuðningi við þessa kenningu.)

en ek heiti Sverrir 11:11




þriðjudagur, júlí 15, 2003
Tortímandinn

Klukkan átta ætlar bloggari á Terminator II og III í Regnboganum ásamt
Ísleifi og Snorra.

Það kæmi nú ekkert á óvart ef það hallaði heldur á nýjustu myndina í þessum samanburði.

Þá er skyldubíóferð nr. 2 í höfn þetta árið. Seinni tvær verða trúlega ekki fyrr en í nóvember og desember.

en ek heiti Sverrir 18:20




mánudagur, júlí 14, 2003
Safnvörðurinn hugrakki

Óbreyttur bloggari og
besti og frægasti bloggari landsins voru að vonum kampakátir með dagsverkið í dag, enda lagði toppurinn á safninu sig í lífshættu við að setja upp þá flottustu og geggjuðustu mynd sem prýtt hefur veggi minjasafna á Íslandi.

Yfirskriftin hljómar kannski ekkert sérlega spennandi í eyrum sumra:

Uppsetning á natrínlömpum við Elliðaár 1958.



(Smellið hér ef þið viljið fá forsmekkinn að því hvað myndin er flott áður safnið er heimsótt.)

Þarna má sjá gömlu stigabílana í aktsjón og bílnúmerin á skrýtnum stað. Jarðhýsin (kartöflugeymslurnar) í baksýn (ekki búið að ryðja jarðvegi að þeim), ásamt amerísku línunni frá Írafossvirkjun og fleiri raflínum. Þegar myndin var tekin stóð Suðurlandsbraut undir nafni sem leiðin út úr bænum, yfir Elliðaárnar á gömlu brúnum og upp Ártúnsbrekkuna. Natrínlampar (eins og á myndinni) er að finna á ljósastaurum við Grettisgötuna nálægt Frakkastíg.

Þar sem efsti hluti myndarinnar er í um 5 m hæð yfir tröppunum upp á 2. hæð safnhússins var nauðsynlegt að fá lánaðan stiga sem vélstjórarnir í Elliðaárstöð nota til þess að komast upp í krana í virkjuninni. Svo var púkkað undir stigann með gangstéttarhellum – sem sagt allt hið mesta glæfraspil.

Eftir tvær heimsóknir í Helstirni Orkuveitunnar er það orðið nokkuð ljóst hvor ofangreindra manna er lofthræddari. Var það því hlutverk undirritaðs að vera handlangari safnvarðar, enda ráðlegt fyrir mann sem verður þvalur í höndunum af lofthræðslu við að sjá lærimeistarann í seilingarfjarlægð frá rjáfri hússins. Á endanum rötuðu allar 45 flísarnar upp á vegg (hver um sig með flatarmál á við 17" tölvuskjá).

Nú fer að verða knýjandi að mæta á safnið, þó ekki sé nema til þess að berja þessa tröllslegu mynd augum. Uppi á vegg er hún nefnilega 2,5 x 1,8 [metrar].

Þetta er algert MONSTER.

en ek heiti Sverrir 22:24




sunnudagur, júlí 13, 2003föstudagur, júlí 11, 2003
Skúlagötublogg

Fyrir nokkru rakst bloggari á stórmerkilega ljósmynd á safninu tekna á Skúlagötunni 1968 eða rétt fyrir það.



(
Smellið hér ef þið viljið sjá myndina í boðlegum gæðum.)

Það er ansi magnað að sjá bílana aka vinstra megin á götunni. Fyrir utan svo gamla SVR-skiltið (væri gaman að eiga eitt svona núna) og últrasvölu ljósastaurana (minna á staurana sem voru á Shell-stöðinni á Birkimelnum áður en bensínstöðvarnar voru allar steyptar í sama mót).

Skiltið með hraðatakmörkunum handan götunnar stelur þó senunni (eitthvað sem innskannandinn einn kemur auga á).



Fyrst lögðu menn Skúlagötuna malbiki. Svo fóru menn að reikna. Fimmtíu kílómetrarnir voru náttúrulega allt of mikill hraði en hraðatakmörkin 40 km/klst. of lág að sama skapi.

