Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

föstudagur, janúar 31, 2003fimmtudagur, janúar 30, 2003
Frá miðvikudagsmorgni til fimmtudagskvöld

Ormurinn sýndi nemendum sínum listaverkabækur með myndum eftir Gaugin og Vincent van Gogh í bókmenntatíma í gærmorgun. Fransmaðurinn er reyndar í algeru aukahlutverki í Englunum en Páll Guðmundsson þóttist vera Vincent eftir að hann fór á hælið. Fannst strákunum einna mest koma til myndarinnar af málaranum með umbúðirnar um eyrað.

Tannsaþáttur

Eftir skóla var haldið til tannlæknis. Í strætó fékk stjörnufræðikennarinn vitrun. Óbrigðul minnisregla fyrir röð Galíleótunglanna frá Júpíter er ÍE-GK (fyrirtækjaskammstafanir); Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó.

Þegar bloggari settist loks í tannlæknastólinn ákvað hann að sjá hvort einhver læsileg blöð væru í tímaritabunkanum. Þar var að finna einn árgang af Nýju lífi og eitt tölublað af Four Wheeler. Mjög greinileg kynjaskipting á þeim bænum.

Ekki sakaði Orminn við lestur jeppablaðsins heldur safnaði hann í sarpinn. Nú veit hann nefnilega allt um XUV og það hvernig nítró virkar.

Tannsi reyndist harðhentur sem endranær en þó óvenjujákvæður. Hvatti ekki sérstaklega til aukinnar notkunar á tannþræði og treysti meira að segja Orminum til þess að koma ekki fyrr en í janúar á næsta ári.

Ormurinn er þó ekki viss um að hann standi fyllilega undir þessum væntingum. Við röntgenmyndatöku kom nefnilega í ljós lítil skemmd sem var löguð snarlega með borun og fyllingu.

Við myndatökuna spurði bloggari tannlækninn út í röntgenmyndatæknina og fékk mjög áhugaverðan fyrirlestur.

Í ljós kom m.a. að magn röntgengeislunarinnar við eina myndatöku er svipað og líkaminn verður fyrir á einni klukkustund í flugi. Hefur skammtur geislunar sem þarf til myndatöku minnkað mikið með næmari filmum frá því sem áður var. Jafnframt dreifist geislinn minna en áður og álfilter í röntgenbyssunni veldur því að hann drífur skammt.

Til geislavarna er samt tannlæknastofan öll blýklædd og til verndar fékk bloggari blýkraga (í fyrsta sinn). Er þó sett blýkápa á börn og ófrískar konur (en þar spila þægindi og sálfræði víst mikið inn í). Viðkvæmustu líffærin fyrir geislun eru skjaldkirtillinn (skýrir kragann) og líffærin sem framleiða kynfrumurnar. Einnig eru augun næm fyrir geislun.

Klipping og Skífan

Bloggari lét laga hárið á eftir tönnunum og fékk víst klippinguna „jafnar styttur“. Jafnframt sagði hárskerinn að hár Ormsins yxi frá vinstri til hægri út frá hvirflinum og því skyldi hann færa skiptinguna. Ekki er ónýtt að hafa tvöfaldað þekkingu sína á hárgreiðslu og klippingu.

Næsti viðkomustaður var ekki slæmur, stórverslun Skífunnar við Laugaveg. Nýtti bloggari sér tilboðið „tvær fyrir 2.200“ og bætti fjórum plötum við safn bræðranna. Eiga þeir nú þrjár síðustu breiðskífur Chemical Brothers og fjórar síðustu (af fimm) með Radiohead. Ekki var vont að eignast öll góðu lögin á safndiski Blur sem ekki eru á Parklifeplötunni.

Ræðukeppni og kóræfing

Að fjárútlátu loknum var komið að því að heimsækja Menntaskólann. Þar fór nefnilega fram ræðukeppni milli 5. Y og 6. Y. Reyndust margir bloggarar í hópi keppenda, dómara og áhorfenda og er vel við hæfi að linka á
Einar Örn, sem ver heiður MR ásamt fleiri heiðursmönnum í Morfískeppni við Ármúlann í kvöld.

Á kóræfingu bættust þrjú ný lög í möppuna. Það verður yfrið nóg að gera hjá MR-kórnum á næstunni.

Myndin í Mogganum

Ormurinn leit í Moggann í frímó í morgun. Það er ekki á hverjum degi sem hann sér mynd af vini í búningi í blaðinu.

Sjötti M í vígahug

M-bekkingar eru alvörugefið fólk sem hættulegt er að styggja. Í gær spurði bloggari stelpu úr bekknum til nafns (úr erfðafræðihluta bekkjarins). Hún var stórhneyksluð eftir að hafa verið með (ómannglöggum) Orminum í árshátíðarteiti í haust. Var síðan minnst á einhverjar skrautlegar myndir úr því partíi til að bloggari héldi sig nú örugglega á mottunni.

Þau voru einnig ósátt bekkjarsystkinin úr 6. M í dag eftir útreiðina á blogginu í vikunni. Vonandi blíðkast menn eitthvað við myndasýningu á morgun.

Doktorsvörn á laugardag

Ármann ver doktorsritgerð sína á laugardag. Mikilvæg kóræfing er sett niður á sama tíma.

Nýtt blogg í vændum?

Bloggara hafa borist spurnir af því að ótiltekinn MR-ingur sé að velta fyrir sér að fara út í bloggið. Það líst Orminum giska vel á.

Bloggfall á næstunni?

Nú er bloggari kominn á það stig að hann grætur ekki bloggfallið eftir að hafa bloggað í næstum hálft ár og misst úr þrjá daga (skv. bestu vitneskju og að teknu tilliti til dynta í tímasetningum Bloggers).

en ek heiti Sverrir 18:25




miðvikudagur, janúar 29, 2003þriðjudagur, janúar 28, 2003
Kiddi í Hallanum

Helgi Hrafn minnist heiðursmannsins Kristins Einarssonar á bloggi sínu.

Blessuð sé minning hans.

en ek heiti Sverrir 11:59




Sunnan að segja menn

Til að gleðja vini og ættmenni hefur
Eyjólfur rappari sett upp veðurfræðinga á bloggi sínu. Tjáir annar veðrið í Mapútóborg en hinn gáir til veðurs í Búrabyggð (a.k.a. Reykjavík).

Og hvor þessara manna skyldi nú vera í stuttbuxum?

Fornsagnaþema í Mogganum

Það kom lesendum kannski lítt á óvart að vísað væri í Njálu í Lagnafréttunum í morgun. Öllu óvæntara var upphaf umfjöllunar um enska með frásögn úr Kjalnesinga sögu. Kannski er kominn tími til að fylgjast með sportinu?

Skyndipróf

Bloggari er í góðu skapi í dag. Það kemur sér vel fyrir nemendur því ætlunin er að semja þrjú stk. skyndipróf.

Tónlist dauðans á líkamsræktarstöðvum

Anna Hugadóttir fjallar að handan um vonda tónlist á hollenskum líkamsræktarstöðvum. Úff.

en ek heiti Sverrir 09:29




mánudagur, janúar 27, 2003
Tveggja skóla blogg

Það var mæddur bloggari sem tók til myndasýningu handa nemendunum í stjörnufræðinni í morgunsárið. Ekki það að hann sé orðinn svona duglegur heldur var kominn tími til að koma með eitthvað af viti í skólann og lofa nemendum að sleppa við glósuskrif. Myndirnar vöktu lukku enda trúðu menn því ekki að ekkert hefði verið teiknað inn á þær.

