Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

föstudagur, febrúar 28, 2003
Stjörnustríð og setningafræðin

Íslenskukennarinn tefldi fram nýjum liðsmanni í setningafræði í dag. Þótt mátturinn sé sterkur með honum er orðnotkun hans samt víti til varnaðar.

Setningarnar á borð við „Óþolinmóður hann er“ og „Bráðum ég deyja mun“ eru ekki til fyrirmyndar.

Þarna hefði verið gott að kunna skil á frumlagi, umsögn og sagnfyllingu, ásamt rökréttri orðaröð í setningum.

en ek heiti Sverrir 20:01




Tákn framtíðar

Bloggari er maður tákna í skáldskap og kvikmyndum (a.m.k. þeirra sem hann skilur).

Hann hefur jafnframt fulla trú á því að gróskan, sem sjá má í stofunni, viti á velfarnað.

Eldhúsmakkinn og kexskápurinn

Eftir að foreldrarnir yfirgáfu strákana fyrir næstum tveimur árum reyndu þeir af veikum mætti að halda úti almennilegum kexskáp í eldhúsinu. Báðir bræðurnir „lentu“ þó iðulega í því að klára hálfan til einn kexpakka á kvöldi og var kexbúskapnum því sjálfhætt eftir örfáa mánuði.

Um daginn keypti
Snabbi aftur kex. Bloggari er strax farinn að koma sér upp á gamla ósiðinn. Hálfur pakki af Homeblest var hámaður í gær. Ekki er staðsetning helsta eldhúsmakkans beint undir kexskápnum að bæta ástandið.

Djammari dagsins

Í morgun hringdi í Orminn teitur maður sem hafði varið seinni hluta næturinnar í feitu partíi úti á Granda.

Sá sækir varla tíma í háskólanum í dag.

(Svellkalt mat.)

Hraðahindranir í götunni

Ormurinn hefur oft velt því fyrir sér af hverju það sé skilti í Rofabænum sem sýni mynd af hraðahindrun og textinn „í götunni“ undir.

Hvernig er hægt að missa af hraðahindrununum þar?

Nýtt á rss-molunum

Nokkur ný blogg gaf að líta á rss-molunum í gærkvöldi. Kannast bloggari við aðstandendur tveggja þeirra (mismikið þó), Vonbrigðanna og C-bekkjar bloggsins.

en ek heiti Sverrir 12:33




fimmtudagur, febrúar 27, 2003
Kennsl borin á óþekkt símanúmer

Í gær og í fyrradag fékk bloggari símhringingar frá símanúmeri sem var ekki skráð í símaskrána. Þegar tveimur öftustu stöfunum var sleppt og núll sett í staðinn virtist sem númerið væri Fréttablaðsins. Það kom og á daginn í dag.

Bættur sé sá skaðinn.

Derrick á Íslandi

Stundum er spjallað um skemmtilegri hluti en reikning í stærðfræðitímum í 9. bekk í Rimaskóla. Í síðustu viku voru umferðarlagabrot til umræðu. Einhver nemenda Ormsins hafði lent í því að faðir hans var beðinn nema staðar og sektaður af óeinkennisklæddum lögreglumanni.

Það er svo sem lítt svalt.

Hitt var öllu merkilegra þegar tveir strákanna sögðust hafa séð lögreglumenn á venjulegum bíl setja upp Derrick-sírenu og stöðva mögulega lögbrjóta. Gott ef bíll þessi var ekki Celica.

Svipuð atriði voru einmitt flottasti partur „Aus der Reihe Derrick“ þáttanna.

en ek heiti Sverrir 18:27




Vetrarfríið kemur senn

Nú er aðeins einn kennsludagur í vetrarfrí dauðans í Rimaskóla. Leiðbeinandanum skilst að það sé 5 daga helgi framundan.

Eigi sýtir hann það.

Kennari vs. myndband

Í tvöföldum bókmenntatíma í gæmorgun var horft á Engla Alheimsins. Góður rómur var gerður að myndinni og verður kennarinn að standa sig afar vel í næsta tíma til að kennslutilburðir hans hverfi ekki alveg í skuggann af kvikmyndinni (ekki að hann eigi nokkurt breik í hana).

Annars var bloggari búinn að gleyma hve mikið af táknum má sjá í myndinni. Leikstjórinn notar þau samt hóflega.

Stjörnufræðikennarinn kaupir vinsældir

Þegar stjörnufræðin var kynnt sem valfag fyrir 5. bekkinga síðastliðið vor var nefnilega lofað gulli og grænum skógum (lesist myndböndum). Þar var reyndar annar stjörnufræðikennari á ferð.

Nú er komið að því að staðið verði við stóru orðin. Á eftir verður sýnt myndband um þróun og endalok stjarna, nifteindastjörnur og svarthol.

en ek heiti Sverrir 13:42




miðvikudagur, febrúar 26, 2003þriðjudagur, febrúar 25, 2003
Matar-, köku- og tiltektarblogg

Margir lesendur Ormsbloggsins eru væntanlega orðnir langeygir eftir nýju matarbloggi. Nú kætist þeir.

Á laugardaginn fékk bloggari mexíkóskan mat, sem kom sterkur inn. Er von að þar verði framhald á.

Sunnudagamaturinn hjá afa og ömmu var svo óvenjugóður þessa helgina (nær því þó alltaf að vera góður). Svínakjötinu voru gerð góð skil, sem og skúffueplakökunni sem var í eftirmat.

