Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

föstudagur, júní 27, 2003fimmtudagur, júní 26, 2003
Hnossgæti í Hnakkabæ?

Bloggari hélt austur fyrir fjall(*) í fyrradag. Áfangastaðirnir voru Úlfljótsvatn og Selfoss.

Á leiðinni austur Nesjavallaveg hlýddi bloggari á næstbesta útvarpsefni sem boðið er upp á í dag, lestur höfundar á bókinni Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Ferðin sóttist greitt og eftir skamma dvöl á Úlfjótsvatni og æsilegan flótta var haldið í sundlaugina á Selfossi.

Þangað hafði bloggari ekki komið í 17 ár eða síðan hann var þar á ferðinni með skóladagheimilinu Sólhlíð á leið í Fljótshlíðina 1986. Þar var þá önnur af tveimur rennibrautum í sundlaugum landsins ef bloggara misminnir ekki. Hin var við Hótel Örk í Hveragerði og öllu svakalegri. (Á þessum góðu tímum var Hveragerði svalt. Tívolíið Edinborg var að hefja starfsemi sína, sama gilti um Húsið á sléttunni, rennibrautin við Hótel Örk glæný og undirritaður hafði enn ekki séð í gegnum „glansmynd“ búllunnar Eden).

Það var trúlega ekki fyrr en tveimur árum síðar sem rennibrautin í Laugardal kom til sögunnar. Þá fékk Ormurinn fimm ferða plastrenning þegar hann borgaði sig inn á sundstaðinn með skólagörðunum (fimm ferðir til viðbótar kostuðu 75 krónur). Þann renning er trúlega enn að finna ónotaðan í fórum bloggara.

En nú er tíðin önnur og Selfossveitna-rennibrautin er öllu glæsilegri en forverinn. Önnur „kostuð“ rennibraut á Selfossi er Ostarennibrautin, þar sem verndari hennar, Gotti sjálfur, trónir ofan á. Skilst bloggara að þar hafi fólk komið af léttasta skeiði nánast fest sig enda frekar fyrir ungdóminn.

Svo þessari sundlaugarýni sé látið lokið þá mega Selfyssingar vera mjög stoltir af laug sinni. Innilaug, barnalaug, 3 rennibrautir af öllum stærðum, 4 pottar. Það gerist vart betra í borginni.

Salómonsdómurinn

Þá er komið að þætti Ormsins í Stóra KFC-málinu.

Ein helsta kveikjan að ferðinni var að setja niður deilur í stóra KFC-málinu. Vart hefur farið framhjá blogglesendum að grunnt er á því góða milli
Kattarins og Jarlaskáldsins og hafa þeir félagar hafa hnakkrifist síðustu dagana á blogginu um ágæti matsölu KFC á Selfossi. Hefur Skáldið gripið til þess sem í fræðunum er jafnan nefnt Nonnarökin (The Nonni´s Reasoning) á meðan „þjáningarbræður“ Kattarins hafa flykkst fram á bloggvöllinn.

Þar sem Ormurinn kom inn á þennan nýja KFC-stað í Fossnesti gaus á móti honum steikingarbræla, sem mætti alveg minnka með betri loftræstingu. Ekki var það látið á sig fá, enda menn ýmsu vanir úr Hafnarstrætinu. Við diskinn var svo pöntuð stækkuð Tower-máltíð og Pepsi að súpa á. Aldursforseti vinnustaðarins (vart yfir 18 ára aldri) tók við pöntuninni og skenkti Orminum það vatnsblandaðasta gos sem um getur á gjörvallri ævi hans. Náðu gestirnir þó að stytta biðina með því að telja X-Men leikföngin á matseðlinum. Þar blöstu við fimm leikföng ásamt hvatningu til gesta um að safna öllum fjórum(!) leikföngunum. Um tónlistarval á staðnum er það að segja að tónlistarstjórinn hefur ákveðið að taka ekki mikla áhættu með vali sínu á útvarpsstöðinni FM. Slíkt kemur reyndar fyrir á bestu bæjum (t.d. Nonnabita).