45 km voru því málið.

en ek heiti Sverrir 12:27




fimmtudagur, júlí 10, 2003þriðjudagur, júlí 08, 2003
Námsskrá í stjörnufræði

Þessi tilkynning frá Menntaskólanum hlýtur að vera einhvers konar djók. A.m.k. kemur Ormurinn hvergi nálægt þessu.

Hrokagikkurinn sem kenndi náttúrufræðideild stjörnufræði í fyrra gantaðist reyndar oft með það að hann hefði ekki séð neina námsskrá fyrir fagið. Og ef að hann sæi hana þá væri eins víst að hann myndi ekki fara eftir henni (nema þá aðeins að hún væri eftir hans höfði).

Forvitnin leiddi bloggara inn á síðu með aðalnámskrá framhaldsskóla í náttúruvísindum. Kom þá í ljós að stjörnufræðin heitir víst JAR 113(!) Þar segir:

JAR 113 Almenn stjörnufræði

Áfangalýsing
Í áfanganum er saga stjörnufræðinnar stuttlega rakin, fjallað um stjörnufræðina sem fræðigrein og farið er í kenningar um gerð, uppruna og þróun alheimsins. Þá er sérstök áhersla lögð á sólkerfið, bæði innri og ytri reikistjörnurnar, loftsteina og halastjörnur og aðferðir til rannsókna á þeim. Fjallað er um kenningar um uppruna efnisins, þróun fastastjarna og gerð og myndun svarthola. Þá er fjallað um rannsóknaráætlanir og nýjustu uppgötvanir og möguleika á sviði geimferða og -rannsókna. Áhersla skal lögð á verkefnavinnu; athuganir og tilraunir, stjörnuskoðun, kortalestur og nýtingu upplýsingatækni, s.s. stjörnufræðiforrita og líkana.

Áfangamarkmið
Nemandi
- þekki grundvallaratriði í sögu stjörnufræðinnar
- geti beitt öllum algengustu hugtökum og heitum stjörnufræðinnar í umfjöllun sinni um fyrirbæri alheimsins
- þekki uppbyggingu sólkerfisins og alheimsins
- þekki helstu kenningar um uppruna alheims og þróun hans, s.s. sístöðukenninguna og stórahvellskenninguna
- þekki helstu skeið í þróun fastastjarna allt frá fæðingu til endaloka þeirra sem hvítra dverga, nifteindastjarna eða svarthola
- geti greint frá nútímaaðferðum stjörnufræðinga við rannsóknir á alheiminum, s.s. litrófsmælingum, geimrannsóknum og mælingum á rafsegulbylgjum
- þekki stöðu jarðar í sólkerfinu og geti rætt á faglegum grunni möguleika mannsins til rannsókna á alheiminum m.a. með tilliti til fjarlægðar í geimnum

Efnisatriði
Saga stjörnufræðinnar, kenningar um uppruna alheims, þróun hans og endalok. Aldur og stærð alheims, fjarlægðir, stjörnuþokur og flokkun þeirra, sólkerfið, fastastjörnur og flokkun þeirra, stjörnumerkin, reikistjörnurnar, tunglin, halastjörnur, smástirni, loftsteinar, litrófsrannsóknir, efnið og myndun þess, andefni, HR-línuritið, tvístirni, breytistjörnur. Þróun fastastjarna, fæðing þeirra, þroski og endalok. Hvítir dvergar og rauðir risar, nifteindastjörnur og svarthol. Geimferðir og geimrannsóknir.“

Svo mörg voru þau orð.

Þetta er náttúrulega ekkert mál að framkvæma í 3 eininga áfanga á framhaldsskólastigi. Nemendurnir búa meira að segja yfir eðlisfræðikunnátunni sem þarf til að skilja allar rannsóknaraðferðirnar og þetta með andefnið og hlutföll H og He í alheiminum er náttúrulega djók. Verkefnavinna er alltaf létt og nett, enda búa framhaldsskólakennarar á Íslandi að frábærri aðstöðu. Reyndar er ótrúlegt að menn skuli nefna svona fáa þætti. Þarna mætti t.d. bæta inn flugskeytatilraunum til að gefa nemendunum innsýn í geimferðafræðin. Ekki má gleyma umfjöllun um sístöðukenninguna, sem sýnir klárlega hvað höfundur plaggsins er vel með á nótunum.