Í gærkvöldi rifjuðu bræðurnir upp kynnin af 10-11 hömmurum. Þeir eru ágætir í hófi.

Í kvöld er það svo kökukaffi. Á Lynghagann hefur verið stefnt reitingi fólks og eru í þeim hópi 8 bloggarar. (Þeir vita þá hvað þeir þurfa að gera ef þeir vilja halda í hlekkinn vinstra megin.) Fjórir bloggarar eru búsettir í útlöndum til viðbótar, sem hefði verið boðið.

Efniviðurinn í skúffukökuna er tilbúinn og Vilko-vöfflumixið bíður þess að vera keypt úti í búð. Þetta verður ekki lengra að sinni.

Bloggari er farinn að hita vöfflujárnið.

en ek heiti Sverrir 19:17




Að vera alþjóðlegur í strætó

Einu sinni sem oftar tók bloggari strætó niður í bæ í síðustu viku. Stigu um borð hópar unglinga frá Folda- og Húsaskóla sem ætluðu að heimsækja framhaldsskóla niðri í bæ. Einn strákanna vakti sérstaka lukku hjá bloggara þegar hann talaði um það við vin sinn hvernig ætti að vera „alþjóðlegur í strætó“.

Jú, maður skyldi halda í einn hankanna með uppréttri hendi og babbla eitthvað sem hljómar líkt og útlenska (þá frekar líkt spænsku/ítölsku en þýsku/hollensku).

Af uppruna ungverskrar tónlistar

Í síðustu viku fann bloggari skólablað frá 1997 í menntaskólanum (sem
María Ásmundsdóttir átti þátt í að ritstýra). Að sjálfsögðu kunni hann miklu betur að meta blaðið núna en þá, enda heimild um liðin menntaskólaár.

Talsvert var um áhugaverðar greinar og kveðskap í blaðinu, m.a. eftir Þórdísi Björnsdóttur og Hákon Zimsen. Að öðrum höfundum ólöstuðum hefur þó andi skólablaðanna trúlega aldrei risið hærra en í ritgerð félaganna Viðars og Sigurjóns um uppruna ungverskrar tónlistar. Telst bloggara jafnframt til að hann sé 5. eða 6. maður sem les ritsmíðina, enda ekkert PoppTíví-vinsældarusl hér á ferðinni. Einkum er frásögnin af Thalberg og bréfpokanum eftirminnileg en ekki þótti Orminum ískalt „mat“ greinarhöfunda á arfleifð ólíkra tónskálda neitt sérlega djarft. Þar er frekar um að ræða viðtekin sannindi.

Endurreisn gamalla blogga

Sylvía bloggar aftur á módelblogginu eftir dágott hlé.

Jafnframt bloggar María Ásmundsdóttir nú reglulega frá Bologna á Ítalíu.

en ek heiti Sverrir 09:30




mánudagur, febrúar 24, 2003sunnudagur, febrúar 23, 2003
Bara allir farnir að blogga

Fleiri eru farnir að blogga heldur en litli bróðirinn.
Alexandra Kjeld og Gunnar Eyþórsson eru bloggara (og fleirum) að góðu kunnug.

Þetta er góðs viti.

en ek heiti Sverrir 21:27




Snabbinn bloggar feitast

Miðbróðirinn er farinn að blogga.

Allt er þá þrennt er.

Bræðurnir blogga, allir sem einn, rétt eins og allur GB-hópur MR.

Hraðbankar og Kjarval

Bloggari frétti það á skotspónum í sumar, að ástæðan fyrir því að 2000 karllinn væri ekki eins mikið í umferð og lagt var upp með væri sú að ekki væri hólf fyrir hann í þeirri gerð hraðbanka sem algengust er. Stemmir það ágætlega við reynslu Ormsins af hraðbönkum bæjarins, aldrei hefur komið úr þeim Kjarval að bloggara ásjáandi.

Þegar málið var borið undir Rimskælinga sagðist einn þeirra hafa heyrt af hraðbanka á Ísafirði sem væri með 2000-kalla. Útsendari Ormsbloggsins dvelur á Ísafirði um helgina og vilja ættingjar hans ekkert kannast við þetta. Reyndar vantar nákvæmar upplýsingar um hvaða hraðbanka er að ræða en trúlega er ekki svo mörgum til að dreifa í bænum.

en ek heiti Sverrir 14:24




föstudagur, febrúar 21, 2003fimmtudagur, febrúar 20, 2003
Misskilningur á misskilning ofan

Síðasta sólarhringinn hefur bloggari upplýst tvisvar sinnum um meinlegan misskilning af hálfu sinnar persónu. Annars vegar var það meinið að fyrir þó nokkrum árum tókst honum að slá saman Gauki á stöng og öllu óþekktari krá við Hagamelinn í Reykjavík.

Hins vegar misskyldi hann hrikalega orðalag í afmælisbloggi
Sverris Jakobssonar. Bloggari hélt það svertingjaslangur þar sem Sverrir vísaði til stjórnmálaskoðana.

Ómanngleggni

Orminum líður snöggtum betur eftir að hafa lesið blogg Svanhildar.

Hann er þá ekki einn á báti.

en ek heiti Sverrir 13:16




Afmæliskveðjur til Jónatans

Jónatan á 24 afmæli í dag. Undirritaður óskar honum hjartanlega til hamingju með daginn.

