Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

laugardagur, ágúst 31, 2002
Bensínmælirinn

Eggert rifjar upp skemmtilegar minningar úr Hrauneyjum í nýjasta blogginu sínu. Hver kannast ekki við að hafa verið hankaður á því að benda hróðugur á „bensínmælinn“ og hafa fengið svarið „þetta er díselbíll!“ (retórísk spurning)?

en ek heiti Sverrir 16:02




Djörf hugrenningatengsl

Bróðir blogganda fann
þessa grein um Ídí Amín og matarsmekk hans. Myndin með greininni framkallar hugrenningatengsl við ákveðinn atburð á haustdögum 1993...

Hér er best að ljúka blogginu, enda ætlar Ormurinn að fá vinnu í framtíðinni.

en ek heiti Sverrir 15:05




Blogg fyrir spurningaliðsmenn MR

Ef þið ímyndið ykkur hvaða viðurnefni
þessi bloggari gæti hafa borið um ævina, þá munu uppljúkast dyr (vona að þetta sé rétt hjá mér). Er ég þó á engan hátt að vega að Kristbirni (blogg hans er skemmtilegt aflestrar) heldur eiga að framkallast hugrenningatengslin við stað á Suðurlandi. (Vá, þröngur markhópur!)

en ek heiti Sverrir 14:47




Kötturinn hringar rófuna

Undirritaður er ekki einn um bloggræpuna um þessar mundir heldur fer
Catusinn einnig mikinn í blogginu. Tekur Ormurinn undir með þeim Ármanni varðandi Kong Sverre, enda notar maðurinn orðið „Skömmtunarkerfisflokkurinn“ um ónefndan flokk sem mætti alveg minnka.

„Búkurinn liggur í rúminu“-minnisregluna heyrði bloggandi fyrst hjá þulinum Torfa Guðbrandssyni, afa Guðmundar Björnssonar, haustið 1995 þegar businn hóf liðstjórastarf hjá spurningaliðinu. Annars skemmtileg skilgreining á „aumingjabloggara hinum minni“ og reglulegum „aumingjabloggara“ hjá Kisa. Minnir undirritaðan mest á skilgreininguna á kúgildi.

en ek heiti Sverrir 14:21




Heimsþorpið

Þegar bloggari mætti á safnið fyrir 2 mínútum opnaði hann fyrir viðtækið á
muzik.is. Valdi hann lög af heimasíðu stöðvarinnar og komst að því að yngsti bróðurinn í Mósambik hafði þegar valið tvö lög á lagalistanuman. Annað þeirra var „Sálarstríð“ með Afkvæmum guðanna og fylgdu skilaboðin „til snabba“.

Ekkert fær stöðvað bróðurkærleikann því í augnablikinu spjalla allir þrír á MSN-inu; einn í Afríku, annar í Elliðaárdalnum og sá þriðji í Vesturbænum. Frábært!

en ek heiti Sverrir 13:32




Ber er hver að baki

Yngri bróðirinn vaknaði fyrir 10 mínútum. Eftir að hafa hlýtt á skýringu undirritaðs á því hvers vegna hann sæti fyrir framan eldhústölvuna, var hann beðinn um á leigumorð á geitungnum. Fór hann máttlaus af hlátri inn í eski Ormsins, einungis til þess að komast að því að geitungurinn hefði haft sig á brott. Eða svo segir hann (eins gott að það sé rétt).

en ek heiti Sverrir 10:59




Tónlistarstjórinn

Bloggari var búinn að gleyma því hvernig það er að vera tónlistarstjóri
heillar útvarpsstöðvar. „Straight outta Compton, crazy motherfucker named Ice Cube.“

en ek heiti Sverrir 10:26




Gneisti nýrrar aldar

Um hann geta lesendur fræðst á
þessari síðu. Hver ætli sé efnilegasti sonur þjóðarinnar? Hér hefði <span> tagið komið að góðum notum fyrir innvígða.

Lati Ormurinn

Ormurinn hefur enn ekki látið verða af boðaðri tiltekt en slætti er auðsleppt sökum rekju á túninu heima. Samt eitt skamm.

en ek heiti Sverrir 10:11




Hugmynd Guðmundar

Bloggari hefur ekki hugmynd um hver
hugmynd Guðmundar er. Út frá orðalagi bloggsins mætti samt ætla að undirritaður hefði átt að koma þar við sögu.

Góðan dag

Í nótt eru væntanlegir til landsins ferðalangar frá Mílanó. Þeir munu væntanlega þurfa þerru og þjóðlaðar við. Aðdáendaklúbburinn á Lynghaga er í viðbragðsstöðu.


en ek heiti Sverrir 10:09




Pitsuát og hæglygni Ormurinn

Eggert gestrisni veltir því fyrir sér hvernig bræðurnir á Lynghaganum standa sig í pitsugerðinni. Af undirtektum gesta í gærkvöldi er það að segja, að þegar önnur bakan var langt komin og ekkert hrós komið frá gestunum fyrir matreiðsluna spurði Ormurinn matargesti hvort pitsan væri ekki góð. Jú, þeir héldu nú það og vonar aðstandandi síðunnar að þeir hafi meint það en ekki bara verið kurteisir (enda kurteisasta fólk í heimi).

Framhleypnina bætti Ormurinn upp með einni þeirri lélugustu lygi sem um getur. Sagði hann af því þegar undirritaður og Snorri Beck prentuðu út í Menntaskólanum töluna sem þá var þekkt sem stærsta prímtalan (909.526 stafir (skjal um 900 kB)). (Samkvæmt vefsíðunni um stærstu þekktu prímtölurnar er talan sem nú á metið 4.053.946 stafir að lengd.)

Þessi frásögn endaði hins vegar heldur snautlega þegar undirritaður laug því í fljótfærni sinni, að síðasti stafurinn hefði verið 0.

Gaman að heyra af því í gær að „lögmálið um óupptekinn kexpakka eða engan kexpakka“ gildi í fleiri stöðum en á Lynghaga. Síðan vonar Ormurinn að allir matargestir hafi komist klakklaust til síns heima.



en ek heiti Sverrir 09:57




Árbloggarar

Það er gott til þess að vita að Ormurinn er ekki einn í hópi þeirra
sem blogga snemma.


en ek heiti Sverrir 09:32




Geitungur flýtir klukkunni

Segja má að málshátturinn „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“ hafi átt vel við áðan. Sem bloggari lá í rúmi sínu þá heyrði hann í suðandi flugu í svefnrofunum. „O, enn ein fiskiflugan“, hugsaði hann, minnugur svipaðra svefnraskana í sumarbústaðaferðum. „Best að reyna að halda áfram að sofa.“ En flugan var ekkert á þeim buxunum að hætta suðinu og á endanum drattaðist undirritaður fram, aðeins til þess að sjá geitungshlussu í glugganum. Urðu menn þá öllu sprækari og höskuðu sér út úr herberginu, þar sem geitungur suðar væntanlega enn. Frekari aðgerðir bíða þess að yngri bróðirinn ranki við sér úr rotinu.

Dagur að rísa

Í staðinn fyrir að sofa á sínu græna eyra verður Ormurinn að vera duglegur og taka til í íbúðinni og skólaverkefnum vikunnar. Jafnvel mætti hugsa sér að hann slæi blettinn og hefndi sín þannig á öllum „tillitssömu“ nágrönnunum sem hefja slátt á helgarmorgnum þegar unglingar landsins mega síst við því.

Af tveimur ólíkum kennurum

Dálítið sérstakt var að lesa í gær í
Morgunblaðinu að Hafþór Guðjónsson, efnafræðirithöfundurinn knái, væri kominn með doktorspróf í kennslufræðum. Það er frekar mál manna að ekki hafi mikið farið fyrir „kennslufræðiáherslum“ í bókunum hans, Almennri efnafræði I-III.

En fróðlegra var þó að heyra frá Kennaranum í gær, að hann hefði kennt stjörnufræði á sínum tíma (þegar hann kenndi einnig eðlisfræði). Spurði hann ungu kennarablókina hve margir tímar væru á viku í stjörnufræðinni. „Þrír tímar á viku.“ „Já, það voru bara tveir tímar í stjörnufræði þegar ég kenndi hana og það var eiginlega of lítið til þess að kynnast fólkinu almennilega. Auk þess var þetta bölvað fúsk hjá mér“, sagði Kennarinn af sinni alkunnu hógværð.

en ek heiti Sverrir 09:14




föstudagur, ágúst 30, 2002
Matarboð á Lynghaganum

Einu sinni sem oftar er gestum boðið til pitsu á Lynghaganum á föstudagskvöldi. Nú verða það Gunnar Eyþórsson, Davíð Kristjánsson og Margrét Jakobsdóttir sem heiðra bræðurna með nærveru sinni. Gunnar hefur, rétt eins og
Ísleifur, verið fastagestur þegar pitsa hefur verið á boðstólum. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem þau skötuhjú, Davíð og Magga mæta og verður spennandi að sjá hvaða viðtökur pitsurnar tvær fá.