Eins gott að það komi ekki einhver námsskrárpáfinn ofan úr ráðaneyti og steli hreinlega kennslunni á þessu lauflétta 3 eininga prógrammi frá bloggara.

en ek heiti Sverrir 15:55




Hundaeigandi í eina viku

Þessa vikuna passar bloggari hundinn Flosa. Sá er ekki íslenskur fjárhundur, ekki schäffer, golden retriver, púðluhundur né st. bernharðshundur. Þó má ætla að kynið sé gott, þar sem hundi og Ormi kemur vel saman. Bloggari er nefnilega þekktur fyrir að vera hræddur við allt kvikt frá fiskiflugum til finngálkna og frá páfagaukum til pardusdýra. Auk þess er undirritaður fæddur inn í fjölskyldu sem fannst taka því að mæta niður í Laugardalshöll og kjósa gegn hundahaldi í kosningum um hvort leyfa skyldi hundahald í Reykjavík 1987(?). (Þessa atkvæðagreiðslu, eins og reyndar fleiri síðar, var náttúrulega ómögulegt að halda samtímis sveitastjórnar- eða alþingiskosningum.) Eins var hundaskíturinn við Arnoána eitt helsta (og náttúrulega langfyndnasta) umræðuefnið eftir ferð foreldranna til Flórens fyrir hartnær 15 árum.

En hvað kemur á daginn við pössunina? Jú, bloggara finnst bara ansi gaman að passa hvutta í nokkra daga. Flosi er alltaf glaður þegar Ormurinn kemur heim úr vinnunni. Eins er magnað að fylgjast með því hvernig hundurinn skynjar veröldina í gönguferðum. Hnusað er að hverjum einasta staur, enda eins víst að annar seppi hafi verið fyrri til að míga á hann. Stöku staur merkir Flosi sér á viðeigandi hátt. Þegar annar hvutti eða kisa sýnir sig færist svo fjör í leikinn. Þá er eins gott að halda fast í ólina. Þessir göngutúrar gefa svo bloggara færi á sinni heilsubótargöngu og að sýna hve ábyrgðarfullur hundaeigandi hann er þegar hann þrífur upp skítinn eftir Flosa. (Ekki að það sé ekki sjálfsagt — fátt er meiri labbitúraspillir en hundaskítur.)

Hefur afstaðan til hunda og dýrahalds í borgum breyst við þessa reynslu? Tja, bloggari er ekki frá því að hann hafi farið frá því að vera þröngsýnn yfir í að vera ofurlítið víðsýnni.

en ek heiti Sverrir 11:03




sunnudagur, júlí 06, 2003
Góður gestur

Frönsk kona kom hingað á meðan „kláru“ Íslendingarnir (sem kunnu á dyrabjölluna) skoðuðu sig um. Hún er að vinna doktorsverkefni í mannfræði og kom til landsins til að kynna sér jarðfræði(!). Hins vegar hafði áhuginn seinna beinst að orkumálum á Íslandi og vetnisvæðingu samfélagsins. Ekki kom þetta samt jafn-mikið á óvart eftir að hún hafði lýst uppáhaldskennaranum, sem var eins konar Skúli. Hjá þeim manni var Galileo tengdur sameindaerfðafræðinni ásamt fleiru krassandi.

Safnið var afgreitt á þremur mínútum en þrír stundarfjórðungar fóru í spjall um allt milli himins og jarðar sem tengist orkumálum. Þá komu fram gloppur í vitneskju Ormsins á vetnisverkefninu. Úr því verður bætt í vikunni.

Svo er þess að geta að henni fannst bjallan ekki nógu vel merkt. Því verður kippt í liðinn á morgun með áletruninni „dyrabjalla - doorbell“ við hlið apparatsins (sem er nákvæmlega eins og dyrabjalla í vísitölublokkinni). Vonandi að þessum farsa ljúki þar með.

en ek heiti Sverrir 17:44




Loksins

Jæja, loksins komu gestir í heimsókn á safnið sem báru sig eftir björginni og hringdu blessaðri dyrabjöllunni.

Ekki að það standi ekki skýrum stöfum á skilti á dyrum safnsins.

en ek heiti Sverrir 15:58




Safnablogg

Sérlegur léttadrengur safnvarðar er á mótþróaskeiðinu í dag. Enginn gestur í dag hefur sýnt að hann sé þess verðugur að fá ítarlega og gagnmerka leiðsögn um safnið og stöðina.