Jonni er sá í vinahópnum sem bloggari hefur umgengist lengst eða alla tíð frá því fjölskyldan flutti úr Eskihlíð 11 á Lynghaga 24 snemma árs 1989. Svona rétt til þess að innsigla vinskapinn leigðu þeir kumpánar svo saman á Reynimelnum þarsíðasta vetur.

Ef Ormurinn stæði sig almennilega í vinskapnum væri hann þó trúlega búinn að skipuleggja vikuna öðruvísi. Hann biðst afsökunar á fyrirhyggjuleysinu.

en ek heiti Sverrir 11:51




miðvikudagur, febrúar 19, 2003
Afmæliskveðjur til Viðars

Viðari Pálssyni er árnað heilla í tilefni af 25 ára afmælinu í dag. Hans er sárt saknað af undirrituðum og verða vafalítið fagnafundir er hann kemur heim í sumar.

Sævar bloggar

Sá góði drengur og stjörnutöffari, Sævar Helgi Bragason, er boðinn hjartanlega velkominn í hóp bloggara. Bloggið hans lofar góðu.

Og hvaða gangsta ætli sé á leið í tvær utanlandsferðir næsta sumar; til Kanaríeyja í stjörnuskoðun og á REM tónleika?

Ungdómurinn fullur óvirðingar

Tíundu bekkingar kvörtuðu og kveinuðu yfir virðingarleysi æskunnar í stærðfræðitíma í dag. Yngri nemendur hentu í þau snjóboltum og guð má vita hvað.

Í sama tíma notaði einn þessara nemanda tækifærið til að vera með skæting og dónaskap út í samkennara bloggarans.

Fyndið.

en ek heiti Sverrir 21:22




Unglingaveikin

Grunnskólaleiðbeinandinn gerðist sekur um að nota orðið „unglingaveiki“ yfir mótþróaskeið sögupersónu í Englum alheimsins.

Svoleiðis lagað gera menn ekki.

Skýringar kennarans á fyrirbærinu voru heldur súrar. Hann vissi nefnilega upp á sig sökina og fannst hálf-tragískt að vera orðinn svona gamall í hugsun.

Í næsta tíma verður svo rætt um golf og meltinguna.

Súkkó

Önundur er með krassandi hryllingssögu af súkkóinu alglataða á bloggi sínu í dag.

Svo keppast menn við að hallmæla nýjustu gosdrykkjunum!

en ek heiti Sverrir 13:31




þriðjudagur, febrúar 18, 2003mánudagur, febrúar 17, 2003
Flutningabíllinn sem flytur auglýsingar

Bloggari hefur í vetur veitt litlum flutningabíl eftirtekt sem virðist frekar vera í því að flytja auglýsingar en vörur. Skuturinn á honum er trapisulaga og slútir þakið út yfir hliðarnar þannig að hægt sé að koma fyrir kösturum sem lýsa upp auglýsingarnar.

Það er a.m.k. dularfullt þegar þessum sama bíl er til skiptis lagt við Ártúnsbrekkuna og við Þorfinnstjörn þannig að kveikt sé á kösturunum og auglýsingarnar vísi út að helstu umferðaræðum borgarinnar.

Svo er það hin pælingin: (Afsakið ef þessi hefur áður dúkkað upp á Ormsblogginu.) Hvert er málið með að kalla bíl sem ekur möl og sandi vörubíl en bíl sem flytur vörur flutningabíl? Hljómar eins og höfð hafi verið hressileg endaskipti á hlutunum.

Nýyrði dagsins

Samkennari í menntaskólanum notaði í dag orðið „stjörnuhvolpur“ yfir Orminn. Það var sætt enda var þar maður á ferð sem leyfist svoleiðis lagað.

en ek heiti Sverrir 22:27




Blogg ph 2,6

Súrt veður í dag eins aðra daga vikunnar.

Súrir djókar hjá súrum kynnum á söngvakeppninni í gær.

Sigurlagið í gær var súrt.

Yfirskrift bloggsins er súr.

Þegar bloggari tekur sig til getur hann verið í hópi súrari rifrildisseggja.

Snabbinn sagði bloggara áðan frá mjög súrri hugmynd að gosdrykk.

Þrátt fyrir þessar súru pælingar er bloggari ekki súr nema síður sé.

Ekki spillti það helginni er í ljós kom að vínberin í ísskápnum eru ekki súr heldur frekar sæt.

Linkablogg dagsins

Einu sinni sem oftar er
Forsetinn með góða punkta í blogginu sínu.

Blístursblogg

Bloggari stendur á blístri eftir máltíðir síðustu daga. Heimkoma Siggu yngri í dag með Arcturus náði að spilla matarlystinni eins og iðulega á sunnudögum.

Bæjarfógeti tilkynnir

Bloggari rakst á tvær tilkynningar Stefáns Gunnlaugssonar, bæjarfógeta, í Öldinni sem leið 1801-1860.

„Þeir sem drekka og drabba, samt styðja daglega krambúðarborðin, verða skrifaðir í bók og fá engan styrk úr fátækrasjóði.“

„Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi!“

en ek heiti Sverrir 01:45




laugardagur, febrúar 15, 2003
N-ta Færeyjablogg

Ef marka má Dimmalættninginn þá er landlæknirinn í Færeyjum, Høgni Debes Joensen, nú einnig orðinn trillukarl. Ólafur sjálfur gæti varla slegið þetta út þótt hann reyndi,

Í blaðinu var einnig fjallað um Fríggjakvøldid þegar átt var við Valentínusardaginn. Það er alls ekki slæmt orð.

