Á kóræfingu bættust þrjú ný lög í möppuna. Það verður yfrið nóg að gera hjá MR-kórnum á næstunni.
Myndin í Mogganum
Ormurinn leit í Moggann í frímó í morgun. Það er ekki á hverjum degi sem hann sér mynd af vini í búningi í blaðinu.
Sjötti M í vígahug
M-bekkingar eru alvörugefið fólk sem hættulegt er að styggja. Í gær spurði bloggari stelpu úr bekknum til nafns (úr erfðafræðihluta bekkjarins). Hún var stórhneyksluð eftir að hafa verið með (ómannglöggum) Orminum í árshátíðarteiti í haust. Var síðan minnst á einhverjar skrautlegar myndir úr því partíi til að bloggari héldi sig nú örugglega á mottunni.
Þau voru einnig ósátt bekkjarsystkinin úr 6. M í dag eftir útreiðina á blogginu í vikunni. Vonandi blíðkast menn eitthvað við myndasýningu á morgun.
Doktorsvörn á laugardag
Ármann ver doktorsritgerð sína á laugardag. Mikilvæg kóræfing er sett niður á sama tíma.
Nýtt blogg í vændum?
Bloggara hafa borist spurnir af því að ótiltekinn MR-ingur sé að velta fyrir sér að fara út í bloggið. Það líst Orminum giska vel á.
Bloggfall á næstunni?
Nú er bloggari kominn á það stig að hann grætur ekki bloggfallið eftir að hafa bloggað í næstum hálft ár og misst úr þrjá daga (skv. bestu vitneskju og að teknu tilliti til dynta í tímasetningum Bloggers). en ek heiti Sverrir 18:25
Og hvor þessara manna skyldi nú vera í stuttbuxum?
Fornsagnaþema í Mogganum
Það kom lesendum kannski lítt á óvart að vísað væri í Njálu í Lagnafréttunum í morgun. Öllu óvæntara var upphaf umfjöllunar um enska með frásögn úr Kjalnesinga sögu. Kannski er kominn tími til að fylgjast með sportinu?
Skyndipróf
Bloggari er í góðu skapi í dag. Það kemur sér vel fyrir nemendur því ætlunin er að semja þrjú stk. skyndipróf.
Tónlist dauðans á líkamsræktarstöðvum
Anna Hugadóttir fjallar að handan um vonda tónlist á hollenskum líkamsræktarstöðvum. Úff. en ek heiti Sverrir 09:29
Þegar lækka tók í glösum fann Ormurinn sig tilknúinn að lýsa yfir hve ánægjulegt það væri að í GB í ár væru hinar fornu spurningakeppnisgreinar, íþróttir og landafræði, hafnar að nýju til vegs og virðingar. Er það óhrekjanlegt merki um ölvun og slævða dómgreind þegar bloggari fer að hampa íþróttaspurningum.
Að leiðindaröflinu loknu fór kvöldið ört batnandi og m.a. tókst þó undirrituðum og safnverðinum að ákveða að stefna senn að stjörnuteiti uppi í Elliðaárdal. Bloggari tók þó ekki á sig náðir fyrr en seint og síðar meir eftir að hafa fengið sér ristaða brauðsneið með smjöri þegar heim var komið.
Sunnudagamatur
Það var þreyttur bloggari sem afinn sótti í sunnudagamatinn í dag. Ekki að honum sé vorkunn. Á boðstólum í dag í Akurgerðinu var gúllas með kartöflumús dauðans (jákv. einkunn) og síðan ísblómsafgangar frá jólunum í eftirrétt. Snabbinn fékk sér tvö ísblóm en bloggari bara eitt, sem segir talsvert um heilsufarið snemma dags.
Tilkynningaskylda heimilisins
Bloggari heldur því blákalt fram að óhreinatauskarfan hafi aldrei verið þyngri en þegar hann bifaði henni áðan. Náðist aðeins ein vél í kvöld svo að bræðurnir verða trúlega fram á þriðjudag-miðvikudag að klára að þvo allan óhreina þvottinn (m.v. hve seint þeir koma heim á daginn). Ástandið er þó gott hvað varðar uppþvottinn en ísskápurinn sýnist bloggara öllu daufari. Helst að þar sé að finna sinnep og bjór. Einnig tvo eggjabakka.
Skólinn
Það var hugmyndin að hafa eitthvað fram að færa handa stjörnufræðikrökkunum á morgun. Það verður að koma í ljós á hverju kennarinn mun luma. Honum er þó skapi næst að ganga til hvílu eftir ævintýri helgarinnar.
