Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

sunnudagur, ágúst 31, 2003
Biðstöðvin sem gleymdist

-pirringsblogg-

Á leið sinni á safnið tekur bloggari strætisvagn númer 110 eða 115.

Samkvæmt leiðakerfinu á vagnstjórinn að stöðva vagninn undir brúnni við bifreiðaumboðið Ingvar Helgason. Svoleiðis lagað gera strætisvagnabílstjórar hins vegar yfirleitt ekki.

Af síðustu sjö skiptum hefur bílstjórinn stöðvað tvisvar sinnum ótilneyddur. Og það þrátt fyrir að okkar maður sé staðinn upp og hafi gert sig „líklegan“ til að yfirgefa vagninn.

Í dag hafði Ormurinn fengið sig fullsaddan á þessu eftirtektarleysi. Í staðinn fyrir að hefja setninguna á því að kalla „fyrirgefið, gætirðu nokkuð stöðvað vagninn?“ lét hann vaða í frekjutón: „Viltu stöðva vagninn! Takk fyrir.“

Nú er hins vegar orðið nokkuð seint að kenna vagnstjórunum hvar þeir eiga að stöðva við sumarvinnustaðinn.

Minjar um vinstri umferð

-minningarblogg-

Í vikunni afmáðu verktakar einhverjar af síðustu minjunum um vinstri umferð á Íslandi.

Norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar var gömul beygjuakrein frá því fyrir 1968, sem hefur fengið að vera í 35 ár. Lengi vel voru þær fjórar systurnar, en sú sem varð næstelst var við Miklubrautina að vestanverðu. Hún hvarf fyrir skömmu.

Nú er sú fjórða fyrir bí. Það hefði samt verið í góðu lagi að leyfa henni að vera uns farið væri í stórtækari aðgerðir á gatnamótunum.

en ek heiti Sverrir 14:38




laugardagur, ágúst 23, 2003
Bloggað af Bláu könnunni

Ormurinn er staddur á Bláu könnunni á Akureyri í blíðskaparveðri. Sprakk á bílnum í gær (og reyndar einnig í fyrradag hjá
Vonbrigdabloggaranum) á leið frá Hvítserk.

Hrísey kom bloggara á óvart í gærkvöldi með óalgengu, en þó mögnuðu, umferðaskilti (sem m.a. var hægt að sjá í tveimur eintökum á leið upp á Kópavogsbrúna við Gerðarsafn).

Tréð við Grænumýrartungu í Hrútafirði var á sínum stað, sem og Borgarvirki og Hraundrangar.

Á eftir er á dagskránni grill hjá afa og ömmu, Vallartröð.

en ek heiti Sverrir 17:28




fimmtudagur, ágúst 21, 2003
Norðlensk slaufa

Það var fleira sem bloggari komst að í matarboðinu magnaða. Til dæmis því, að mamma bindur eins slaufu og hann (sem hún kýs að kalla „norðlenska slaufu“).

Vissulega er slaufan hin gæðalegasta (enda er hún eins og slaufur þær sem algengast er að hnýta - aðeins hnýtt á annan hátt). En að hálfur unglingavinnuhópurinn í Hrauneyjum hafi gónt úr sér augum við að sjá Orminn varpa reimunum hverri yfir aðra. það er kostulegt. Og það á litlum 6,4 sekúndum eða svo, á meðan meðalmaðurinn er ca. 1,7 sekúndur að hnýta eina litla slaufu.

Undirritaður fer þó varla að læra nýja aðferð úr þessu.

Súbarú

„Frúin hlær í betri bíl“ - frá Aðalbílasölunni.

Mamma festi kaup á nýjum bíl í gær af gerðinni Subaru Forester. Bloggari hefur reynt sjálfrennireiðina og komist að því að hún er ekki sem verst til krúsunar um bæinn (ískalt mat).

