Ormurinn og Forsetinn ræddu við fólk um blogg í boðinu í gær. Þar af voru nokkrir sem höfðu aldrei lesið en voru forvitnir um fyrirbærið. Þeim fannst eftirfarandi samtal tveggja bloggara í boðinu all-kostulegt:
(X bloggar og er einnig með kúrsa á Árnagarði)
Spyrjandi: „En hvernig er X?“
Ormurinn: „Áttu við bloggarann X eða manninn X?“
Spyrjandi: „Ég er frekar að spá í manninn X.“
Innskot þess sem ekki bloggar: „Meinið þið þá að fólk geti verið með nokkurs konar annað sjálf á blogginu sínu?“
Ormurinn: „Mmm...já.“
Flugeldakaup
Föðursystir og afi og amma bloggara munu víst ekki kaupa flugelda fyrir kvöldið. Þeim hefur sýnst það duga að treysta á sprengjuglaða í Fossvogsdalnum. Bræðurnir vilja samt kaupa sjálfir. Öfugt við undanfarin ár verða flugeldarnir ekki keyptir hjá björgunarsveitinni Ársæli/Ingólfi heldur hjá knattspyrnufélaginu Val. Verst er að valsarar kaupa trúlega af KR í heildsölu.
Hátíðin hringd inn
Í hvaða kirkju ætli klukkurnar séu sem hringja inn hátíðina á RÚV? en ek heiti Sverrir 10:57
Gamla MR-klíkan fór á Tveggja turna tal í gær ásamt Munda MA-ingi. Það væri að æra óstöðugan ef Ormurinn færi að fjalla um myndina sjálfa. Bíóferðin öll var á hinn bóginn öll hin best heppnaða og er kvikmyndin þar engin undantekning. Að koma út úr Laugarásbíói klukkan 3:45 er samt engin hemja.
Misjöfn eru morgunverkin
Rétt áðan vaknaði bloggari við það að verið var að negla í vegg í hinu parhúsinu (Lynghaga 22). Þykir honum það heldur lítill náungakærleiki. Sá þreytti ætlar samt að sýna biðlund í örfáa sólarhringa því hefndin verður sæt.
Jólatónleikar
Kórtónleikarnir eru í dag klukkan fimm. Ormurinn hefur aldrei verið jafn-djúpraddaður og þegar hann vaknaði áðan. Náði hann alla leið niður á fís. Það telst víst ekkert rosalegt enda nær enginn kórdrengur jafn-skammt niður og þessi tenór. en ek heiti Sverrir 11:15
Að vísu skera tveir bloggarar sig úr hér vinstra megin, þeir Eyjólfur (14) og Erlingur (50) (vá, þetta var Séð&heyrt-legt).
Því er ánægjulegt til þess að vita að Svandís, móðir Odds, sé byrjuð að blogga. Einnig náði karl, faðir Orms, að ropa því upp úr sér að hann hafi skrifað nokkur Afríkubréf á heimasíðu Iðntæknistofnunar þar sem hann vann fyrir reisuna miklu. Bréfin þessi eru víst hin skemmtilegustu aflestrar (ískalt, hlutlaust mat).
Gærkvöldið
Ömmupitsan var á borðum Ormsins í gær. Hún var ekki bragðgóð en þó ágætis tilbreyting frá stórstjörnumáltíðum síðustu daga. Einnig gaf góða raun að vera svolítið svangur í þetta sinn.
Um lágnættið var haldið á vit ævintýranna og heilsað upp á þær Arndísi og Þórdísi á Einimelnum. Reyndust þær glaðar og reifar og tilkippilegar í að horfa aðeins á norðurljósin, sem bröguðu einstaklega skært í gær. (Hver þorir að nota orðið „stjörnuskoðun“ á þessum síðustu og verstu?) Heimsókninnni lauk þó ekki fyrr en upp úr fjögur en þá var siginn nokkur höfgi (kk.) á mannskapinn.
Vatnsaflsvirkjanir á Ís(a)landi
Bloggari opnaði virkjanaritið í gærkvöldi. Það kom honum skemmtilega á óvart hve margar virkjanir eru í bókinni. Sem dæmi má nefna að virkjanir eins og Rollulækjavirkjun og Sængurfossvirkjun rata í bókina (nei, bloggari hafði ekki heyrt um þær fyrr en í gærkvöldi). Það er alveg ljóst að þessi verður étin með húð og hári þegar doðranturinn „Making of the Atomic Bomb“ hefur verið lagður að velli.