Auglýsing í nýlegum Dimmalættning: „Brandur á Broadway í Íslandi - Føroya Sparikassi er høvuðstuðul hjá Brandi Enni“.

Og í kvöld er það sjálf Eivør Pálsdóttir í Háskólabíó.

Ummæli Napólens á færeysku: „Hermennirnir vinna bardagan, og generalarnir fáa heiðurin fyri hann.“ (Úr Dimmalættningnum)

Eitt enn: Útsynningur heitir líka útsynningur í Færeyjum ef marka má veðurlýsinguna á
Dimma.fo.

Snemmbúin kjöthátíð

Þeir lesendur sem umgangast bloggara skyldu vara sig á honum næstu dagana. Hann er á leiðinni að ná þeim undraverða árangri (m.v. árstíma) að eta kjöt fjóra daga í röð. (Svo það sé á hreinu þá er hér hvorki um að ræða pitsur eða hamborgara.)

Á árshátíðinni var snætt folald, Malasíukjúklingur í gær, Strandalamb í kvöld og sunnudagamatur á morgun.

Slík kynstur, sem þessi, geta gert dagfarsprúðasta fólk afar gróft í hugsun.

(Ekki það að bloggari treysti sér til þess að fullyrða að hann sé eitthvað sérstaklega stilltur. Nafnið bendir frekar til hins.)

Viðkvæmur bloggheiður

Bloggari kemur sjálfum sífellt á óvart. Í vikunni fékk hann glettna ábendingu um eiginlegt bloggfall (e. relative blogdrop). Hann náði að blogga innan sólarhrings skv. klukkunni (upp úr lágnættinu rétt fyrir svefninn) en á árshátíðardaginn leið heilt vökuskeið algerlega bloggsnautt. Ekki skal sýta það enda deginum vel varið að öllu leyti.

Gærdagurinn var dramatískur

Opna húsið í Rimaskóla heppnaðist vel í gær. Opið hús frá 11:30-14:00 hljómar heldur ekki illa enda hefur kennarinn ekki séð nemendur jafn-brosmilda eins og í gær.

Ef marka má blogg ónefnds bróður er hið fornkveðna að koma fram um bræðurna svo sem segir í Völuspá.

Heimspólitíkin meira að segja inn í ávaxtaborð stórmakaðanna. Í gær keypti bloggari t.d. vínber frá S-Afríku, nokkuð sem ekki hefði verið hægt fyrir rúmum áratug. Appelsínurnar sem hann keypti voru svo frá Spáni, ekki blóðrauðar Jaffaappelsínur.

Svo fetað sé í loppuspor Kattarins, þá fýsir Orminn að deila því með lesendum hve flinkur söngvari Dietrich Fischer-Dieskau í raun og veru er (gömul sannindi og ný). Hann grætur ekki flutning meistarans á ljóðasöngvum Schuberts.

Segja má að undirritaður hafi nú lokið núlláfanga og að við taki áfangi 103. Hann er all-sáttur enda valinn maður í hverju rúmi.

Haloscan

Ekki er ónýtt að fá ábendingar frá yngsta bróðurnum varðandi athugasemdakerfið.

en ek heiti Sverrir 11:40




föstudagur, febrúar 14, 2003
Gærkvöldið melt

Það hefur komið undirrituðum talsvert á óvart hve margir líta á Ormsbloggið. Ekki er það fjöldinn (síðan er tengd teljara) heldur hverjir hafa skoðað síðuna og minnst á það við bloggarann. Svo eru það allir hinir sem ekkert segja (og síðan sá hluti þeirra sem glottir).

Lesendur skyldu ekki stressa sig. Hér er ekki verið að boða breytta ritstjórnarstefnu heldur er þetta íhugun upp úr eins manns hljóði.

Plebbaskapur og munnsöfnuður

Ásakanir um plebbaskap dynja á bloggara sunnan úr Evrópu. Ef að hann er plebbi þá er greinilega fínt að vera plebbi.

Ormurinn náði munnsafnaðarölvunarstiginu í svona 10 mínútur undir lok teitisins í gærkvöldi. Hann huggar sig við að trúlega varð rétti maðurinn fyrir barðinu á honum. Maður sem má við því, maður sem bloggari hefur hrósað ítrekað og maður sem fékk afganginn af áfengi kennarans.

GB í Afríku

Ætli fjölskyldan hafi gónt á spurningakeppnina um netið í gærkvöldi?

en ek heiti Sverrir 13:34




Gærdagurinn

í gær var margt að gerast í félagslífi menntaskólans; árshátíð Framtíðarinnar og Gettu Betur keppni milli MR og Flensborgarskólans.

Áður en Ormurinn hélt í Smáralindina til þess að horfa á árshátíðarskemmtun MR-inga og GB tókst honum að fá flesta hópana í Rimaskóla til þess að skila af sér skikkanlegum vef. Það er nokkuð magnað ef tekið er mið af skömmum tíma og menn tróðu marvaðann í djúpu lauginni. Þannig höfðu fæstir kynnt sér efnið að ráði fyrir fram og margir voru að vefa í fyrsta sinn. Álitlegasti vefurinn er trúlega
vefur um geimferðir og er vonandi við hæfi að hafa slóðina hér á blogginu.

