Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

sunnudagur, mars 30, 2003
Bloggað úr Grófarhúsi - taka tvö

Annan daginn í röð bloggar Ormurinn af Borgarbókasafninu.

Afmælis- og GB-teiti á föstudaginn tókst vel. Fjöldi manns kom og skemmti sér konunglega. Ormurinn brá sér í hlutverk Geirs og sýndist sem svo að um 80-90 manns hafi verið á staðnum þegar mest var á milli 12 og 2. Var a.m.k. sett fjöldamet í eldhúsinu þegar 26 manns voru þar samtímis (fjórir fengnir af láni af ganginum). Ef marka má teitina í gær og teitina ´99 geta 22 verið þar í einu sjálfviljugir.

Spennufall ársins

Spennufall keppenda og aðstandenda braust út á ólíkan hátt. Sumir voru svalir og settu upp sólgleraugu á meðan aðrir voru örari og háværari. Bræðurnir tóku sig meira að segja til og tjúttuðu á heldur óvanalegum stað í borðstofunni. Horft var á keppnina og skálað í kampavíni, auk þess sem bloggari bar mönnum pitsu sem hann hafði bakað kvöldið áður. Ekki var það svo ónýtt þegar
Atli Freyr kórónaði eitt af bestu svörum í sögu keppninnar með því að hafa Faðirvorið yfir á fornensku. Afmælisbarninu var og færð gjöf við hæfi.

Þar sem dansinn dunaði í stofunni undir Eurovisionmenningararfi Íslendinga sá bloggari mikla þörf fyrir að hafa Eyþór á svæðinu þegar Draumurinn um Nínu var á fóninum. Var þá leitað til síðhærða bróðurins um aðstoð og brúkaði hann það forláta skilti, Sigöldunaut, sem knéfiðlu.

Bloggarafjöld

Á fjórða tug bloggara voru staddir á svæðinu og tóku nokkrir þeirra sig til og blogguðu á eldhúsmakkanum í teitinni, þeirra á meðal Arnór, Helgi Hrafn, Oddur, Siggi Arent og Ormurinn. Þau partíblogg næturinnar, sem standa upp úr, eru þó þeirra Unu og Snæbjarnar. Sævar Flensborgari er einnig með ágæta úttekt á teitinni (sem rifjar margt upp) en hann býður MR-ingum í Fjörðinn að ári.

Um tíma voru fimm Thoroddsenar í teitinni: bræðurnir, Ósk Dagsdóttir, Gísli Sverrisson (sem kom með Úlfi og fleiri MS-ingum), svo og Bolli inspektor. Af öðrum GB-keppendum úr öðrum skólum mættu Sævar úr Flensborg og Páll úr Borgarholtinu. Var mjög gaman að fá þennan fríða flokk á svæðið.

Stefán lét ekki sjá sig að þessu sinni en blogg hans eftir sigurteitina 2002 er hið kostulegasta.

Á sama tíma að ári

Teitin gekk stóráfallalaust fyrir sig. Einni boðflennu, sem ekki þekkti deili á nokkrum skipuleggjenda, var reyndar vísað á dyr fyrir dónaskap. Svo var tveimur kjánum úr Austurbænum snarlega vísað frá er þeir reyndu inngöngu á flærðarlegan hátt. Bloggara þykir það mál nokkuð kyndugt í ljósi þess að sama liði var hent út úr íbúðinni í sigurteiti fyrir ári síðan. Það er heldur ekki eins og dónarnir séu að mylja undir Orminn þessar vikurnar.

Afraksturinn

Upp úr hádegi í gær fóru bræður á stúfana og könnuðu hve mikið þyrfti að taka til hendinni í íbúðinni. Það var umtalsvert og nutu bræður dyggrar aðstoðar Sigurjóns Daðasonar við tiltektina. Þó voru það aðeins lyklaborðið góða, fjögur venjuleg glös og hátt í 300 ílát til endurvinnslu sem lágu í valnum, en einnig mátti sjá menjar um að einhverjir hefðu farið fullgeist um gleðinnar dyr.