(Bloggari vill ekki vera leiðinlegur en hvert er málið með þessa fréttasamninga við smærri fjölmiðla? Þessi keppir jafnvel við fréttina á aðfangadag um Hafnfirðinginn sem sló blettinn heima hjá sér. Sú var reyndar í fréttayfirlitinu á Rás 1).) en ek heiti Sverrir 13:01
Með DVD disknum frá bræðrunum eru vandkvæðin leyst við að finna hin tvö myndbönd desembermánaðar (ásamt „Kossum án vara“). „Intergalactic“ og „Root Down“ með drengjunum dýrslegu verða þá sjálfkrafa fyrir valinu. Hið magnaða myndband „Sabotage“ er nú þegar komið í þennan flokk.
Jól í Suður-Afríku
Gamla settið hringdi í gærkvöldi þaðan sem þau dvelja við Krókódílaá í S-Afríku (þau sáu einmitt nokkra slíka í gær). Þar var steikjandi hiti en að öðru leyti fór jólahátíðin vel fram. Ánægjan var síst minni með gjafirnar suðurfrá en á Fróni. Í gjafamálum skemma langar vegalengdir greinilega ekki fyrir þar sem þau gátu valið gjöf að bræðrunum fjarstöddum.
Jóladagur
Ormurinn hefur einsett sér að vera duglegur í dag, enda sést hve dagurinn er tekinn snemma (bloggtími er sá sami og staðartími).
Og hér er ekki einungis átt við smákökurnar í morgunmatnum og Tobleronið um hádegisbil heldur ýmislegt fleira. en ek heiti Sverrir 07:19
Þetta er búið að vera indæll aðfangadagur. Ísleifur kom hér við og skutlaði bloggara í búðir til að kaupa brýnustu nauðsynjar, Macintosh Quality Street og Toblerone, ásamt Ömmupitsu fyrir annan í jólum. Laugavegurinn var ekinn og þar bar helst til tíðinda að það var þónokkuð að gera í Máli og menningu ásamt því að setið var við hverja tölvu í K-laninu. Í Rúblunni keypti Forsetinn bílablað til að lesa yfir jólin en Ormurinn skellti sér á jólablað Stern til að hressa upp á þýskuna.
Svo er Ormurinn búinn að vera þrusuduglegur við að ryksuga, skúra og bóna alla íbúðina, enda mætti segja að það rjúki af honum í augnablikinu. Svanur og María Guðjónsdóttir komu hér færandi hendi með vínflöskur handa bræðrunum. Það hallaði nú heldur á þau í þeim skiptum (bræðurnir gleymdu meira að segja að bjóða upp á Toblerone) en þó var knús að launum frá Lynghagamönnum.
Jólaskapið
Fyrripart dags var Ormurinn alls ekki viss um hvort hann kæmist í „jólaskap“ tímanlega. En við það að rúnta um bæinn, fara í Tíu ellefu, skúra og bóna, hlusta á þrjár bestu Bubbaplöturnar í gegn (Dögun, Frelsi til sölu og Von) og senda fjarlægum vinum jólakort á netinu varð bloggari hálfklökkur. Þar með hlýtur hann að vera kominn í hið eina sanna „jólaskap“. Minningin um myndbandið við lag Bubba „Kossar án vara“ varð heldur ekki til að skemma stemmninguna. Það er hér með útnefnt myndband desembermánaðar. en ek heiti Sverrir 16:59
Nú eru stúdentsprófin eins misjöfn að gæðum og skólarnir eru margir. Er það ekki bara í fínu lagi?
Hvaðan er sprottin sú ofurtrú að nákvæm námsskrá og samræmd próf bæti skólakerfið? Grrr...
Og svo verða 10. bekkingarnir í stærðfræði og íslensku nötrandi allt vorið þegar maður ætti að vera kenna þeim eitthvað samhangandi og gagnlegt í staðinn fyrir að vera endalaust að kroppa í gömul samræmd próf. En krafan hljóðar víst upp á það. Það er þó sínu meira vit í þessu í 10. bekk til að hjálpa framhaldsskólunum að velja. Þeir gætu þó alveg valið jafnvel inn án samræmdu prófanna því þeir þekkja ólík viðmið milli skóla.