Í grunnskólanum var Ormurinn beðinn um að útskýra eitthvert hugtak í stærðfræðibók 6B. Þegar hann sagðist sjálfur ekki muna hvað það þýddi þá var hann náttúrulega spurður að bragði til hvers væri verið að kenna þetta. Góð spurning!

Svo var sett fyrir ein síða úr samræmdu prófi í stærðfræði frá 1979 (sem átti 24 ára afmæli í síðustu viku - litlu eldra en bloggari). Rétt eins og einn samkennari bloggara orðaði það: Þetta fjandi gott próf.

Steingrímur

Bræðurnir rifjuðu upp kynni sín af grjónsa að hætti Ormsins í kvöld. Stóð grauturinn fyrir sínu sem endranær. Í þetta sinn hafðist það án þess að upp úr syði.

(Lausleg athugun, byggð á „völdum“ minningarbrotum. gefur til kynna að grjónagrauturinn sjóði upp úr í um 80-85% tilfella enda er hann ávallt á skarpasta hita í upphafi).

en ek heiti Sverrir 21:24




Diskókeila án diskós

Þar sem bloggari lá í móki um náttmál í gær fékk hann hörkutilboð um að skella sér í diskókeilu með gömlum GB hundum (Guðmundi, Kjartani og Sylvíu). Var því tekið fegins hendi, enda sá Ormurinn fram á hellingsrölt til að skila Il Postino á Aðalvídeóleiguna.

Loift var lævi blandið þegar keppendur mættu til leiks í höllina. Voru menn ískyggilega stressaðir yfir því að andstæðingarnir kynnu eitthvað fyrir sér í leiknum. Annað átti þó eftir að koma á daginn og var keppnin geysihörð. Fékk kúlan jafnframt ósjaldan að kyssa rennuna. Strandamaðurinn sýndi mikla skothörku en það fór þó svo að Sylvía vann fyrri leikinn og Kjartan þann síðari.

Föruneyti þetta er seinþreytt til vandræða og ákvað því að láta sér lynda þau vörusvik að diskókeilan væri meira í ætt við old-skool-keilu (ef marka má tónlistina). Sveif andi Hagaskólaballanna yfir vötnum enda voru það Vanilla Ice, MC Hammer og House of Pain sem leiddu sönginn. Ekki tókst staðnum að þvo af sér hnakkastimpilinn þetta kvöldið.

Röflað við bloggara á Sólon

Eftir keiluspil var haldið niður í bæ á Sólon til að hitta
Stefán og Steinunni, sem þar voru ásamt öðrum Norðfjarðarbloggurum. Upphaflega var ætlunin að halda til á Ara en þar var fullt á afmælisfagnaði Dr. Múzaks.

Þegar lækka tók í glösum fann Ormurinn sig tilknúinn að lýsa yfir hve ánægjulegt það væri að í GB í ár væru hinar fornu spurningakeppnisgreinar, íþróttir og landafræði, hafnar að nýju til vegs og virðingar. Er það óhrekjanlegt merki um ölvun og slævða dómgreind þegar bloggari fer að hampa íþróttaspurningum.

Að leiðindaröflinu loknu fór kvöldið ört batnandi og m.a. tókst þó undirrituðum og safnverðinum að ákveða að stefna senn að stjörnuteiti uppi í Elliðaárdal. Bloggari tók þó ekki á sig náðir fyrr en seint og síðar meir eftir að hafa fengið sér ristaða brauðsneið með smjöri þegar heim var komið.

Sunnudagamatur

Það var þreyttur bloggari sem afinn sótti í sunnudagamatinn í dag. Ekki að honum sé vorkunn. Á boðstólum í dag í Akurgerðinu var gúllas með kartöflumús dauðans (jákv. einkunn) og síðan ísblómsafgangar frá jólunum í eftirrétt. Snabbinn fékk sér tvö ísblóm en bloggari bara eitt, sem segir talsvert um heilsufarið snemma dags.

Tilkynningaskylda heimilisins

Bloggari heldur því blákalt fram að óhreinatauskarfan hafi aldrei verið þyngri en þegar hann bifaði henni áðan. Náðist aðeins ein vél í kvöld svo að bræðurnir verða trúlega fram á þriðjudag-miðvikudag að klára að þvo allan óhreina þvottinn (m.v. hve seint þeir koma heim á daginn). Ástandið er þó gott hvað varðar uppþvottinn en ísskápurinn sýnist bloggara öllu daufari. Helst að þar sé að finna sinnep og bjór. Einnig tvo eggjabakka.

Skólinn

Það var hugmyndin að hafa eitthvað fram að færa handa stjörnufræðikrökkunum á morgun. Það verður að koma í ljós á hverju kennarinn mun luma. Honum er þó skapi næst að ganga til hvílu eftir ævintýri helgarinnar.


en ek heiti Sverrir 16:17




laugardagur, janúar 25, 2003
Ormurinn brýst inn á Lynghagann

Í dag lenti bloggari í þeirri sérkennilegu aðstöðu að þurfa að brjótast inn til sín.

Þegar hann kom heim var brotinn lykill í skránni á útidyrahurðinni. Voru því góð ráð dýr.

Bar þá að velviljaðan nágranna úr kjallaranum. Sá vissi af lítilli tröppu undir svölunum og notaði Ormurinn hana til að príla upp í áttina að rifunni á glugganum í Snabbaherbergi, vopnaður skrúfjárni og töng. Freistaði hann þess að skrúfa frá handfangið sem er notað til að opna gluggann (hér skortir orð) og hafðist það á endanum, þótt undirritaður væri næstum floginn á hausinn af lítilvægri og fisléttri tröppunni.

Þegar glugginn var loksins opinn var komið að því að rifja upp gamla, sviplitla takta úr fimleikatímunum góðu í MR. Aðalmálið var bara að fá ekki strengi í vannýttum vöðvum þegar síst skyldi. Með því að sparka í svalirnar og spyrna sér í húsvegginn mátti bloggari um síðir vega sig upp og inn með handfestunni á barmi gluggakistunnar.

Þetta hafðist sem sagt og er Ormurinn næsta forviða, enda frekar þekktur fyrir varkárni og lofthræðslu en fimlegan limaburð.

Þar með er nóg afrekað í dag.

Laugardagur

Eyjólfur litli bróðir er búinn að setja inn nokkrar myndir af sér í Afríku (efst vinstra megin á Rappblogginu). Þarna er m.a. að finna mynd af litla, sæta stráknum í afslöppun um jólin í Svasílandi í 40 stiga hita.

Nú er hásumar í Mósambík, 25-40 stiga hiti og heldur rakt.

Nemendur

Ormurinn fúlsar sjaldan við sönnum skemmtisögum af nemendum.

Tenglasafn

Ormurinn hefur ákveðið að taka aðeins til í tenglasafninu og setja þá á válista, sem ekki hafa bloggað að undanförnu.

Gærkvöldið

Bróðir bloggara stóð sig vel í gær ásamt hinum MR-ingunum (36-26). Það verður þó fyrst þegar bjöllusálfræðin og keppnisreynslan koma inn í spilið (og spurningarnar fara að þyngjast) að sauðirnir verða skildir frá höfrunum. Fyrsta viðureign MR-inga við Flensara lítur alls ekki illa út. Ekki er heldur ætlun þess, sem hér hamrar á lyklaborð, að syrgja þá sem falla í valinn í viðureign MH og Versló.