Nú bloggari er fæddur

Nýr bloggari, Eggert Eyjólfsson, hefur geyst (?) fram á bloggvöllinn og verður gaman að fylgjast með bloggi hans frá Ungverjalandi, þar sem hann mun stunda læknanám í vetur. Eggerti kynntist bloggari fyrst sumarið 1997 í Hrauneyjum en annars er rétt að vísa til eins af nostalgíubloggunum til að gefa mynd af kynnum blogganda og þessa góða drengs.

en ek heiti Sverrir 17:58




fimmtudagur, ágúst 29, 2002
Nútímaþjóðsagnasteypa I

Á Nýársnótt höfðu foreldrarnir fengið barnapíuna til að passa á meðan þeir færu á nýársfagnaðinn í Perlunni. Hún var að horfa á atriðið í Terminator II þar sem málmbútarnir renna saman í illa vélmennið þegar ungleg rödd heyrist innan úr barnaherberginu: „Má ég blogga?“ „Því ætli þú megir ekki blogga!“ Skömmu síðar heyrir hún aftur sömu rödd sem mælir nokkru hærra: „Má ég blogga?“ „Já, bloggaðu bara fyrir mér!“ Eftir stundarkorn fær hún svo sömu spurningu þriðja sinni: „Má ég blogga?“ „Já, bloggaðu þá bæði malt og salt í djöfulsins nafni!“ Sem hún hefur yfir þessi hranalegu orð heyrast miklir skruðningar innan úr barnaherberginu og færast þeir nær og nær. Í dyragættinni birtist eldri bróðirinn, vandræðaunglingurinn, og er eins og þrumuský í framan. „Hvað, ætlarðu ekki að hjálpa mér með tölvuna? Þú kannt lykilorðið hennar mömmu.“ En með smásamningslipurð nær hún að afstýra öllum slagsmálum.

en ek heiti Sverrir 20:04




Óljúgfróður

Siv Friðleifsdóttir og pólitík.is eru rækilega tekin í gegn af nákvæmnismanninum Sverri í færslum dagana 23. og 27. ágúst. Það sem meira er, þá lagar fólkið vitleysurnar eftir að ábendingin er komin fram (plús fyrir Sverri), en þó ekki fyrr en þetta er orðið skjalfest og opinbert hjá þeim óljúgfróða.

Til að allrar sanngirni sé þó gætt þá biðst Ormurinn afsökunar á þeirri fljótfærni sem kom fram í bloggfærslu um stærsta rúm landsins við IKEA. Það er ekki lengur við Holtagarða (og er komið hvert?). Fyrrum samstarfsmaður bloggara, Guðmundur Ragnar Björnsson (já, þeir eru 3 á landinu!), sem unnið hefur hjá IKEA, leiðrétti þetta í athugasemdakerfi undirritaðs.

Eins virðist blogganda sem að það sé ekki ráðlegt að taka vaðlinum um kennitölurnar á þessari síðu sem heilögum sannleik, ef mark er takandi á þeim athugasemdum sem fram hafa komið.

en ek heiti Sverrir 12:50




Falling Down

Flaumur bíla um Miklubraut á leið vestur í bæ rétt fyrir kl. 8 í morgun var hreinlega ógnvekjandi. Minnti mest á upphafsatriðið í Falling Down.

en ek heiti Sverrir 12:25




miðvikudagur, ágúst 28, 2002
Konungurinn flytur

Rhamsez hefur flutt sig yfir á eigið lén,
www.rhamsez.net. Ormurinn vill nota tækifærið og óska honum til hamingju með nýju síðuna. Megi hann blogga áfram eins mikið og hann hefur bloggað nú í sumar.

en ek heiti Sverrir 22:20




Sameinum pollana!

„Sameinum þessa polla!“ sagði 6 ára stelpa við stöllu sína og ýtti upp vatnsrás með stígvélinu í mölinni fyrir utan Rimaskóla þegar bloggari var á leið heim úr vinnunni í dag. Um hann fór ólýsanlegur sæluhrollur því á sama andartaki leið honum fyrir hugskotssjónir „kókómjólkurgerð“ í 6 og 7 ára bekk í mölinni við Hlíðaskóla. Ekki er ætlun Ormsins að tapa sér í bernskuminningum á vettvangi sem þessum, eins og
sumir. Þetta flokkast hins vegar undir lífsnauðsynlega nostalgíu. Aaaahhh.

Matrixbardagabrögðin

Ormurinn og kunningi fóru að velta fyrir sér hvort ekki væri gott að kunna Matrixbragðið (við að víkja sér undan byssukúlum) hér á landi. Ekki vegna tíðra skotárarása heldur frekar sökum rysjótts veðurfars.

Bíllausi dagurinn hvað

Bloggandi er þeirrar trúar að netlausi dagurinn í dag fari létt með að slá bíllausa deginum við í áhrifum á samfélagið enda er Ísland landið þar sem maður og bíll verða eitt.

Gatnamót í iðrum jarðar

Bræðurnir á Lynghaga hafa lengi velt fyrir sér útfærslunni á gatnamótunum í Vestfjarðargöngunum, þar sem tvíbreiði leggurinn frá Ísafirði tengist leggjunum til Flateyrar og Suðureyrar. Ætli gatnamótin séu ljósastýrð? Eða er e.t.v. stórt holrúm inni í miðju fjallinu? Spyr sá sem ekki veit. Ormurinn vonar bara að stemmningin sé ekki áþekk því sem var í kvikmyndinni júgóslavnesku.

Baggalúturinn

Dulítið fyrir þá sem sækja Baggalútinn ekki nógu oft heim.

en ek heiti Sverrir 19:57




þriðjudagur, ágúst 27, 2002
Dularfulli kaupmaðurinn

Bloggari botnar ekki alveg í
þessari færslu.

en ek heiti Sverrir 20:24




Popúlisti dauðans í stétt kennara

Það læðist sá grunur að Orminum, að kennarasjálf undirritaðs sé haldið popúlisma af verstu gerð. Svo er mál með vexti að stjörnufræðitími nr. 2 endaði með
vettvangsferð (án geimfars!).

Hér var ekki látið við sitja. Íslenskunemar bloggara í Rimaskóla voru látnir skrifa ritgerð með heitinu „Skemmtileg kvikmynd“ í stað morkinnar uppástungu reynds kennara, „Það sem ég gerði í sumarfríinu“. Í líkindafræðinni voru svo kúlurnar sem dregnar voru úr pokanum ekki rauðar, hvítar og bláar eins og vaninn er, heldur innihélt nammipokinn tyggjókúlur, Bingókúlur og lakkrískúlur.

Sem mótvægi (og til að halda andlitinu) fjallar heimadæmið fyrir morgundaginn um líkurnar á því að vera tekinn upp í 13 manna hópi (hmm...sama og fjöldi nemenda).

En kannski er þetta orðið fullmikið popp.

en ek heiti Sverrir 19:21




Gustmikli bloggarinn

Gaman að sjá að
Gísli er vaknaður til lífsins á ný (eftir ítrekaðar ávirðingar Kattarins). Ekki er nóg með að hann uppfræði undirritaðan um frammistöðu hins nafnprúða Tríós Briggs, heldur boðar hann einnig hinn sanna rétttrúnað í enska boltanum.

en ek heiti Sverrir 19:04




Gísli rúlar

Gísla saga er ýmsum hugleikin þessa dagana. Á morgun hefur Ormurinn kennslu í henni í bókmenntatíma fyrir 10. bekk. Jafnframt skilst honum að ekki sé lengur nein sérstök Íslendingasaga lesin til samræmds prófs heldur sé prófað almennt úr þeim (birtur textabútur og spurt út í hugtök og umgjörð).

„Höfum við gengið til góðs...?“

en ek heiti Sverrir 16:57




Íslensk tunga

Hún er allrar athygli verð nýyrðasmíðin sem Einkamálabloggarinn bendir á í
þessu málfarsinnleggi.

Þetta er fyrsta blogg Ormsins úr Rimaskóla en þeim á nú eftir að fjölga. Jafnframt vill Ormurinn bljúgur biðjast afsökunar á frammistöðunni síðustu dagana. Á föstudaginn hlóðust tvö ný störf á hann en í dag heltist annað sumarstarfanna úr lestinni. Staðgengill yfirmanns kannaðist reyndar ekki við að bloggari starfaði á stöðinni (tók samt niður nafnið) og notaði tækifærið til að kveina yfir skömmum fyrirvara uppsagnar (um var að ræða fjögurra tíma vakt á laugardag og fimm tíma á sunnudag).

en ek heiti Sverrir 16:40




mánudagur, ágúst 26, 2002sunnudagur, ágúst 25, 2002
Endurbætur

Bloggandi setti upp núna áðan athugasemdakerfi frá
HaloScan.com, sem (NB!) virðist virka. Það hefur alla kosti sem slíkt kerfi má prýða, bæði tekur við ábendingunum og er ekki tvær mínútur að birtast. Orminum sýnist það samt vera erfitt að snara kerfinu yfir á portúgölskuna.