Engin hnífapör fylgdu með (ekki eins og bloggari sé í hópi hnífaparaperverta á skyndibitastöðum) og miðskammturinn af frönskum er sá minnsti sem Ormurinn hefur komist í tæri við hjá KFC-keðjunni. Turninn reyndist rétt ylvolgur og höfðu starfsmenn klúðrað því að láta rétt á hann þannig að borgarinn lá ofan á álegginu (ok, þetta var kannski óþarflega ströng athugasemd).

Bloggari komst þó heill hildi frá en hefur hugsað sér að halda sig við Kaffi krús í næsta leiðangri. Niðurlægingu keðjunnar á Suðurlandi er þó ekki enn lokið því nýjustu fregnir herma að nýr staður sé væntanlegur í Hveragerði.

(*)Bloggari leyfir sér að efast um hvort Hveragerði sé í alvöru fyrir austan fjall. Menn aka nefnilega eftir þjóðveginum yfir Hellisheiði en það mætti segja að menn fari „fyrir“ Ingólfsfjall. Vonandi að einhver fáist til þess að taka þátt í nýrri landafræðideilu.

Á leiðinni í bæinn hlýddi Ormurinn á það besta sem nú er til útvarps. Á FM-957 var sem sagt útvarpsleikur í gangi þar sem útvarpsmaðurinn gaf þeim sem náðu inn helling af smokkum. Tvímælalaust með betri útvarpsleikjum. Það sem þó betra var, voru gestirnir í stúdíóinu sem bragðdæmdu smokka með þulinum. Bananinn var bestur en appelsínubragðið víst aðeins í átt að súkkulaði. Einnig var það að heyra á manninum að súkkulaðismokkur væri væntanlegur á markaðinn seinna í sumar.

Brunahanar

Bloggari vill benda öllum alvöru áhugamönnum um brunahana á þessa gæðasíðu um hugðarefnið.


en ek heiti Sverrir 15:28




mánudagur, júní 23, 2003
Vesturver

Sjálfsagt muna flestir lesenda Ormsbloggsins eftir því þegar bloggari fjallaði um kjúklingamáltíðir í Akurgerðinu og frönskurnar á Kjúklingastaðnum Suðurveri. Það var einmitt í því bloggi sem undirritaður fór að velta fyrir sér
hvar Vesturver og Norðurver var að finna í gamla daga.

Gátan er leyst að hluta.

Á Minjasafni Orkuveitunnar (sem allir menn, sem vilja telja sig til menntamanna, ættu að heimsækja á a.m.k. 5 ára fresti) er að finna þessa mynd af jólaljósunum í Austurstræti á 7. áratugnum:



(Smellið hér ef þið viljið sjá myndina í boðlegum gæðum.)

Ef rýnt er í myndina (ekki litlu eftirmyndina hér að ofan heldur upprunalega eintakið) þá kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Skoðum t.d. Morgunblaðshúsið:



Á neðstu hæð hússins er verslunarmiðstöðin Vesturver.

En hvar ætli Norðurver hafi verið?

en ek heiti Sverrir 23:46




Áfram stjörnufræði

Í dag fékk bloggari í hendurnar ráðningarsamning um 50% kennslu í stjörnufræði við MR næsta vetur.

Verðandi nemendur geta því farið að búa sig andlega undir veturinn. Að lesa bókina hans Fúsa sér til skemmtunar telst t.d. góður andlegur undirbúningur.

Annars er Ormurinn gríðarvel stemmdur fyrir veturinn. Upphitun í formi eðlisfræðiaukakennslu í gær var ekki slæm hugmynd. Það er jú hugmyndin að feta svipaðar slóðir í HÍ ásamt kennslunni (eðlfr./jarðeðlfr.).

Apple G5

Nýju G5 tölvurnar eru rosalegar.

en ek heiti Sverrir 20:13




laugardagur, júní 21, 2003fimmtudagur, júní 19, 2003
Myndir

Þeir alnafnar,
Eyjólfur litli bróðir og Eyjólfur hlaupari hafa báðir sett inn nýjar myndir frá Mósambík.