Eftir GB var horft á vídeó. Il Postino er alveg mega og var það stórkostleg upplifun að sjá hana í annað sinn í gær.

Kötturinn

Kötturinn fer á kostum í bloggi sínu um bandalagið rússneska og framtíðarfyrirkomulag GB.

Ekki að hann sé ekki ávallt hinn mesti kynjaköttur.

en ek heiti Sverrir 19:39




föstudagur, janúar 24, 2003fimmtudagur, janúar 23, 2003
Standa sig vel

Orminum þykir ekki við hæfi að blogga um uppþvottavélar og eldamennsku á hamborgurum í dag. Þess í stað verður gefin svipmynd af því sem bloggari hefur aðhafst og styðjast fyrirsagnir við líkan
Kattarins, sem hann hefur þróað út frá áralöngum athugunum sínum á netmiðlinum mbl.is.

Neikvæðninni engin takmörk sett

Kennslan gekk vel í dag. Einn nemenda hélt bókhald yfir neitanir Orms. Sagði kennari 30x „nei“ í einni kennslustund, sem hlýtur að teljast nokkuð gott. Reyndar var enginn annar kostur í stöðunni, þar sem flestar spurningarnar voru um hvort fara ætti út í fótbolta í góða veðrinu eða kröfur um að kennari kæmi með köku í næstu viku ef hann ætlaði að halda næsta skyndiprófi til streitu. Unglingarnir þekkja nefnilega rétt sinn.

Stuttur bíltúr

MR tíminn var stuttur og hnitmiðaður og nemendur úr 6. M skutluðu kennaranum svo heim. Það kunni hann virkilega vel að meta. Fyrir kennslu hljóp hann í afgreiðslustörf en það kom víst ekki til af góðu.

Seinnipartinn var æfing uppi í Rimaskóla og kappi svo att við Klébergsskóla á Kjalarnesi. Vannst sú viðureign nokkuð sannfærandi.

Menntskælingar taka lagið

Því miður missti bloggari af söngkeppni MR sem var í kvöld en þar stigu á stokk 4 nemendur í stjörnufræðibekkjunum, auk þess sem hann kannaðist við fleira fólk á svæðinu.

Bætt verður úr þessu þegar MR-ingar keppa í GB í Útvarpshúsinu á morgun. Það verður fróðlegt að sjá.

Mjög sáttur við sjálfan sig

Ef fólk ætlar að ná árangri í baráttu við aukakílóin, þá mælir Ormurinn með Forsetakúrnum, sem vísindamenn við Háskólann í Gundø hafa þróað.

en ek heiti Sverrir 23:47




Krítarpenninn

Orminum líst vel á hugmynd
Óla Njáls að heiti á krítarhaldaranum, enda er samlíkingin við blekpennann snjöll.

„Krítarpenni“ var það, heillin.

en ek heiti Sverrir 00:55




miðvikudagur, janúar 22, 2003
Þegar hjólbörurnar komu í skólann

Spurt er um nytjahlut:

1. vísbending: Hluturinn, sem spurt er um, telst seint bráðnauðsynlegur en notendur hans í stétt kennara dásama hann mjög. Hver er hluturinn?

2. vísbending: Þessi hlutur byggist á sívalningslaga hólki sem þrengist í annan endann en er með hnapp á hinum. Um hvaða hlut er verið að spyrja?

3. vísbending: Ungir menn, sem ganga í svörtum fötum hversdags, þykjast himin höndum hafa tekið eftir að hafa reynt hlutinn. Hver er þessi hlutur?

Svar: Hluturinn sem kennarinn skrifar með og heldur utan um krítina.

Leiðbeinandinn ungi bað um þennan hlut á skrifstofu skólans í dag og var það auðsótt. Svo kom babb í bátinn þegar hann spurði samkennarana hvað hluturinn héti. Það átti enginn til heiti yfir hlutinn. Tillögur í ætt við krítarhaldari, krítarhólkur, krítarhylki og jafnvel krítarsmokkur (frá dónakennara) komu fram en engri þeirri fylgdi sannfæring um að tillagan væri „orðið“ yfir hlutinn.

Orminum leist best á hólkinn en hann á bágt með að trúa að „krítarhólkurinn“ gangi ekki undir einhverju sniðugu heiti (sem gæti þess vegna verið „krítarhólkur“).

Þar með er boltanum varpað til hinna kennarabloggaranna.

Englar alheimsins

Ekki hófst fyrsti tíminn glæsilega í dag. Það tók nemendurna um 10 mínútur að dröslast inn og svo var skeiðað áfram yfir spurningahefti úr bók Einars Más. Kennarinn var og farinn að ryðga í bókinni sem var ekki á annað bætandi.

Bloggari valdi glefsur úr bókinni (sem honum þótti mikilvægar) og las upp. Sumar þeirra voru all-átakanlegar og þurfti kennarinn að stöðva lesturinn í einum bútnum til að koma honum frá sér í eðlilegum málrómi. Fjölluðu þær enda um saklausa barnið sem geðveikin vomir yfir.

Söguhetjan Páll minnist á að hann hafi haldið sig vera Vincent van Gogh er hann var orðinn sjúkur. Voru nemendur nokkuð forvitnir um Hollendinginn enda kunnugir sögunni um eyrað. Fátt var um svör hjá kennara en hann gat þó sagt að Vincent hefði verið lítils metinn í lifanda lífi og ógæfusamur bæði hvað varðaði geðveikina og litla málverkasölu. Þetta mat samtíðarmanna birtist einmitt í hnotskurn í ummælum Jeanne Calment, elstu konu í heimi, í
þessari grein (fjórða neðstu efnisgrein).

Kennarinn sagðist jafnframt hafa verið frá sér numinn er hann sá nokkur verka Vincents í D´orsay-safninu í París. Lofaði kennarinn að koma með listaverkabækur að heiman í næsta tíma með verkum eftir Hollendinginn og Gaugin (sem einnig kemur fyrir í Englunum). (Loforð, sem þetta, má samt alltaf svíkja.)

Sáu nemendur sér leik á borði í framhaldinu og spurðu hvort lærimeistarinn væri safnamaður(*) og hvort honum hefði þótt gaman í París. Bloggari sagði borg ljósanna yndislega og að þótt hann væri lítið fyrir að skoða söfn hefði hann þó kíkt á Mónu Lísu og Venus frá Míló á Louvre-safninu. Þá var náttúrulega næsta skref að spyrja drengina hvort þeir hefðu séð Simpson(?) þáttinn þar sem voru geymdar eftirmyndir af Mónu Lísu ef eitthvað kæmi fyrir frum/eftirmyndina. Ágætis pæling það enda eru ferðamenn varla í aðstöðu til að rannsaka hlutinn það gaumgæfilega (bloggari er bara að viðra pælingu en alls ekki að gefa samsæris kenningum byr í seglin).

Þá rifjaðist upp fyrir strákunum fölsunaratriðið úr myndinni um Mr. Bean, en þar eyðilagði hann málverkið Whistler´s Mother en reyndi að laga það á afkáralegasta hátt. En bíðum nú við, var sú mynd ekki til sýnis á D´orsay safninu?