Einnig er gestabókin komin í lag, undirrituðum að óvörum.

en ek heiti Sverrir 16:38




Síðasta vaktin í Öskjuhlíðinni

Í kvöld er síðasta vaktin í Öskjuhlíðinni. Það er nú aldeilis ágætt.

en ek heiti Sverrir 16:25




Blogg í upphafi vikunnar

Menn velta vöngum yfir retórískri spurningu Munda um sunnudagablogg. Henni er þar með svarað.

en ek heiti Sverrir 16:18




Kennitölur í Þýskalandi

Ormurinn varð fátt svara við all-sérstæðri fyrirspurn í vikunni. Í hann hringdi stelpa, sem var nemandi hans við MR í vor og er með honum í kórnum (öldungadeild). Ástæða símtalsins var sú að hún var að rífast við þýska konu um kennitölur og vildi vita hvers vegna þær hefðu verið teknar upp hér á landi. Undirritaður svaraði því til að þær hefðu verið teknar upp um 1970 til þess að leysa nafnnúmerin af hólmi (það kerfi var þá að springa). En þá kom náttúrulega framhaldsspurning: Hvers vegna tókum Íslendingar upp nafnnúmer? Ormurinn er rén og því er þetta sjálfskipuð getraun vikunnar á blogginu (samt engin bókaverðlaun).

Þjóðverjinn fór einnig að býsnast yfir persónuvernd á Íslandi, svo og
fyrirtækinu í Vatnsmýrinni og grunninum þess. Greinilegt að Skúla hefur orðið eitthvað ágegnt þar suður frá. En lokaspurning bloggs dagsins er einföld: Hver er skemmtilegasti eigandi kennitölu á Íslandi? Eigandi kennitölurnnar 010130-7789 er lokasvar. Og hver skyldi það vera?

en ek heiti Sverrir 12:06




Amma góða

Bræðurnir frá Lynghaga eru á leiðinni í hádegismat til ömmu sinnar. Afi og amma hafa þann ágæta sið að bjóða „munaðarlausum“ barnabörnum í sunnudagsmat. Þar sem foreldrarnir stungu af til Mósambik fyrir rúmu ári, þá hafa Ormurinn og bróðir hans notið mjög góðs af þessu. Til að fullkomna dekrið þá sækir afinn strákana vestur á Lynghagann og oftar en ekki er hann með bestu súkkulaðiköku í heimi frá ömmu í farteskinu.

Elling og Elektrizität

Það var „opinn dagur“ í Rafheimum í gær. Það kom reitingur af fólki, sem kíkti þá flest einnig á stöðina og safnið. Einn gestanna sagði okkar manni stórmerkilegan hlut varðandi skreytinguna í gömlu rafstöðinni. Það sem er gylling í heiti stöðvarinnar og ártalinu er raunveruleg GYLLing.

Hápunktur dagsins var þó heimsókn vinkonu Maríu Ásmundsdóttur í Rafheima með son sinn, Kjartan. Ég held að ég hafi aldrei séð nokkurn jafnkátan yfir
Nilfiskryksugu á blæstri (hvítu frauðplasboltarnir sem svifu í loftinu skemmdu nú heldur ekki fyrir). María og Ormurinn slógu því föstu að eiga saman huggulegan kvöldverð á mánudags- eða þriðjudagskvöld.

Bræðurnir á Lynghaga fengu Alexöndru Kjeld og Snorra Beck í heimsókn um kveldið. Horfðu þau saman á norsku myndina Elling. Stórfín mynd.

en ek heiti Sverrir 12:04




laugardagur, ágúst 24, 2002
Stórholtið

Ormurinn var hjá
Önnu í Stórholtinu í gær. Hún er sannkallaður höfðingi og skenkti honum Rauða kverið eftir Kínareisu sína. Bloggandi las það eitt sinn á íslensku og rámar í setningu sem hljómaði eitthvað á þessa leið: „Ef fólkið á ekki sinn alþýðuher, þá á það ekki neitt.“ Þetta eru gömul sannindi og ný. Undirrituðum var bent á strikamerkið á bakhliðinni en ætli það sé ekki bara táknrænt fyrir kommúnismann þarna austur frá.

en ek heiti Sverrir 21:52




Viðar fer mikinn vestra

Kötturinn hefur frá mörgu að segja í nýjasta bloggi sínu. Þar segir m.a. af upphafi skóla hans í Berkeley. Víkur síðan blogginu að ótilteknum frændum sem kenna við útitaflið í vetur og má sjá hvernig Kötturinn malar af ánægju yfir Málsögunni góðu og ekki síður Gallehushornunum.

Gallehushornin hafa reyndar áður dúkkað upp í bralli blogganda og catusins. Þeir sáu saman um spurningakeppnina Ratatosk í MR þar sem Kötturinn samdi og flutti þriggja liða og þriggja stiga vísbendingaspurningu um hornin. Var hann hneykslaður þegar hvorugt liðið reyndi við 2. og 3. vísbendingu. Undirritaður missti út úr sér að hann kannaðist við mynd af þessum hornum úr Málsögunni en heiti þeirra væri honum runnið úr minni. Þetta fannst ketti ótækt en síðar hefur komið á daginn hvílíkan áhuga Kisi hefur á miðöldunum.

en ek heiti Sverrir 17:33




föstudagur, ágúst 23, 2002fimmtudagur, ágúst 22, 2002
Gott að eiga góða að

Davíð Halldór Kristjánsson, tölvugúrú, benti Orminum á galla í html-kóðanum. Hann hefur nú verið lagaður og töflurnar vinstra megin ættu allar að koma rétt út. Gott mál.

en ek heiti Sverrir 22:57




Setning MR

Ormurinn er kominn heim eftir setningu MR í Dómkirkjunni. Reyndar söng hann bara en það var svo sem nóg, enda þurfti hann að konfrontera mannskapinn, nemendur og samkennara. Áður en kórinn hóf sönginn hnippti Bjarni Gunnarsson, konrektor, í undirritaðan og sagði glottandi: „Er kórinn ekki bara fyrir nemendur?“ Eins gott að okkar maður hefur húmor fyrir þessu öllu, þ.e. að kenna vini sínum, syngja á móti bróður sínum í kór, og því að vera samtímis kennari og næstelsti/elsti maður í kór skólans. Þetta er hvert öðru kómískara.

en ek heiti Sverrir 15:50




Blogg í bænum

Undirritaður er staddur á Borgarbókasafninu, Grófarhúsinu, og nota lausa stund til bloggs (
hér er fyrirmyndin). Var bloggari að koma af kennarafundi í MR og fær ekki betur séð en að bloggarar séu að taka yfir Ísland. A.m.k. var þessi íslenskubloggari þar staddur, ásamt bekkjarsystur blogganda, Ragnhildi Jónsdóttur. Þau eru þó ekki yngstu kennararnir heldur er Baldvin (´81) að kenna 3. bekk stærðfræði. Þar kemur Burkni Helgason reyndar einnig við sögu. Fer eftir hálftíma á kóræfingu MR kórsins en hann syngur við skólasetningu klukkan tvö. Marteinn gjörði heyrinkunnug þau gleðilegu tíðindi í gær að stefnt væri að utanlandsferð kórsins í vor. Ekki er nóg með að það sé gaman heldur mun það hjálpa til við að halda „gamla fólkinu“ í kórnum (en bloggari er um 110 ára á kórmælikvarða).

en ek heiti Sverrir 12:36




Maður eins og ég

Bloggari fór á þessa stórgóðu mynd áðan. Ummæli eins og „Hættið í tölvunni krakkar! Gerið frekar eitthvað uppbyggilegt eins og að leigja ykkur spólu.“ og „Þetta fólk er náttúrulega vant því að búa þröngt“ hefur maður heyrt margsinnis áður (og reyndar minnist bloggari þess að hafa einhvern tíma jánkað einhverju í líkingu við síðari ummælin, sem eru náttúrulega hreinn og klár rasismi). Það er einmitt helsti veikleiki margra íslenskra kvikmynda að samtölin eru annaðhvort uppskrúfuð eða höktandi. Það er öðru nær hjá Róberti Douglas. Eða eins og Kaninn segir...

Örlög mín eru að vera MR-ingur

„Einu sinni skáti, ávallt skáti“, var væntanlega haft eftir einhverjum skátakjánanum. Bloggari er í svipaðri stöðu. Eftir að hann tók að sér forfallakennslu við
Lærða skólann, vegna feðraorlofs meistara Fúsa, er ljóst að ekki verður aftur snúið. Jafnvel gömul jedibrögð duga ekki til að losna úr þessari klemmu. Stjörnufræðikennsla skal það vera.

Í vor kenndi undirritaður kærustu hins bróðursins frá Lynghaga stjörnufræði, ásamt því að vera með skötuhjúunum í kór og mæta skrautlegur á Árshátíð Framtíðarinnar og uppstrílaður á Fiðluball 6. bekkjar. Ekki lítur út fyrir að bloggari vaxi upp úr þessu. Hann mun syngja eins og engill í hetjurödd MR kórsins, vera áfram aðstandi Gettu betur liðsins ásamt því að kenna vini sínum stjörnufræði. Sá hefur reyndar í sínum hópi lagt út af stjörnufræðikennsluhugtakinu á nokkuð sérstakan hátt. Það er einlæg von bloggara að hann láti slíkt vera í skólanum í vetur.