Annars fer tvennum sögum innan fjölskyldunnar af uppruna orðsins súbarú. Þegar afi og amma eignuðust sinn fyrsta súbarú skýrðu þau nafnið sem hljóðlíkingu. Það heyrðist nefnilega alltaf „zúbb“ í samlæsingunni (sem vissulega var nýjabrum í þann tíð). Var þá oft haft á orði „zúbb í súbarú“.

Síðar frétti Ormurinn það á skotspónum að súbarú merkti sjöstirni í japönsku (en það verður nú að teljast öllu ólíklegri skýring).

Nýir bloggarar á vinstri kantinum

Bloggari hefur bætt við tveimur slóðum á vinstri kantinn á blogg þeirra
Fjalars og Tótu. Þau eru skyldulesning.

en ek heiti Sverrir 00:33




Stund sannleikans

Sumir trúa ekki á stund sannleikans.

Kvöldverðarboðið hjá afa og ömmu í Akurgerði á sunnudag komst samt býsna nærri. Bloggari, mamma og
Eyjólfur gæddu sér á lambalæri að hætti hússins og var tröllaukin súkkulaðikaka í eftirrétt.

Á einhvern hátt barst talið að innmat og minntist mamma þá „sláturvetrarins mikla“ í Barmahlíð 5 (um það leyti sem undirritaður fæddist (´78-´80)). Þá tóku foreldrar og tengdaforeldrar slátur og sendu í Barmahlíðina. Systir mömmu gerði það sama og konan á fyrstu hæðinni lét ungu hjónin fá nokkra keppi. Eins og við var að búast var mikið etið af slátri þann veturinn, reyndar svo mikið að mamma var búin að fá sig fullsadda þegar slátrið tók að berast haustið eftir. Pabba þykir slátrið hins vegar gott og það hefur því oft verið á boðstólum síðan.

Eyjólf setti hljóðan þegar mamma ljóstraði því upp að hún hefði aldrei borðað slátur. Hann hafði aldrei tekið eftir því að hún léti sitt eftir liggja í þessum málum.

Og hvernig fór hún að því að þykjast borða slátur í öll þessi ár? Jú, með því að vera á stöðugum þeytingi um eldhúsið, hræra í uppstúfnum og sinna steikarahlutverkinu.

Bloggari telur litla bróður samt góðan, þrátt fyrir allt. Hann er á leið í 10. bekk eftir fáeina daga. Sjálfur komst undirritaður ekki að þessu fyrr en langt var liðið á menntaskólann.

en ek heiti Sverrir 00:24




þriðjudagur, ágúst 19, 2003laugardagur, ágúst 16, 2003föstudagur, ágúst 15, 2003
Kúríósítet dagsins úr jarðeðlisfræðinni

Bloggari rakst á
þessa síðu við leit að korti sem sýnir hvar segulskautið nyrðra er niðurkomið á hnettinum. Þótt síðan láti lítið yfir sér koma þarna fram a.m.k. tveir merkilegir fróðleiksmolar.

Í fyrsta lagi er þarna sýnt hve langt segulskautið hefur færst á hálfri öld. Það er engin smá vegalengd (og raunar stórmerkilegt út af fyrir sig).

Síðan kemur fróðleiksmoli dagsins:

„Segulskautið nyrðra er suðurpóll segulsviðs jarðar.“

Bloggari hrökk í kút við þessar fregnir. Skýringin er hins vegar í hópi þeirra einfaldari þegar kemur að jarðeðlisfræðinni (ekki það að Ormurinn viti nokkurn skapaðan hlut um jarðeðlisfræði).

Þegar menn skilgreindu norðurpól og suðurpól á áttavitanál, þá var norðurpóll nálarinnar skilgreindur sem sá endi sem vísaði í norður. Og að hverju dregst norðurpóll segulnálar? Jú, að suðurpólnum á segulsviði jarðarinnar.

