Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

þriðjudagur, febrúar 24, 2004
Stjörnufræðin

Ormurinn hefur fundið sannleikann. Hann er ekki að finna í gömlum bókum, ekki einu sinni mjög gömlum, heldur í ljósi stjarnanna og útþenslu alheimsins.

Örlög Hubbles senn ráðin

(Þessi stutta grein bíður birtingar í fréttabréfi Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness.)

„Þann 16. janúar síðastliðinn kynntu forsvarsmenn NASA þá ákvörðun sína að sleppa síðasta leiðangrinum til Hubble-sjónaukans árið 2006. Í þessum leiðangri átti að setja upp ný mælitæki og skipta út þeim hlutum sem farnir væru að gefa sig. Endurbæturnar áttu að framlengja líf sjónaukans til ársins 2010 en um það leyti á hinn nýi James-Webb-geimsjónauki að taka til starfa. Óhætt er að segja að þessi dapurlegu tíðindi af framtíð Hubble hafi vakið ugg bæði meðal vísindamanna og almennings, enda er framtíð sjónaukans margrómaða í húfi.

Helstu röksemdirnar fyrir því að hætta við viðhaldsleiðangurinn varða öryggi geimfara. Eftir að Colombia-geimferjan fórst á leið inn í gufuhvolfið síðastliðið vor hafa öryggismálin verið í brennidepli hjá NASA. Þykir fyrirhugaður leiðangurinn of áhættusamur, enda geta geimfarar ekki komist með geimferju yfir í Alþjóðlegu geimstöðina ef eitthvað fer úrskeiðis við viðgerð á sjónaukanum. Eins þarf tímasetning ákvörðuninnar ekki að koma á óvart, enda var hún tilkynnt tveimur dögum eftir ræðu Bush Bandaríkjaforseta um leiðangur til Mars og bækistöð á tunglinu. Þau verkefni eru fjárfrek og ljóst að spara þarf á öðrum sviðum í rekstri Geimferðastofnunarinnar ef þau eiga að verða að veruleika.

Hlutverk viðhaldsleiðangranna til Hubble hefur verið að skipta út þeim hlutum sem hafa verið farnir að gefa sig, ásamt því að setja upp ný mælitæki í sjónaukanum. Fyrsti og frægasti leiðangurinn var farinn í desember 1993. Þá var skipt um myndavél og leiðrétt skekkja sem hafði valdið því að sjónaukinn var ekki í fókus. Leiðangurinn heppnaðist fullkomlega og hafa stórkostlegar myndir streymt frá sjónaukanum síðasta áratuginn. Í seinni viðhaldsleiðöngrum, 1997, 1999 og 2002, var meðal annars sett ný myndavél í sjónaukann, skipt um sólarrafhlöður og gert við miðunarbúnaðinn.
Það eru einkum gíróskópin (snúðarnir) í miðunarbúnaðinum og rafhlöður sjónaukans sem gætu gefið sig á næstu árum. Nauðsynlegt er fyrir Hubble að styðjast við þrjú gíróskóp til þess að miða út stjörnur. Af þeim sex gíróskópum sem eru til staðar í sjónaukanum hafa tvö þegar gefið sig og óvíst er um endingu þeirra fjögurra sem eftir eru. Eins styðst sjónaukinn við sömu rafhlöður og voru í honum þegar honum var skotið á loft 1990. Þeim svipar til þeirra hleðslurafhlaðna sem notaðar eru í farsíma og er hleðslan notuð til að halda Hubble gangandi inni í skugga jarðar. Eru þær farnar að gefa sig eftir að hafa verið endurhlaðnar 14-15 sinnum á dag í þau 15 ár sem sjónaukinn hefur verið á sporbaug um jörðu.

En leiðangurinn 2006 var ekki eingöngu hugsaður til þess að skipta gömlum hlutum út fyrir nýja. Ætlunin var að setja upp í sjónaukanum myndavél og litrófsrita sem áttu að vera næmari á innrauðar og útfjólubláar bylgjulengdir en núverandi búnaður. Verður að teljast svekkjandi að litrófsgreinirinn er nú þegar til reiðu og smíði myndavélarinnar er á lokastigi.

Hver verða þá örlög sjónaukans? Verkfræðingar og vísindamenn hjá NASA telja að sjónaukinn geti í mesta lagi enst fram á árið 2007 án viðhaldsleiðangurs. Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að Hubble myndi endast til 2011 með leiðangrinum sem nú hefur verið hætt við. En þrátt fyrir að ótímabær örlög sjónaukans virðist var vart umflúin heldur hann áfram að senda myndir til jarðar sem rata í heimsfréttirnar.“

Valgerður Sverrisdóttir í Perú?

Neðri myndin á þessari síðu er áþreifanleg sönnun þess að framsóknarmenn er að finna víðar en á Íslandi. „Það vantar veg í mitt kjördæmi!“, hefur einhver sagt, og þá hefur ekki liðið á löngu uns Gunnar Birgisson þeirra Perúmanna hefur mætt með jarðýturnar á vettvang.

Er Ormurinn að setja sig upp á móti framförum í þróunarlöndunum? Nei, alls ekki.

Honum finnst það bara afkáralegt að einhver þurfi að skella þjóðvegi yfir menningarverðmæti á heimsmælikvarða eins og Nazcalínurnar.

en ek heiti Sverrir 20:34




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.