Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

þriðjudagur, apríl 29, 2003
Miðvikudagsbloggið hið minna

Jæja.

Langt er um liðið síðan Ormurinn bloggaði síðast svo það er best að koma sér að efninu hið snarasta.

Jafnframt þakkar undirritaður heillaóskir í tilefni afmælisins. Tuttugasta og fimmta aldursárið fer vel af stað. Nú getur bloggari klætt sig eins og alvörustjarnvísindamaður (mínus flíspeysan og gallabuxurnar).

Afmælisdagurinn

Fyrri hluti dagsins var hefðbundinn skóladagur en þó með frjálsri mætingu hjá 10. bekk. Tveir mættu í stærðfræðitímann (annar átti einnig afmæli) og fengu sér köku úr bakaríinu (já, Ormurinn hreinlega nennti ekki að baka á fimmtudagskvöldið). Níundubekkingar hámuðu hana svo í sig í síðasta tímanum. Eftir að hafa verið beðinn um að gera „eitthvað skemmtilegt“ í tímanum í tilefni afmælisins ákvað hann að leyfa þeim að reikna stærðfræði. Það er greinilegt að kynslóðirnar leggja ekki alveg sama skilning í orðið „skemmtilegt“.

Bloggari fór upp í nýju höfuðstöðvarnar Orkuveitunnar (a.k.a. Helstirnið )seinni partinn sem safnnördi í félagsskap
besta og frægasta bloggarans. Húsið er glæsilegt en ekkert sérlega hentugt fyrir lofthrædda. Ferð í lofthræðslulyftu upp á 4.hæð gekk þokkalega eftir ráðleggingar Stefáns um að mæna á lyftuvegginn en á leið niður fundu félagarnir nýja lyftu sem var inni í öðru húsinu en ekki í lestinni (nýgerv.).

Um kvöldið var harðkjarnanum (5 manns) stefnt á Lynghagann, hvar skyldi grilla. Það er samt ljóst að næst verður grillið (´86) ekki þakið að þremur áttundu hlutum með kartöflum sem tekur 45-60 mínútur að grilla. Eftir ár og öld rötuðu hamborgarar og grillkjöt á borð þolinmóðra gesta en í eftirrétt var boðið upp á ljúffenga banana með súkkulaði og rjóma.

Laugardagurinn

Dagurinn hófst á því að bloggari hélt á léttu hlutunum fyrir Ögmund og Ólöfu í flutningum þeirra niður í bæ. Svo tók við vakt á Minjasafninu og um kvöldið var kórteiti í Grafarvoginum. Ormurinn fékk nett menningarsjokk þegar hann sá ofnana ofan í gólfunum og falið bassabox í eldhússinnréttingunni. Annað var innanhússhannað eftir þessu.

Sunnudagurinn

Einu sinni sem oftar var sunnudagamatur hjá afa og ömmu. Falski hérinn stóð vel fyrir sínu og ekki spillti fyrir að bræðurnir fengu að brúka silfurhamarinn til að brjóta niður páskaegg í eftirrétt. Það var stemmning.

Sumarkveðja

Bloggari var beðinn fyrir sumarkveðju til foreldranna suður frá. Eftir skamma íhugun fattaði hann að þar er að koma haust og síðan vetur.

en ek heiti Sverrir 14:12




föstudagur, apríl 25, 2003fimmtudagur, apríl 24, 2003
Góður dagur

Sumarið, vel heppnaðir kórtónleikar ásamt KFC.

Hvað getur maður sagt?

en ek heiti Sverrir 22:02




Blogg á nýju sumri

Margt hefur á daga bloggara drifið síðan hann bloggaði á laugardaginn (já, bloggafvötnunin hefur gengið bærilega).

Hæst ber átveislu ársins hingað til um páskahelgina. Hún hófst með rölti bræðranna yfir á Hróa á Hringbraut á laugardagskvöldið, hvar snædd var dýrindisbaka með papriku og rauðlauk.

Eftir páskaeggjaátið hið fyrra á sunnudagsmorgun héldu Lynghagabúar í Akurgerði og snæddu dýrindissvínasteik hjá afa og ömmu. Trifflíið stóð einnig undir vængingum (sem voru miklar). Eftir matinn dró afinn fram silfurhamar frá langafa og Góuegg. Eggið það kom sterkt inn og var alls ekki síðra en páskaeggin frá Nóa og Síríusi sem voru í boði í Vesturbænum. Innvolsið í eggjunum frá Nóa hefur líka farið mjög hrakandi í seinni tíð. Er því ekki ólíklegt að fjölskyldan beini viðskiptum sínum til Helga á næsta ári (ekki getur heldur sakað að bojkotta Kolkrabbann).