Glæpaormurinn

Er það ekki flott að geta upplýst um glæp áður en hann er framinn? Ormurinn er í slíkri aðstöðu og leysir gátuna hér á blogginu. Svo er mál með vexti að á föstudögum lýkur kennslu í Rimaskóla 11:05 og hefst 11:35 í MR. Bloggari nýtir sér þjónustu byggðasamlags um almenningssamgöngur en vagn fer frá Orminum ráðgjafa kl. 11:08 og endar ferð sína á Lækjartorgi 11:33 (skv. leiðabók). Því eru stórfelld vinnusvik í uppsiglingu: Ef samþykki þeirra fæst, þá verður lærisveinunum í Rimaskóla hleypt út á slaginu 11 (sem gerir um 3 klst. samanlagt í vetur). Einnig hefur sérlegt leyti fengist hjá rektor skólans við Útitaflið til þess að mæta örlítið of seint gegn því að nemendum verði bætt það upp í tvöföldum tíma á fimmtudögum. Ólíklegt verður að teljast að nemendur sætti sig við 5 mínútna lengingu fimmtudagstímans frá 15:35 til 15:40 (já, kennslustundunum í MR lýkur 2x í viku á óguðlegum tíma). Því er nokkuð víst að þar verði sá atvinnurekandi einnig svikinn um 5 mínútur til. Svikin virðast ekki stórvægileg en jafngilda ríflega heilum kennsludegi (6 klst.) ef þau verða samviskulega rækt í vetur.

en ek heiti Sverrir 00:59




þriðjudagur, ágúst 20, 2002
Endurbætur á eskinu

Bloggandi hefur endurbætt síðuna mjög síðastliðnar 2 vikur. Segja má að endurbæturnar séu nú á lokastigi (í bili), þar sem bloggari hefur bætt inn nýjum slóðum og tekið upp nýtt athugasemdakerfi (takk fyrir gömlu athugasemdirnar, mér finnst svipað gaman að elda og baka það sem ég get (sem er ekki margt)). Gestabókin er farin að sjást og síðast en ekki síst hefur bloggari tekið upp viðurnefni, Ormurinn. Er þar vísað til Ormsins ráðgjafa, söluturnsins við Miðgarð og Ormsins langa (skip+göngustígur í Grafarvogi).

en ek heiti Sverrir 21:50




Kaldhæðna fjölskyldan

Ormurinn virðist tilheyra einni af kaldhæðnari fjölskyldum landsins. Ekki er nóg með það að bræðurnir frá Lynghaga kasti á milli sín gráglettnum athugasemdum heldur gefa foreldrarnir ekkert eftir. Þegar þeir komu fyrir u.þ.b. 4 vikum var gantast með það að Ormurinn mundi ljúka við að taka til í herbergi sínu á einni viku (þurfti að stikla til að komast í rúmið). En viti menn, brátt hljómaði spádómurinn „...áður en við förum heim!“. Undirritaður tók þessu reyndar sem hverri annarri kaldhæðni enda vitað mál að gys og kaldhæðni orkar frekar á hann en skammir og nöldur. Tiltektin hefur reyndar gengið fyrir sig með hraða snigilsins og því heyrði bloggari í gær setningar eins og „þú verður búinn að taka til þegar við komum næst, he, he!“ (trúlega í fyrsta lagi eftir 15-16 mánuði). Eins gott að taka sig á og hætta öllu bloggi og ná að taka til í kvöld. Það er ekki seinna að vænna því gamla settið fer til Mósambik í fyrramálið.

Einhyrningur í garðinum

Rakst á gamalt smásagnahefti enskt í draslinu mínu þegar ég var að taka til. Þar voru nokkrar sögur eftir
James Thurber, s.s. sagan af einhyrningnum í garðinum og um litlu stúlkuna og úlfinn. Rauðhetta þekkti úlfinn og skaut hann á færi enda „even in a nightcap a wolf does not look any more like your grandmother than the Metro-Golwyn lion looks like Calvin Coolidge.“ Hver var svo mórall sögunnar? Jú, „It is not so easy to fool little girls nowadays as it used to be“.

Ekki veit bloggandi nein frekari deili á höfundinum, James Thurber, en vinur hans þótti afargóður þegar hann mundi nafnið í teiti um árið.



en ek heiti Sverrir 21:05




mánudagur, ágúst 19, 2002
Haikablogg

Ljóðaunnendur líti á
þetta.

en ek heiti Sverrir 21:07




Önnum kafinn í Erilborg

Bloggari mætti til nýrrar vinnu í fyrsta sinn í morgun í
Rimaskóla. Mun hann starfa þar við kennslu hægferðarhópa í 9. og 10. bekk í vetur og kenna þeim íslensku og stærðfræði. Staðan er 75% staða sem drýgð verður með 6 kennslustundum á viku í stjörnufræði við Menntaskólann við útitaflið (25% staða). Einnig verður gripið í verkefni við Minjasafnið eftir því sem kostur er á. Er trúlegt að starfið á stöðinni verði látið róa eftir eina til tvær helgar (4 störf í augnablikinu) og eru því síðustu forvöð að heimsækja mig þangað á sunnudögum (vei!).

Strákurinn í Hverfinu

Dygga lesendur hefur trúlega ekki rennt í grun að götuheitabloggið væri fyrirboði svo stórra tíðinda sem kennarastarfið í Rimaskóla vissulega er. Fríðindin með starfinu komu þó í ljós strax í dag í strætóferð með vagni 14 alla leið upp í Staðahverfið. Ekið var m.a. um Völundarhús og framhjá Hamravík, auk þess sem Ormurinn ráðgjafi dvelur við biðstöðina.

Út að éta með Íslendingum

Fjölskyldan fór út að borða í kvöld. Héldum fyrst á Pizzahúsið sem virtist vart fokhelt. Virðist sögu næstelsta pitsustaðar landsins þar með lokið, en staðurinn var grunnlagður 1981. Aðeins Hornið er eldra, stofnað 1978. Fullt var út úr dyrum á Ítalíu en borð fékkst á Eldsmiðjunni. Þar fékk bloggari sér pitsuna „El Pollo Loco“ með kjúklingi, hnetum, sólþurrkuðum tómötum, sveppum og jalapeneos. Var þetta í fyrsta sinn sem hann stelur senunni af föður sínum í pitsapöntunum. Pitsan bragðaðist vel og fær staðurinn meðmæli lyngfisksins.

en ek heiti Sverrir 20:32




Stærstu hlutirnir á Íslandi

Frá Sæbrautinni sjást tveir af stærstu hlutum sinnar tegundar á Íslandi. Olíutrektin á Olísstöðinni á Klöpp, sem er vissulega stærsta trekt á landinu, og rúmið stóra við IKEA, Holtagörðum.



en ek heiti Sverrir 01:34




sunnudagur, ágúst 18, 2002
Upplifun í Listasafninu

Bræðurnir frá Lynghaga urðu vitni að stórskemmtilegri blöndu „æðri“ og „lægri“ lista í Listasafni Íslands á menningarnótt. Þar fór rapptríó á kostum, skipað röppurunum Sesari A, og Bobba vandræðagemsa og Erik Qvick, sænskum trommara. Boðið var upp á sýnishorn m.a. af rappspuna (freestyle) og rappi ofan á trommu- og bassatakti (drum n´ bass) og var gaman að sjá hvernig lómarnir við Þjórsá teygðu fram álkuna í takt við rappið. Útigangshestar Jóns Stefánssonar voru hins vegar ekki jafnsprækir. Í lokaatriðinu fór Keisarinn á kostum er hann flutti Feitan skóþveng og fór úr skónum til að leggja áherslu á mál sitt, svona rétt eins og Krútsjoff.

Margt um manninn á svona menningarnótt

Bloggari þekkti nokkra af þeim tugþúsundum sem sóttu bæinn í gærkvöldi. Fjalar rafmagnsverkfræðingur lék á túbu með Öndinni fyrir utan kaffihúsið Vín og
forseti Ísalands stóð vaktina fyrir utan Tóbaksbúðina Björk á meðan á flugeldasýningunni stóð. Kíkti undirritaður í glas á Vín undir þéttum dixielandsleik Andarinnar í félagsskap Munda, Svenna og Jonna.

Seinni parti kvölds var varið með Maríu Ásmundsdóttur, Brasilíufara. Hún er á leið til Bologna á Ítalíu eftir u.þ.b. 12 daga og verður sárt saknað af blogganda. Sat hún að tafli með honum á Vín fram á nótt en af úrslitum fara engar sögur.

en ek heiti Sverrir 18:11




Teikn á lofti

Bloggandi var að koma af menningarnótt. Kvöldið afar vel heppnað, samferða Snæbirni niður í bæ á Nonna klukkan sjö og Stefáni Jónssyni úr bænum rúmlega þrjú. Dágott djamm það en meira um kvöldið síðar.

