Þar sem dansinn dunaði í stofunni undir Eurovisionmenningararfi Íslendinga sá bloggari mikla þörf fyrir að hafa Eyþór á svæðinu þegar Draumurinn um Nínu var á fóninum. Var þá leitað til síðhærða bróðurins um aðstoð og brúkaði hann það forláta skilti, Sigöldunaut, sem knéfiðlu.
Bloggarafjöld
Á fjórða tug bloggara voru staddir á svæðinu og tóku nokkrir þeirra sig til og blogguðu á eldhúsmakkanum í teitinni, þeirra á meðal Arnór, Helgi Hrafn, Oddur, Siggi Arent og Ormurinn. Þau partíblogg næturinnar, sem standa upp úr, eru þó þeirra Unu og Snæbjarnar. Sævar Flensborgari er einnig með ágæta úttekt á teitinni (sem rifjar margt upp) en hann býður MR-ingum í Fjörðinn að ári.
Um tíma voru fimm Thoroddsenar í teitinni: bræðurnir, Ósk Dagsdóttir, Gísli Sverrisson (sem kom með Úlfi og fleiri MS-ingum), svo og Bolli inspektor. Af öðrum GB-keppendum úr öðrum skólum mættu Sævar úr Flensborg og Páll úr Borgarholtinu. Var mjög gaman að fá þennan fríða flokk á svæðið.
Teitin gekk stóráfallalaust fyrir sig. Einni boðflennu, sem ekki þekkti deili á nokkrum skipuleggjenda, var reyndar vísað á dyr fyrir dónaskap. Svo var tveimur kjánum úr Austurbænum snarlega vísað frá er þeir reyndu inngöngu á flærðarlegan hátt. Bloggara þykir það mál nokkuð kyndugt í ljósi þess að sama liði var hent út úr íbúðinni í sigurteiti fyrir ári síðan. Það er heldur ekki eins og dónarnir séu að mylja undir Orminn þessar vikurnar.
Afraksturinn
Upp úr hádegi í gær fóru bræður á stúfana og könnuðu hve mikið þyrfti að taka til hendinni í íbúðinni. Það var umtalsvert og nutu bræður dyggrar aðstoðar Sigurjóns Daðasonar við tiltektina. Þó voru það aðeins lyklaborðið góða, fjögur venjuleg glös og hátt í 300 ílát til endurvinnslu sem lágu í valnum, en einnig mátti sjá menjar um að einhverjir hefðu farið fullgeist um gleðinnar dyr.
Teitið var svo sannarlega þess virði og þótti bræðrunum mjög vænt um hlýleg blogg í tiltektinni í gær.
Tenglar á nýja bloggara
Tveir bættust við á hægri kantinn yfir helgina, Anna Tryggvadóttir og Kristín Guðmundsdóttir. Anna er MH-ingur, kórstúlka og frambjóðandi VG í kraganum og Kristín er nemandi í stjörnufræðinni. en ek heiti Sverrir 15:05
Seinnipartinn var nýr drykkjuleikur kynntur til sögunnar á kóræfingu. Í Weber-syrpunni sem kórinn syngur um þessar mundir er tóntegundin reglulega færð upp um eitt tónbil og minnir það helst á Evrópusöngvakeppnina. Kórstjóri sagði Finna einmitt hafa dottið niður á það snjallan drykkjuleik við Eurovisiongláp. Felst hann í því að menn fá sér snafs í hvert skipti sem lag er hækkað upp. Geta menn auðveldlega gert sér í hugarlund hvernig ástandið á mönnum verður eftir slíkt glæfraspil. en ek heiti Sverrir 13:08
Það er nokkuð forvitnilegt að bera saman þá arfleifð kommúnismans sem sést í fána Mósambíks og t.d. Austur-Þýskalands. Þar syðra tefldu menn fram haka, bók og AK47 riffli sem mark um bandalag bænda, menntamanna og hermanna undir merki kommúnismans. Í mekka verkfræðinnar voru það hins vegar sirkill og hamar sem höfðu mest vægi í fánanum.
Og hver skilur hvað Mósambíkmenn eru að spá að taka upp nýjan fána í stað þess gamla flotta?
