Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

fimmtudagur, nóvember 27, 2003
Kvak anda bergmálar!

Væntanlega muna sumir lesenda eftir
tilrauninni þar sem apar voru settir fyrir framan tölvur og beðið eftir því að þeir skrifuðu verk Shakespeares.

Tilrauninni var svo hætt eftir að aparnir höfðu þráfaldlega ýtt á stafinn „s“, migið á tölvurnar og reynt að skemma þær.

Á eftir svarinu við spurningunni „Er það satt að kvak í öndum bergmáli ekki?“ á Vísindavefnum var tilvísun á síðu um aðra stórskemmtilega tilraun.

Þar segir frá fólki sem fékk lánaða önd hjá húsdýragarði í vesturheimi og setti upp tilraun til að rannsaka hvort kvak bergmálar við byggingar East Lansing High School (hvar ku vera gott bergmál).

Í fyrstu vildi öndin ekki kvaka nema í búri sínu, sem var gagnslaust fyrir vísindamennina. Þá datt einum vísindamannanna í hug að halda um fætur andarinnar og hlaupa fram og til baka á gangstéttinni við skólann. Öndin fannst sem hún væri að fljúga og viti menn, öndin kvakaði svo undir tók í byggingunum.

Mórall sögunnar: Ekki trúa öllu því sem stendur í Dagskrá vikunnar.

Pappi kominn heim

Ormspabbi kom heim frá Mósambík í dag eftir 30 mánaða útiveru (-1 mánuður á Íslandi síðastliðið sumar). Eftir áramótin tekur hann til starfa hjá Iðntæknistofnun, þar sem hann vann áður.

en ek heiti Sverrir 17:57




fimmtudagur, nóvember 20, 2003
Bloggað í vetnisvagni

(Bloggað um nónbil 18. nóvember.)

Þvílík alsæla! Nú er hámarki nördaskaparins náð.

Ormurinn á örugglega ekki eftir að ferðast með dýrari bíl á ævinni (100 milljónir kr.).

Bloggari er um borð í tvistinum á leið vestur í bæ. Þar sem bloggari situr aftarlega í vagninum með kjöltutölvu sína er talsverður hvinur í mótornum (vetnisstrætisvagninn er í raun rafmagnsbíll þar sem vetnið er notað til að búa til rafmagn).

(Þegar hér er komið við sögu situr bloggari í strætóskýli á meðan tímajöfnun stendur yfir á Grandagarði.)

Vatnssameindirnar utan á vagninum eru frekar misheppnaðar. Það að hafa tengi milli vetnisatómanna hefur aldrei þótt góð efnafræði.

Vagninn er annars allur hinn vistlegasti að innan. Hann er lággólfsvagn, eins og nýjustu vagnarnir, sem er mjög til þæginda fyrir gamla fólkið og fólk með barnavagna. Það kostar hins vegar það, að sætauppröðun verður nokkuð skrýtin og sumir verða því að setjast í fjögurra sæta hnapp, jafnvel með ókunnugum. Það finnst landanum ekki skemmtilegt, og er trúlega hluti skýringarinnar á því að sumir geta ekki hugsað sér að nota almenningsvagna.

Á bjölluljósaskiltinu stendur „STANZAR“. Strætó bs. fær tvímælalaust plús fyrir það.

En næsta stopp er hjá Vesturbæjarskóla. Bloggar hringir bjöllunni og tekur saman föggur sínar.

(Síðla sama kvöld.)

Það síðasta sem bloggari sá af vagninum var gufustrókurinn upp úr þakinu.

Dómur er fallinn: Vetnisstrætó rokkar.


en ek heiti Sverrir 08:24




föstudagur, nóvember 14, 2003
Loftsteinn til sölu

Bloggari var að leita sér heimilda fyrir stjörnufræðikennsluna í gær þegar hann rakst á grein um loftsteinasöfnun í desemberhefti Astronomy.

Þar sagði m.a. af uppboði á 32 g loftsteini á
ebay.com sem fór á u.þ.b. $1.500.