Alkunn sannindi

Þetta hefur Ormurinn alltaf vitað.

en ek heiti Sverrir 13:31




fimmtudagur, ágúst 14, 2003
Efstur á lista hjá Mömmu

Það er ekki slæmt að tróna á toppnum hjá
Móður allra leitarvéla.

en ek heiti Sverrir 16:45




Shell



en ek heiti Sverrir 16:04




Fjölskylda á faraldsfæti

Í fyrramálið heldur Snabbi bróðir í GB-víking til Barcelona. Bloggari getur hugsað sér ýmsa síðri staði til að heimsækja í vinningsferð. Búið er að setja mikla pressu á menn með að heimsækja ónefndan skemmtistað við Römbluna.

Síðdegis á morgun halda mamma og Eyjólfur af stað til Íslands frá Höfðaborg, þar sem fjölskyldan dvelur nú í góðu yfirlæti. Þeirra bíður svo næturflug til Evrópu og bið á flugvelli eftir flugi til Íslands. Hingað koma þau ekki fyrr en seint á föstudagskvöld.

Pabba bíður hins vegar það erfiða hlutskipti að snúa aftur til Mósambík og vinna fram í lok nóvember, en þá rennur út samningurinn við Þróunarsamvinnustofnun. Ætli bloggari taki það ekki að sér að láta Eyjólf ryksuga þangað til.

en ek heiti Sverrir 00:46




Rebbi

Loðdýraræktendur hefðu seint verið sakað um að hylma yfir tilgang félagsins í þessari auglýsingu í Viðskiptaskránni frá 1948.



Athyglisvert hvað allir minkarnir eru ólmir í að komast til Reykjavíkur og láta flytja sig út.

Ætli Félag hrefnuveiðimanna sé með mynd af skutluðum hval í merki sínu?

en ek heiti Sverrir 00:25




miðvikudagur, ágúst 13, 2003sunnudagur, ágúst 10, 2003laugardagur, ágúst 09, 2003föstudagur, ágúst 08, 2003
Í tækinu

Bloggari festi kaup á tveimur diskum í Hagkaupum, Kringlunni, í dag. Fyrsti plata Megasar og Frelsi til sölu fengu að fljóta með á færibandið ásamt hádegisverðinum. Ætli þetta séu tvær af þeim tíu plötum sem mest hafa verið leiknar á Lynghaganum síðasta árið? Nú er hægt að spila þær með ögn betri samvisku.

Það tekur undir í eldhúsinu:

„Hvað heldur þú? Er nauðsynlegt að skjóta þá?“

en ek heiti Sverrir 19:50




Bloggafmælið

Hinn opinberi afmælisdagur bloggara í Netheimumn fyrir tveimur dögum var lítið síðri en sá í Kjötheimum í vor. Má segja að Orminum hafi að nokkru leyti tekist það sem
Bloggari dauðans ætlaði sér í afmælisdagamálum.

A.m.k. fékk bloggari forláta gjöf á afmælinu: Alþingishátíðarútgáfu Morgunblaðsins frá 1930 (í lit).

Þótt Ormurinn hafi bara rétt komist til þess að blaða í henni en er samt ljóst að auglýsingarnar stela senunni. Það er ekki oft sem maður rekst á auglýsingar frá Brjóstsykursgerðinni Nóa, Silla og Valda og Hvannbergsbræðrum í sama blaðinu.

Svo er ein Nilfisk-ryksugu auglýsing sem kemur til með að prýða veggi safnsins áður en sumarið er úti. Ef einhver heldur að hér sé aðeins fúlt raforkusafn, þá er hinn sami á villigötum.

Þetta er nefnilega svo miklu, miklu meira.

en ek heiti Sverrir 14:58




Gimsi á afmæli í dag

Heimilisfaðirinn, sem reyndar hefur búið í Afríku síðustu 27 mánuðina en ekki á Lynghaga, á 49 ára afmæli í dag. Fjölskyldan er nú stödd í skemmtiferð í Höfðaborg áður en mæðginin yfirgefa Afríku þann 14. ágúst. Samningurinn við Þróunarsamvinnustofnun rennur út í lok árs en afmælisbarnið fær sig samt laust í lok nóvember.