Bloggari sér í bókstaflegri merkingu teikn á lofti um að vetur sé í nánd (og sumarið úti). Tvær efstu stjörnurnar í
Óríoni, Betelgás og Bellatrix, gægðust upp fyrir sjóndeildarhring áðan. Undirritaður hefur aldrei áður séð stjörnur í Óríonmerki svo snemma árs en allt merkið sá hann síðla nætur um miðjan september fyrir ári (og þótti snemmt). Ástæðan fyrir því að bloggari tekur Óríon sérstaklega fyrir sem stjörnumerki vetrarins er sú að hann er í hágöngu í janúar og lægst á lofti í júlí.

en ek heiti Sverrir 04:28




laugardagur, ágúst 17, 2002
Pitsublogg hið síðara

Bökur bloggara voru rómaðar í gærkveldi af fjölskyldunni á Lynghaga. Einnig hlutu þær góða dóma í kveðjuteiti
Smíðaguðsins og Fjólu. Þar var gaman en þó var söknuður í huga. Dvöl þeirra úti eykur þó líkurnar á því að bloggari drífi sig út til kóngsins Kaupmannahafnar.

en ek heiti Sverrir 16:48




Feministablogg og útvarpsstjórn

Undirritaður sá þessa
feministabloggfærslu (13. ágúst). Sannfærandi röksemdir þótt hann sé ekki sammála því að nánast allir karlmenn séu hálfvitar.

Bloggari er í augnablikinu útvarpsstjóri hjá Múzik.is ásamt einhverjum sex öðrum. Nú eru til útvarps Afkvæmi guðanna (sem einhver annar valdi) en þau kveða Upp með hendur og er þar lag við:

Hórumangarar,
upp með fokking hendurnar.
Núna allar konurnar,
sýni brjóstaskorurnar.
Núna allar kerlingar,
upp með fokking krumlurnar.
Við viljum vera höstlaðar
af Afkvæmum guðanna.

Þetta er í hrópandi mótsögn við feministabloggið.

en ek heiti Sverrir 16:14




Kanínuplágan

Bloggari sá svarta kanínu áðan í Öskjuhlíðinni. Reyndi hann að gefa af nesti sínu en hún var var um sig og leit ekki við því. Undirritaður biður kanínur velkomnar í fánu landsins. Þær hafa þann góða eiginleika fram yfir þau skemmtilegu dýr, refinn og minkinn, að þær eta gras en ekki fugla. Varðandi gróðurskemmdir á „leiði“ undirritaðs í (vonandi fjarlægri) framtíð, þá vildi hann helst leysa málin með líkbrennslu og dreifingu öskunnar. En ætli honum muni ekki standa á nokk sama þegar að því kemur.

Keisari rappsins

Söguhetjan ætlar í kvöld ásamt bróður sínum á
menningarnótt til að horfa á íslenska hipphoppmenningararfinn. Munu þeir fyrst rífa í sig Nonnabita en síðan verður litið við í Gallerí Rifi í Landsmiðjuhúsinu og Listasafni Íslands. Ýmsir koma fram í Galleríinu, m.a. Erpur og Steindór Andersen, og má gera ráð fyrir að þar verði stappað. En um náttmál stígur á stokk í Listasafni Íslands maðurinn sem slær jafnvel Kóngnum við í nafngift, sjálfur Caesarinn. Þar má ekki láta sig vanta. Reyndar leitt að missa af öðrum meisturum í nafngjöfum, Trio Briggs, sem verða í Eymundssyni á sama tíma. Tónleikarnir með Keisaranum verða fyrstu dægurtónlistartónleikar undirritaðs (fyrir utan Eldborgarhátíðina og 17. júní) og því tímamót í sjálfum sér. Útlit er fyrir að þeir næstu verði bráðlega þegar Pitsamaðurinn heiðrar Frónbúa með nærveru sinni.

en ek heiti Sverrir 15:43




föstudagur, ágúst 16, 2002
111. meðferð á dýrum

Í gamla daga var lífið á margan hátt einfaldara fyrir dýragarðseigendur. Það þurfti ekki að hafa mikið fyrir dýrunum, þau þurftu í mesta lagi steypt búr með rimlum að stærð sem samsvaraði þrefaldri lengd dýrsins á hvern kant. Núna er hins vegar farið að tíðka það að sýna dýrin í „því sem næst náttúrulegu“ umhverfi. En það eru hins vegar ennþá til garðar sem hafa gömlu gildin í heiðri (prófið til dæmis að fletta upp á „polar bear“ á
þessari síðu um dýragarðinn í Barcelona).

Kveikjan að þessari umfjöllun bloggara er frétt um stuld á kópnum Lúlla úr dýragarðinum í Laugarási í Biskupstungum (Bláskógabyggð). Undirritaður varð miður sín yfir þessari frétt enda er ljótt að hrekkja dýrin. Hins vegar bætti það ekki málstað dýragarðsins í Laugarási þegar mynd birtist af „stíu“ Lúlla í grein á fréttavef Morgunblaðsins. Þarna er greinilega rekinn dýragarður af gamla skólanum í ætt við dýragarðinn í Barcelona og Sædýrasafnið sáluga.


en ek heiti Sverrir 16:49




Bjargfuglinn burt!

Bloggandi las skorinortan og skynsamlegan pistil í Velvakanda Morgunblaðinu í gær:


Endurreisn síldar- og loðnustofnsins

„Með því að veiða hval og skjóta bjargfuglinn mætti stækka bæði síldar- og loðnustofninn töluvert. Bjargfuglinn étur nokkra tugi milljóna af seiðum á ári hverju og er þar skarð fyrir skildi. Ef fuglinum yrði fækkað allt í kringum landið - og eftir yrðu tíu til tuttugu þúsund stykki myndu stofnar síldar og loðnu styrkjast töluvert.“

Gísli Hallgrímsson


Hér duga engin vettlingatök, skera verður upp herör gegn afætunum! Hvað hafa þessir fuglar gert fyrir okkur?

en ek heiti Sverrir 12:18




fimmtudagur, ágúst 15, 2002
Pitsublogg hið fyrra

Bloggari var myndarlegur í gærkvöldi og bakaði tvær pitsur. Önnur þeirra verður handa fjölskyldunni þegar hún kemur heim úr Eyjafirðinum seinni partinn í dag. Hina munu gestir
Ingós og Fjólu slafra í sig í kveðjuteiti þeirra skötuhjúanna, en þau halda til Danmerkur næstkomandi miðvikudag. Undirritaður þekkir ekki annað en að góður rómur sé gerður að pitsum hans og nú verður ein slík lögð í dóm fjölskyldunnar, sem kallar ekki allt ömmu sína í pitsugerðarefnum. Nánar um niðurstöðu þess mats og undirtektir teitra gesta á morgun.

en ek heiti Sverrir 23:59




Plöntur safna gulli fyrir tölvuiðnaðinn

Bloggari las áðan
stórmerkilega grein um það hvernig vísindamenn reyna að hagnýta alfalfaplöntur til þess að safna saman gulli í afarsmáa kekki (á nanókvarða). Plönturnar eru látnar vaxa á „gullauðguðum“ jarðvegi í rannsóknastofu (sem þ.a.l. inniheldur gull í óvenjumiklum mæli) og líkt og plöntum er lagið safna alfalfaplönturnar í sig steinefnum, þar á meðal gulli. Búið er að finna greiningartækni til þess að greina agnirnar en enn á eftir að finna hagkvæma leið til þess að sækja gullið í greipar alfalfa.

Hvers vegna eru menn að standa í þessu? Jú, ástæðan er eftirspurn hálfleiðaraiðnaðarins eftir gulli í agnarsmáar(!) rásir. Raftæki fara minnkandi með tímanum, sem og smárásir, og gullið er afarhentugur málmur í smárásir sökum leiðni og þess að það tærist ekki. Þær aðferðir sem beitt hefur verið byggjast hins vegar á efnafræði og fela iðulega í sér notkun eða myndun efna sem eru óæskileg heilsunni.

en ek heiti Sverrir 16:05




Enn ein bévítans spurningakeppnin

Undirritaður lenti í sígildu samtali í gær þegar hann þurfti að taka leigubíl. Bifreiðin var ekki af verra taginu, nýlegur
Bens með leðursætum o.fl. Bloggandi hóf samtal sitt við bílstjórann með því að hrósa bílnum hans. Mæltist það vel fyrir enda liggur stysta leiðin að hjarta Íslendings ekki um magann heldur felst hún í hrósi um bílakost viðkomandi. Tveimur mínútum síðar brýtur bílstjórinn aftur ísinn með því að spyrja hvort söguhetjan hafi ekki verið í spurningakeppni framhaldsskólanna (og hvort það hafi ekki verið mikil vinna o.s.frv.). Það stemmir og eftir nokkra umhugsun bílstjóra kemur sígilda atriðið:

Bílstjóri: „Ég er samt með spurningu sem ég er viss um að þú getir ekki svarað.“
Bloggari: „Kannski best að þú komir með hana.“
Bílstjóri: „Veist þú hver er hæsti punktur Danmerkur?“
Bloggari: „Er það ekki Ejer Baunehøj?“
Bílstjóri: „Hvernig vissirðu þetta?“
Bloggari: „Við flettum þessu upp á æfingu spurningaliðsins.“

Síðan fylgdu vangaveltur um hve hátt hlutfall keppenda í Gettu betur gætu þessa spurningu (og einnig um hve hallað hefur verið á Dani í keppninni því undirritaðan rámar í að spurt hafi verið bæði um Kebnekaise (2.117 m ha, ha!) í Svíþjóð og Galdhøpiggen í Noregi en að Danmörk hafi verið sniðgengin). Kom þá ástæðan fyrir spurningunni í ljós en bílstjórinn var danskur að uppruna.