Ormurinn veltir fyrir sér hvort umsagnarkerfi að bandarískri fyrirmynd myndi ekki skila betri árangri en þetta miðstýrða rugl. en ek heiti Sverrir 16:00
Ef marka má þessa síðu er það rétt sem Bragi segir um þýðingu orðsins Manhattan í indíánamáli. Ein af (mörgum) skýringum orðsins er nefnilega „staðurinn til að vera fullur á“. en ek heiti Sverrir 06:14
Þegar bloggari komst að því að einn kórfélaganna, Davíð Halldór Kristjánsson, væri búinn að koma sér upp eigin lögmáli, Lögmáli Davíðs um bíla, þá var honum öllum lokið. Eftir talsverða íhugun yfir helgina hefur bloggandi ákveðið að helga sér ákveðið lögmál sem varðar útskýringar:
Fyrsta lögmál Ormsins um útskýringar:
Allar góðar útskýringar byrja á „Sko!“
Er þetta ekki raunin? Þessi framsetning útilokar ekki heldur að Ormurinn komi fram með heilsteypt kenningakerfi síðar í ætt við trúarbrögð, frjálshyggju eða marxisma.
Jólin koma senn
Bræðurnir keyptu jólatréð í gær með aðstoð þeirra feðga, Gunnars og Eyþórs. Varð rauðgreni fyrir valinu, um 160 cm á hæð eða litlu lægra en bloggari. Að vanda verður tréð skreytt annað kvöld.
Yngri bróðirinn er búinn að baka báðar sortirnar fyrir jólin, kókoskökur og rúsínukökur. Baksturinn fær bestu meðmæli enda sver hann sig mjög í ætt við það sem foreldrarnir hafa bakað síðustu árin.
Ormurinn og Kötturinn ætla að taka netið með trompi á nýju ári. Er hinn nýi sameiginlegi vefur, Tilberinn.is, enn í vinnslu en þeir hafa notið sérfræðikunnáttu Jarlaskáldsins við þróun helstu afurða. en ek heiti Sverrir 04:24
Af kynningunni að dæma mun hún skarta einum af glæsilegustu sæborgurum kvikmyndasögunnar. Og þá er ekki verið að tala um Schwarzenegger. en ek heiti Sverrir 11:13
Orminum skildist það á bróður sínum, Rapparanum, að ekki þyrftu allir bræðurnir að standa í jafn-stífri jólatiltekt. Helgast það af dvöl hans þar syðra og heimilisaðstæðum. Stóri bróðir er nú samt þeirrar skoðunar að vart sé á dekrið bætandi hjá litla örverpinu.
Óskalisti jólin 2002 - gjafavörur
Nú er ljóst hvar bestu jólagjafirnar handa bloggara er að finna (fyrir utan bækur og plötur).
Þessi síða er á vef annars af tveimur elstu fyrirtækjunum í Færeyjum, sem Símon í Vogi stofnaði 1888.
Já, hér er síðan með öllum asnalegu auglýsingunum. Þessi þriðja neðsta mun eldast heldur skár en Íshoppsauglýsingin fræga.
Besta fjárfestingin?
Ætli 20 þús. sé sanngjarnt verð fyrir 20 MHz sveiflusjána sem auglýst var í DV um helgina?
Haustið 1999 komst bloggari í feitt þegar hann rataði inn í búð erlendis sem stillti ótal sveiflusjám út í búðarglugga. Einn ferðafélaganna, Vilhelm Sigfús Sigmundsson, sagði þetta eina bestu fjárfestingu sem mætti hugsa sér því grunnhönnunin hefði verið óbreytt um áratuga skeið. Hún hefði samt örugglega ekki komist fyrir í handfarangrinum.
Íþróttabandalag Reykjavíkur
Það kom Orminum í opna skjöldu hve mörg félög eru á skrá ÍBR. A.m.k. hafði bloggandi ekki heyrt af íþróttafélaginu Leiftrinu eða Dansfélaginu Kvistum.
Annars er það bölvuð óheppni að Kjósin hafi ekki sameinast Reykjavík. Hver vill ekki hafa Ungmennafélagið Dreng innan sinnan vébanda? en ek heiti Sverrir 12:16
Er Búrfellsvirkjun ekki stærsta virkjun landsins með öll sín 270 MW og sínar 2100 GWst?