Eyjólfur litli bróðir er búinn að setja inn nokkrar myndir af sér í Afríku (efst vinstra megin á Rappblogginu). Þarna er m.a. að finna mynd af litla, sæta stráknum í afslöppun um jólin í Svasílandi í 40 stiga hita.
Nú er hásumar í Mósambík, 25-40 stiga hiti og heldur rakt.
Ormurinn hefur ákveðið að taka aðeins til í tenglasafninu og setja þá á válista, sem ekki hafa bloggað að undanförnu.
Gærkvöldið
Bróðir bloggara stóð sig vel í gær ásamt hinum MR-ingunum (36-26). Það verður þó fyrst þegar bjöllusálfræðin og keppnisreynslan koma inn í spilið (og spurningarnar fara að þyngjast) að sauðirnir verða skildir frá höfrunum. Fyrsta viðureign MR-inga við Flensara lítur alls ekki illa út. Ekki er heldur ætlun þess, sem hér hamrar á lyklaborð, að syrgja þá sem falla í valinn í viðureign MH og Versló.
Eftir GB var horft á vídeó. Il Postino er alveg mega og var það stórkostleg upplifun að sjá hana í annað sinn í gær.
Kötturinn
Kötturinn fer á kostum í bloggi sínu um bandalagið rússneska og framtíðarfyrirkomulag GB.
Ekki að hann sé ekki ávallt hinn mesti kynjaköttur. en ek heiti Sverrir 19:39
Kennslan gekk vel í dag. Einn nemenda hélt bókhald yfir neitanir Orms. Sagði kennari 30x „nei“ í einni kennslustund, sem hlýtur að teljast nokkuð gott. Reyndar var enginn annar kostur í stöðunni, þar sem flestar spurningarnar voru um hvort fara ætti út í fótbolta í góða veðrinu eða kröfur um að kennari kæmi með köku í næstu viku ef hann ætlaði að halda næsta skyndiprófi til streitu. Unglingarnir þekkja nefnilega rétt sinn.
Stuttur bíltúr
MR tíminn var stuttur og hnitmiðaður og nemendur úr 6. M skutluðu kennaranum svo heim. Það kunni hann virkilega vel að meta. Fyrir kennslu hljóp hann í afgreiðslustörf en það kom víst ekki til af góðu.
Seinnipartinn var æfing uppi í Rimaskóla og kappi svo att við Klébergsskóla á Kjalarnesi. Vannst sú viðureign nokkuð sannfærandi.
Menntskælingar taka lagið
Því miður missti bloggari af söngkeppni MR sem var í kvöld en þar stigu á stokk 4 nemendur í stjörnufræðibekkjunum, auk þess sem hann kannaðist við fleira fólk á svæðinu.
Bætt verður úr þessu þegar MR-ingar keppa í GB í Útvarpshúsinu á morgun. Það verður fróðlegt að sjá.
Mjög sáttur við sjálfan sig
Ef fólk ætlar að ná árangri í baráttu við aukakílóin, þá mælir Ormurinn með Forsetakúrnum, sem vísindamenn við Háskólann í Gundø hafa þróað. en ek heiti Sverrir 23:47
Kennarinn sagðist jafnframt hafa verið frá sér numinn er hann sá nokkur verka Vincents í D´orsay-safninu í París. Lofaði kennarinn að koma með listaverkabækur að heiman í næsta tíma með verkum eftir Hollendinginn og Gaugin (sem einnig kemur fyrir í Englunum). (Loforð, sem þetta, má samt alltaf svíkja.)
Sáu nemendur sér leik á borði í framhaldinu og spurðu hvort lærimeistarinn væri safnamaður(*) og hvort honum hefði þótt gaman í París. Bloggari sagði borg ljósanna yndislega og að þótt hann væri lítið fyrir að skoða söfn hefði hann þó kíkt á Mónu Lísu og Venus frá Míló á Louvre-safninu. Þá var náttúrulega næsta skref að spyrja drengina hvort þeir hefðu séð Simpson(?) þáttinn þar sem voru geymdar eftirmyndir af Mónu Lísu ef eitthvað kæmi fyrir frum/eftirmyndina. Ágætis pæling það enda eru ferðamenn varla í aðstöðu til að rannsaka hlutinn það gaumgæfilega (bloggari er bara að viðra pælingu en alls ekki að gefa samsæris kenningum byr í seglin).