Teitið var svo sannarlega þess virði og þótti bræðrunum mjög vænt um hlýleg blogg í tiltektinni í gær.

Tenglar á nýja bloggara

Tveir bættust við á hægri kantinn yfir helgina, Anna Tryggvadóttir og Kristín Guðmundsdóttir. Anna er MH-ingur, kórstúlka og frambjóðandi VG í kraganum og Kristín er nemandi í stjörnufræðinni.

en ek heiti Sverrir 15:05




laugardagur, mars 29, 2003föstudagur, mars 28, 2003fimmtudagur, mars 27, 2003þriðjudagur, mars 25, 2003
Húsverk, vanblogg og vandræðaunglingar

Ormurinn hefur verið dugnaðarforkur í dag (á eigin mælikvarða a.m.k.). Hann vann dyggilega að kennslunni, bæði í Rimaskóla og MR, og ekki hefur honum enn runnið móðurinn heima við. Ef svo heldur áfram gæti jafnvel sést í undirlagið í bæli Ormsins eftir ekki ýkja langan tíma.

Í svona tiltektaræðum koma í ljós ýmsir hlutir sem fengnir hafa verið að láni hvaðanæva að (ef Helgi les þetta þá á hann verkbækur á Lynghaganum). Einnig er sumra hluta saknað, s.s. Skólaljóðanna. Einhverja hluti er svo að finna uppi í Rimaskóla. Á morgun á svo að lána áfram af heimilinu í örfáa daga. Vonandi að það skili sér allt saman til síns heima sem fyrst.

Stóri bróðir varð all-skelkaður er hann las nýjustu færslu
Rappbróðurins. Er hann þegar farinn að æfa sig fyrir inntökuprófið í Hagaskólaklíkuna?

Öllu gleðilegra var þó að lesa Blogg Svandísar með nýyrðum handa bloggurum. Sú er aldeilis ekki á leiðinni í bloggþrot.

en ek heiti Sverrir 21:12




Stafaspjöldin góðu

Bloggari var att út í forfallakennslu í 2.bekk í hálfa kennslustund í morgun. Hlutverk Ormsins var reyndar lítið meira en að lesa upp, safna saman heimavinnu og mjólkurmiðum og koma krökkunum í danstíma. Þetta var samt skemmtileg tilbreyting fyrir unglingadeildarkennarann með steinhjartað .

þegar bloggari leit á námsefni barnanna fór um hann hrollur nostalgíu. Uppi á vegg voru m.a. stafaspjöldin góðu (hvít spjöld með myndum sem sýna hvernig á að draga upp stafina með ítölsku skriftinni). Fulltrúi stafsins a er t.d. fimur api, sem myndar a með öllum skönkum. Hlykkjótt síli sýnir hvernig ess-ið er, pípa með hausinn upp er fyrir pé-ið en o-ið tekur þó öllu fram. Á því spjaldi hringar sig ormur.

Í bókabunkanum á kennaraborðinu var síðan að finna gamalkunnuga lestrarbók frá 6. áratugnum (endurprentaða) með fallegum myndum eftir Halldór Pétursson (sem bloggara minnir endilega að heiti „Við lesum saman“). Í einum kafla bókarinnar kemur lögreglumaður í heimsókn til ungra nemenda og fræðir börnin með því að sýna þeim myndir af því hvað má gera og hvað ekki. Á þeim mátti m.a. sjá krakka standa upp fyrir fullorðnum í strætó og eins var börnunum kennt að lögreglumenn væru vinir þeirra og að til þeirra væri gott að leita í raun.

Klipping, drykkjuleikur og rapp

Gærdagurinn var stífur en jafnframt tókst bloggara að afreka feikimargt. Bræðurnir fóru báðir í klippingu en þó sér þess frekar merki á öðrum en öðrum. Um kvöldið tóku þeir svo nýklipptir með sér spurningarimmu þegar MR-liðið mætti liði bandamanna (bloggara og
Helga Hrafni). Voru úrslitin í þeirri viðureign eftir bókinni.