Nei, það er Nesjavallavirkjun sem rúlar. Raforkuframleiðsla hennar er 90 MW ásamt 200 MWth í jarðgufu sem nýtt eru til að hita upp vatn fyrir höfuðborgarsvæðið. Vatnið kólnar aðeins um eina gráðu á 27 km leið frá Nesjavöllum til Reykjavíkur (úr 83° C í 82° C).
Sýnir þetta ekki svart á hvítu hve Alfreð er miklu meiri töffari en Jóhannes?
Nýtt kennileiti í fjallahring Höfuðborgarsvæðisins
Hvernig fara menn að því að skapa nýtt kennileiti í fjallahring höfuðborgarsvæðisins? Jú, það mætti t.d. leggja kláfferju upp á Esjuna.
Hin aðferðin er að bora öflugustu borholu landsins við Trölladyngju á Reykjanesskaga og láta hana blása.
Íslensku kósakkarnir
Eitt afmælisbarnanna í DV um helgina bauð St. Sandvíkur kósakkana velkomna í afmælið. Það hljómar eins og félagsskapur einhverra gangstera en bloggara tókst þó ekki að hafa upp á því róstursamlega gengi á íslenska vefnum. Því verður eðli þess félagsskapar Orminum hulið enn um sinn. en ek heiti Sverrir 08:38
Erlingur vísar á skemmtilega færeyska síðu þar sem hann kennir fólki að blogga, Undirhald.com. Þar gefur m.a. að líta leikinn (spølið) „Á seiðaberg“, sem hlýtur að teljast í hópi stórvirkja mannsandans. Leikinn þann er skylda að spila með hljóði.
Einnig eru þarna spil sem kenna fólki um landsins gagn og nauðsynjar, s.s. að rýja rollu, fanga lunda í háf og skjóta fugl. Þó er það trúlega skemmtisagan „Klókur hundur“, sem ber af öðru efni á síðunni. en ek heiti Sverrir 14:18
Kenning Kristbjarnar um Stefán og Davíð er allrar athygli verð. Hún skýrir a.m.k. öll bloggin um óþörfu fundarseturnar á mánudögum. Slíkur maður þarf ekki á fundum að halda. en ek heiti Sverrir 15:29
Sveinn Guðmarsson er með fróðlega úttekt á götunöfnum á síðu sinni, Rangláta dómaranum. Bloggari er þó enn að melta breytingarnar á götuheitum á Valhúsahæðinni. en ek heiti Sverrir 08:28
Fólk er ekki endilega talsmenn fámenns hóps þótt það sé listamenn eða rithöfundar. Allir vita að það eru aðeins áðurtaldar stéttir auk íþróttamanna, athafnaskálda, stjórnmála- og embættismanna sem komast að í fjölmiðlum.
Eins er ómálefnalegt þegar gefið er í skyn að fólk hafi ekki jafn-réttháar skoðanir á hlutunum og aðrir, bara af því að það býr í göngufæri við kvikmynda- og kaffihús (eða í hverfi með tiltekið póstnúmer). Hvað þá ef hinir sömu hafa dirfst að skrifa bækur eða yrkja ljóð.
(Fólk skyldi setja þetta í samhengi við fýlublogg gærdagsins.) en ek heiti Sverrir 13:27
Amma bað um skilgreiningu á því að vera „artí“. Tvö af barnabörnunum hafa nefnilega verið skilgreind sem „artí“-týpur (bæði úr MH).
Fólkið í 101 bjargaði Orminum alveg (enda er sjón sögu ríkari).
Klaufavillur
Þau eru fá orðin sem fá bloggara til að sjá rautt. Eitt þeirra er þó hugtakið „klaufavilla“. Eftir að hafa hlustað á grunnskólanema tala um að þeir hefðu gert svo og svo margar klaufavillur á vorprófi var leiðbeinanda öllum lokið. Það fylgdi nefnilega sögunni að menn hefðu verið að flýta sér út úr prófinu (síðasta prófið o.fl.).
Kennari gerðist meira að segja svo djarfur að ásaka menn um slæleg vinnubrögð.
Gleymska, kunnáttuleysi og óvönduð vinnubrögð geta leitt til mistaka á prófum. „Klaufavilla“ er hins vegar orð sem einhverjir grunnskólaskunkar hafa troðið upp á krakka af hlýjum hug til að láta þeim líða betur með mistök sín. Það er ekki til þess fallið að efla þroska og vandvirkni með blessuðum börnunum.