Það fyrsta sem bloggari hugsaði með sér var hvort hann hefði frekar átt að kaupa loftstein heldur en fartölvu í sumar.

Í stjörnufræðitíma á eftir verður fjallað um útverði sólkerfisins, smástirni og loftsteina. Þá er hugmyndin að fara inn á ebay.com og sýna nemendunum m.a. þessa tvo hlunka.

Ætli kennarinn játi ekki einnig upp á sig veiklyndi fyrir þessari loftsteinasölu, hann er jú í markhópnum. E.t.v. verður hann búinn að smella sér á einn hnulla áður en áratugur er liðinn.

en ek heiti Sverrir 09:14




fimmtudagur, nóvember 13, 2003
Ný spurning send á Vísindavefinn

Ormurinn hefur geyst svo hratt áfram í stjörnufræðinni í haust að námsefni annarinnar er að verða uppurið. Það er all-kostulegt í ljósi þess að hann komst aðeins út að Úranusi í fyrra (Úranus, Neptúnus, Plútó, Kuiperbeltið o.fl. var tekið fyrir eftir jól) og ekki var sýnt eitt einasta vídeó.

Nú er búið að sýna þrjú vídeó um sólkerfið (hver mynd tekur ca. 2 kennslustundir) og e.t.v. verður því fjórða bætt við. Samt neyðist bloggari til að setja saman pakka til að bæta við námsefnið svo að kaffihúsaferðirnar verði ekki allt of margar fyrir jól.

Meðal þess sem tekið verður fyrir í þessum „viðbótarpakka“ er tímatal múslíma (til samanburðar við gregoríanska tímatalið). Skv. Kórarinum skulu vera 12 tunglmánuðir í ári og því er árið aðeins 354 dagar að lengd (354=12*29,5 dagar í tunglmánuði). Þetta þýðir það að það líða 34 ár uns ramadan hefst aftur í kringum 7. nóvember eins og hann gerir í ár.

En hvað gerir þá múslími sem býr í Grímsey í sínum málum? Ef hann er trúrækinn biður hann bænir fimm sinnum á dag. Fyrst þrjár mínútur fyrir sólarupprás, svo þrisvar sinnum yfir daginn, og svo að lokum í þrjár mínútur eftir sólarupprás.

Í desember verður þetta ansi samþjappað hjá honum þegar sólargangur er sem stystur. Þá þarf hann eiginlega að biðja fimm bænir í röð og bíða svo í 23 klst. Í júní snýst þetta hins vegar við þegar bænirnar eru með dreifðasta móti og sólarupprásar- og sólarlagsbænir lenda saman.

Þetta vandamál er þó leikur einn miðað við föstumánuðinn ramadan. Vissulega er Grímseyingurinn heppnasti maður síns trúfélags þegar ramadan ber upp á desember. Það að fasta og sleppa því að stunda kynlíf í einhvern hálftíma er hægðarleikur. Gamanið tekur hins vegar að kárna 17 árum síðar þegar ramadan ber upp á mitt sumar.

Spurningarnar sem Ormurinn sendi á Vísindavefinn hljóðaði eitthvað á þessa leið:

„Hvernig haga múslímar á Íslandi bænastundum sínum þegar um hásumar og hávetur? Hvað gera múslímar t.d. í Grímsey þegar ramadan ber upp á júnímánuð?“

Það væri óskandi að Þorsteinn Vilhjálmsson og
Sævar nái að forvitnast um þetta hjá íslenskum, norskum eða sænskum múslímum.

Bloggari varð reyndar þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að heimsækja tvær moskur er hann fór að heimsækja foreldrana í Mósambík fyrir tveimur árum. Þar spurði faðir hans öldung nokkurn að þessu eftir ða hann hafði útskýrt hvernig bænastundirnar fylgdu sólargangnum. Öldungnum datt helst í hug að múslímar á Íslandi fylgdu tímasetningum sem væru í gildi sunnar í Evrópu, s.s. í Þýskalandi.

en ek heiti Sverrir 16:43




miðvikudagur, nóvember 05, 2003laugardagur, nóvember 01, 2003

Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.