Seinnipartinn var nýr drykkjuleikur kynntur til sögunnar á kóræfingu. Í Weber-syrpunni sem kórinn syngur um þessar mundir er tóntegundin reglulega færð upp um eitt tónbil og minnir það helst á Evrópusöngvakeppnina. Kórstjóri sagði Finna einmitt hafa dottið niður á það snjallan drykkjuleik við Eurovisiongláp. Felst hann í því að menn fá sér snafs í hvert skipti sem lag er hækkað upp. Geta menn auðveldlega gert sér í hugarlund hvernig ástandið á mönnum verður eftir slíkt glæfraspil.

en ek heiti Sverrir 13:08




sunnudagur, mars 23, 2003
Brot úr ferðasögu frá Mósambík

Þegar bræðurnir voru á leið heim frá Mósambík fyrir rúmu ári náði flugstöð Mapútóborgar að sanna gildi sitt svo um munaði.

Sökum skorts á tölvubúnaði á flugvellinum varð afgreiðslukonan að skrifa sjálf á miðann utan á ferðatöskurnar. Þóttust bræður vissir um að þær myndu alltaf rata til Jóhannesarborgar en létu svo skeika að sköpuðu með framhaldið. Var farangurinn því gátaður inn á einfaldan máta alla leið til Keflavíkur (um Heathrow) og viti menn, hann skilaði sér til Keflavíkur á réttum tíma 30 klukkustundum síðar.

Fríhöfnin í Mapútó var heldur ekki sú stærsta eða íburðarmesta sem bloggari hefur séð. Þó var ýmislegt hægt að gera sér þar til dundurs s.s. staupa JR á barnum (ein þriggja flaskna sem stillt var upp til þeirra nota) eða fara í minjagripaverslunina. Bræðurnir tóku minjagripina fram yfir barinn og keyptu forlátan fána á lítilli flaggstöng sem prýðir nú stofuna á Lynghaganum.

(Fyrir þá sem koma Mósambíska fánanum ekki alveg fyrir sig má
hér sjá mynd af honum.)

Munur á kommunum í Mósambík og A-Þýskalandi

Það er nokkuð forvitnilegt að bera saman þá arfleifð kommúnismans sem sést í fána Mósambíks og t.d. Austur-Þýskalands. Þar syðra tefldu menn fram haka, bók og AK47 riffli sem mark um bandalag bænda, menntamanna og hermanna undir merki kommúnismans. Í mekka verkfræðinnar voru það hins vegar sirkill og hamar sem höfðu mest vægi í fánanum.

Og hver skilur hvað Mósambíkmenn eru að spá að taka upp nýjan fána í stað þess gamla flotta?

Sigga sannar sig

Spurningaliðsæfarar fengu að bragða á köku ömmu bræðranna í Akurgerði. Þá skildu menn af hverju hefur verið bloggað um hana á Ormsblogginu síðustu mánuðina.

en ek heiti Sverrir 19:10




Messa og steik

Það reyndist bloggara erfitt að rífa sig af stað í morgun og fara til messu. Ekki er það skrýtið eftir ánægjulega kvöldstund í gær þar sem farið var út að borða á Horninu og horft á The Big Lebowsky á eftir.

Messan í morgun gekk nokkuð vel og aldrei þessu vant var Ormurinn sáttur við predikunina, sem beint var gegn innrásinni í Írak og stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðið.

Eftir messuna skutlaði
Gunnar bræðrunum í Akurgerðið, þar sem lambalæri var á borðum og ís í eftirrétt. Þangað voru einnig mætt þau Katrín og Gunnar Eyjólfsbörn ásamt Mæju móður sinni. Fyrir siða sakir var skafísinn skafinn úr boxinu í þetta sinn og borinn fram í fallegri skál.