Rassamolarnir
Ormurinn fagnar því að Bjarni hafi náð að skutla fleirum inn á bloggaralistann. Þetta var frekar rólegt í sumar en nú hefur leikurinn tekið að æsast. Kannski mætti lengja listann en svo getur fólk náttúrulega alltaf smíðað sinn eigin. Listi Ormsins í dálknum vinstra megin stendur til bóta.
Svo mælir bloggandi með því að fólk taki þátt í bjórkönnun á síðu Eiríks Briem. Hann fer þrusuvel af stað í blogginu.
Hálft kg af fýlu
Ormurinn hefur reynt að standa sig sem best í fýlunni síðustu dagana. Bæði í dag og í gær hófst dagurinn með skeifu á vör en eftir ævintýrið með ömmu í bænum og upplífgandi spjall við samkennara má hann hafa sig allan við. Grátbroslegar villur nemenda hafa einnig náð að laða fram kímilegt glott annað veifið.
Reyndar var það komið svo að bloggari taldi hugleiðingar sínar vera komnar í óendanlega slaufu í nótt. Samkvæmt skilgreiningu mun hann þó aldrei komast að hinu sanna. Gönguferð meðfram sjónum við Ægissíðu hafði samt tilætluð áhrif og beindi huganum inn á nýjar brautir.
Sá slagkraftur skal nýttur til góðra verka í dag.
Kunnuleg krossaspurning
Á stjörnufræðiprófinu var aukakrossaspurning ættuð frá Fúsa, samkennara Ormsins:
Þessi féll í góðan jarðveg og var þetta trúlega eina svarið sem allir voru með á hreinu.
Tómas efnafræðikennari
Erlingur sýnir enn og aftur á bloggi sínu að Tom Lehrer er ekki allur þar sem hann er séður. Nú er það lotukerfið í flashi og kennarinn spilar undir. en ek heiti Sverrir 03:51
Hringtorgin er svo annar vanmetinn þáttur gatnakerfisins sem Stefán minnist á. Hringtorgið við flugbrautarendann var ennþá inni á skipulagi sem Borgarskipulagið sendi inn á öll heimili í Vesturbænum um 1990. Trúlega megnar æfingasvæði KR heldur ekki að stöðva vinnuvélarnar því ekki er búið að loka á þennan möguleika heldur tekur staðsetning framúrstefnuleikskólans Sæborgar mið af því að Ægissíðan verði trúlega framlengd í framtíðinni. Einnig er ljóst að Starhaginn ber illa þá umferð sem um hann fer og gatnamót hans og Suðurgötu eru tómt klúður.
Annars er bloggari ekki viss um hvort Mosfellsbæingar (sem er jú vissulega bær hringtorganna) hafi tekið upp þá hefð sem Reykvíkingar hafa haldið í fram á síðustu ár að nefna hringtorgin. Er það synd að sú hefð virðist eiga undir högg að sækja nú á dögum flókinna umferðarmannvirkja.
Af þekktum hringtorgum er náttúrulega fyrst að nefna Miklatorgið alræmda þar sem saman komu Miklabraut, Hringbraut, Snorrabraut, Skógarhlíð og Flugvallarvegur. Tvö þekkt hringtorg eru enn við lýði í Vesturbænum, Melatorg og Hagatorg, ásamt nýrra torgi við JL-húsið sem væri réttnefnt Jónstorg, Hringtorg eða Ánatorg. Áður fyrr var hringtorg í Kaplaskjóli (virðist kennt við það skv. Vasabókinni 1978) þar sem nú er leikskóli við Nesveginn. Í gegnum það lá Nesvegurinn áður (en þá bar Neshagi einnig það nafn enda í beinu framhaldi).
Hringtorgið við Hlíðaskóla heitir svo Eskitorg eftir Eskihlíðinni (þar sem fjölskyldan bjó áður en hún flutti á Lynghagann). Svo muna margir eftir Skúlatorgi þar sem Snorrabraut liggur niður að sjó. Að því lágu Snorrabraut, Sætúnið, Skúlagatan og Borgartúnið.
Enn eru þó ótalin nokkur hringtorg í Reykjavík sem bloggara er ekki kunnugt um nafn á. Til dæmis hringtorgið við MS (?Gnoðatorg, gnoð=skip) sem og torg uppi í Grafarvogi.