Þá rifjaðist upp fyrir strákunum fölsunaratriðið úr myndinni um Mr. Bean, en þar eyðilagði hann málverkið Whistler´s Mother en reyndi að laga það á afkáralegasta hátt. En bíðum nú við, var sú mynd ekki til sýnis á D´orsay safninu?
Þar með taldi kennari hringnum vera lokað og áfram var haldið með Englana.
(*)Af safnaáhuga Ormsins er helst það að segja að foreldrarnir göntuðust með það sín í millum þegar hann kom úr GB ferðum að þótt hann hefði ekki kíkt á Picasso/Míró/Impressjónista-safnið í borginni þá væri hann a.m.k. pottþéttur á því að borgarinn væri betri á Burger King en McDonalds.
Talnaglöggi bakarinn
Í Miðgarði í Grafarvoginum bakar talnaglöggur bakari sem er ansi skjótur að leggja saman í huganum. viðskiptavinunum til mikilla hæginda. Næst þegar beðið verður um myndbandsgláp í stærðfræði (sem er gjörtapað stríð fyrir nemendum) ætlar bloggari að stinga upp á vettvangsferð í bakaríið. Ef veðrið verður eitthvað í líkingu við nepjuna í morgun þykir honum ólíklegt að boðinu verði tekið.
Sú mikla eik
Vinablogg Ormsbloggsins var lagt af í dag. Er það þeygi gott.
Trúleysi
Birgir er með áhugaverðan pistil um trúleysi í dag. Bloggari liggur sjaldan undir ámæli vegna guðleysis síns en hefur þó hitt fyrir fólkið sem hann telur Birgi vera að hnýta í. Ekki verður Ormurinn heldur talinn neitt sérlega umburðarlyndur gagnvart trúarkreddum sem ganga í berhögg við lífsviðhorf hans.
Umræðan er mjög af hinu góða.
Það sem torveldar hana þó eru ólíkar skilgreiningar á hugtökum eins og trúleysi, guðleysi, trú og trúarbrögðum. Orð í líkingu við „ásatrú“, sem hafa unnið sér þegnrétt í málinu, gera lítið til að einfalda málið.
Ódrengilegi kennarinn
Ætli það ódrengilegt hjá kennara að segja að strákur og stelpa í 10. bekk þrátti eins og „gömul hjón“? Reyndar hefur hann haft þann sama frasa uppi við tvo ónefnda MR-inga líka en unglingarnir eru trúlega viðkvæmari.
LEGO og list
Ekki vissi bloggari að neinn nennti svona löguðu. en ek heiti Sverrir 16:44
Vel lesnir ræðumenn í Sólbjarti vísuðu meira að segja til E.O. máli sínu til stuðnings. Mátti það sín þó lítils gagnvart Morfístöktum og sagnaspuna fjórðu bekkinga.
Leiðbeinandinn ungi steingleymdi svo aukatíma í stærðfræði sem hann var búinn að lofa að halda á sama tíma og keppnin stóð yfir.
Á kóræfingu seinnipart dags greiddu bræðurnir staðfestingargjald vegna farar MR-kórsins til London í maí. Það gerðu fleiri dámar. En menn skulu muna að fyrir hvern einn dám er til annar ódámur.
Í Grafarvoginum um kvöldið bauð bloggari Rimskælingum upp á hraðapakkann undir yfirskriftinni „refsing Guðs“. Í kjölfarið var vandalítið að segja mönnum að keppast nú við lesturinn.
Eftir æfingu og blogg var rölt niður á Ægissíðu og litið til himins (eins og fleiri). Ormurinn passaði sig samt á því að leita ekki langt yfir skammt.
Norðurljósin bröguðu í gærkvöldi og Síríus og Arktúrus tindruðu skært.
Tunglið, Júpíter og Satúrnus stóðu líka fyrir sínu og var bloggari alveg í sjöunda himni.
Af hverju ætli bloggið hennar Sigurrósar birtist eðlilega á makka en bloggið hans Jóa með 1 punkts letri? Það er meira að segja ólæsilegt eftir 300% stækkun svo kóðinn er látinn duga.
Am 183 fol.
Hvernig fór Nói að því að sjá fyrir James Bond myndaflokkinn?
„Heldur kyssir ég húsfreyjuna en bondann.“ en ek heiti Sverrir 15:52
Það er reyndar fátt dapurlegra en að vera að semja og slá inn hraðaspurningar á laugardagskvöldi (og blogga um það í þokkabót) en gærkvöldið bætir það þó upp og gott betur. Þokkalega.