Marokkóska páskalambið á Aragötunni um kvöldið kórónaði svo ánægjulegan páskadag.

Götunördaskapur

Ekki þykir bloggara leiðinlegt að sjá gamla Kolasundið merkt inn á kort í glugga á Hafnarstræti 18 við Lækjartorg, en svo nefnir teiknarinn portið á bak við Héraðsdóm, þar sem Kolasundið var hlið Útvegsbankans gamla. Nafnið er þó ekki að finna á korti í Borgarvefsjá.

Kórtónleikar

MR-kórinn er með tónleika í Salnum á eftir kl. 17. Hápunktur tónleikanna verður væntanlega flutningur á all-sérstæðu verki Atla Heimis.

Grillun dagsins

Nú eru bloggin hér á síðunni misáhugaverð og ekki endilega sami hópur sem hefur áhuga á götum og þjóðvegum, stjörnufræði, kennslu og því sem bloggari lætur ofan í sig.

Væri því ekki málið fyrir undirritaðan að slá við öllum þeim í stétt bloggara sem hafa lofað n-þúsundasta lesendanum gulli og grænum skógum og gefa heldur heppnum lesanda t.d. gasgrill eða konfektkassa fyrir að lesa öll blogg mánaðarins?

en ek heiti Sverrir 11:58




laugardagur, apríl 19, 2003föstudagur, apríl 18, 2003fimmtudagur, apríl 17, 2003miðvikudagur, apríl 16, 2003
Verkamaðurinn og afætan

Ormurinn rakst á
þennan annálaða myndbút á netinu. (Athugið að tengingin er hæg og gæðin lítil.)

en ek heiti Sverrir 12:30




Lykt af þvotti og tölvuleikir

Litli bróðir var duglegur í dag og hengdi nýþvegin sængurföt út á snúru. Þegar bloggari braut þau saman minnti lyktin hann sterklega á tölvuleikina Sim City 2000 og Railroad Tycoon. Eftir skamma umhugsun mundi hann eftir því að þetta voru tölvuleikirnir sem hann spilaði heima hjá Jónatani í 10. bekk en þar var mjög svipuð lykt.

en ek heiti Sverrir 00:22




þriðjudagur, apríl 15, 2003
Veganördablogg

12. tbl. Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar kom inn um lúguna í gær. Þetta tölublað var heilar 8 síður og kemst nærri því að slá öll fyrri tölublöð út í merkilegum upplýsingum, enda ekki á hverjum degi sem birt eru tvö kort yfir helstu stórverkefni á samgönguáætlun 2003-2014.

Eitt af því fyrsta sem Ormurinn rak augun í var stytting hringvegarins í Hornafirði um eina 11 km með nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót (enda er gamla brúin (254 m) frá 1961). Af öðrum spennandi vegabótum má nefna veg yfir Hvítá milli Bræðratungu og Flúða, nýjan Gjábakkaveg milli Laugavatns og Þingvalla, ásamt jarögöngum undir Almannaskarð.

Á höfuðborgarsvæðinu mátti einnig sjá margt spennandi, s.s. nýjan Úlfarsfellsveg (430) á 3. tímabili, auk þess sem Sundabraut (450) var teiknuð inn á kort eftir innri leiðinni sem Vegagerðin er spennt fyrir (sem og bloggari) en síður sumir borgarfulltrúar.

Vegnúmerin sjálf eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Þótt bræðurnir vissu að Bústaðavegur og Stekkjarbakki væru þjóðvegir í þéttbýli voru þeir ekki með númerin á tæru (sá fyrrnefndi ber númerið 418 en sá síðarnefndi 419). Á kortinu má jafnframt sjá að mesti þjóðvegur landsins, Nesbraut (49), sem gengur iðulega undir heitinu Vesturlandsvegur/Miklabraut/Hringbraut nær eftir Eiðsgranda alla leið út á Seltjarnarnes og endar þar við Heilsugæslustöðina. Jafnframt er nokkuð skondið til þess að vita að Reykjanesbrautin (41) fer undir Nesbrautina í Elliðaárdalnum en endar svo í Ánanaustum við Nesbraut (Hringbraut/Eiðsgrandi).