MR-þáttur

Framtíðin var með dagskrá í Smárabíói um daginn. Það sem stóð upp úr var ræða Þorsteins fóstbróður um MR-inga og dvöl hans í skólanum. Tvímælalaust fyndnasti ræðumaður sem bloggari hefur séð á árshátíð í skólanum.

Gettu betur

Sigur MR-inga á Flensborgurum var sannfærandi.

Árshátíð

Ormurinn fór út að borða með MR-ingum á Galileó. Maturinn var ljómandi fínn og stjörnumprýddur staðurinn spillti ekki fyrir.

Eftir mat var haldið í teiti í Seljahverfinu. Það stóð undir nafni.

Bloggari fór ekki á dansleikinn heldur hélt heim á leið. Langt síðan hann hefur steinsofnað jafn-hressilega.

Nýyrði gærdagsins

Orðið „kennaranemandi“ var notað um leiðbeinandann unga í fyrsta sinn í gær. Orðið sjálft var kannski ekki óvænt en það kom hins vegar úr mjög óvæntri átt.

en ek heiti Sverrir 08:32




fimmtudagur, febrúar 13, 2003miðvikudagur, febrúar 12, 2003
Heill helju frá

Kennari er feginn að strembnum skóladegi sé lokið. Flestir hóparnir eru komnir af stað við sjálfan vefnaðinn og ef vel tekst til gæti bloggari alveg hugsað sér að tengja á frambærilegustu vefina í bloggi morgundagsins. Efniviðurinn er heldur ekki af verri endanum: svarthol, geimferðir, kjarnorkan, lífshlaup alheimsins og ævisaga sólkerfisins.

Kennaranum hlýnaði um hjartarætur þegar þeir hörðustu sátu áfram eftir að hringt hafði verið út. Það ber vott um áhuga.

Öllu síðra var þegar einn nemendanna varð fyrir barðinu á reiði Guðs af hálfu kennarans. Hann átti hluta hennar skilinn en ekki þó að verða skotspónn streitulosunar fyrir þessa vikuna. Á morgun mun kveða við sátta- og afsökunartón af hálfu Ormsins.

MSN og nemendur

Nemendur bloggara gátu ekki stillt sig um að spyrja hvert póstfang hans væri á MSN-inu.

Það mátti reyna.

Bloggari í beinni

Orminum tókst að troða sér í beina útsendingu í útvarpinu í gær.

Alltaf skal eigin tota otað.

en ek heiti Sverrir 14:34




Rvk-London - meira en tífaldur verðmunur

Þegar ljóst var orðið að móðir bloggara og bróðir kæmu heim um miðjan ágúst fór hún að spyrjast fyrir um verð á fargjöldum á leiðinni London-Keflavík hjá ferðaskrifstofu í Mapútó. Flugleiðir voru með miða til sölu aðra leiðina fyrir þau bæði á 160 þúsund nýkrónur. Höfuð fjölskyldunnar ákvað því frekar að taka tilboði Iceland Express sem bauð fargjald fyrir mæðginin á alls 13 þúsund. Tilboð sem jafnvel Flugleiðir geta ekki slegið út.

Dálaglegur verðmunur þar.

(Ekki er Orminum að fullu kunnugt um hvort IExp upphæðin sé með flugvallarsköttum en það skekkir ekki heildarmyndina.)

KR-ingar neita dósum

KR-ingar komu í gær og bönkuðu upp á. Snæbjörn opnaði útidyrnar og eftir að hann hafði heyrt að krakkarnir væru frá KR sótti hann svartan og fór að tína til tóm gosílát. Þegar hann sneri til baka glotti íþróttaliðið enda var það ekki að safna dósum heldur ætlaði að selja eitthvað dót. Þá stóð ekki á svarinu: „Nei, því miður. Ég er valsari.“

Næsta stig var að hringja í kunningja í sunddeild KR og hvetja menn til dáða við dósasöfnun. Þeir mætu menn björguðu nefnilega bræðrunum eftir áramótateitina.

Dagurinn í dag á topp 5 á erfiðleikaskalanum

Eins og við mátti búast er ekki létt verk að hafa stjórn á sex 3-4 manna hópum sem eiga að undirbúa heimasíður á sviði stjörnufræði og eðlisfræði. Bloggari þeytist um stofuna og reynir að sjá til þess að allir hafi eitthvað fyrir stafni. Unglingarnir eru þó flestir nokkuð jákvæðir enda veitir ekki af ef verkefnin eiga að heppnast vel.

Eftir smástund fer mannskapurinn af stað við að vefa. Það gæti orðið skrautlegt.

en ek heiti Sverrir 09:44




þriðjudagur, febrúar 11, 2003
Fatakaup

Á eftir er Kringluferð með tilheyrandi fatakaupum á dagskrá hjá bloggara. Þetta verður örugglega besti fataverslunarleiðangurinn hingað til.

Scooterinn

Einn nemendanna minntist á að kennarinn liti út fyrir að vera einn þeirra sem hlusta á Scooter.

Stuttu síðar minntist einhver á (í glettnum tón) að sumir væru að biðja um að vera lamdir eftir skóla.

en ek heiti Sverrir 14:47




Vísindin efla alla dáð

Grunnskólakennarinn situr með sveittan skallann við að undirbúa þemadagana á morgun og hinn. Ef vel tekst til gæti þetta orðið drulluskemmtilegt.