Lengi er þó von á einum og eins og oft áður er þessi eini Snorri Beck. Það verður gaman að spjalla við hann á eftir. en ek heiti Sverrir 17:45
Kakan handa 10. bekkingum er komin út úr ofninum. Haukur er 16 ára í dag og er honum árnað heilla í tilefni dagsins. Ekki það að hann lesi Ormsbloggið því þá hefðu væntanlega einhverjar athugasemdir fengið að fjúka í tímum.
Reyndar lenti bakarinn í því að glassúrinn er kekkjóttur. Trúlega gleymdist að sía kakóið. Er það ekki óræk sönnun karlmennsku bloggara að hann geti ekki gert hvort tveggja, haldið gestinum uppi á snakki og sigtað kakóduft?
Svo er það eitt reiðilegt í lokin: Hvert er málið með að reita peningana af fólki sem liggur vel við peningaplokki?
Best var þó að lokinni MR-kennslu þegar nemandi skutlaði kennara sínum heim. Það verður a.m.k. ekki til lækkunar á geðþóttahluta kennaraeinkunarinnar í vor. en ek heiti Sverrir 16:00
Það eru greinilega ýmsir sem hafa átt í einkennilegum samskiptum við hið opinbera í Afríku. Fólk fer a.m.k. ekki létt með að prútta niður tollana hér á landi.
(Bloggið þjónar m.a. því hlutverki að vera tengiliður við höfuð heimilisins í Mapútóborg. Sú tekur það til sín sem á það.)
Af köppum
Sollu þáttr geimgengils á Múrnum er alveg mergjaður. en ek heiti Sverrir 16:31
Sverrir Teitsson, dómari, spyrill og stigavörður, var ekki með spurningar til að liðin gætu þreytt bráðabana. Gerði það ekkert til þar sem bæði lið þóttust fullsæmd af úrslitunum. en ek heiti Sverrir 14:37
Bloggið rifjar upp flug bræðranna yfir Jóhannesarborg fyrir um ári síðan (skipt um vél þar á leiðinni til Mapútó). Borgin er gríðarlega dreifð og þar mátti bæði sjá úthverfi þar sem sundlaugar voru í hverjum garði og úthverfi þar sem snauðir búa í hreysum við malarvegi.
Hvítu mennirnir þar suður frá voru víst „forsjálir“ og lögðu drög að skiptingu borgarinnar í hvít og svört hverfi nokkru fyrir aldamótin 1900.
Þegar bloggari staldrar lengur við í Jóhannesarborg mun hann heimsækja Apartheidsafnið.
Við innganginn eru menn sem ákveða hverjir eru dökkir á hörund og hverjir ekki. Rimlar skilja svo hópana að uns þeir sameinast í aðalsýningarsalnum. Fyrirkomulagið afhjúpar fáránleik aðskilnaðarstefnunnar fullkomlega.
Gestur
Það tók Orminn smástund að skilja nýjustu færsluna í gestabókinni.
Eggþér er kominn til Ungverjalands. Maðurinn hefur greinilega vaðið eld og brennistein á för sinni utan.
Magnús Kjartansson
Greinin sem Stefán Pálsson vitnar í er makalaus. Þeir sem stóðu að Íslensku tilvitnanabókinni vísuðu í mergjaðan leiðara Magnúsar í Þjóðviljanum. Þar sagði efnislega:
Áður voru ræningjar hengdir á krossa. Nú eru krossar hengdir á ræningja.
(Þegar Vilhjálmur Þór fékk fálkaorðuna.)
Ísskápurinn - kalt stöðumat
Þar sem Ormurinn er farinn að óttast um forystu sína í matarbloggum er vert að geta þess að í ísskápnum eru þrjár áteknar gosflöskur, nokkrir lítrar af bjór, 1944 stroganoffréttur, egg, fjórar túpur af sinnepi og tvær af tómatsósu.
Engir ávextir, enginn mjólkurmatur, ekkert grænmeti.
Í frystinum er brauð, frosinn rjómi, rækjur og klaki. Það eru ekki einu sinni til hamborgarar.
Lesendur mega búast við mannfækkun af völdum hallæris.