Sigga sannar sig
Spurningaliðsæfarar fengu að bragða á köku ömmu bræðranna í Akurgerði. Þá skildu menn af hverju hefur verið bloggað um hana á Ormsblogginu síðustu mánuðina. en ek heiti Sverrir 19:10
Eftir messuna skutlaði Gunnar bræðrunum í Akurgerðið, þar sem lambalæri var á borðum og ís í eftirrétt. Þangað voru einnig mætt þau Katrín og Gunnar Eyjólfsbörn ásamt Mæju móður sinni. Fyrir siða sakir var skafísinn skafinn úr boxinu í þetta sinn og borinn fram í fallegri skál.
Í sunnudagamatnum í dag kom það upp úr dúrnum að Guðmundur afi ætlar að slást í för með þeim feðgum Eyjólfi og Gunnari þegar þeir fljúga suður í vor. Amman er hins vegar ekki jafn-spennt fyrir slíkum langferðum.
Gestgjafarnir létu svo ekki að sér hæða í dag, fremur en endranær. Þegar bræðurnir voru á leið út úr dyrunum var þeim skenkt hin girnilegasta súkkulaðikaka í nesti.
Þá er búið að redda kvöldmatnum fyrir morgundaginn, hinn og hinn. en ek heiti Sverrir 16:44
Sópranar voru svo vænir að skutla bloggara niður í bæ þegar líða tók á fjórða tímann í nótt og hitti hann þar sjálfan Forsetann. Ekki var neinn skemmtistaður sóttur heim að þessu sinni heldur létu menn sér nægja að rölta um bæinn þar sem þeir hittu m.a. fyrir Helga Hrafn og félaga. Vísitasíu þessari lauk svo með bæjarins bestu pulsu áður en stigið var um borð í leigarann.
Kórfélagar þóttu síðan ekkert sérlega upplitsdjarfir á æfingu í dag fyrir útvarpsmessuna sem á að vera í fyrramálið. en ek heiti Sverrir 19:34
Bloggara varð upp með sér við hrós tveggja málsmetandi manna vegna framtaksins.
Fyrsta lögmál Ormsins um GB
Uppstrílaða liðið tapar alltaf. A.m.k. í úrslitum.
Grauturinn méls rúlar feitt
Bloggari eldaði grjónsa í gær. Ekki var þó snert við honum fyrr en um lágnættið að hluti hans var hitaður upp í örbylgjunni. Um kvöldmatarleytið var aftur leitað fanga í pottinn góða. Góð taktík að hafa graut til taks. en ek heiti Sverrir 20:10
Í kvöld er árshátíð Rimaskóla. Kennslan er því með minna móti í dag. Nemendur hafa spurt kennara að því hvort hann ætli að mæta. Flest bendir til að svo verði ekki en þó bendir nafn hljómsveitarinnar til þess að hann troði upp.
Ofursprengjan
Bloggara þykir fréttaflutningurinn af fyrirhuguðu stríði óhugnanlegur. Áróðursmyndir af morðvopni sem nefnt er „móðir allra sprengja“ bíta síðan endanlega hausinn af skömminni. (Hvar ætli H-sprengjuna sé þá að finna í ættartrénu?)
Varla þætti þetta jafn-tilkomumikið ef íraskt þorp hefði verið neðst í myndrammanum. Eða hvað? en ek heiti Sverrir 10:17
Hver ætli sé mesti bloggtöffarinn á Íslandi í dag?
Fyrst var það spilling í strætó, nú misbeiting lögregluvalds.
Enginn er óhultur fyrir vökulum augum Svenna.
Eilífðarlampinn við Níl
Man einhver eftir eilífðarlampanum við Níl? Týran á eldhúsmakkanum verður senn samkeppnisfær við hann. Hún lýsir sem viti þegar bræðurnir fara á fætur og fá sér morgunmat. Reyndar skilst bloggara að 7% rafmagnsnotkunar heimila á Vesturlöndum sé vegna tækja sem straumur fer um þegar þau eru ekki í notkun.
Það er slatti af rafmagni. en ek heiti Sverrir 15:42
Stykkishólmsmaturinn hjá afa og ömmu stóð fyrir sínu. Ísblómið í eftirmatnum sveik heldur engan.