Í sunnudagamatnum í dag kom það upp úr dúrnum að Guðmundur afi ætlar að slást í för með þeim feðgum Eyjólfi og Gunnari þegar þeir fljúga suður í vor. Amman er hins vegar ekki jafn-spennt fyrir slíkum langferðum.

Gestgjafarnir létu svo ekki að sér hæða í dag, fremur en endranær. Þegar bræðurnir voru á leið út úr dyrunum var þeim skenkt hin girnilegasta súkkulaðikaka í nesti.

Þá er búið að redda kvöldmatnum fyrir morgundaginn, hinn og hinn.

en ek heiti Sverrir 16:44




laugardagur, mars 22, 2003
Teiti og útvarpsmessa

Kórteitin í gær fór hið besta fram. Þegar líða tók á kvöldið hófu menn upp raust sína við undirleik
Snæbjörns. Var það samdóma álit þeirra tveggjatenóraa, sem mest létu í sér heyra, að tenórinn rúlaði feitast. Kannski spilaði ölvun þar eitthvað inn í, hver veit?

Sópranar voru svo vænir að skutla bloggara niður í bæ þegar líða tók á fjórða tímann í nótt og hitti hann þar sjálfan Forsetann. Ekki var neinn skemmtistaður sóttur heim að þessu sinni heldur létu menn sér nægja að rölta um bæinn þar sem þeir hittu m.a. fyrir Helga Hrafn og félaga. Vísitasíu þessari lauk svo með bæjarins bestu pulsu áður en stigið var um borð í leigarann.

Kórfélagar þóttu síðan ekkert sérlega upplitsdjarfir á æfingu í dag fyrir útvarpsmessuna sem á að vera í fyrramálið.

en ek heiti Sverrir 19:34




föstudagur, mars 21, 2003fimmtudagur, mars 20, 2003
Stjörnukortið hið fyrra

Ormurinn er búinn að leggja þrjár klukkustundir af lífi sínu í að nostra við tvö stjörnukort (teikna með blýanti, fara ofan í penna og leggja límmiða ofan á æluklessur pennans).

Hér gefur að líta fyrra kortið.

Bloggara varð upp með sér við hrós tveggja málsmetandi manna vegna framtaksins.

Fyrsta lögmál Ormsins um GB

Uppstrílaða liðið tapar alltaf. A.m.k. í úrslitum.

Grauturinn méls rúlar feitt

Bloggari eldaði grjónsa í gær. Ekki var þó snert við honum fyrr en um lágnættið að hluti hans var hitaður upp í örbylgjunni. Um kvöldmatarleytið var aftur leitað fanga í pottinn góða. Góð taktík að hafa graut til taks.

en ek heiti Sverrir 20:10




Stærðfræðibók frá Singapúr

Bloggari aðstoðar við stærðfræðikennslu í 7. bekk. Nú reikna krakkarnir í sömu kennslubók frá Singapúr og jafnaldrar þeirra ytra glíma við.

Nokkur atriði hafa vakið athygli bloggara við samanburðinn á henni og Stærðfræði 6. A og 6. B (sem verður vonandi bráðum lagt).

1. Singapúrbókin byggist að talsverðu leyti upp á orðadæmum (misþungum). Mörg þeirra eru þyngri en þau dæmi sem sjást í íslensku bókunum. Stór hluti dæmanna byggist á algebru og almennum brotum.

2. Í Singapúrbókinni eru oft sýndar fleiri en ein aðferð við að leysa tiltekið dæmi. Þessum þætti kennslunnar er reyndar æ frekar hampað hér heima.

3. Ein dæmagerð kemur víða fyrir í erlendu kennslubókinni en sést lítt í þeim innlendu. Það eru dæmi í ætt við „Jói kaupir fjórtán epli á 280 kr. og selur 10 þeirra á 30 kr. stykkið. Hver er hagnaðurinn?“. Munurinn endurspeglar ólíka samfélagsgerð hér heima og úti í Singapúr.

