Það fyrsta sem bloggari gerði þegar hann fékk bækurnar í hendurnar var að fletta upp veginum yfir Lónsheiði í Vegahandbókinni 1974. Á þessu ári var hringvegurinn opnaður og lá hann um þrjá töffarafjallvegi sem nú eru aflagðir, Lónsheiði, Möðrudalsfjallgarð og Vaðlaheiði. Annað sem undirrituðum þótti mjög athyglisvert er að á þessum tíma var enn ekki búið að leggja lokahönd á Djúpveg um Hestfjörð og er fyrirhugaður vegur sýndur með punktum (vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði var síðan ekki opnaður fyrr en 1984).
Vegahandbókin brást heldur ekki væntingum þegar kom að „Minnisatriðum fyrir ferðalanga“. Þar segir m.a.:
„panta hárlagningu núna, svo frúin fái strax tíma, þegar heim er komið“
Næsti minnispunktur er litlu síðri:
„panta hárlagningu úti á landi, ef þess gerist þörf“
Þessi gjöf kallar á rassíu í þekkingaröflun á gömlum veglínum í sumar.
Brandarinn fattaður í beinni
Það var ekki fyrr en á sunnudaginn sem Ormurinn skildi eina af gjöfunum sem útskriftarefni gáfu honum á dimiteringu síðastliðinn miðvikudag. Við það tækifæri afhentu Y-bekkingar honum haug af súkkulaðistykkjum sem voru í senn sniðug og hagnýt gjöf. Það sannaðist skömmu síðar þegar kennarinn komst að því að Marsstykki eru alls ekki slæmur hádegisverður.
Svo liðu heilir fimm dagar uns kennarinn áttaði sig á þema gjafarinnar. Hin súkkulaðistykkin voru nefnilega Galaxy Caramel og Milky Way.
Miklihvellur og sjónvarpssuð
Eitt dæmanna í stjarneðlisfræði I í dag fjallaði um styrk örbylgjukliðsins í samanburði við sjónvarpsmerki frá sendi í 70 km fjarlægð.
Eitthvað hljómar þetta kunnuglega.
Antares-fiseindasjónaukinn
Bloggari mælir með nýjustu fréttinni á Stjörnufræðivefnum en hún fjallar um tröllaukinn fiseindasjónauka sem verið er að setja upp á hafsbotni undan suðurströnd Frakklands.
Rétt er að taka fram að bloggari verður seint talinn hlutlaus í fjölmiðlarýni sinni. en ek heiti Sverrir 16:28
Einnig er búið að setja inn síðu um sólina undir liðnum „sólkerfið“.
Draumfarir Ormsins
Í nótt dreymdi undirritaðan hræðilegan draum. Það var búið að koma fyrir flóðlýsingu á æfingarsvæði KR við Starhagann.
Þetta olli náttúrulega hinni megnustu ljósmengun og sýnir svart á hvítu hve slæmum hlutum þetta íþróttafélag getur komið til leiðar. en ek heiti Sverrir 21:56