Þar með taldi kennari hringnum vera lokað og áfram var haldið með Englana.

(*)Af safnaáhuga Ormsins er helst það að segja að foreldrarnir göntuðust með það sín í millum þegar hann kom úr GB ferðum að þótt hann hefði ekki kíkt á Picasso/Míró/Impressjónista-safnið í borginni þá væri hann a.m.k. pottþéttur á því að borgarinn væri betri á Burger King en McDonalds.

Talnaglöggi bakarinn

Í Miðgarði í Grafarvoginum bakar talnaglöggur bakari sem er ansi skjótur að leggja saman í huganum. viðskiptavinunum til mikilla hæginda. Næst þegar beðið verður um myndbandsgláp í stærðfræði (sem er gjörtapað stríð fyrir nemendum) ætlar bloggari að stinga upp á vettvangsferð í bakaríið. Ef veðrið verður eitthvað í líkingu við nepjuna í morgun þykir honum ólíklegt að boðinu verði tekið.

Sú mikla eik

Vinablogg Ormsbloggsins var lagt af í dag. Er það þeygi gott.

Trúleysi

Birgir er með áhugaverðan pistil um trúleysi í dag. Bloggari liggur sjaldan undir ámæli vegna guðleysis síns en hefur þó hitt fyrir fólkið sem hann telur Birgi vera að hnýta í. Ekki verður Ormurinn heldur talinn neitt sérlega umburðarlyndur gagnvart trúarkreddum sem ganga í berhögg við lífsviðhorf hans.

Umræðan er mjög af hinu góða.

Það sem torveldar hana þó eru ólíkar skilgreiningar á hugtökum eins og trúleysi, guðleysi, trú og trúarbrögðum. Orð í líkingu við „ásatrú“, sem hafa unnið sér þegnrétt í málinu, gera lítið til að einfalda málið.

Ódrengilegi kennarinn

Ætli það ódrengilegt hjá kennara að segja að strákur og stelpa í 10. bekk þrátti eins og „gömul hjón“? Reyndar hefur hann haft þann sama frasa uppi við tvo ónefnda MR-inga líka en unglingarnir eru trúlega viðkvæmari.

LEGO og list

Ekki vissi bloggari að neinn nennti svona löguðu.

en ek heiti Sverrir 16:44




þriðjudagur, janúar 21, 2003
Hámarki nördaskaparins náð?

Það er ágætis árangur að benda niður í snævi þakta jörðina og segja að í þá stefnu væri þriðja stjarnan í sumarþríhyrningnum (Altair í Erninum), þ.e. ef að hún sæist.

Spurningafasistinn

Í lok hefðbundinnar æfingar var tekinn einkapakki, þ.e. nýjasti maðurinn í liði Rimaskóla var spurður í þaula einsamall. Hann stóðst þrekraunina með ágætum. Þrekraun, segir bloggari, því að í einmenningspökkum er ekkert til sem heitir sælt, sameiginlegt skipsbrot.

Jafnframt fetaði Ormurinn í fótspor nafna síns og Arnars Þórs og tók einn tveggja mínútna spunapakka á lærisveinana án þess að hafa nokkur gögn við hendina. Þrjú nördastig þar. Kom það líklega fáum í opna skjöldu að rúmlega helmingur spurninganna væri um landafræði og að þar kæmu fyrir spurningar eins og „mmm...hver er lengsta áin í...ööö...Afríku?“ og „Í hvaða haf fellur Dóná?“.

Kvöldmatur

Dyggir lesendur eru ekki sviknir um matarbloggið. Ormurinn hugðist hafa hrísgrjónagraut í kvöldmatinn en þar sem Snæbjörn fór að horfa á spurningakeppni varð konunglegi málsverðurinn fyrir valinu. Royal súkkulaðibúðingurinn stendur fyrir sínu. Samt kominn tími á að vaxa upp úr þessu sykursulli.

en ek heiti Sverrir 18:02




Gærdagurinn var dramatískur

(brot)

Ormurinn gaf frí í seinni stjörnufræðitímanum og fór að sjá annan bekkinn sinn í ræðukeppni. Á slíka hefur hann ekki farið síðan á æfingakeppni MR og MH haustið 1995 þegar hann var í þriðja bekk.

Vel lesnir ræðumenn í Sólbjarti vísuðu meira að segja til E.O. máli sínu til stuðnings. Mátti það sín þó lítils gagnvart Morfístöktum og sagnaspuna fjórðu bekkinga.

Leiðbeinandinn ungi steingleymdi svo aukatíma í stærðfræði sem hann var búinn að lofa að halda á sama tíma og keppnin stóð yfir.

Á kóræfingu seinnipart dags greiddu bræðurnir staðfestingargjald vegna farar MR-kórsins til London í maí. Það gerðu fleiri dámar. En menn skulu muna að fyrir hvern einn dám er til annar ódámur.

Í Grafarvoginum um kvöldið bauð bloggari Rimskælingum upp á hraðapakkann undir yfirskriftinni „refsing Guðs“. Í kjölfarið var vandalítið að segja mönnum að keppast nú við lesturinn.

Eftir æfingu og blogg var rölt niður á Ægissíðu og litið til himins (eins og fleiri). Ormurinn passaði sig samt á því að leita ekki langt yfir skammt.

Norðurljósin bröguðu í gærkvöldi og Síríus og Arktúrus tindruðu skært.

Tunglið, Júpíter og Satúrnus stóðu líka fyrir sínu og var bloggari alveg í sjöunda himni.

Svo kom fleira til.

en ek heiti Sverrir 13:27




mánudagur, janúar 20, 2003
Við (l) handbolta

Nú hefur Dagblaðið ákveðið að sýna „hvað það stendur fyrir“ með auglýsingum á strætó. Ekki er það neitt sem bloggara finnst spennandi.

Eithvað rámar Orminn í að karl faðir hans hafi sagt honum af slagorðinu „Ég [fíll] íslensku“. Gott ef ótiltekinn menntamálaráðherra kom þar ekki við sögu.

Makkinn í fokki

Af hverju ætli bloggið hennar
Sigurrósar birtist eðlilega á makka en bloggið hans Jóa með 1 punkts letri? Það er meira að segja ólæsilegt eftir 300% stækkun svo kóðinn er látinn duga.

Am 183 fol.

Hvernig fór Nói að því að sjá fyrir James Bond myndaflokkinn?

„Heldur kyssir ég húsfreyjuna en bondann.“

en ek heiti Sverrir 15:52




sunnudagur, janúar 19, 2003
Raspkótilettan heim

Amman setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í dekri á barnabörnum í dag.

Afinn kom á súbbanum kl. 12:18 (eins og alltaf á sunnudögum) og hljóðuðu fyrirmæli gömlu hjónanna upp á að bloggari kæmi út í bíl og sækti nýja súkkulaðiköku. Amman var nefnilega „forsjál“ og bakaði tvær af hnallþórustyrkleikanum um síðustu helgi.

(Snabbinn var forfallaður í dag vegna vináttukeppni MR-inga gegn Flensurum.)