Kosningar um skyndipróf

Í kennslustund hjá M-bekknum var kosið um hvort það ætti að hafa skyndipróf 4. apríl. Það latti nemendur að meðaleinkunnin úr prófunum hingað til er almennt mjög góð. Menn ákváðu þó að láta slag standa þegar kennarinn hélt því fram að þessi hluti námsefnisins væri hvað snúnastur (þróun og lokastig stjarna ásamt vetrarbrautum).

Gaman að sjá hvernig nemendur tveggja skólastiga sjá skyndipróf í ólíku ljósi. Reyndar var einu sinni rekið á eftir slíku í 10. bekk í vor (og var það vel).

Sjö í fjórða veldi er flott tala

2401.

en ek heiti Sverrir 17:11




Mótmæli á Lækjartorgi kl. 17:30

Nýhöfnu árásarstríði verður mótmælt á Lækjartorgi seinni partinn í dag.

Mætum öll.

en ek heiti Sverrir 08:16




miðvikudagur, mars 19, 2003
Hótanir, læti og dæmi

Manni verður ekki um sel þegar litið er á nýjasta blogg
Svenna og athugasemdirnar sem því fylgja.

Árshátíð í Rimaskóla

Í kvöld er árshátíð Rimaskóla. Kennslan er því með minna móti í dag. Nemendur hafa spurt kennara að því hvort hann ætli að mæta. Flest bendir til að svo verði ekki en þó bendir nafn hljómsveitarinnar til þess að hann troði upp.

Ofursprengjan

Bloggara þykir fréttaflutningurinn af fyrirhuguðu stríði óhugnanlegur. Áróðursmyndir af morðvopni sem nefnt er „móðir allra sprengja“ bíta síðan endanlega hausinn af skömminni. (Hvar ætli H-sprengjuna sé þá að finna í ættartrénu?)

Varla þætti þetta jafn-tilkomumikið ef íraskt þorp hefði verið neðst í myndrammanum. Eða hvað?

en ek heiti Sverrir 10:17




þriðjudagur, mars 18, 2003
Rhamsez er maðurinn

Hver ætli sé mesti bloggtöffarinn á Íslandi í dag?

Fyrst var það spilling í strætó, nú misbeiting lögregluvalds.

Enginn er óhultur fyrir vökulum augum Svenna.

Eilífðarlampinn við Níl

Man einhver eftir eilífðarlampanum við Níl? Týran á eldhúsmakkanum verður senn samkeppnisfær við hann. Hún lýsir sem viti þegar bræðurnir fara á fætur og fá sér morgunmat. Reyndar skilst bloggara að 7% rafmagnsnotkunar heimila á Vesturlöndum sé vegna tækja sem straumur fer um þegar þau eru ekki í notkun.

Það er slatti af rafmagni.

en ek heiti Sverrir 15:42




mánudagur, mars 17, 2003sunnudagur, mars 16, 2003
Sunnudagsblogg

Kóramótið í MH heppnaðist vel. Ekki spillti fyrir að hitt
Eyþór fyrir í hátíðarsalnum, all-hressan að vanda.

Stykkishólmsmaturinn hjá afa og ömmu stóð fyrir sínu. Ísblómið í eftirmatnum sveik heldur engan.

Bloggari spjallaði við Elías Davíðsson, sem kom mæddur inn í fimmið á Lækjartorgi með fána Íraks. Útlitið á þeim vígstöðvum er þeygi gott.

Stjörnufræðikennarinn stefnir að því að reka af sér slyðruorðið og mæta með fyrsta hluta massaglósanna í tíma á morgun. Ekki er amalegt að vera kominn yfir í skemmtilegri hluta námsefnisins: þróun og endalok stjarna, vetrarbrautir og heimsfræði.