Á korti Vegagerðarinnar er því samt sleppt að númera þrjá stóra þjóðvegi, einn þeirra reyndar eðli málsins samkvæmt. Þegar bloggari náði í
skrá yfir alla þjóðvegi á Íslandi til að athuga hvort Sundabrautin væri ekki örugglega númer 450 rakst hann á veg nr. 470, Fjarðarbraut, sem er samheiti yfir göturnar sem liggja í gegnum Hafnarfjörð frá Reykjavíkurvegi til Ásbrautar. Af þriðja nafntogaða veginum í skránni, Fossvogsbraut (409), er hins vegar lítið að frétta eftir stjórnarskiptin í Reykjavík 1994. Orminum þykir þó sennilegt að farið verði af stað við fyrri áfanga hennar innan tveggja áratuga eftir að farið verður að byggja í Vatnsmýrinni, hvort sem það verða þá göng í gegnum Öskjuhlíðina eða vegur inn með Fossvogi. Ef til vill er 400 milljón króna vegur um Hlíðarfót að samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll aðeins fyrsti áfanginn?

Zombie í fyrramálið

Bloggari hefur ýmsar heimildir fyrir því að nú sé málið að sitja límdur við viðtækið í fyrramálið.

Shanghairiddararnir

Ormurinn fór á nýjustu mynd Chackie Chans í gær. Hún var alls ekki svo slæm.

en ek heiti Sverrir 15:34




mánudagur, apríl 14, 2003laugardagur, apríl 12, 2003
Laugardagsblogg

Þá er dimissio afstaðið og páskafríið hafið fyrir alvöru.

Kennarinn varð hálf-hrærður þegar nemendur gáfu honum fullt af stjörnum (m.a. ósæranleikastjörnuna úr SMB) ásamt ljómandi sætu korti í kveðjugjöf í gær.

Aðrir viðstaddir forvitnuðust m.a. um hvort bloggari hafi hugsað sér að kenna stjörnufræði næsta vetur (enda vissara að hafa varan á og velja þá annað valfag). Tíminn einn mun leiða það í ljós. Þó er ljóst að nemendahópurinn í vetur og síðastliðið vor hefur ekki minnkað líkurnar á að af því verði.

Að loknum skyldustörfum í Menntaskólanum (lesist: skráningu vetrareinkunna) fór Ormurinn upp í kosningamiðstöðina í Ingólfsstræti. Þar var hersing stúdentsefna og þóttu menn mishallir undir málstaðinn. Eins og við var að búast vöktu búningar Y-bekkinga mesta lukku enda dimmiteruðu þeir sem vinstri grænir(!), grænmálaðir vinstra megin og hvítmálaðir hinum megin.

Stjörnukortin

Ormurinn ætlar að komast sem lengst áleiðis í dag í því að ganga frá eftir stjörnufræðikennsluna. Því er vel við hæfi að setja á vefinn bæði stjörnukortin sem nemendurnir fengu í vor. (Ath. rúm 300 k að stærð + örlítið grámygluleg eftir skönnunina)

Vetrarhiminn.jpg

Sumarhiminn.jpg

Miller´s Crossing

Eftir annasaman dag í gær leigði bloggari mynd Coen-bræðra frá 1990. Hún stóð vel fyrir sínu.

en ek heiti Sverrir 13:33




föstudagur, apríl 11, 2003
Pólitík á kennarastofunni

Flokkurinn er að kynna stefnumál sín á kennarastofunni og á meðan hangir Ormurinn í tölvunni. Í ljósi slagorðs hans í kosningabaráttunni væri þó trúlega skynsamlegra að sýna sig á svæðinu.

Eftir hálftíma eða svo fer kennarinn í páskafríið.

En fyrst er það dimissio.

en ek heiti Sverrir 09:47




Rússnesk veggspjöld

Í gær fóru bræðurnir á skemmtilega
sýningu á sovéskum áróðursveggspjöldum í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Mörg þeirra voru mjög áhrifarík og ekki dró rússneskan úr skemmtanagildinu þegar farið var að leita eftir alþjóðlegu orðunum í textanum.

Taóisti á kennarastóli

Ormurinn þreytist seint á að dásama þolinmæði samstarfsmanns. Nýjasta lögmálið hljóðar svo: „Vandamál hafa tilhneigingu til þess að leysast“ og nefndi kennarinn tvö dæmi frá því í dag máli sínu til stuðnings. Hann hefur áður fengið birt véfréttarlögmál sitt varðandi umsagnir um þokkalega fyrirlestra („Margt kom vel fram“).