Ekki þarf það að koma neinum á óvart að mikil eðlisfræði- og stjörnufræðislagsíða sé til staðar þótt yfirskriftin sé „vísindavinnuhópur“. Aldrei spillir að leika á heimavelli.

Linkablogg dagsins

Birgir varpar fram snargeggjaðri hugmynd á bloggi sínu í dag. Tilefnið er lækningapredikanir á vegum nokkurra safnaða í Smáralindinni um daginn og gengur Birgir alla leið og efnir til opinna bréfaskrifta um málið við forstöðumann eins safnaðanna, Gunnar í Krossinum.

Þeim sem hér bloggar er almennt ekki í nöp við trúfélög eða trúarbrögð. Hins vegar gest honum ekki að ákveðnum viðhorfum sem honum sýnist glitta í í boðskap hjá forsvarsmanni stöku trúfélags (þá sjaldan hann stillir á Ómega eða sér viðtöl við þá).

Sáluhjálp gegn greiðslu og hugmyndir um útvalningu (þar sem aðrir munu brenna í víti eða lepja dauðann úr skel) þykja honum ógeðfelldar, sem og íhaldsöm viðhorf stöku forkólfs varðandi fóstureyðingar og jafnréttismál. Alþjóðamálin eru svo kapítuli út af fyrir sig.

Um þetta er hægt að hafa skiptar skoðanir út frá lífsviðhorfum hvers og eins. En að útsendarar almættisins séu kynntir til sögunnar sem menn lækningahæfileika eða þegar vegið er að þróunarkenningunni er lítið um röksemdir en þeim meira um sleggjudóma. Þar grípur hver sína kreddu eins og Gunnar gerir í bréfaskriftum sínum við Birgi.

Á hinn bóginn er fátt dregið fram til jarteikna.



Linkablogg dagsins - 1977 árgangurinn á faraldsfæti

Sjonni birtir stórskemmtilega frásögn af ferð sinni frá Santa Barbara til híbýla Kattarins í San Fransisco. Eitt af því sem skín í gegn (fyrir utan klúður Viðars) er að Bandaríkin verða seint talin land almúgasamgangna.

Arnór gat heldur ekki setið á sér um þessa helgina (ekki frekar en hinar) og gerði víðreist til Akureyrar. Virðist sem hann hafi engu gleymt í djammskilli ef marka má frásögnina.

en ek heiti Sverrir 11:52




mánudagur, febrúar 10, 2003
Vinnuvikan fer vel af stað

Ekki er hægt að segja annað en að dagurinn hafi verið vel heppnaður hjá bloggara. Í stærðfræðitíma spunnust umræður um Færeyjar og kúlistana sem þar búa. Kom á daginn að meirihluti nemenda hafði komið þangað oftar en einu sinni.

Dagurinn var hins vegar öllu stormasamari hjá litlu krökkunum sem hreinlega fuku fyrir utan skólann. Reyndar nýttu einhverjir sér þetta til þess að renna sér á rassinum eftir blautu svellinu enda enn ekki komnir á þann aldur að þurfa að þvo eigin þvott.

Það sérkennilegasta sem Ormurinn heyrði af í skólanum var þó kennarasleikjukeppni sem fram fór í tíma hjá öðrum kennara (að því er kennari fær best séð). Varð leiðbeinandinn hálf-feginn þegar í ljós kom að nemendur hans höfðu ekki staðið sig í þeim sérkennilega leik. Af frásögnum að dæma virðist sem þar hafi ekki verið við menn að eiga.

Söngfuglinn

Ormurinn ætlaði vart að geta drattast af stað á kóræfingu. Hún reyndist vera hin skemmtilegasta. Var gaman að sjá gamla vinkonu á svæðiðinu.

Einnig virðist sem bloggara sé að takast að vinna á söngspéhræðslu sinni (sem er umtalsverð og eykst eftir því sem áheyrendur eru færri). Ekki mega nemendur þó búast við því að hann taki lagið í kennslustund á næstunni.

en ek heiti Sverrir 20:21




Mikil tíðindi og góð frá Afríku

Rappbloggið gjörði um helgina heyrinkunnugt að Afríkuleggur fjölskyldunnar sé á leið til Íslands í haust. Jolli fer víst í 10. bekk Hagaskóla eftir að hafa hlaupið yfir 8. og 9. bekk.

Bræðurnir eru alveg í skýjunum.

en ek heiti Sverrir 08:38




sunnudagur, febrúar 09, 2003laugardagur, febrúar 08, 2003
Rjómaísvefurinn er fundinn

Rjómaís.com.

Þarna er til dæmis að finna fróðleik um hve mikið af lofti fylgir með í kaupunum á 1 l af rjómaís.

Það er slatti.

Einnig er spurning um það hvort bræðurnir skelli sér á ísvél í eldhúsið eins og sýnd er á síðunni.

en ek heiti Sverrir 14:24




Sameiginlegur afmælisdagur

Í gær voru 10. bekkingar að velta því fyrir sér hver ætti næst afmæli í bekknum. Ekki var það eingöngu sakir forvitni heldur var náttúrulega ætlunin að finna dagsetningu fyrir kökudag. Það kom í ljós að næsti maður á ekki afmæli fyrr en 25. apríl í vor, sem er sami afmælisdagur og kennarans.