Einhverjir fleiri virðast hafa gert það sama og bloggari, þ.e. slegið inn leti.is í stað leit.is. Þeir hinir sömu gerðu hins vegar alvöru úr því að sölsa undir sig lénið.

en ek heiti Sverrir 21:04




Ammæli

Veislan í gær heppnaðist afar vel. Gestgjafinn blandaði forláta bollu og óvæntir gestir komu í ánægjulega heimsókn.

Nú hefur grunnskólakennarinn svar á reiðum höndum við eilífðarspurningunni „Af hverju erum við að læra almenn brot?“.

Kóramót framhaldsskólanna

Eftir u.þ.b. klukkustund mæta menntskælingar (og öldungar) í Hamrahlíðina.

Allt er í sóma á þessum vígstöðvunum, skúffan í ofninum og vígða vatnið komið á brúsa.

en ek heiti Sverrir 13:21




laugardagur, mars 15, 2003
Fréttablaðið kannar

Áðan kannaði Fréttablaðið stjórnmálaskoðanir bloggara. Hann var spurður um kjördæmi (Rvk-suður) og svo hvaða lista hann hugðist kjósa, hvaða lista honum litist síst á, hvaða lista hann hefði kosið síðast og hvort hann hefði mikinn áhuga á pólitík.

Þokkalega.

Heimilishaldið

Snabbinn setti í uppþvottavélina áðan svo nú þurfa bræður og gestir ekki lengur að drekka mjólk og gos úr bjórglösum.

Já, á þessu heimili fara bjórglösin í uppþvottavélina. Og bjórinn freyðir nú samt.

Skemmtanahaldið

Bloggari er á leið í afmælisveislu á eftir. Á morgun er það svo kóramót framhaldsskólakóranna í bækistöðvum óvinarins. Sunnudagamaturinn verður svo um kvöldið.

en ek heiti Sverrir 19:16




Vitlaus(?) strætisvagn

Bloggari lenti í því í annað sinn í gær að taka rangan vagn vestur í bæ. Á Hlemmtorgi sá hann fimmið renna í hlað og steig um borð í vagninn. Eftir að vagninn ók framhjá Ráðhúsinu beygði hann hins vegar til hægri upp Hofsvallagötuna en ekki suður Suðurgötuna (!) eins og vaninn er. Orminum flaug fyrst í hug að gatnaframkvæmdir stæðu yfir eða að orðið hefði umferðarslys.

Þó fóru að renna á hann tvær grímur þegar einhver hringdi bjöllunni og fór út við Landakot. Var þetta réttur vagn? Hvernig stóð á því að enginn annar í vagninum undraðist leiðarvalið? Þegar beygt var út Hringbrautina í átt að sjónum rann upp fyrir bloggara að hann væri staddur í þristinum. Endaði ferðin sú með því að hann fór út á Kaplaskjólsveginum og rölti heim meðfram Ægissíðunni.

Sem áður sagði er þetta er í annað sinn í vetur sem Ormurinn misles utan á strætisvagn. Í haust tók hann tvistinn í stað fjarkans. Þau mistök uppgötvuðust ekki fyrr en á Vesturgötunni.

Dularfulli maðurinn

Atli Týr segir af því í bloggi sínu í fyrradag að spurningaáhugamaðurinn Örvar Gröndal sé nú farinn að skrifa í bæjarblöðin í Firðinum.

Nýtt athugasemdakerfi

Ormurinn hefur ákveðið að reyna sama athugasemdakerfi og Snabbinn notar. Haloscanið verður keyrt samhliða eitthvað áfram en bloggari hvetur alla til að nota frekar nýja kerfið.


en ek heiti Sverrir 10:52




föstudagur, mars 14, 2003þriðjudagur, mars 11, 2003
Veikar sagnir

Þegar farið var í veikar sagnir í dag kom smá mörður upp í bloggara. Eins og vanalega varð ekki aftur snúið og sagnirnar irka, blogga og lana fengu sinn sess á töflunni.

Stór dagur

Í dag er stór dagur og góður.

Stundarbrjálæði

Það eru greinilega fleiri en Ormurinn sem gefa frí í stundarbrjálæði.