Til hamingju með afmælið, pabbi!

en ek heiti Sverrir 14:58




fimmtudagur, ágúst 07, 2003
Nördalegar deilur nörda

Ormurinn segir farir sínar ekki sléttar. Hann var hafður að háði og spotti á MSN-kerfinu eftir að hafa aðeins verið 20,10076% nörd á
þessu prófi. Tekið skal fram að híendur voru ekki nema 22-25% nördar.

Bloggari á án efa miklu meira inni en þessi ca. 20%, enda nýtur hann þess heiðurs að komast næst því að vera opinber handhafi íslandsmets í nördaskap. Svo er mál með vexti að vorið 1999 fór þáverandi spurningalið MR í nördapróf hjá Mikael Torfasyni fyrir Fókus. Skemmst er frá því að segja að undirritaður var efstur sem 37% nörd. Ónefndir skólabræður voru reyndar svekktir, þar sem þeir töldu sig auðveldlega getað sallað inn yfir 70%. (Þar var reyndar ekki við menn að eiga enda fengu þeir stig fyrir að hafa forritað í 8 tíma samfleitt o.s.frv.)

en ek heiti Sverrir 14:24




miðvikudagur, ágúst 06, 2003föstudagur, ágúst 01, 2003
Hver er mesti fjöldi samhljóða í röð?

Á
Vísindavefnum er birt svar við spurningunni „Hvað geta margir samhljóðar komið fyrir í röð innan eins orðs?“.

Prófessor Guðrún Nordal svarar þessu eftir bestu getu og tekur bæði fyrir grunnorð og samsett orð.

Í grunnorðum geta komið fyrir fjórir samhljóðar í upphafi orðs (strjúka) og þrír í enda orðs (rusls).

Fjörið hefst þó fyrst fyrir alvöru þegar samsett orð eru tekin fyrir.

Orð með fimm samhljóðum eru t.d. jarðskjálfti og handsprengja. Sjaldgæfari (en jafnframt svalari) eru orð með sex samhljóðum í röð eins og hákarlsskrápur. Guðrún týnir svo til eitt orð sem dæmi um sjö samhljóða orð. Það er orðið hundsstrjúpi (hálsinn á hundinum skv. Orðabók Menningarsjóðs). Það er ekki slæmur árangur.

Það skal tekið fram að Ormurinn vill ekki hafa í frammi nokkurn atvinnuróg, en hann grunar samt að orð sem hann heyrði á heimili sínu í æsku fari létt með að slá út það sem fræðingurinn fyrir sunnan hefur upp á að bjóða.

Svo er mál með vexti að þegar bloggari var að vaxa úr grasi varð föður hans tíðrætt um þá tíma þegar vöruskipti tíðkuðust í millilandaverslun. Kunni hann sögu af manni sem lenti í því óláni að fá sér finnskan bíl (en þeir voru seldir hér um mjög skamma hríð).

Eitthvað var bíll þessi vanstilltur og erfiður í gang á morgnana. Varð þá manninum að orði: „Það er alveg greinilegt að Finninn kann ekkert að smíða bíla. Hér sit ég uppi með þennan bölvaða finnsksskrjóð en hefði betur haldið mig við gamla góða freðmýrarstálið.“

Já, það var hart í ári í þá daga.

en ek heiti Sverrir 13:01




Mynd

Bloggari hefur ákveðið að hrella lesendur með mynd af sér frá því í síðustu Fróðárferð (haust 2002).

Hann hefur reyndar lúmskan grun um að þetta sé „daginn eftir“ mynd (sem er náttúrulega kostur).

en ek heiti Sverrir 12:10




Myndband mánaðarins

Nú er orðið tímabært að rifja upp gamlan lið á Ormsblogginu.

Myndband mánaðarins er við lagið The Scientist með Coldplay.

Það er snilld.

en ek heiti Sverrir 00:50




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.