Þá er það ákveðið.

(Það er fríður flokkur sem á afmæli þennan dag, m.a.
Magga, Óskar Helgason (bræðrasonur við bloggara) og Páll Vilhjálmsson (ekki blaðamaðurinn).)

Annars var skóladagurinn uppfullur af kæruleysi með tilheyrandi kaffihúsarölti. Er ljóst að það eru margar vikur í svipaðan dag enda er hugmyndin að losna við hálsbólguna um helgina.

KFC

Ormurinn og Forsetinn rifjuðu upp kynni sín af KFC í Skeifunni í gær. Það var ágætt þó ekki sé bloggari til jafn-mikilla stórræðna í skyndibitaáti og á velmektardögum sínum.

Um kvöldið borðaði bloggari ljómandi góðan steinbít.

Fyrir mat ákvað hann að leggja sig og tókst að slökkva á vekjaraklukkunni þegar síst skyldi. Var það því Katrín amma sem vakti Orminn og tjáði honum m.a. þau hryggilegu tíðindi að það verði trúlega engin kaka á sunnudaginn.

Undirritaður fór nú reyndar alveg í kleinu þegar amman baðst afsökunar á dekurhléinu. Hlutirnir geta stundum orðið nokkuð öfugsnúnir.

Hárprýði

Nýju klippingarnar koma afskaplega vel út.

Þeir taka það til sín sem eiga það.

Afmæli

Ormurinn er á leið í afmæli í kvöld. Það er tilhlökkunarefni.

Nördnægingin

Áðan heyrði bloggari nýyrðið „nördnæging“ í fyrsta sinn á ævinni hjá ónefndum bloggara.

Hann vissi samstundis við hvað var átt og hríslaðist um hann straumur vellíðunar.

en ek heiti Sverrir 12:34




föstudagur, febrúar 07, 2003fimmtudagur, febrúar 06, 2003
Galenos kemur því miður sterkur inn

Ormurinn hefur sjaldan setið jafn-stífan verklegan tíma eins og í fræðum Galenosar síðustu daga. Fyndið til þess að hugsa að stemmningin fyrir verklegu var ákaflega lítil fyrir 17 öldum.

Í dag hefur hann tvívegis lent í því í stærðfræðitímum að vit hans væru full sökum kvefs og hálsbólgu. Í fyrra skiptið var handapatið notað til að tjá þörfina fyrir að fara fram. Í seinna skiptið skrifaði hann svör við brýnum spurningum á töfluna (ásamt „reiknið þetta“ fyrir neðan uppskrifaða dæmalistann). All-kyndugt að svara spurningunni um höfuðborg Kampútseu skriflega á töflunni.

Kvefið gefur þó tilefni til bloggs (en letur jafnframt bloggara til langra setna fyrir framan tölvuna).

Kunna nemendur að stilla sig?

Tíminn hjá 6. M á eftir gæti orðið kostulegur ef M-bekkingar fara að rifja upp djömmin með leiðbeinandanum, á síðustu árshátíð og á Hvebbanum um síðustu helgi.

Skyndiprófaógnin sem mun skína af kennaranum verður vonandi nægilega sterk til þess að þeir haldi sig á mottunni.

Ofursvala Esjan

Esjan var svellköld þegar bloggari virti hana fyrir sér úr strætó á leið niður í bæ. Vesturbæingar þurfa samt ekkert að skammast sín fyrir Keili, hann getur tekið hvaða fjall sem er með vinstri.

Árshátíðir

Það er útlit fyrir að fleiri en
Óli Njáll rifji upp gamla takta á vordögum.

Nema hvað?

Rimaskóli keppir við Foldaskóla í viðureign um hverfismeistaratitilinn í kvöld.

en ek heiti Sverrir 13:22




miðvikudagur, febrúar 05, 2003þriðjudagur, febrúar 04, 2003
Tenórinn ungi

Öldungum, sem ætla í kórferð MR-kórsins, fer víst sífellt fjölgandi.
Fregnir herma að Eggert Ungverji ætli að mæta til Lundúna og trúlega fylla útskrifaðir nemendur senn tylftina.

Ekki er það ónýtt.

Nú er spurning um að hafa samband við einhvern tæknisinnaðan til þess að koma á æfingu um ljósleiðara.

Annars er hlutskipti kórdrengsins ekki öfundsvert. Í dag talaði samkennari um að setja hann yfir sönghóp á þemadögum Rimaskóla (vonandi í gríni). Bloggari hefur þó komið ár sinni ágætlega fyrir borð varðandi þessa þemadaga. Hann sér nefnilega um vísindasmiðju (sem veit á stjörnufræði).

Ætli það sé ekki best að kíkja á safnið og heilsa upp á ÓG næstu dagana.

Íslensku gæsalappirnar

Notkun íslenskra gæsalappa í tjáskiptum er alveg að gera sig.

en ek heiti Sverrir 17:50




Nú bloggari er fæddur

Eins og ávallt er
Helgi Hrafn fyrstur með fréttirnar í bloggheimum.

Nú eru það góðu fregnirnar.

Atli Freyr Steinþórsson hefur gengið blogginu á hönd.

en ek heiti Sverrir 11:56




mánudagur, febrúar 03, 2003sunnudagur, febrúar 02, 2003
Fréttir frá Færeyjum

Bloggari komst í nokkur nýleg tölublöð af
Dimmalættning í dag.

