Hrísey kom bloggara á óvart í gærkvöldi með óalgengu, en þó mögnuðu, umferðaskilti (sem m.a. var hægt að sjá í tveimur eintökum á leið upp á Kópavogsbrúna við Gerðarsafn).
Tréð við Grænumýrartungu í Hrútafirði var á sínum stað, sem og Borgarvirki og Hraundrangar.
Á eftir er á dagskránni grill hjá afa og ömmu, Vallartröð. en ek heiti Sverrir 17:28
Á einhvern hátt barst talið að innmat og minntist mamma þá „sláturvetrarins mikla“ í Barmahlíð 5 (um það leyti sem undirritaður fæddist (´78-´80)). Þá tóku foreldrar og tengdaforeldrar slátur og sendu í Barmahlíðina. Systir mömmu gerði það sama og konan á fyrstu hæðinni lét ungu hjónin fá nokkra keppi. Eins og við var að búast var mikið etið af slátri þann veturinn, reyndar svo mikið að mamma var búin að fá sig fullsadda þegar slátrið tók að berast haustið eftir. Pabba þykir slátrið hins vegar gott og það hefur því oft verið á boðstólum síðan.
Eyjólf setti hljóðan þegar mamma ljóstraði því upp að hún hefði aldrei borðað slátur. Hann hafði aldrei tekið eftir því að hún léti sitt eftir liggja í þessum málum.
Og hvernig fór hún að því að þykjast borða slátur í öll þessi ár? Jú, með því að vera á stöðugum þeytingi um eldhúsið, hræra í uppstúfnum og sinna steikarahlutverkinu.
Bloggari telur litla bróður samt góðan, þrátt fyrir allt. Hann er á leið í 10. bekk eftir fáeina daga. Sjálfur komst undirritaður ekki að þessu fyrr en langt var liðið á menntaskólann. en ek heiti Sverrir 00:24
En nú skal haldið niður í bæ með Sævari og tekið hús á þeim Vísindavefsmönnum í TopShop-húsinu. Kannski Ormurinn ljóði einni eða tveimur spurningum á BD, hver veit? en ek heiti Sverrir 19:15
Bloggari rakst á þessa síðu við leit að korti sem sýnir hvar segulskautið nyrðra er niðurkomið á hnettinum. Þótt síðan láti lítið yfir sér koma þarna fram a.m.k. tveir merkilegir fróðleiksmolar.
Í fyrsta lagi er þarna sýnt hve langt segulskautið hefur færst á hálfri öld. Það er engin smá vegalengd (og raunar stórmerkilegt út af fyrir sig).
Síðan kemur fróðleiksmoli dagsins:
„Segulskautið nyrðra er suðurpóll segulsviðs jarðar.“
Bloggari hrökk í kút við þessar fregnir. Skýringin er hins vegar í hópi þeirra einfaldari þegar kemur að jarðeðlisfræðinni (ekki það að Ormurinn viti nokkurn skapaðan hlut um jarðeðlisfræði).
Þegar menn skilgreindu norðurpól og suðurpól á áttavitanál, þá var norðurpóll nálarinnar skilgreindur sem sá endi sem vísaði í norður. Og að hverju dregst norðurpóll segulnálar? Jú, að suðurpólnum á segulsviði jarðarinnar.
Alkunn sannindi
Þetta hefur Ormurinn alltaf vitað. en ek heiti Sverrir 13:31
A.m.k. fékk bloggari forláta gjöf á afmælinu: Alþingishátíðarútgáfu Morgunblaðsins frá 1930 (í lit).
Þótt Ormurinn hafi bara rétt komist til þess að blaða í henni en er samt ljóst að auglýsingarnar stela senunni. Það er ekki oft sem maður rekst á auglýsingar frá Brjóstsykursgerðinni Nóa, Silla og Valda og Hvannbergsbræðrum í sama blaðinu.
Svo er ein Nilfisk-ryksugu auglýsing sem kemur til með að prýða veggi safnsins áður en sumarið er úti. Ef einhver heldur að hér sé aðeins fúlt raforkusafn, þá er hinn sami á villigötum.
Þetta er nefnilega svo miklu, miklu meira. en ek heiti Sverrir 14:58
Bloggari á án efa miklu meira inni en þessi ca. 20%, enda nýtur hann þess heiðurs að komast næst því að vera opinber handhafi íslandsmets í nördaskap. Svo er mál með vexti að vorið 1999 fór þáverandi spurningalið MR í nördapróf hjá Mikael Torfasyni fyrir Fókus. Skemmst er frá því að segja að undirritaður var efstur sem 37% nörd. Ónefndir skólabræður voru reyndar svekktir, þar sem þeir töldu sig auðveldlega getað sallað inn yfir 70%. (Þar var reyndar ekki við menn að eiga enda fengu þeir stig fyrir að hafa forritað í 8 tíma samfleitt o.s.frv.) en ek heiti Sverrir 14:24
Prófessor Guðrún Nordal svarar þessu eftir bestu getu og tekur bæði fyrir grunnorð og samsett orð.
Í grunnorðum geta komið fyrir fjórir samhljóðar í upphafi orðs (strjúka) og þrír í enda orðs (rusls).
Fjörið hefst þó fyrst fyrir alvöru þegar samsett orð eru tekin fyrir.
Orð með fimm samhljóðum eru t.d. jarðskjálfti og handsprengja. Sjaldgæfari (en jafnframt svalari) eru orð með sex samhljóðum í röð eins og hákarlsskrápur. Guðrún týnir svo til eitt orð sem dæmi um sjö samhljóða orð. Það er orðið hundsstrjúpi (hálsinn á hundinum skv. Orðabók Menningarsjóðs). Það er ekki slæmur árangur.
Það skal tekið fram að Ormurinn vill ekki hafa í frammi nokkurn atvinnuróg, en hann grunar samt að orð sem hann heyrði á heimili sínu í æsku fari létt með að slá út það sem fræðingurinn fyrir sunnan hefur upp á að bjóða.
Svo er mál með vexti að þegar bloggari var að vaxa úr grasi varð föður hans tíðrætt um þá tíma þegar vöruskipti tíðkuðust í millilandaverslun. Kunni hann sögu af manni sem lenti í því óláni að fá sér finnskan bíl (en þeir voru seldir hér um mjög skamma hríð).
Eitthvað var bíll þessi vanstilltur og erfiður í gang á morgnana. Varð þá manninum að orði: „Það er alveg greinilegt að Finninn kann ekkert að smíða bíla. Hér sit ég uppi með þennan bölvaða finnsksskrjóð en hefði betur haldið mig við gamla góða freðmýrarstálið.“
Já, það var hart í ári í þá daga. en ek heiti Sverrir 13:01