Orð gærdagsins
Orðið var „Pfafffrystir“. Bloggara flaug einnig í hug „sködddrífa“. en ek heiti Sverrir 12:44
Eins gott að hollenska útlendingaeftirlitið kann ekki íslensku. Því verða ekki vandaðar kveðjurnar ef Ormurinn þekkir víóluleikarann geðþekka rétt. en ek heiti Sverrir 19:31
Orðrómurinn á götunni segir síðasta bloggið hafa staðið nördaprófið. Ormurinn stóðst hins vegar ekki próf gærkvöldsins, það er næsta víst. en ek heiti Sverrir 16:59
Jæja, þá er það ákveðið með reglugerð. Litli bróðir þreytir samræmt stúdentspróf í íslensku í byrjun janúar 2004.
Miðstýringarseggurinn hefur greinilega unnið starf sitt af kostgæfni áður en hann yfirgaf ráðuneytið.
KR-ingar koma sem kallaðir
Áðan komu KR-ingar á Sæból (a.k.a. Lynghaga) að safna umbúðum fyrir utanlandsferð sunddeildarinnar. Var þar m.a. á ferð félagi Snæbjarnar. Görpunum var boðið í bæinn og fengu þeir að hrjóða eldhúsborðið, hvert þakið var umbúðum eftir nýársfögnuðinn. Yngri bróðirinn, sem átti að flokka umbúðirnar, slapp þar með nokkuð vel.
Þótt þetta sé náttúrulega vatn á myllu óvinarins er ljósi punkturinn sá að einhverja daga verður nokkrum KR-ingum færra á landinu. Ekki sýta bræðurnir það.
Nýr allsherjargoði
Samkvæmt frétt mbl.is hefur Hilmar Örn Hilmarsson verið kjörinn allsherjargoði. Fyrir utan það að vera sérstakur í háttum ber hann kraftinn í skegginu rétt eins og fyrri goðar. en ek heiti Sverrir 19:41
Það voru aldeilis dregnar fram kannónunar við matargerð gærkvöldsins þegar Eggert Ungverja og Sindra dvergi var boðið í pitsu. Hafði Ungverjinn aldrei áður bragðað á böku hjá bræðrunum og var hinn spenntasti. Kannski var hann bara kurteis, en heimamönnum skildist á honum að hann kynni vel að meta matinn. Kannski gaf það tóninn þegar hann sagði paprikuna gómsætu, sem fór ofan á pitsurnar, vera nærri því jafn-góða og ungversku paprikurnar (en Ungverjar ku vera mjög flinkir í slíkri ræktun).
Bræðurnir skapa söguna
Það er ekki ónýtt að taka þátt í því að setja glæsilegt met. Að gamlársdegi og nýársdegi frátöldum, hefur annaðhvort verið pitsa eða hamborgarar í matinn síðan á jóladag. Pitsa var á boðstólum í gær, verður það aftur í dag og svo eru til borgarar í frystirnum fyrir annað kvöld. Ætli það verði þó ekki bryddað upp á þeirri nýbreytni að hafa grjónagraut í matinn á mánudaginn. en ek heiti Sverrir 12:42
Um smekk ber (ekki) að deila en Ormurinn játar þó að hann er frekar á línu Ármanns en Munda þegar kemur að Ladda og Radíusbræðrum. en ek heiti Sverrir 18:45
Deilan stóð í stuttu máli um það hvort tiltekin orð, s.s. bleyða (kvk. köttur) og ofurbaukur (súperdós), tíðkuðust eða hefðu tíðkast á NA-horni landsins.
(Vonandi verður þessum auma bloggara, sem þetta ritar, fyrirgefið ef hann fer með rangt mál.)
Og hvað hafði þessi deila umfram allar hinar? Jú, hún fjallaði um grundvallaratriði orðnotkunar í íslenskri tungu. Um þetta mikilvæga málefni höfðu ekki spunnist svo miklar deilur áður á blogginu (að því er bloggari best veit). Einnig glöptu stjórnmálin mönnum ekki sýn, enda um slíkt prinsippmál að ræða að það gekk þvert á allar flokkslínur.
Rétt eins og góðum deilum sæmir voru málin reifuð og flækt og vísaði hvort um sig til heimildarmanna sem að sjálfsögðu voru á öndverðum meiði. Ormurinn verður að viðurkenna að hann missti fljótt sjónar á helstu deiluefnum en karpinu virtist þó ljúka með einhvers konar sáttagerð, þótt hvort um sig héldi því fram að hitt væri að misskilja grundvallaratriðin (enn eitt einkenni góðra deilna).
Og svo var þessi deila líka skemmtileg öfugt við margt af því sem sést hefur til að undanförnu. en ek heiti Sverrir 19:55