Það sem gerir þetta hins vegar enn kómískara er að á heimasíðu Vina Ejers Baunehøjs (170,95 m) er því líst hvernig hann tók við titlinum af Himmelbjerget (147 m) 1847 (eftir yfirlýsingu frá danska herforingjaráðinu) en missti hann yfir til Yding Skovhøj (172,66 m) 1939 þegar nýjar mælingar voru kynntar til sögunnar. Þetta minnir menn á að staðfræði er ekki óumdeilanleg (sbr. íslenska fossa) og jafnframt eru hugrenningatengsl við færslu hæsta punkts Evrópu frá Mont Blanc til Elbrus þegar víðsýnir menn fóru að telja Kákasusríki Sovétríkjanna með öðrum svæðum heimsálfunnar.

Vinafélag Ejers Baunehøjs, sem sér um síðu fjallsins, var stofnað 1999 til að stuðla að eflingu umhverfis umhverfis fjallið. Andinn sem svífur yfir vötnum á vefsíðunni er samt frekar þannig: „Má vera að Yding Skovhøj sé hæsta fjallið en Ejer Baunehøj er samt flottari.“ Helsti lærdómur bloggara af þessum vefsíðum er þó sá að auðveldara er að gera hæstu fjöll Danmerkur að merkum ferðamannastöðum en hæstu fjöllin á Fróni.

en ek heiti Sverrir 14:46




Tuðruspark

Gamlir knattspyrnutaktar voru rifjaðir upp á
Melaskólavelli í kvöld í félagsskap Jonna, Svenna, Ingós og Lilju. Þvílíkir tímar! Bloggari allur kominn úr formi, sem og fleiri, og varð því að hætta leik vegna mæði iðkenda eftir klukkustund. Er ljóst að hópurinn þarf að taka oftar fram fótboltaskóna.

en ek heiti Sverrir 01:01




miðvikudagur, ágúst 14, 2002
Sjoppufána landsins

Söguhetjan var stödd í Grafarvoginum í dag, við Miðgarð nánar tiltekið, og gekk þar inn í sjoppu með kúnstugt nafn, Ormur ráðgjafi (ekki beint líkt Bitaborg eða Grafargrilli). Veit bloggari ekki hvort frændi hans fyrir austan taki undir þetta gildismat en sá naut um tíma félagsskapar úr dýraríkinu þar sem var pylsubarinn Hérinn á Egilsstöðum. Höfuðborgarsvæðið hefur þó trúlega vinninginn í dýranöfnum á sjoppum á landsvísu (enda flestar sjoppur þar.) Svarti svanurinn fer þar trúlega fremstur í flokki og einhverjir kannast trúlega við Fimm fíla sem voru á Lækjartorgi (nálægt staðnum þar sem kínarúlluvagninn á Álftanesi var). Ekki væri gaman að mæta þeim í slæmu skapi. Einnig er trúlegt að Drekinn, Njálsgötu, væri illvígur og Rebba í Hamraborg vilja fáir fá í heimsókn. Einhvern veginn finnst bloggara út frá nafninu að Vídeóljónið við Dunhagann sé ekki jafnfrátt á fæti og frændi þess, Lion Bar ljónið, nú eða Freyjuköttur frænka. En hver ætli ynni þá í dýraati söluturnanna? Trúlega enginn annar en King Kong í Eddufellinu.

en ek heiti Sverrir 18:53




Strákapör

Sá sem hér ritar varð áðan vitni að prakkarastriki við blokk á Hjarðarhaganum. Þetta var svona sígild útfærsla: Strákur og stelpa ýttu á bjöllu á dyrasímanum, hlupu hratt í burtu en þó ekki ekki of hratt því þau hlustuðu einnig eftir samtölunum í dyrasímanum. Undirritaður rekur minni til að hafa gert dyraat í Seljahverfinu fyrir allnokkrum árum þar sem hurðasprengja var strengd fyrir dyragættina, hringt og hlaupið. Uppátækið féll í misfrjóan jarðveg en verst var þetta þó fyrir systur frænda bloggara sem kom í humátt á eftir okkur og var að reyna að selja jóladagatöl. Skynsamlegt er þó að sögumaður ljúki allri hurðasprengjuumræðu hér.

Blaðastrákar

Bloggari, í slagtogi við
Köttinn og Jarlaskáldið, rakst sjálfur eitthvað í dyrasíma húss við Thjarnargötu í vor og fór um suma sæluvíma vel heppnaðs strákapars. Meginprakkarastrikið það kvöldið fólst þó trúlega í fullsnemmbærum útburði Dagblaðsins en bíleigendur við Dunhaga og Ægissíðu hafa vafalaust unað glaðir við sitt. Er þó réttast að undirritaður taki fram að þeir félagar, Jarlaskáldið og Kötturinn, eru álitnir menn dagfarsprúðir. Er það helst þegar tiltekinn fugl húkir yfir mannfögnuðum að þeir færast í ham.



en ek heiti Sverrir 17:33




Óheppilegt orðalag

Starfsmönnum
netarms Morgunblaðsins tókst miður upp með orðalag þessarar fréttar. Ljóst að þeir eru ekki vel að sér í Kristjáni frá Djúpalæk.

en ek heiti Sverrir 11:40




Freðmýrarstál

Forseti Ísalands hefur hvatt blogganda við annan mann til að gefa sérstakan gaum að þessum hlekk (sem er þrusumerkilegur, a.m.k. Löduhlutinn). Bróðir undirritaðs, Snæbjörn, benti hins vegar á þennan bíl um daginn sem mundi hæfa manni af sauðahúsi Ísleifs.

Í ljósi þessarar umræðu var tækifærið notað og vefur Löduverksmiðjanna kannaður. Forsíðan er ný og flott en áfram er lítið að græða á vefsetrinu, sérstaklega ef menn eru ekki þeim mun kattliðugri í enskri tungu.

en ek heiti Sverrir 00:00




þriðjudagur, ágúst 13, 2002
Don Teflon

Alltaf gaman þegar innvígðir eru hvergi bangnir við að nota
réttu orðin yfir hlutina.

en ek heiti Sverrir 22:11




Í útvarpinu heyrði ég lag

Bloggari heyrði stórgott lag í útvarpinu áðan. Hafði hann þó heyrt þetta lag nokkrum sinnum áður en nú var það feðrað og reyndist lagasmiðurinn knái, Magnús Eiríksson, höfundur lagsins. Þetta var kynningarlag þáttarins um Hildi, sem kenndi dönsku í íslenska sjónvarpinu. Bloggari var ekki kominn til vits og ára þegar hún var á skjánum en rámar í að hafa heyrt spurningar um hana í fyrsta íslenska
Trivial Pursutinu sem gefið var út á miðjum 9. áratugnum.

Götuheiti í Grafarvogi

Ásamt því að hlusta á útvarpið átti bloggari leið í Grafarvoginn í dag ásamt Jónatani. Lausleg athugun gefur til kynna að gæðum götunafna í því hverfi sé æði misskipt. (Vonandi fyrirgefa íbúar mér það að ég set alla byggð norðan Grafarvogs undir sama hatt.) Undirrituðum þætti til dæmis ekki ónýtt að búa í Völundarhúsum, á Fróðengi, í Hamravík, í Svarthömrum eða við Gylfaflöt (reyndar í atvinnuhverfi). Öllu síðra væri þó að búa við Dvergaborgir eða í Geithömrum. Rimahverfið sker sig þó úr varðandi slæm nöfn. Nefni ég götuheitin Berjarimi, Mosarimi og Mururimi því til stuðnings og virðist sem að nafngjafar hafi þar aðeins gleymt Horriminni. Hefur bloggara þó borist til eyrna að í nafngjafanefnd sé einn bloggenda . Vonandi slær hann á þá tilgerð sem fylgir allnokkrum nöfnum í nýja Grafarholtshverfinu en það er þó ljóst að menn geta ekki staðið sig mikið verr en í Rimahverfinu.