Það hringtorg sem á samt trúlega vinninginn sem svalasta hringtorg Íslandssögunnar er ekki lengur til en var nokkurn veginn þar sem er göngubrú yfir Kringlumýrarbraut milli Sóltúns og Teigahverfisins. Skv. Vasabókinni 1978 nefndist það Hringteigur.
Bloggsnuðrari
Orminum datt í hug að kalla sig „bloggsnuðrara“ þegar hann fyrstur manna í ótilteknum hóp þefaði uppi blogg manneskju úr hinni klikkunni. en ek heiti Sverrir 16:50
Ormurinn reyndi fyrir sér í blogggetraun Atla í dag. Hann var meira að segja svo göfugur að afþakka verðlaunin fyrir fram. Það var kannski ekki svo galið þar sem hann veðjaði á kynjaskepnuna Þorra þorsk.
Svarið var víst ekki rétt. Bloggari bíður spenntur eftir að Atli segi lausnina á morgun.
Sjónvarpið sveik engan í dag. Ef Ormurinn hefði viljað dúkku þegar hann var lítill hefði hann sko ekki slegið hendinni á móti dúkku sem gæti ropað eins og í auglýsingunni. Svo mættu Gunni og Felix á háaloftið og þar fór Eggert Þorleifsson á kostum sem Loftur. Skemmtilegasta orð þeirrar persónu var „leiðindi“. en ek heiti Sverrir 18:46
Ormurinn fór áðan inn á fréttasíðu um Mósambík sem Rapparinn vísar á. Þar var frétt um að yfirvöld í Mósambík, S-Afríku og Zimbabwe væru að leggja saman krafta sína og opna risastóran sameiginlegan þjóðgarð. Brátt á að vera hægt að skoða náttúruna á einstökum svæðum í þremur ríkjum innan sama garðsins.
Til að gefa lesendum einhverja hugmynd um stærðina á þessu öllu saman þá er hinn rómaði Krugerþjóðgarður um 20 þús. ferkílómetrar en nýi sameiginlegi garðurinn verður um 35 þús. ferkílómetrar. Framtíðaráformin hljóða svo upp á 100 þús. ferkílómetra garð á stærð við Ísland.
Af hverjur er Ormurinn að blogga um þetta? Jú, í fyrsta lagi eru hans nánustu þarna suður frá en þó er helsta ástæðan sú að fjölskyldan fór í Krugergarðinn um síðustu áramót og heillaði náttúran þar bloggara upp úr skónum.
Meira af þeirri ferð síðar hér á blogginu. en ek heiti Sverrir 15:05
Jafnframt prísar leiðbeinandinn sig sælan að það er ekki nema einstaka maður sem hefur strítt Orminum með því að leggja meira út af stjörnufræðinni en raunvísindin krefjast. en ek heiti Sverrir 14:04
Svo líður á mánudagskvöld og kl. 21:30 uppgötvar Ormurinn að það vanti gjöf fyrir morgundaginn. Þá var byrjað á því að nöldra í yngri bróðurnum og saka hann um að hafa gleymt að kaupa gjöf. Þessi aðferð bregst aldrei enda báðir heimilismenn orðnir drullufúlir eftir tvær mínútur. Sælt er sameiginlegt skipsbrot í fýlunni. Ormurinn nennti hins vegar ekki að taka fjarkann upp í Mál og menningu skömmu síðar (sem hefði sloppið) svo að það þýddi að engin var gjöfin á þriðjudeginum. Þá var nú ljóst hver var mesti álfurinn á svæðinu þann daginn.
Hins vegar hljóp á snærið á undirrituðum þennan dag því hann fékk þessa fínu svuntu frá eigin álfi. Ormurinn játar það hér fúslega að hann hugsaði sér gott til glóðarinnar að geta notað hana til gjafa síðar í vikunni ef í nauðirnar ræki. Þar sem vinnustaðurinn er fjölmennur voru líkurnar á því að þeginn og álfurinn væru sama manneskjan hverfandi. En til þessa kom þó ekki.
Á þriðjudagskvöldið datt álfinum í hug að fara aftur upp í Mál og menningu og fann þar könnu og danskt jólablað (já, dönskukennarinn í skólanum var skjólstæðingur Ormsins). Hann keypti svo aftur sama kver og yngri bróðirinn gaf í gjafaleiknum sínum. Þarna voru sem sagt komnar tvær gjafir í viðbót og hluti af þeirri þriðju. Það var útlit fyrir að þetta myndi duga fram á fimmtudag.