Ísbíltúr

Í ísbíltúr áðan sannreyndi bloggari að honum þykir ísinn á Hagamelnum betri en sá sem er boðið upp á í Álfheimum.

en ek heiti Sverrir 01:40




miðvikudagur, apríl 09, 2003þriðjudagur, apríl 08, 2003mánudagur, apríl 07, 2003sunnudagur, apríl 06, 2003
Viðburðarík helgi

Á föstudaginn fór Ormurinn í fyrsta sinn á MORFÍS. Rimman var jöfn og því meira svekkjandi en ella að horfa upp á Verslingana vinna. Ræðumaður Íslands, Jóhann Alfreð Kristinsson, var firnagóður.
Hér er úttekt oddadómarans á viðureigninni. Eftir þetta var tekið hús á afmælisfagnaði á Nesveginum, þar sem gestir skemmtu sjálfum sér og öðrum með karókísöng (mætti prófa það einhvern tíma á Lynghaganum).

Eftir að hafa legið í bleyti í Árbæjarlauginni seinnipartinn í gær, snæddi bloggari gómsæta grillpinna og hélt svo á Nóa Albínóa í Háskólabíói. Myndin sú er tvímælalaust með bestu íslensku kvikmyndunum sem bloggari hefur séð.

Í hádeginu í dag snæddu bræðurnir kjúkling og köku í Akurgerðinu. Svo tók við kóræfing þar sem lag Atla Heimis sló í gegn hjá bloggara. Áheyrendur á sumardaginn fyrsta skyldu samt spenna á sig sætisólarnar.

en ek heiti Sverrir 19:24




fimmtudagur, apríl 03, 2003
Hraðbraut í fóstur

Fyrir nokkrum árum stóð yfir landgræðsluátak þar sem mátti taka flag í fóstur (rétt eins og ónefndur kvikmyndagerðarmaður hét að gera).

Í Vesturheimi hafa menn þó bætt um betur en þar er hægt að taka
hraðbraut í fóstur.

en ek heiti Sverrir 21:38




Morfís

Snabbinn keypti í dag miða fyrir bræðurna á Morfís annað kvöld. Þetta verður þar með fyrsta opinbera ræðukeppnin sem bloggari fer á (fór reyndar ´95 á nýliðakeppni MR og MH). Þó hefur hann séð nokkrar bekkjarkeppnir í MR og er reyndar ósigraður í ræðumennsku eftir að 3.O vann 3.G en Ormurinn var liðsstjóri O-bekkjarins.

MP3 tölvan

Bloggari reyndi nýju græjurnar í Cösu í dag. Þær koma sterkar inn.

en ek heiti Sverrir 15:28




miðvikudagur, apríl 02, 2003þriðjudagur, apríl 01, 2003
Íslensk ljósmynd á APOD fyrir 1 ári síðan

Hér er slóðin á ægifagra mynd af norðurljósunum sem Sigurður H. Stefnisson tók.

Svo er önnur mynd af sama vef sem er frekar í ætt við daginn í dag.

en ek heiti Sverrir 22:23




Bloggað úr heimahúsi

Ormurinn bloggar nú af Lynghaganum þar sem fremri gangurinn er fullur af pokum eftir teitina. Tiltekt lýkur með lokaáhlaupi annað kvöld.

Hann er kominn með nýtt lyklaborð í hendurnar eftir að
Forsetinn skutlaði honum í nýju, glæsilegu Applebúðina í Brautarholtinu. Bloggari vill jafnframt blása á efasemdir sumra um framtakið. Svo er það skrifarinn í kvöld.

Nokkuð fyndið að sigurvegarinn í söngkeppni framhaldsskólanna og fyrirliði MR-liðsins í GB skuli bæði hafa hampað Hljóðnemanum og átt afmæli.

Mallakúturinn

Ormurinn smellti á slóð á arabískt blogg á Bloggernum fyrr í dag (enda lítið annað hægt að gera). Bloggið og heimasíðan, sem vísað var á neðst á því, eru með ansi kostulega slóð.

Aprílgöbb

Ormurinn lætur oftast glepjast. Dagurinn í dag er þar engin undantekning. Kennarinn ákvað samt að stilla sig um að senda nemendur upp á skrifstofu „eftir ljósritum“.

Ættfærsla

Í teitinu um helgina fékk bloggari að sjá andlitin á ýmsum sem hann kannast bara við í gegnum bloggin. Einn þeirra er Gvendurinn, hverjum Ormurinn var samferða í bíl Höskuldar vestur í bæ. Það var þó ekki fyrr en nokkrum klukkustundum seinna að það kom í ljós hverra manna hann var, en undirritaður hafði einmitt rekist á systur hans og fyrrverandi bekkjarsystur í X-inu fyrr um daginn. Það bætti þó úr skák að bloggari tók hinn sessunaut systurinnar með sér í fallinu.

en ek heiti Sverrir 19:50




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.