Þetta gekk svo sem fyrir sig eins og vanalega með afann. Ormurinn tróð sér í skóna og gekk út í bíl með stakkinn flaksandi og kökuboxið frá síðustu helgi undir hendinni. Hann opnar dyrnar á bílnum, kastar kveðju á afa og ætlar að taka pokann með kökunni og rjómapelanum (!). Sér þá ekki okkar maður hvar glittir í sprætflösku, salatpoka og álumbúðir í pokanum. „Vá, það er ekkert verið að spara dekrið í dag, afi“! Afinn hristir höfuðið dæsandi, rétt eins og maður sem hefur næstum því lært að sætta sig við það sem hann fær ekki breytt.

Í Akurgerðinu kemur það svo upp úr dúrnum að það eru raspkótilettur í matinn (sem er ekki ónýtt (úrdr)). Aðspurð segir amma að gömlum konum, sem hafa lítið fyrir stafni, finnist gaman að senda góðgæti til barnabarna. Bætir svo strax við: „Þið megið þó ekki treysta á að þetta verði venjan.“ (?!)

Hún samsinnir þó fljótt að „kótilettan heim“-múvið eigi dekurmetið hingað til.

Í eftirrétt voru mandarínur og eplakaka (eða eins og gömlu hjónin orðuðu það: „Ja, við erum með svona litla og ómerkilega eplaköku í eftirmat“). Þvílíkt hnossgæti!

(Þótt bræðurnir séu ágætir þá eru þeir alls ekki nógu skemmtilegir til að standa undir einhverju af þessu toga.)

Metnaðarfulli mandaríninn

Í gamla daga þegar Ormurinn sótti jólaböll Landspítalans (fyrir hartnær tveimur áratugum) dáðist hann alltaf að stóru krökkunum sem kunnu þá list að rífa börkinn utan af mandarínum sem eitt samhangandi rifrildi. Þetta hefur löngum verið metnaðarmál hjá bloggara og á unglingsárunum tókst honum ítrekað að ná samfelldri barkarafrifu. Þótt mandarínurnar væru ekkert mjög þroskaðar í Akurgerðinu í dag gekk þetta samt eins og í ævintýri. Nú er bara málið að innleiða þetta hjá afanum.

(Vá, þetta var leiðinlegt en Orminum þótti nauðsyn að létta á hjarta sínu.)

Hrifning, hrós og heiðar stjörnur

Bloggari þakkaði sínum sæla fyrir gullfiskaminnið í nótt þegar hann rölti út með Sturluvelli yfir í Nauthólsvík. Þvílíkur stjörnuhiminn. Þótt það væri fullt tungl, ský og engin norðurljós þá stóð hann vel undir væntingum með sínar (?)þrjár reikistjörnur, Óríon og vetrarþríhyrninginn.

Víst veturinn er genginn í garð (með sínum janúar- og febrúarstillum) sér stjörnufræðikennarinn fram á að líta von bráðar til himins með MR-ingum inni í Elliðaárdal.

(Svona fara menn að því að reisa sér hurðarás um öxl.)

Annars hafa allir verið svo sætir við bloggara um helgina. Í gærkvöldi barst honum hrós fyrir forfallakennsluna síðastliðið vor og pitsabaksturinn o.fl. á föstudagskvöld. Álitsgjafarnir voru heldur ekki af verra tæinu.

Launamunur kynjanna

Ragnhildur Rúsína er með stórsniðugt blogg um launamun kynjanna í dag.

Kaffihús

Aldrei þessu vant undirbjó Ormurinn skólavikuna á kaffihúsi í dag. Hann getur vel hugsað sér að endurtaka leikinn siðar.

en ek heiti Sverrir 03:34




laugardagur, janúar 18, 2003
Spaðar og spurningar

Jæja, Guðmundur Andri Thorsson og Spaðarnir mættir í sjónvarpið. Og þeir kynntir sem gáfaðasta hljómsveit landsins. Fjölmiðlungar að tala um aðra fjölmiðlunga, það er fyndið. Hljómsveitin er trúlega einnig með hæsta hlutfallið „fjölmiðlaumfjöllun/(virkni+útbreiðsla)“ á landinu.

Svo öttu Rimskælingar kappi við MR-inga (Snabba fyrirliða og
Helga Hrafn liðstjóra). Höfðu latínugránar sigur, enda heldur á brattan að sækja hjá grunnskólanemum gegn kempunum. Annars lítur bara vel út með gengi menntskælinga í vor ef tekið er mið af fjölda æfinga, lestri og hærri meðalaldri (sem nemur einu ári).

Það er reyndar fátt dapurlegra en að vera að semja og slá inn hraðaspurningar á laugardagskvöldi (og blogga um það í þokkabót) en gærkvöldið bætir það þó upp og gott betur. Þokkalega.

Lengi er þó von á einum og eins og oft áður er þessi eini Snorri Beck. Það verður gaman að spjalla við hann á eftir.

en ek heiti Sverrir 17:45




föstudagur, janúar 17, 2003
Að lokinni vinnuviku

Jæja, nú er langri og strangri vinnuviku lokið hjá Orminum. Reyndar einnig löng og ströng vinnuhelgi framundan. Samantekt heimilda fyrir stjörnufræðifyrirlestra, heimadæmaskammtar fyrir næstu fjórar vikur í 10. bekkjarstærðfræðinni, minnislistar fyrir spurningalið Rimaskóla, tiltekt (hmm...búið að vera ansi lengi á lista) og spurningakeppni fyrir morgundaginn. Það verður reyndar á brattan að sækja fyrir Rimskælinga í æfingakeppninni gegn Snabba og
Helga Hrafni.

En í dag er það slæpingur með Forsetanum og innkaup í pitsu árþúsundsins, sem verður bökuð og snædd í kvöld.

en ek heiti Sverrir 14:20




Óttubil

Þegar líða tekur að óttu er ekki úr vegi að blogga sig aðeins frá reynslu kvöldsins.

Bloggari syrgir það mjög að verið sé að leggja
Hafnarsamlag Suðurnesja niður, þótt ekki sé nema vegna skammstöfunarinnar og lénsins.

Kakan handa 10. bekkingum er komin út úr ofninum. Haukur er 16 ára í dag og er honum árnað heilla í tilefni dagsins. Ekki það að hann lesi Ormsbloggið því þá hefðu væntanlega einhverjar athugasemdir fengið að fjúka í tímum.

Reyndar lenti bakarinn í því að glassúrinn er kekkjóttur. Trúlega gleymdist að sía kakóið. Er það ekki óræk sönnun karlmennsku bloggara að hann geti ekki gert hvort tveggja, haldið gestinum uppi á snakki og sigtað kakóduft?

Svo er það eitt reiðilegt í lokin: Hvert er málið með að reita peningana af fólki sem liggur vel við peningaplokki?


en ek heiti Sverrir 01:39




fimmtudagur, janúar 16, 2003
Armbeygjukeppni

Kennari lét hafa sig út í armbeygjukeppni í fámennum stærðfræðitíma í dag. (Já, stundum kemur matsjóinn upp í honum). Hann lenti í neðsta sæti af þremur með ekkert hrikalega margar armbeygjur.

Þetta var nú samt ekki látið duga í Rimaskóla því samþykkt var að hafa kökutíma í fyrsta tíma á morgun (en þá á einn nemendanna afmæli). Kennarinn ætlar að baka
skúffuköku. Ljósi punkturinn er sá að kökudögum fer senn fækkandi. Einnig var öllum beiðnum um myndbandsgláp í vetur hafnað.