Leið svo vikan og fékk Ormurinn jólaseríu, skraut og sápur (hint?). Það var þó ekki fyrr en á fimmtudag að dönskukennarinn opnaði pakka frá Ormi (þrjú stk.) og minnkaði þá samviskubitið yfir því að hafa verið seinn á þriðjudag. Var bloggari það taugastrekktur að hann dreif sig í tölvuna í næsta herbergi (sem er ekkert óvenjulegt atferli) en heyrðist þó gerður ágætur rómur að gjöfunum.
Svo í dag var komið að því að upplýsa um hver var álfur hvers. Íslendingar eru þannig að ef fólk þekkist ekki mikið og situr ekki nálægt hvert öðru er ekkert víst hvort viðkomandi fái nokkurn tíma að vita hver leyniálfurinn er. Álfurinn Ormsins gaf svo góða vísbendingu að upp komst um einn sessunautanna. En nú er komið að því að Ormurinn upplýsi dönskukennarann um sín strákapör. Reyndar er eina vísbendingin sem hún hefur í höndunum að álfurinn skrifar ítalska skrift og er ekki flinkur í að pakka.
Álfar og jólin
Í öllu þessu standi fór Ormurinn að velta fyrir sér tengslum jólanna á Íslandi við álfa og þó sérstaklega þessa ljótu búálfa sem seldir eru í búðum.
Hvert er málið með þessa frændur Mókolls Landsbankans og
Staupa-Steins? Síðan hvenær hófu þeir að tengjast íslensku jólunum?
(Þótt Mókollur hafi verið morkin fígúra er bloggari ekki að segja að nýja gerpið sé eitthvað sérstaklega í sínum anda.)
Jóladagatal
Mókollur rifjar reyndar á sjónvarpsupplifun gærkvöldsins. Á RÚV var nefnilega verið að endursýna jóladagatal Gunna og Felix. Það verður að teljast með betri jóladagatölunum en þó þótti Orminum stjörnustráksdagatalið skemmtilegra. Hver ætli hafi leikð fruntalegu konuna sem fór þar á kostum? Það má örugglega grafa upp einhvers staðar. en ek heiti Sverrir 21:43
Bloggari var í stökustu vandræðum með að stafsetja kamelljón í einni af færslum gærdagsins. Fannst honum tvö l líta betur út en eitt en fletti til öryggis upp í nýju íslensku orðabókinni. Hún gaf upp orðið bæði með einu l-i og tveimur.
Það var ekki síst vegna brandarans góða („Viltu kamel, Jón?“ „Spurðu Rabba bara.“) sem Ormurinn vantreysti minninu.
Þetta stúss allt vekur svo upp hugrenningatengsl við orðið „morgunsár“. Ekki var hlaupið að því að sannfæra fólk í kórnum um að rétt væri að segja morguns-ár.
Skógarmaðurinn órang-útan er svo enn eitt vandræðakvikindið. Það er auðvelt að eipa hreinlega á þessum orðum. en ek heiti Sverrir 23:03
Forsetinn er augljóslega andsetinn ef marka má nýjasta blogg hans. Eins gott að Ormurinn er með símanúmerið hjá særingamanninum. Og það verður ekkert rugl eins og síðast þegar hann hringdi óvart í sæðingamanninn.
Kameljónablogg
Náttfataútlitið er bara ansi svalt. Sumir myndu frekar kalla það „bláa hlébarðann“. en ek heiti Sverrir 22:12
Ekki komst Ormurinn þó hjá því að líta á fleiri stórmerkilegar greinar um rímfræði og stjörnufræði. Þ.á.m. var grein sem útskýrði af hverju birtustundir á norðurhveli eru nokkru fleiri en á suðurhveli. Þar kom einnig í ljós að meðalbirtutími sólarhringsins er lengstur við 69. gráðu norðlægrar breiddar.
Þorsteinn Sæmundsson er einnig með grein um færslu heimskautsbaugsins norður fyrir Grímsey (sem verður raunin eftir miðja þessa öld).
Sólmyrkvi
Ormurinn las færslu Rapparans um myrkvann. Næsta vor verður hringmyrkvi á Vestfjörðum eins og áður hefur komið fram á Ormsblogginu. Lýsti stjörnufræðileiðbeinandinn því fjálglega yfir í tíma að hann mundi mæta en svo kom víst upp úr dúrnum að skólaslit eru sama dag. Nemendunum voru ekki par hrifnir.