„Feittchill“ og „badstrandarfilingur“ eru uppáhaldsmyndir Ormsins.

Kvennahlaupið

Fyrir nokkrum árum hljóp móðir bloggara í Kvennahlaupi ÍSÍ í Flatey (á Breiðafirði NB!). Á skrá yfir keppnisstaði í ár eru m.a. Flatey, Hrafnista, Skaftártunga og Namibía (sem er væntanlega syðsti og fjarlægasti keppnisstaðurinn). Þar eru starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar væntanlega áberandi.

Dúfnaborg

Það var aðeins fyrir fáeinum dögum að Ormurinn fattaði að Þóra Marteinsdóttir frænka væri með blogg í Dúfnaborginni.

en ek heiti Sverrir 13:14




föstudagur, júní 13, 2003fimmtudagur, júní 12, 2003
Djammið, næringarráðgjöf, Radiohead

Æði margt hefur drifið á daga bloggara sem hann hefur ekki náð að blogga um síðustu vikurnar. Er við hæfi að rifja ýmislegt upp á þessum vettvangi, ekki síst í ljósi þess að nú fara í hönd skemmtileg kvöld næstu dagana.

Fyrst er þess að geta að á fjórum dögum náði bloggari að keyra jafnmarga bíla; Rauðu þrumuna, Rauða drekann, Silfurrefinn og Neista nýrrar aldar. Það var ekki leiðinlegt fyrir bílleysingja sem hefur ekki sest undir stýri síðan í ágúst.

Svo er þar að segja að föstudagurinn rennur upp ægifagur. Var því tilvalið að stefna að „kaffihúsaferð“ um kvöldið ásamt
sjálfum Forsetanum. Eftir alveg hreint ágæta upphitun á Lynghaganum héldu bjórþyrstir menn á Dillon með stuttum stansi á vegamótum. Kom þá í ljós, bara sisvona, að staðurinn var með efri hæð sem menn höfðu ekki veitt eftirtekt áður sökum ölvunar. Næsta viðkoma var á Hverfisbarnum, en þar var nú heldur daufleg vist enda Jarlaskáldið fjarri góðu gamni í fjallgöngu á Öræfajökli.

Rúsínan í pylsuendanum þetta kvöldið var þó að hitta Viðar eftir 10 mánaða hlé, þar sem hann bauð upp á næringarráðgjöf á Nonnabita. Bekkjarbróðir Kattarins var þar í hlutverki hins vara gests sem skyldi fá sér nautabát, enda væri það besti báturinn og drengurinn enn við hestaheilsu. Aftur á móti skyldu hinir, sem væru búnir að ganga fullnærri heilsu sinni, halda sig við pepperóníbátinn. Sjálfur fékk bloggari sér karríbát með kjúklingi.

Laugardagurinn var öllu rólegri.

Á sunnudaginn var hátíðarmatur í Akurgerði í hádeginu, svínasteik með öllu tilheyrandi. Afinn sagði bræðrunum ferðasöguna frá Mósambík, Krugergarðinum og Svasílandi, ásamt því að leggja fram kvörtun vegna bloggfalls sunnudaginn í vikunni áður. Þá hugsuðu sunnanmenn sér gott til glóðarinnar að líta á Ormsbloggið til að sjá hvað hafði verið í sunnudagamatinn. Veikindi þá helgina settu aftur á móti strik í reikninginn. Eyjólfur hlaupari er búinn að setja inn fleiri myndir úr ferðinni á netið.

Seinnipartinn blésu GF-menn til fótbolta sem segja má að veðrið hafi blásið út af borðinu. Í kjölfarið hittust menn heima hjá Ísleifi og dúkkaði þar upp sjálfur smíðaguðinn, sem hefur dvalið við verkfræðinám í Danaveldi í vetur (þangað sem Svenni er að fara).

Á sunnudagskvöldið var síðan snædd dýrindis veislumáltíð á Austur-Indíafélaginu.