Best var þó að lokinni MR-kennslu þegar nemandi skutlaði kennara sínum heim. Það verður a.m.k. ekki til lækkunar á geðþóttahluta kennaraeinkunarinnar í vor.

en ek heiti Sverrir 16:00




miðvikudagur, janúar 15, 2003
Viðbragðið í lagi

Það var mikið hlegið að Orminum á kóræfingu áðan. Fyrst spurði Marteinn kórstjóri hvenær þrjátíu ára stríðið geisaði. Helv. parasympatíska hraðaspurningataugakerfið tók yfir og „1618-1648“ gall í bloggara við mikil hlátrasköll. Alltaf samt spurning hvort krakkarnir hlógu með Ormi eða að.

Seinna á æfingunni kom í ljós að bloggari var eini kórfélaginn sem sungið hafði Locus Iste (sem var trúlega æft veturinn ´97-´98) og var því samstundis útnefndur í „old boys“-hópinn í kórnum (ekki eins og það hafi ekki alltaf legið fyrir). Í ofan á lag (haha) glotti Marteinn þegar byrjað var Stúdentsárunum æskuglöðu.

Matur

Bloggari fékk sér ókeypis hádegisverð á Nonnabita í dag. Hann var nefnilega búinn að fylla fríðindakortið sitt og því þurfti bara að borga fyrir gosið, ekki karríbátinn.

Ormurinn er svo dauðstressaður yfir að hafa e.t.v. móðgað Alexöndru. Hún og Snabbinn komu heim með hakk fyrir spaghettí bolognese og í vitleysisgangi gat undirritaður ekki stillt sig um að segja „Æi, hvers vegna ekki að slá þessu bara upp í borgara?“

Þau eru sem betur fer umburðarlynd (og flink í eldamennskunni).

WIMPS

Nemandi spurði stjörnufræðikennarann hvaða orð væri notað um WIMPS á íslensku. Drumbeind var það heillin.

Tvímælalaust svalari en þyngildið.

Bong

Bong er sem sagt ekki bara dúettinn með Eyþóri og Móu. Alltaf bætir bloggari þekkingu í sarpinn.

Og veit einhver um líðan Bubbles? Hvernig hefur hann það eftir að eigandinn eipaði algerlega? Eða er hann kannski dauður?

en ek heiti Sverrir 20:20




Íslenskukennslan

Kennari tekur dæmi um ópersónulega sögn:

„Mig grunar að þið hafið ekki lært aukalega heima.“

„Hva, heldurðu að við séum hálfvitar?“

Nemendur spurðu bæði í íslensku og stærðfræði hvort þeir mættu horfa á vídeó. Kennari samþykkti það ef horft yrði á Limbó. Reyndar frekar ósanngjarnt skilyrði en þá mætti a.m.k. góna með góðri samvisku.

Jess! Við erum komnir með þrjú pökk í röð

Þessi ágæta setning flaug þegar kennari gaf sig í seinni hluta tímans og leyfði nemendum að spila. Að sjálfsögðu spilar kennari líka þegar hann miskunnar sig yfir krakkana og gefur þeim spilafrí.

Fróðleiksmoli dagsins

Uppruni orðsins „eldflaug“.

en ek heiti Sverrir 12:29




mánudagur, janúar 13, 2003
Skyldan kallar

Ormurinn hefur komist að því að þótt skórnir nýju (?flottu) séu all-sléttbotna þá ganga þeir alveg á hálku. Eftir hretið í gær leit út fyrir að bloggari hefði keypt hálustu skó í heimi. Ekki að hann hefði þurft að hafa áhyggjur af því nema svona 60 daga á ári (?!).

Lærimeistarinn var talsvert stressaður í kvöld. Nema hvað?

X-2003

Ef marka má
bloggið hans Dodda þá eru sumir listar líklegri en aðrir til að hljóta atkvæði Ormsins í vor.

en ek heiti Sverrir 23:39




Nýir skór og fleira

Bloggari keypti sér nýja skó áðan. Vonandi eru það flottir skór.

Í fatabúðina hringdi Siglfirðingur fyrr í dag og spurðist fyrir um signalrauða skyrtu. Afgreiðslumaðurinn spurði hvað hann ætti við. Jú, svona sterkrauða. Ekki vínrauða því Siglfirðingur átti víst svoleiðis skyrtu. „Meinarðu þá í Valslitnum?“ Jú, það hélt nú viðskiptavinurinn. Er skyrta við hæfi nú á leiðinni með póstinum norður.

Lærdómar sögunnar:

Valsmenn og Haukar keppa í signalrauðum búningum.

Signalrautt er með árstíðabundnara líkingamáli.

Einstaklinga með skrýtinn smekk á skyrtum er ekki einungis að finna á Skjá einum eða í Birkiberginu heldur einnig á Siglufirði.

Tölvunördaskapur

Leiðbeinandinn ungi spjallaði fór að spjalla áðan við gamlan læriföður í MR um Macintoshtölvur. Sá gamli ætlar að uppfæra stýrikerfið á iBookinni sinni upp í MacOS 10.2. Verður gaman að heyra hvernig það gengur hjá enda freistar uppfærslan mjög þeim sem hér veldur lyklaborði.

Einnig kom í ljós að okkar maður á fjóra makka, rétt eins og bloggari. Ekki slæmt það.

Víst Ormurinn er hvort sem er að tapa sér í einhverri makkamaníu er rétt að geta þess að meðalaldur elstu manna sem hann hefur séð fara í pésa-makka rifrildi er u.þ.b. 35 ár.

Bloggari á því enn eftir 12 góð ár.

Tilkynningaskyldan

Uppþvottavélin gekk í gær eins og hún á að gera. Lúxusvandamáli afstýrt í bili.

Það eru greinilega
ýmsir sem hafa átt í einkennilegum samskiptum við hið opinbera í Afríku. Fólk fer a.m.k. ekki létt með að prútta niður tollana hér á landi.

(Bloggið þjónar m.a. því hlutverki að vera tengiliður við höfuð heimilisins í Mapútóborg. Sú tekur það til sín sem á það.)

Af köppum

Sollu þáttr geimgengils á Múrnum er alveg mergjaður.

en ek heiti Sverrir 16:31




sunnudagur, janúar 12, 2003laugardagur, janúar 11, 2003föstudagur, janúar 10, 2003
Hver var að bölva samræmdum?

Út frá sjónarmiði kennara sem kennir 10. bekk á vorönn eru samræmdu prófin lúxus.

Í fyrsta tímanum eftir jólafrí heyrði hann út undan sér hvar nemandi sagði: „Já, ég ætla alltaf að læra heima í stærðfræði.“

Viðhorfið er reyndar gagnkvæmt því Ormurinn ákvað um áramótin að vera öllu duglegri í vor en í haust. Því bauð hann krökkunum upp á heimadæmi sem hann dreifir á mánudögum og þeir skila á föstudögum (alveg spánný hugmynd).

Og þágu þeir það? Já, að sjálfsögðu.

Auk heimadæmaskammtsins verða örfá dæmi fyrir hvern tíma en hluti samningsins hljóðaði þó upp á að ekki sé heimavinna fyrir mánudaga. Það er baráttumál sem leiðbeinandinn skyldi mætavel.

Huldubæirnir í S-Afríku

Rapparinn a.k.a. Jolli Lax bloggar um huldubæi svartra í S-Afríku.

Andstyggilegt alveg hreint.