Spurningaspil
Nú eru bæði spurningaspilin sem Ormurinn tók þátt í að semja (8 spurningar í öðru en 300 í hinu) komin út. Ekki er ónýtt að bræðurnir hafi verið settir í hóp með „ýmsum sérfræðingum“ í fréttatilkynningu. en ek heiti Sverrir 13:15
Samkvæmt þessari frétt gáfu stjórnvöld í Mósambík fólki frí til þess að góna á sólmyrkvann. Nú bíða bræðurnir í ofvæni eftir næsta bloggi Rapparans. Lenti fjölskyldan í umferðarteppu? Var skýjað? Eða var þetta jafnmikilfengleg upplifun og frásögnin skáldlega frá 1954 (m.a. í Öldinni okkar) bendir til?
Neikvæð veðmál
Leiðbeinandinn heyrði á tali tveggja nemenda sinna að þeir voru að metast um hvor væri með hærri einkunnir. Það er náttúrulega hið besta mál og þessum tveimur veitir reyndar ekkert af því að peppa hvor annan upp.
Til að rífa niður þessa jákvæðu stemmningu þurfti leiðbeinandinn náttúrulega að segja frá „neikvæðu veðmálunum“ sem hann viðhafði í stúdentsprófunum.
Í fyrra sinnið hélt vinkona hans því fram að hún fengi lægra á latínuprófinu sínu en Ormurinn á stúdentsprófi í eðlisfræði. Bloggandi hélt nú síður og veðjuðu þau upp á að sá sem lægra fengi yrði þó kippunni ríkari. Leikar fóru svo að undirritaður fékk lægra en bjórkippan kom í sárabætur.
Hér var ekki látið staðar numið heldur veðjaði Ormurinn spaki síðar í vikunni við bekkjarfélaga um hvor fengi lægra á stúdentsprófi í stærðfræði III. Þar uppskar forspái námsmaðurinn með léttum leik kippu af kóki og kassa af prins pólói. en ek heiti Sverrir 12:45
Ekki kemur á óvart að N-Kóreumenn séu efstir á blaði yfir leikvanga heimsins með 150 þúsund sæta leikvang. Það sem kemur þó á óvart er að samkvæmt síðunni tekur Maracanã-leikvangurinn í Rio de Janeiro aðeins 70 þúsund áhorfendur. Brasilískarheimildir segja það þó vantmat því þar séu nálægt 100 þúsund sæti. Glöggir lesendur þekkja víst aðsóknarmetið frá 1950 þegar yfir 200 þúsund manns urðu vitni að sigri Uruguay á Brasilíu 2-1. En þá var víst minna lagt upp úr sætunum. en ek heiti Sverrir 11:55
Eyjólfur afmælisbarn sem átti afmæli í gær dvelst svo í góðu yfirlæti með foreldrunum í S-Afríku. Annars kom víst babb í bátinn í ferðinni. Nýi Busta Rhymes diskurinn sem hann ætlaði að kaupa frá Lynghagabúum var víst ekki kominn í búðir og búið var að loka McDonalds staðnum góða í Nelspruit. Frónbúar trúa samt ekki öðru en að litla dekurdýrið fái einhverjar bót sinna mála þar suður frá.
James Bond
Ormurinn fór á James Bond um lágnættið og hafði bara nokkuð gaman að. Glott lék samt um varir bloggara þegar hann fékk sér drykkinn fræga, enda var undirritaður minnugur úttektar biskupsins á plebbaskap í Bondmyndunum.
Eitt var það þó í umgjörðinni sem fór í taugarnar á Orminum. Þegar Bond talar við M í myndinni spyr hann í íslenskri þýðingu: „Ertu ekki ánægður að sjá mig?“ Er þarna dulin kjarabarátta á ferðinni og ákall á kvörtunarbréf svo að betur sé staðið að málum? (Vinna við þýðingar í sjónvarpi og kvikmyndum telst víst seint vel borguð) A.m.k. eru mistökin fáránleg og rifja upp hliðstæð atvik við textun Beautiful Mind og fleiri kvikmynda sem bloggandi hefur nýlega séð í bíó. en ek heiti Sverrir 11:57
This is my blogchalk: Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.