Bæjarferð var helst á döfinni á mánudaginn. Í henni voru fest kaup á hinni stórgóðri plötu Radiohead. Deginum lauk svo með fótbolta um kvöldið.

Mannanafnablogg

Hvað finnst fólki um nafnið „Ninja“? Bloggari verður að játa að hann hefur ekki alveg smekk fyrir því.

en ek heiti Sverrir 14:51




miðvikudagur, júní 11, 2003
Gæsun - annar hluti

Þar sem púki er hlaupinn í bloggara hvort eð er, er rétt að geta
bloggsíðu Gaussstelpunnar þar sem sjá má frásögn af framkvæmd gæsaplansins. Kannski réttast að taka það fram að stelpurnar eru alls ótengdar bloggara, enda einhverjum árum eldri en hann.

Hugmyndin að Gæsaplaninu er góð, þótt útfærslan hafi kannski ekki verið jafn-góð (t.d. að merkja við „public blog“ í stillingum bloggersins).

Ætli Ormurinn eigi ekki góða möguleika á stöðu sem stalkari konungs eftir þetta uppátæki sitt?

en ek heiti Sverrir 09:59




þriðjudagur, júní 10, 2003föstudagur, júní 06, 2003
Rauða kortið á netinu

Kaupin á rauða kortinu gengu eftir í gær. Bloggari sótti það um eittleytið í Ártún en það átti að vera til reiðu í síðasta lagi klukkan tvö. Af einskærum nördaskap spurði Ormurinn hvort einhver annar hefði keypt í gegnum netið. Þegar stelpan í afgreiðslunni kannaðist ekki við það ljómaði bloggari af spenningi. Ef til vill hafði hann orðið fyrstur til þess að kaupa strætókort á netinu hér á landi.

Þær vonir urðu þó að engu seinnipartinn. Í ljós kom í afgreiðslunni á Hlemmi að fleiri en einn höfðu sótt pöntun af netinu. Og þar sem bloggari hafði ekki keypt kortið fyrr en á miðvikudagskvöld verður hann að sætta sig við að vera aðeins í hópi þeirra sem keyptu á netinu fyrsta daginn sem það var hægt.

Mýs

Um daginn keypti Ormurinn mús í BT á heilar 3.000 nýkrónur (spurning um að fara að róa sig á þessum dýrasamlíkingum). Þetta verð náði þó engan veginn að tryggja gæðin, enda var músin algert drasl.

Í gær var bætt úr þessu með kaupum á lítilli optical mús í
Apple IMC búðinni í Brautarholti. Hún er fín. Og hvað ætli herlegheitin hafi kostað? 3.500 krónur, takk fyrir.

Þetta kennir manni þá lexíu að skipta ekki við skítafyrirtæki eins og BT. Bloggari er meira að segja hættur að kaupa skrifanlega í búllunni.

Brómber

Man einhver eftir þeim félögum Boga brómberi og Þremli þyrniberi?

Bloggari fékk brómber í gær. Þau bragðast ekki ósvipað rifsberjum en eru ekki jafn-súr.

Gæsagangur

Á forsíðu Bloggersins rakst Ormurinn á íslenska bloggið Gæsaplan. Bloggara þykir þetta hið forvitnilegasta, enda ekki vanur slíku.

Jafnframt vonar hann að Linda sé ekki að lesa.

en ek heiti Sverrir 09:41




miðvikudagur, júní 04, 2003
Strætókort á netinu

Rautt kort bloggara rann út í dag. Áðan festi hann kaup á korti fyrir sumarið á
nýjum vef Strætó bs..

Nú er bara að sjá hvort kortið verði til reiðu í Ártúni seinnipartinn á morgun.

en ek heiti Sverrir 16:13




Plebbaskólinn

Það er greinilegt á „Stefndu hærra“-auglýsingunum í strætóskýlum
hvaða skóli er mesti plebbaskólinn.

Oj.

Það er nú samt svo að á köflum plebbast menn jafnvel enn meira í kringum Menntaskólann. Hann á þó ekki séns í þessar auglýsingar.

en ek heiti Sverrir 11:40




mánudagur, júní 02, 2003

Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.