en ek heiti Sverrir 18:49




Enn litið suður til landa

„¡Hola!“ dúkkaði upp í glugga í MSN-spjallforriti bloggarans og var því ljóst að þeir félagar, Jói og Hjalti, væru staddir á spánska málsvæðinu. Lítur því út fyrir að sögumaður hafi verið helst til framsýnn í gær þegar hann sagði þá Hjalta og Jóa vera í
Lisboa í Portúgal. Eftir frásögn Hjalta að dæma höfðu þeir félagar ekki sleppt úr „upplögðum“ borgarbröndurum og höfðu því samviskusamlega farið í frúna í Hamborg í Hamborg og prófað parísarhjól í Borg ljósanna (hvað þá með hamborgarann?). Rétt er að taka það fram að þeir fara ekki til Austurríkis en þar myndu þeir trúlega gæða sér á vínarbrauði og Mozartkúlum en þeir eiga ennþá séns í pitsuna í Napolí. Þegar beðið var fyrir kveðju til Jóa var hann í draumheimum síestunnar en ætlaði síðan í klippingu. Þegar undirritaður spurði um nákvæma staðsetningu þeirra kom upp úr dúrnum að það var bara ekki svo galið enda voru þeir staddir í borginni Sevilla.

en ek heiti Sverrir 13:14




Úr felum með nördaskapinn

Bloggari hefur ákveðið að feta í fótspor
bloggara nokkurs og játa á sig áskrift að Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Það var fyrst fyrir mörgum árum að Vegagerðin tilkynnti að hún myndi draga úr auglýsingum um útboð í dagblöðum en gefa þess í stað út sérstakt blað handa verktökum. Þá fýsti undirritaðan að gerast áskrifandi, og oft síðar, en lét ekki verða að því fyrr en Einkamálabloggarinn reið á vaðið. Þvílíkar fréttir í framkvæmdafréttunum: Hönnun nýs kafla á vegi 49, Nesbraut (a.k.a. Hringbraut), í Vatnsmýrinni á leið í útboð í haust, sem og útboð á nýrri brú yfir Þjórsá. Lagning nýja vegspottans við Þjórsá er hins vegar komin á samningaborðið.

Áhuginn á vegagerðinni og lagningu slitlags vaknaði snemma, enda þreytist fjölskyldufaðirinn á Lynghaga seint á að rifja upp sögu frá ferðalögum fjölskyldunnar á Mýrunum. Um þær fór fjölskyldan oft á leið í Hnappadalinn og lenti m.a. í því að nýlagt slitlag í veginum frá Snæfellsnesinu (54) hafði hreinlega bráðnað í sumarhitunum en á öðrum stað var nýhækkaður vegurinn klæddur stórgrýti. Var bílstjórinn bölvandi og ragnandi yfir nýframkvæmdunum og lyftist brá hans lítt þegar elsti strákurinn í aftursætinu sagði í aðdáunartón: „Hér verður kominn nýr og góður vegur þegar við verðum hér á ferðinni næst!“ Hlaut hann þá útnefningu sem „sérlegur blaðurfulltrúi Vegagerðarinnar“ (sbr. blaðafulltrúa) og hefur haldið þeim titli síðan.

en ek heiti Sverrir 12:25




Sunnan að segja menn

Einhvern veginn atvikaðist það svo að bloggara bárust fregnir af nokkrum ferðalöngum í kunningjahópi sínum, og það allar á sama deginum. Póstkort barst frá Hjalta Snæ og Jóa þar sem þeir voru staddir í smábænum San Sebastian í Baskalandi (áréttað á skiltum í bænum!). Þeir eru á eins mánaðar lestarferðalagi um Evrópu. Lentu í kóngsins Kaupmannahöfn um síðustu mánaðamót og liggur leiðin um Marokkó til Mílanó, þaðan sem þeir koma út hingað. Heimildir herma að þeir sprangi um þessar mundir um stræti Lissabon. Hjalti segir þá hafa helst hafa komist í krappan þegar „nokkrar breskar fótboltabullur [sem] hótuðu að opna á okkur hálsslagæðarnar fyrir að eiga miða í svefnklefann sem þeir höfðu hertekið í lestinni frá Hamborg til Parísar.“ Jafnframt hrökk Grikki í kút þegar Hjalti ætlaði að slá um sig með forngrískunni í Eiffelturninum. Hann reyndi að segja „við viljum svalla“ en Grikkinn skildi það sem „getur þú gefið okkur far“.

Nostalgía

Jafnframt mælti bloggari sér mót við Eggert Eyjólfsson á veitingastaðnum Ara í Ögri. Eggert, sem dvalið hefur í Danmörku síðan í mars, gerir hér stuttan stans áður en hann heldur til náms í læknisfræði í Ungverjalandi um næstu mánaðamót. Lögðu menn á ráðin um bíóferð ásamt bræðrum þeirra, Snæbirni og Haraldi, en þeir starfa saman hjá Landsvirkjun við
Hrauneyjafossvirkjun. Það er trúlega engin tilviljun en það var við þá virkjun, á vegum Landsvirkjunar, sem fundum bloggara og Eggerts bar fyrst saman sumarið 1997. Störfuðu þeir þar jafnframt sumurin 1998 og 1999. Síðara sumarið bar með sér marga svaðilförina og voru báðir orðnir flokkstjórar með tilheyrandi akstursréttindum við dræmar undirtektir samstarfsmanna. Sakaði Eggert bloggara um að vera bílhræddasta mann, sem hann hafði setið með í bíl, þegar hann bauð okkar manni í rallakstur á vegspottanum frá Hrauneyjafelli að Hálendishótelinu Hrauneyjum. Ekki fór undirritaður fleiri rallíferðir það sumarið en rekur minni til að þær hafi lagst af um svipað leyti og í ljós komu „duldir gallar“ á búnaði Nissan pallbílsins. Ferðir þeirra félaga í Hrafntinnusker og Sóleyjarhöfða voru þó ekki jafnsvakalegar. Merkilegt þótti bloggara að í Hrafntinnuskeri náðist útvarpsstöðin Klassík FM 100,7 betur en í bænum (í u.þ.b. 1000 m hæð y.s.). Einnig var útsýnið í Sóleyjarhöfða magnað, en þaðan má sjá staðinn þar sem Skálholtsbiskupar fóru yfir Þjórsá á vísitasíuferðum sínum norður Sprengisand. Líst þeim sem hér ritar mátulega vel á áform Lalla frænda um lón við Norðlingaöldu. Mun alltumlykjandi faðmlag hans þá sökkva gróðurlendinu í kringum vaðið og varna vatni Þjórsár því að renna um einn af fegurstu fossum landsins, Dynk.

Kalífornía og írskar geitur

Það er bloggara fagnaðarefni að núsnæðismál Kattarins séu komin á hreint vestur í San Fransisco. Gaf hann upp heimilisfang í bloggi sínu og er því ekki hægt að skorast undan því að senda honum svo sem eitt sendibréf upp á gamla móðinn. Jafnframt lét söngfuglinn Harpa í sér heyra frá Írlandi, en hún er á lestarferðalagi um Bretlandseyjar. Sagðist hún hafa mætt á þriggja daga geitahátíð í Killorglinhéraði. Kannski að þarna sé ónumið land í markaðsmálum ferðaþjónustunnar og að „Hátíð sauðkindarinnar“ verði haldin hér árlega eftir nokkur ár.

Slagorð ársins

Greypst hefur í huga umsjónarmanns stórskemmtilegt slagorð hafnfirskrar sælgætisverksmiðju. Utan á krembrauði hennar stendur:

Langt en ekki of langt

Nógu hallærisleg speki til þess að það hverfi ekki strax úr huga manns. Hvað ætli slagorðasmiðurinn hafi fengið fyrir sinn snúð?

en ek heiti Sverrir 00:52




sunnudagur, ágúst 11, 2002
Magnúsar þáttur Jónssonar

Sunnudagsblað Moggans var óvenjuáhugavert í dag. Birt er viðtal við Róbert Douglas um nýjustu kvikmynd hans,
Mann eins og ég. Er bloggara ljóst, bæði af viðtalinu og auglýsingum í kvikmyndahúsum, að þessa mynd verður hann að sjá, en fyrri mynd Róberts í fullri lengd, Íslenski draumurinn, vakti mikla lukku hjá honum og bróður hans. Í sérblaði Morgunblaðsins var svo umfjöllun um Megas, plöturnar og tunguna. Var þar vitnað til bókarinnar Megas eftir Magnús Jónsson: „Út í Noregi kvartaði Magnús mikið undan því hvað íslenskan væri fátæk af slangri. Hann sagðist beinlínis ætla að standa skipulega að því að auka slangur og líkur á því að það festist; væru það orð sem féllu að beygingarkerfinu.“ Seinna átti hann þátt í því að taka saman Orðabók um slangur (frá slangri til slangurs) ásamt Merðinum. Mörðurinn hafði áður sagt Megas „fegurstu rósina á íslenska poppakrinum“ [þarna kom bloggari upp um sig; innsk. ritstj.]. Nú þyrftu góðir menn að taka sama nýja orðabók um slangur í íslensku enda margt sem heyrir til slangurflokksins.

en ek heiti Sverrir 16:03




Teiti hjá Kjartani og Sylvíu

Eftir vinnu skutlaði
Ísleifur mér heim með viðkomu í Mjólkurbúðinni. Svo var sund á dagskránni með Snorra Beck í Vesturbæjarlauginni. Um kvöldið var svo haldið í gleðskap hjá Kjartani og Sylvíu. Þar var margt góðra gesta, hverja fæsta ég þekkti. Ólafur Jóhannes var þar glaðbeittur, sem og Stefán frændi minn Jónsson. Óli predikaði gæði viskísins umfram aðra görótta drykki á milli þess sem hann átti í hrókasamræðum við Árna Sveinsson, kvikmyndagerðarmann, um málaferlin vegna heimildamyndarinnar Í skóm drekans.