Bloggið rifjar upp flug bræðranna yfir Jóhannesarborg fyrir um ári síðan (skipt um vél þar á leiðinni til Mapútó). Borgin er gríðarlega dreifð og þar mátti bæði sjá úthverfi þar sem sundlaugar voru í hverjum garði og úthverfi þar sem snauðir búa í hreysum við malarvegi.

Hvítu mennirnir þar suður frá voru víst „forsjálir“ og lögðu drög að skiptingu borgarinnar í hvít og svört hverfi nokkru fyrir aldamótin 1900.

Þegar bloggari staldrar lengur við í Jóhannesarborg mun hann heimsækja Apartheidsafnið.

Við innganginn eru menn sem ákveða hverjir eru dökkir á hörund og hverjir ekki. Rimlar skilja svo hópana að uns þeir sameinast í aðalsýningarsalnum. Fyrirkomulagið afhjúpar fáránleik aðskilnaðarstefnunnar fullkomlega.

Gestur

Það tók Orminn smástund að skilja nýjustu færsluna í gestabókinni.

Nýtt lén

Hvað er eiginlega í gangi?

Klaufabárðarnir

Ok, undirskriftasafnanir verða æ útvatnaðri. Allir verð þó að taka þátt í þessari hér.

Næsta skref er svo að fá þættina með verkamanninum og afætunni tekna á dagskrá.

en ek heiti Sverrir 00:32




fimmtudagur, janúar 09, 2003
Veitingar á Patreksfirði

Já, Ormurinn mundi rétt. Það er
svalur bar á Patró.

Hann kemst meira að segja í flokk með Hábarnum á Akranesi, Lúbarnum á Dalvík og Fannbarnum í Hrauneyjum.

Hvað næst? Lion Barinn kannski?

en ek heiti Sverrir 22:58




Jólaprófið í 6. M

Ormurinn fann jólapróf M-bekkjarins við tölvu upp á kennarastofu í Rimaskóla þar sem hann setti inn einkunnir fyrir þremur vikum. Afsökunarræða í anda ónefnds íslenskukennara var samt tilbúin:

„Já, já. Nemendur hafa áhyggjur af jólaprófum. Þau koma ef kennari finnur þau. Pokinn hefur kannski flotið með ruslinu út í tunnu. Nemendur verða bara að treysta því að kennari hafi verið sanngjarn.“

Sá maður er sko mesti töffarinn á svæðinu hvað þessu viðkemur.

Annars komu í ljós mistök við fyrirgjöf. Kennari heitir því að vanda vinnubrögðin frekar á stúdentinum í vor. Prófdómarinn gæti líka séð í gegnum fúskið.

Hrakinn Hafnfirðingur

Eggþér er kominn til Ungverjalands. Maðurinn hefur greinilega vaðið eld og brennistein á för sinni utan.

Magnús Kjartansson

Greinin sem Stefán Pálsson vitnar í er makalaus. Þeir sem stóðu að Íslensku tilvitnanabókinni vísuðu í mergjaðan leiðara Magnúsar í Þjóðviljanum. Þar sagði efnislega:

Áður voru ræningjar hengdir á krossa. Nú eru krossar hengdir á ræningja.

(Þegar Vilhjálmur Þór fékk fálkaorðuna.)

Ísskápurinn - kalt stöðumat

Þar sem Ormurinn er farinn að óttast um forystu sína í matarbloggum er vert að geta þess að í ísskápnum eru þrjár áteknar gosflöskur, nokkrir lítrar af bjór, 1944 stroganoffréttur, egg, fjórar túpur af sinnepi og tvær af tómatsósu.

Engir ávextir, enginn mjólkurmatur, ekkert grænmeti.

Í frystinum er brauð, frosinn rjómi, rækjur og klaki. Það eru ekki einu sinni til hamborgarar.

Lesendur mega búast við mannfækkun af völdum hallæris.

Orð gærdagsins

Orðið var „Pfafffrystir“. Bloggara flaug einnig í hug „sködddrífa“.

en ek heiti Sverrir 12:44




miðvikudagur, janúar 08, 2003
Illgirni og almenn mannvonska

Já, lesendur lásu rétt. Anna Hugadóttir lofar öllu fögru á
bloggi sínu.

Eins gott að hollenska útlendingaeftirlitið kann ekki íslensku. Því verða ekki vandaðar kveðjurnar ef Ormurinn þekkir víóluleikarann geðþekka rétt.

en ek heiti Sverrir 19:31




Hinn illa innrætti leiðbeinandi

Ormurinn mætti nokkuð hress til móts við nemendurna í Rimaskólanum í morgun. Það voru allir óvenjujákvæðir í dag, bæði nemendur og kennari. Þó var fólk ekki sátt við skólaeinkunnina sem það fékk um jólin, svo virðist sem hún hafi verið nokkru lægra en aðrir kennarar gáfu (þó e.t.v. fyrir betri frammistöðu). Bloggari tók nemendur á orðinu og tautaði fyrir munni sér: „Æi, nú var ég vondur.“ Hann lofaði hækkun á línuna til þess að skerða ekki möguleika fólks til framhaldsnáms næsta haust.

(Og náttúrulega til að kaupa sér vinsældir á ódýran hátt. Þetta er ein aðferðanna.)

Leikskólafélagi

Ormurinn þóttist sjá strák í dag í strætó sem átti að hafa verið með honum á Sólbakka. Hið sanna í málinu kemur þó trúlega seint í ljós.

Hann var a.m.k. rauðhærður en aftur á móti er ekki víst að þessi hafi heitað Brjánn. Sá sem bloggari man eftir var hvað uppátækjasamastur drengjanna en frægðarsögurnar eru kannski ekki við hæfi á þessum vettvangi.

Bestu jólin

Ormurinn hefur á tilfinningunni að þessi jól hafi verið þau bestu hingað til. Þó voru þau um margt erfið og að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að hafa foreldrana og
Rapparann á svæðinu.

Nördahelt blogg

Orðrómurinn á götunni segir síðasta bloggið hafa staðið nördaprófið. Ormurinn stóðst hins vegar ekki próf gærkvöldsins, það er næsta víst.

en ek heiti Sverrir 16:59




Sossarnir 1949

Yngri bróðirinn kom færandi varninginn heim úr Bókavörðunni í dag. Finnskt landakort með gömlum, skrýtnum fánum, Íslandskort frá 1949 með Vatnahjallavegi og vaði á Hornafjarðarfljóti, gömul tölublöð De rerum natura, kennslubók í sænsku og franska málfræðibók, auk kvers með efnahagsstefnu viðreisnarstjórnarinnar frá 1960.

Einna mestur fengur var þó í Kosningahandbókinni C-lista sósíalistaflokksins í alþingiskosningunum Reykjavík frá 1949. Efstur á lista var náttúrulega Einar Olgeirsson, en neðar komu m.a. Brynjólfur Bjarnason, Katrín fyrsta, Jón Múli, Stefán Ögmundarson prentari og Halldór Laxness skipaði heiðurssætið.

Í 14. sætinu var svo engin önnur en Petrína Jakobsson, hverri víponinn er nefndur eftir.

Og hvað skyldu hinir listarnir hafa haft sér til ágætis? Stutt umsögn fylgir hverjum lista.