Vonandi að ástandið verði betra á morgun.

en ek heiti Sverrir 15:40




laugardagur, júlí 05, 2003föstudagur, júlí 04, 2003
Pitsugerð á safninu

Þá er búið að leggja í föstudagspitsuna hér á Minjasafninu. Deigið er að lyfta sér í skálinni og sósan er komin í krukku.

Mikið er gaman að baka pitsu með spánnýju desilítramáli. Það sem myndi fullkomna pitsugerðina væri þó að baka í einhverri af gömlu Rafha-vélunum.

Hvað ætli
safnstjórinn segði við því?

en ek heiti Sverrir 17:49




Úff

Ormurinn var að heyra lag, sem er jafnvel verra en R-lista rapplagið fyrir síðustu kosningar.

Var texti við:

„Ertu einn af fólkinu sem vildi fá að kjósa um hvernig listinn yrði
og segja sína skoðun hægri vinstri þegar tækifæri gefst.
Það vita flestir kurteisi í pólitík hefur aldrei verið vel liðin
því nú er, já, því nú er komið nóg.

Þá segi´ ég: Settu X við T-listann,
með Kristján Páls í það fyrsta.
Mun suðurkjördæmi rista(?),
Í fyrsta, í fyrsta, kjósa, kjósa

T, T-listann,
T, T-listann,

...“

Er T-listalagið versta lag á Íslandi?

en ek heiti Sverrir 17:11




Blogg fengið af Vísindavefnum

Ætli það séu nokkuð nema örfáir mánuðir liðnir síðan tilurð
rauðu randanna í Signal-tannkreminu var útskýrð fyrir bloggara.

Eins var það stundum til umræðu á æskuheimili bloggara hvort það sæist til Grænlands frá Vestfjörðum á haustin. Þorvaldur Búason eðlisfræðingur hefur reiknað út að svo er ekki.

Í Íslandsmetabók Arnar og Örlygs frá ?1983 stendur að Vatnajökull hafi sést „í ljósbroti“ í rúmlega 500 km fjarlægð frá Færeyjum. Það stenst vart ef marka má útreikninga Þorvalds. (Er annars ekki kominn tími á nýja Íslandsmetabók?)

Þetta leiðir á hinn bóginn hugann að löngum loftlínum á Íslandi. Einhvern tíma las bloggari lýsingu á útsýninu af Vatnajöklu norðan við Dyngjuháls (eða af Bárðarbungu). Þar vildi ferðalangur meina að hann hefði séð Drangajökul.

Ormurinn hefur séð grilla í Surtsey frá hringsjá á fellinu fyrir ofan Geysi í Haukadal. Þar á milli eru um 115 km. Þó ekki sé það lengsta sjónlínan á landinu er hún þó með þeim svölustu, enda má ekki miklu muna að fjall sem ber í milli nái alveg að skyggja á Pálsfjall í Surtsey.

Já, Vísindavefurinn stendur fyrir sínu.

en ek heiti Sverrir 15:54




fimmtudagur, júlí 03, 2003miðvikudagur, júlí 02, 2003þriðjudagur, júlí 01, 2003
Dúdarnir komnir á kreik

Dúdarnir eru komnir með nýja síðu eins og fleiri. Rapparinn (a.k.a. Frumbygginn (a.k.a. Jolli Moz)) er einn dúdanna og bætist senn í hóp Hagskælinga.

Ungi maðurinn var reyndar ekki heppnari en svo að hann braut næstum á sér tána í fótbolta þegar andstæðingur þrykkti í hana í vikunni. Minnir það óneitanlega á þann hildarleik sem yfirboðarinn lenti í hér um árið. Þótt ekki hafi það verið stefánstáin sem laskaðist hjá Rapparanum heldur stóratáin eru atvikin furðu lík. Og það fyrsta sem bloggara dettur í hug sem tengir þessa menn eru hann sjálfur.

Einhverjir kynnu að segja að kunningsskapur við Orminn samsvari kossi dauðans þegar kemur að fótbolta og tábrotum.

en ek heiti Sverrir 16:55




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.