Næsti kapítuli

Haldið var niður í bæ á Næsta bar. Það er margt um manninn á svona stað þegar líða tekur á aðfaranótt laugardags. Við gerðum okkar til þess að lækka meðalaldurinn en fyrsta manneskjan sem ég þekkti var Þóra vinkona pabba og mömmu (sem eiga 2-3 ár í fimmtugt). Einnig hitti ég fyrir Ólaf Guðmundsson sem vinnur með okkur Stefáni á Minjasafninu. Það var aðeins fyrir örfáum vikum að Stefán rakst á hann niðri í bæ á Næsta bar. Mætti álykta út frá þessu að ef fólk vill hitta fyrir starfsmenn Safnsins á síðkveldum þá sé Næsti bar ekki svo óskynsamlegur áfangastaður.

Af óspektum

Á næsta bar rakst ég á stelpu sem ég hitti fyrir ca. 10 mánuðum síðan niðri í bæ, gamall MK-ingur sem er að hefja nám á 2. ári í lögfræði. Þegar við hittumst síðast í Bankastrætinu ákvað hún að við skyldum berja að dyrum í Stjórnarráðinu við dræmar undirtektir næturvarðarins. Múrinn tengist reyndar fleiri skammarstrikum því að kvöldi 15. febrúar, eftir afmæli Kattarins, gerðu tveir gamlir spurningaliðsmenn orrahríð að stjórnarráðinu. Voru þeir búnir vopnum frá ónefndum matvælaframleiðanda. Jarlaskáldið hafði þá nýlega yfirgefið okkur en hann hefur einkum beint borgaralegri óhlýðni sinni að Landnámsmanninum okkar.

Brullaup

Söguhetjan vaknaði á laugardagsmorgun og leit í ljúgfróða blaðið. Þar sá hún sér til mikillar skemmtunar að vitnað var til pistils hennar og yfirmannsins af Múrnum í Lesbókinni. Það skyldi þó aldrei fara svo að örnefnið „Staurinn eini“ festi sig í sessi? Eftir hádegi var haldið í brúðkaup Theódórs Friðrikssonar, móðurbróður söguhetjunnar, og Berglindar Haðardóttur í Bústaðakirkju. Séra Pálmi stóð sig bara vel og ekki skemmdi að Ólafur Kjartan Sigurðsson söng þar nokkrar aríur. Yngsti meðlimur stórfjölskyldunnar, Kristján Páll Theódórsson, var skírður og verður að segjast að sögumaður er all-sáttur við nafngiftina. Var að þessu öllu mikill sómi fyrir fjölskylduna í Engjaselinu og er henni hér með óskað hjartanlega til hamingju.

en ek heiti Sverrir 13:29




föstudagur, ágúst 09, 2002
Í hópi millistjórnenda

Merkilegt með þessa titla. Um leið og
æðstipresturinn safnsins lokaði á eftir sér dyrunum hér áðan breyttist starfsheiti mitt úr sérlegum skósveini safnvarðar í starfandi safnvörð. Þannig að þegar fjölmiðlar ætla að hafa samband við safnvörð í dag verða þeir að tala við starfandi safnvörð „því ekki náðist í náðist í safnvörðinn en hann er á ferðalagi“.´

Orkublogg vikunnar

Kynni til sögunnar nýjan dálk á blogginu, orkublogg vikunnar. Kveikjan að þessu bloggi er umfjöllun um Grímsnesveitu á heimasíðu vinnuveitanda míns, Orkuveitu Reykjavíkur. Í samvinnu við Hitaveitu Þorlákshafnar (sem Orkuveitan hefur keypt) ætlar OR að leggja hitaveitu í sumarbústaði og á sveitarbæi í Grímsnesi. Til þess að vatn frjósi ekki á veturna og sprengi leiðslurnar þarf að halda uppi stöðugri hringrás vatns með sérstakri hringrásardælu. Hér kemur snilldin: Þar sem ekki er komið rafmagn í bústaðina er hægt að nota svonefndan varmarafal til að framleiða rafmagn inn á geymi. Rafallinn nýtir sér hitastigsmuninn á milli heita og kalda vatnsins og ef hann er nægur og kerfið virkar vel er jafnvel eitthvað aflögu til almennrar notkunar í bústaðnum. Sniðugt!

en ek heiti Sverrir 12:59




fimmtudagur, ágúst 08, 2002
Hænir frá Busslaraþorpi

Það var eitt sem gleymdi að taka fram varðandi þýsku hjónin á Unimognum, að þau ættu heima í Stóðgarði (þ.Stuttgart). Karlinn kannaðist jú heldur betur við íslenska fußballspielerinn, Ásgeir Sigurvinsson.
Stefán rifjaði upp viðtal við Jürgen Klinsmann í World Soccer þar sem hann sagði Ásgeir þann besta sem hann hafði leikið með á knattspyrnuvellinum. Svipuð orð lét Karl-Heinz Rummenigge falla í sjónvarpsþætti um Ásgeir.

Omic

„Omic“ yfirskriftin var ákveðinn gæðastimpill á skrifstofuvélum á seinni hluta aldarinnar. Við Stefán safnvörður fengum að skoða stórmerkilegar skrifstofuvélar sem eru í eigu dánarbús Ottó A. Michelsen, m.a. gamla diktafóna með segulkefli, eina elstu gataspjaldavél á Íslandi ásamt ritvél frá 19. öld. Allt stórmerkilegt og geymt í gamla húsinu þar sem Skrifstofuvélar voru til húsa á Klapparstíg 19. Utan á húsinu, sem er friðað steinhús, er einmitt klukka frá Ottó sem á stendur „Omic“. Undirritaður hafði lengi velt því fyrir mér hvers vegna þarna væri klukka, enda opinbera tímamæla helst að sjá við Hlemmtorg og á Lækjartorgi.

en ek heiti Sverrir 15:22




miðvikudagur, ágúst 07, 2002
Alveg þráðbeinn

Staurinn eini: Örnefni í Þórsmörk. Vísar til ljósastaurs í rjóðri í drögum Húsadals. Kemur fyrst fyrir á prenti í vefriti á öndverðri 21. öld en orðið virðist þá þekkt í talmáli. Skammt þar frá í Hamraskógum mátti á 20. öld finna Systurnar sjö, birkitré, nú fallið.

Svo gæti lýsingin á
nýja örnefninu félaga Pálssonar hljóðað í skrá yfir örnefni í Þórsmörk frá árinu 2120. Ég hef oft velt vöngum yfir því hverjir þessir gárungar væru síðan ég hóf að leika ´95 árgerðina af Trivial Pursuit (og reyndar einnig ´88 módelið) . Nú hef ég svarið.

Ach so!

Sagði þessa setningu á tveggja mínútna fresti þegar ég lóðsaði ferðamenn um safnið í dag. Þangað vatt sér franskur jarðfræðikennari frá Strasbourg sem sagðist vera slöpp í ensku en hafa lært þýsku í barnaskóla. Því var ekki um annað að ræða en leiðsegja henni, stamandi, á menntaskólaþýsku. Heimsóknin veitti mér hins vegar færi á því að segja „Ach so!“ á tveggja mínútna fresti þegar hún sagði mér frá því hvernig orkumálum væri háttað heima hjá sér. Einnig komu 2 þýskir ferðamenn til viðbótar þegar við vorum að loka og varð ég þá orðinn mun liprari í þýskunni. Þau voru hins vegar kattliðug í ensku þannig að hægt var að grípa til hennar þegar okkur var orða vant. Þau renndu í hlað á risastórum Unimog og þegar ég spurði þau hve lengi þau ætluðu að dvelja hér á landi svöruðu þau til að þetta væri þriggja mánaða ferðalag. Frá því í byrjun júní höfðu þau ekið um allt land og lagt að baki 6 þúsund km, þ.e. rúmlega fjórfalda vegalengd hringvegarins. Dágóður spotti það!

Fugl dagsins

Var viðstaddur í útsendingu þáttarins Sumarstefja á Rás 1 í dag. Hann var sendur út frá Elliðaárhólma og ræddi Leifur Hauksson við veiðimann frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur og safnstjóra Minjasafns Orkuveitunnar. Mætti ég sem sérlegur aðstoðarmaður þess síðarnefnda.

en ek heiti Sverrir 19:00




þriðjudagur, ágúst 06, 2002
Nú er komin á Múrinn grein eftir mig og félaga Pálsson en við höfum séð aumur á kjaftastéttum og besserwisserum þessa lands. Þar með hef ég að nokkur leyti bundið trúss mitt við þá Múrverja, þótt ég hafi ákveðin tengsl við aðstandendur annarra vefrita.

en ek heiti Sverrir 16:06




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.