Bíóferð

Bloggari fór með Hjalta á Lilja 4-ever í gærkvöldi.

Hrikaleg mynd.

en ek heiti Sverrir 23:03




Hégómagirnd

Áðan fékk bloggari tölvubréf, sem átti að ýta hressilega við hégómagirndinni. Það tókst að því marki að Ormurinn verður senn við bón bréfritara.

Dugnaður

Bloggari er búinn að sitja stíft við tölvuna síðan kl. 8 fyrir utan tvennar frímínútur og þrjár kennslustundir (lítil kennsla á þriðjudögum). Ekki virðist mikið liggja eftir þetta tölvustúss en þó hefur tekist að senda bréf suður til Mósambík, vinna í erfiðasta hlutanum í stjörnufræðiglósunum inum meiri, leita ráða hjá öðrum tölvunördum, biðja um skutl á eftir o.fl.

Safnast þegar saman kemur.

Fiðluball

Ormurinn er á leið á sitt þriðja fiðluball á fimmtudaginn (annað skipti sem kennari). Verið er að afla dansfélaga og á eftir mun vonandi einhver aumka sig yfir bloggara og skutla honum á eftir til þess að fá lánaðan smóking.

en ek heiti Sverrir 14:48




Stjörnuskoðun við Kleifarvatn

Nemendur í stjörnufræði í MR og Versló fóru suður að Kleifarvatni í kvöld. Heldur kalt var í veðri en kyrrt (ólíkt norðaustanáttinni sem stjörnuglópar eiga oft að venjast). Hálft tungl og bragandi norðurljós skemmdu nokkuð fyrir sjálfri stjörnuskoðuninni en settu samt skemmtilegan svip á kvöldið.

Þegar ákveðið var hvar ætti að hittast í bænum til að fara yfir leiðina hélt leiðbeinandinn ungi að American Style merkti sjálfan Stælinn í Skipholti. Svo var ekki. Því söfnuðust Fúsakrakkar saman í Hafnarfirði (við útnáraútibú II) en hinir voru teymdir á asnaeyrunum í Skipholtið. Allt fór þó vel á lokum og trúlega flestir nokkuð sáttir. Ormurinn og þeir sem hann talaði mest við voru a.m.k. hinir kátustu.

en ek heiti Sverrir 00:01




sunnudagur, mars 09, 2003
Sunnudagablogg

Kjúklingurinn hjá afa og ömmu var góður. Kakan sem bræðurnir fengu frá ömmu bragðaðist vel.

MR-kórinn söng þokkalega í dag en rúlaði svo feitast er kom að veitingunum. Þvílík feikn af kökum. Skondið var að sjá gamla kórfélaga andvarpa mæðulega undir söngnum. Mátti lesa úr því hugsanir á borð við „vá, þessi er ennþá í kórnum!“ og „þetta MR-lag var orðið þreytt er ég söng það fyrir 5 árum“.

Linkablogg dagsins

Snabbinn er með góða hugmynd um hvernig bræðurnir eigi að fjármagna botnlausa neyslu sína.

Ekki lætur litli bróðirinn heldur sitt eftir liggja þegar kemur að sniðugheitum. Nú er kominn teljari á Rappbloggið sem sýnir hve langt mun líða uns mæðginin koma til landsins frá Mósambík (um miðbik ágústmánaðar). Heimilisfaðirinn kemur því miður ekki fyrr en í nóvember eða desember.

en ek heiti Sverrir 21:31




laugardagur, mars 08, 2003föstudagur, mars 07, 2003fimmtudagur, mars 06, 2003
Tónlistarblogg: Spaðarnir rúla

Bræðurnir voru sem steini lostnir er þeir sáu að Spaðarnir höfðu laumað sér í 10. sæti tónlistans eða svo í Mogganum í dag. Þeir verða þó seint hljómsveit fjöldans (og er það vel) svo að þetta segir kannski meira um plötusöluna eftir jólavísareikninginn heldur en vinsældir þeirra.