A-listinn - listi Stefáns Jóhanns

B-listinn - listi hinna ónýtu atkvæða

D-listinn - listi heildsalanna

Þetta er bara ekkert svo fjarri lagi.

en ek heiti Sverrir 00:36




þriðjudagur, janúar 07, 2003
Viðar og skotvopnin

Orminum þykja
vangaveltur Viðars um morð og byssueign hinar áhugaverðustu.

Annars er það helst að frétta að Ormurinn er slappur í maganum í dag.

(Ormurinn biður lesendur afsaka skyldubloggsstílinn.)

en ek heiti Sverrir 12:39




mánudagur, janúar 06, 2003
María bloggar

Elskuleg vinkona Ormsins, María Ásmundsdóttir, hefur sölsað undir sig
Marylandið og bloggar þar fjöltyngt frá Bologna á Ítalíu. Hún er Erasmus-skiptinemi og leggur stund á grísku og latínu.

(Það er ekki að marka dagsetninguna því nýjustu fréttum er bætt inn í fyrstu færsluna.)

en ek heiti Sverrir 05:06




sunnudagur, janúar 05, 2003laugardagur, janúar 04, 2003
Miðstýring dauðans í menntamálum

Jæja, þá er
það ákveðið með reglugerð. Litli bróðir þreytir samræmt stúdentspróf í íslensku í byrjun janúar 2004.

Miðstýringarseggurinn hefur greinilega unnið starf sitt af kostgæfni áður en hann yfirgaf ráðuneytið.

KR-ingar koma sem kallaðir

Áðan komu KR-ingar á Sæból (a.k.a. Lynghaga) að safna umbúðum fyrir utanlandsferð sunddeildarinnar. Var þar m.a. á ferð félagi Snæbjarnar. Görpunum var boðið í bæinn og fengu þeir að hrjóða eldhúsborðið, hvert þakið var umbúðum eftir nýársfögnuðinn. Yngri bróðirinn, sem átti að flokka umbúðirnar, slapp þar með nokkuð vel.

Þótt þetta sé náttúrulega vatn á myllu óvinarins er ljósi punkturinn sá að einhverja daga verður nokkrum KR-ingum færra á landinu. Ekki sýta bræðurnir það.

Nýr allsherjargoði

Samkvæmt frétt mbl.is hefur Hilmar Örn Hilmarsson verið kjörinn allsherjargoði. Fyrir utan það að vera sérstakur í háttum ber hann kraftinn í skegginu rétt eins og fyrri goðar.

en ek heiti Sverrir 19:41




Pitserían á Lynghaganum

Það voru aldeilis dregnar fram kannónunar við matargerð gærkvöldsins þegar
Eggert Ungverja og Sindra dvergi var boðið í pitsu. Hafði Ungverjinn aldrei áður bragðað á böku hjá bræðrunum og var hinn spenntasti. Kannski var hann bara kurteis, en heimamönnum skildist á honum að hann kynni vel að meta matinn. Kannski gaf það tóninn þegar hann sagði paprikuna gómsætu, sem fór ofan á pitsurnar, vera nærri því jafn-góða og ungversku paprikurnar (en Ungverjar ku vera mjög flinkir í slíkri ræktun).

Bræðurnir skapa söguna

Það er ekki ónýtt að taka þátt í því að setja glæsilegt met. Að gamlársdegi og nýársdegi frátöldum, hefur annaðhvort verið pitsa eða hamborgarar í matinn síðan á jóladag. Pitsa var á boðstólum í gær, verður það aftur í dag og svo eru til borgarar í frystirnum fyrir annað kvöld. Ætli það verði þó ekki bryddað upp á þeirri nýbreytni að hafa grjónagraut í matinn á mánudaginn.

en ek heiti Sverrir 12:42




föstudagur, janúar 03, 2003fimmtudagur, janúar 02, 2003
Rimma ársins í bloggheimunum íslensku

Bloggandi ætlar ekki að reyna að „gera árið upp“ hér á Ormsblogginu. Kannski verður birtur stuttur pistill á hálfsársbloggafmælinu (6. febrúar), hver veit?

Hins vegar er freistandi að reyna að gera upp á milli deilna í bloggsamfélaginu. Það hefur vart farið framhjá neinum að leiðindi og pirringur hafa heldur betur ágerst eftir því sem liðið hefur á haustið. Þó eiga engar þeirra væringa tilkall til titilsins „bloggrimma ársins“.

Það er nefnilega deilan um bleyðuna og ofurbaukinn á Stór-Langanessvæðinu sem stal (blogg)senunni á árinu sem var að líða. Til að hressa upp á minni lesenda er kannski vænlegt að leita að
„Stór-Langanessvæðinu“ á Googleleitarvélinni og skoða færslur Kattarins og Ljósvakalæðunnar.

Deilan stóð í stuttu máli um það hvort tiltekin orð, s.s. bleyða (kvk. köttur) og ofurbaukur (súperdós), tíðkuðust eða hefðu tíðkast á NA-horni landsins.

(Vonandi verður þessum auma bloggara, sem þetta ritar, fyrirgefið ef hann fer með rangt mál.)

Og hvað hafði þessi deila umfram allar hinar? Jú, hún fjallaði um grundvallaratriði orðnotkunar í íslenskri tungu. Um þetta mikilvæga málefni höfðu ekki spunnist svo miklar deilur áður á blogginu (að því er bloggari best veit). Einnig glöptu stjórnmálin mönnum ekki sýn, enda um slíkt prinsippmál að ræða að það gekk þvert á allar flokkslínur.

Rétt eins og góðum deilum sæmir voru málin reifuð og flækt og vísaði hvort um sig til heimildarmanna sem að sjálfsögðu voru á öndverðum meiði. Ormurinn verður að viðurkenna að hann missti fljótt sjónar á helstu deiluefnum en karpinu virtist þó ljúka með einhvers konar sáttagerð, þótt hvort um sig héldi því fram að hitt væri að misskilja grundvallaratriðin (enn eitt einkenni góðra deilna).

Og svo var þessi deila líka skemmtileg öfugt við margt af því sem sést hefur til að undanförnu.

en ek heiti Sverrir 19:55




Dagur að kveldi kominn

Tiltekt er að mestu lokið á Lynghaganum. Snabbi á bara eftir að þurrka af borðum og skúra gólfið þar sem hellt var niður. Ormurinn hefur reynt að líta yfir farinn partíveg síðustu ára og áætla hve mikið stúss er í kringum nokkuð veglega vísitöluteiti. Trúlega eru það um 6 til 8 klukkustundir, þ.a. helmingur í undirbúning og aðdrætti og helmingur í tiltekt. Ekki er það mikið ef menn eru sáttir. Bloggari man reyndar ekki eftir að hafa haldið leiðinlegt partí en þar gæti „selective memory“ leikið nokkra rullu. Teitin í nótt kemur jafnframt sterk inn í því að viðhalda „know-how“ í skemmtanahaldi meðal heimilismanna.

Trompið

Það er orðið deginum ljósara hver mesta snilld næturinnar var. Risatertan, sem geymd var fyrir teitina, og einnota plastglösin komast þar ekki einu sinni á blað. Það var nefnilega opna Macintoshdósin, sem var frammi á gangi, með molunum, sem bræðurnir borða ekki, sem rúlaði feitt. (Hmm...hver var að lesa í jólablaði Stern?)

Gestir sárbændu bræðurna um að fá óætu molana í nesti. Var það tiltölulega auðsótt mál.

en ek heiti Sverrir 02:27




miðvikudagur, janúar 01, 2003

Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.