Bloggari spjallaði við Elías Davíðsson, sem kom mæddur inn í fimmið á Lækjartorgi með fána Íraks. Útlitið á þeim vígstöðvum er þeygi gott.
Stjörnufræðikennarinn stefnir að því að reka af sér slyðruorðið og mæta með fyrsta hluta massaglósanna í tíma á morgun. Ekki er amalegt að vera kominn yfir í skemmtilegri hluta námsefnisins: þróun og endalok stjarna, vetrarbrautir og heimsfræði.
Einhverjir fleiri virðast hafa gert það sama og bloggari, þ.e. slegið inn leti.is í stað leit.is. Þeir hinir sömu gerðu hins vegar alvöru úr því að sölsa undir sig lénið. en ek heiti Sverrir 21:04
Snabbinn setti í uppþvottavélina áðan svo nú þurfa bræður og gestir ekki lengur að drekka mjólk og gos úr bjórglösum.
Já, á þessu heimili fara bjórglösin í uppþvottavélina. Og bjórinn freyðir nú samt.
Skemmtanahaldið
Bloggari er á leið í afmælisveislu á eftir. Á morgun er það svo kóramót framhaldsskólakóranna í bækistöðvum óvinarins. Sunnudagamaturinn verður svo um kvöldið. en ek heiti Sverrir 19:16
Atli Týr segir af því í bloggi sínu í fyrradag að spurningaáhugamaðurinn Örvar Gröndal sé nú farinn að skrifa í bæjarblöðin í Firðinum.
Nýtt athugasemdakerfi
Ormurinn hefur ákveðið að reyna sama athugasemdakerfi og Snabbinn notar. Haloscanið verður keyrt samhliða eitthvað áfram en bloggari hvetur alla til að nota frekar nýja kerfið.
Þegar bloggari fletti upp leitarorði á Google.com áðan sá hann kunnulegar vísanir. Við frekari eftirgrennslan var grunur Ormsins staðfestur. Einstein fæddist sem sagt á þessum degi fyrir 123 árum (14. mars 1879). en ek heiti Sverrir 15:30
Snabbinn er með góða hugmynd um hvernig bræðurnir eigi að fjármagna botnlausa neyslu sína.
Ekki lætur litli bróðirinn heldur sitt eftir liggja þegar kemur að sniðugheitum. Nú er kominn teljari á Rappbloggið sem sýnir hve langt mun líða uns mæðginin koma til landsins frá Mósambík (um miðbik ágústmánaðar). Heimilisfaðirinn kemur því miður ekki fyrr en í nóvember eða desember. en ek heiti Sverrir 21:31
Nokkrir góðir menn, með Odd Ástráðsson í broddi fylkingar, standa að nýju, róttæku vefriti, Glasnosti.
Vonandi að þetta boði þíðu í íslenskri pólitík.
Öskudagur
Ormurinn sá þónokkra krakka spranga um í búningum og með sælgæti í poka í miðbænum í dag.
Hann sá reyndar aðeins einn öskupoka í dag og hékk sá á sjónvarpsmanni með barnavagn.
Stutt blogg og súr
Orminum þykja sumir ganga fulllangt fram í því að rækja óskráðar „bloggskyldur“ og snapa heimsóknir með stuttum, súrum bloggum.
Bloggari er þó ekki að halda því fram að hann sé alsaklaus í þessum efnum, því fer fjarri (sbr. gort yfir fáum bloggföllum og tilsvarandi fjöldi „skyldublogga“). en ek heiti Sverrir 19:08
Frá sjónarmiði magans er helgin búin að vera afskaplega vel heppnuð. Royal súkkulaðibúðingur á föstudaginn, indverskt lambakarrí í gærkvöldi og falskur héri hjá afa og ömmu í hádeginu í dag.
Og nú brestur á með bollukaffi eftir 12 mínútur. Best að bloggari drífi sig í sturtu. en ek heiti Sverrir 14:49
Nú er skollið á heillangt vetrarfrí í Rimaskóla. Að sjálfsögðu er bloggari búinn að gera heillangan lista yfir hluti sem annaðhvort „ætti“ eða „mætti“ nota fríið til þess að koma í verk.