Einnig var bloggari glaður að sjá að alnafni leikur með sveitinni Út Exit á músíktilraunum. Ekki verra að hann sé undan Eyjafjöllunum eins og Steinar.

Óþolandi hljóð

Ormurinn getur ekki að því gert en hann þolir ekki hljóðið þegar jógúrtdolla/ferna er hirst áður en hún er opnuð eða þegar hellt er úr gosdós í glas. Meira umburðarlyndi gagnvart bjórnum enda undirritaður oft aðeins skvompaður við slík tækifæri.

en ek heiti Sverrir 23:47




Kennari í fótbolta

Einhverjir samkennaranna í Rimaskóla voru veikir í dag og því notaði leiðbeinandinn ungi tækifærið og fór í fótbolta með 9. bekkingum.

Kennarinn naut mikilla forréttinda í leiknum. Hver annar getur stillt sér upp í varnarvegg og treyst því að fá ekki þrykkju í sig?

Að loknum skóladegi

Kennarinn er hæstánægður með að kennslu sé lokið í dag. Það voru talsverð viðbrigði að fara að kenna eftir vetrarfríið.

Framundan eru glósugerð og hátíðartónleikar Menntaskólans í Dómkirkjunni kl. 20 . Vonandi að það gangi hvort tveggja að óskum.

Pistill frá Hollandi

Nýjasta blogg
Önnu Hugadóttur um muninn á stórskornu Íslandi og manngerðu Hollandi er ansi gott.

en ek heiti Sverrir 15:42




miðvikudagur, mars 05, 2003
Lifandi vísindi

Einhverra hluta vegna leist Orminum ekki á tímaritið lengst framan af. Kannski var það fyrirsögn um hugsanalestur eða aðra dulræna þvælu sem olli því.

Eftir að bloggari fór að grufla í gömlum tölublöðum
Rapparans hefur hann þó komist að raun um að sleggjudómarinn er fíflið á svæðinu. Ef litið er framhjá stöku dulrænu þrugli er blaðið hið gagnmerkasta.

Glasnost

Nokkrir góðir menn, með Odd Ástráðsson í broddi fylkingar, standa að nýju, róttæku vefriti, Glasnosti.

Vonandi að þetta boði þíðu í íslenskri pólitík.

Öskudagur

Ormurinn sá þónokkra krakka spranga um í búningum og með sælgæti í poka í miðbænum í dag.

Hann sá reyndar aðeins einn öskupoka í dag og hékk sá á sjónvarpsmanni með barnavagn.

Stutt blogg og súr

Orminum þykja sumir ganga fulllangt fram í því að rækja óskráðar „bloggskyldur“ og snapa heimsóknir með stuttum, súrum bloggum.

Bloggari er þó ekki að halda því fram að hann sé alsaklaus í þessum efnum, því fer fjarri (sbr. gort yfir fáum bloggföllum og tilsvarandi fjöldi „skyldublogga“).

en ek heiti Sverrir 19:08




þriðjudagur, mars 04, 2003mánudagur, mars 03, 2003sunnudagur, mars 02, 2003laugardagur, mars 01, 2003
Leihkúsferð í kvöld

Í kvöld ætlar bloggari á Herranótt. Hundshjarta er hið frambærilegasta leikrit ef marka má
aðra bloggara. Ormurinn er reyndar svo mikill rati að með sýningunni í kvöld hefur hann séð jafnmargar Herranætursýningar eftir að hann útskrifaðist úr MR og hann sá á meðan hann var í skólanum (fjórar alls).

Vetrarfrí

Nú er skollið á heillangt vetrarfrí í Rimaskóla. Að sjálfsögðu er bloggari búinn að gera heillangan lista yfir hluti sem annaðhvort „ætti“ eða „mætti“ nota fríið til þess að koma í verk.

En fyrst er það tölvan.

en ek heiti Sverrir 14:48




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.