Í fyrsta blaðinu var á baksíðunni birtur listi yfir vinsælustu lögin í Færeyjum (Færeyski listinn?). Og hver skyldi hafa skipað 8. sætið? Jú, enginn annar en Geirmundur Valtýsson með lagið Brosandi birtu. Þetta er sko landkynning.

Hvað skyldi svo færeyska fjarskiptafyrirtækið heita sem auglýsir dósir (!) með orðinu „frælse“ utan á?

Jú, appelsínugula símfyrirtækið heitir auðvitað Kall og slagorð þess er að sjálfsögðu „títt er orðið“.

Kunnulegt?

(Íslandssími á 17,2% í félaginu.)

Af hlutum sem voru í fréttum og tengdust Íslandi var heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar til Færeyja, frásögn Færeyings af Heimaeyjargosinu, umfjöllun um útrás Brands Ennis til Íslands og tónleika hans með Jóhönnu á Broadway.

Ekki má gleyma heilmikilli og fróðlegri umfjöllun um Vogagöng.

Smáauglýsingarnar voru svo heill kapítuli út af fyrir sig. Trésmíðaverkstæði auglýsti t.d. eftir starfsmönnum „Timburmenn ella snikkarar“.

Loks var það ágætur pistill „Málvinar“ um orðið „hata“ í færeysku (sem á allt eins erindi til Íslendinga). Yfirskriftin var „Orðið hata er cool“ (sótt í ummæli unglinga) og fjallaði um það hvernig orðið er notað í tíma og ótíma um annað en persónur. En orðið er sterkt og það býður upp á einfalda lausn á málinu.

Þess vegna er það svalt.

Sunnudagamaturinn

Afi beygði niður Litluhlíð í dag og samstundis var bræðurunum ljóst að það væri kjúklingur í matinn. Ormurinn borðaði hæfilega mikið og göntuðust gömlu hjónin með það að bloggari væri farinn að róast heldur í átinu. Nú liggur leiðin líka niður á við víst menn eru farnir að fúlsa við ísblómum (já, líka í dag) og eftirláta yngri bróðurnum stærri hluta af Siggu súkkulaðiköku frá ömmu.

en ek heiti Sverrir 21:35




Hvebbinn

Bloggari lenti á rosadjammi á Hverfisbarnum í nótt. Var reyndar ekki þverfótað fyrir nemendum úr MR á staðnum (aðeins í að Rimskælingar láti sjá sig þar) og var mannskapurinn almennt í góðum gír eftir velheppnað tvítugsafmæli. Rámar kennarann eitthvað í að hafa notað skyndiprófahótunina (próf á 10 daga fresti út vorið) til að hafa hemil á ónefndum nemanda.

Það var ekki amalegt að hitta fyrir
Ítalíufarann (en ef marka má blogg undanfarinna mánaða má ætla að það séu um 50% líkur að hitta manninn á HB). Sá hafði greinilega engu gleymt og frekar bætt við djammkunnáttuna í útlandinu en hitt.

Nýkrýndur CS-drápari Háskólans í Reyjavík gerði það og gott en var orðinn nokkuð lúinn eftir tölvuspil síðustu daga. En nafnbótin var ekki tekin út með sældinni og virtist á tímabili sem einhverjir væru tapsárir.

María 25 ára

Ormurinn hringdi áðan í Maríu Ásmundsdóttur, sem nemur klassísk mál í Bologna, og óskaði henni til hamingju með 25 ára afmælið. Hún var að skríðast á lappir eftir heljarinnar teiti sem hún hélt í gærkvöldi en hafði þó rænu á að senda kveðju til allra sem hún þekkti á Íslandi og er henni hér með komið á framfæri (ef einhverjir þeirra skyldu slysast inn á síðuna).

Bloggari hlakkar mikið til að hitta hana þegar hún kemur heim í sumar.

en ek heiti Sverrir 11:50




laugardagur, febrúar 01, 2003
Hljómsveitin Blur uppgötvuð á Lynghaganum

Bloggari er stundum seinn til.

Eftir kaupin á geisladiskunum í vikunni hefur Blur-safndiskurinn nánast einokað spilarann. Ekki nema sjö árum eftir að sveitin var á hátindi ferilsins.

Snabbinn segir það kost að vera seinn. Þá er maður ekki að heyra lögin í útvarpinu í tíma og ótíma.

Það leiðir reyndar til annarar spurningar:

Síðan hvenær hefur eitthvað verið spilað með Blur á Gufunni eða Muzik.is?

Framtíð mannaðra geimferða

Hvaða póll ætli verði tekinn í hæðina varðandi mannaðar geimferðir eftir slysið í dag? Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr naflaskoðuninni hjá NASA.

Ómannglöggi leiðbeinandinn

Sólon, laugardaginn 25. janúar:

Bloggari sötrar bjór í félagsskap aldinna GB manna. Stelpur á borði talsvert frá Orminum veifa til hans. Hann er skynsamur og veifar á móti þótt hann sjái ekki hverjar þær eru.

MR, föstudaginn 31. janúar:

Stelpa í stjörnufræðinni spyr hvort kennarinn hafi skemmt sér vel síðastliðinn laugardag. Hjartað hamast í brjósti bloggara og sveittur streitist hann við að rifja upp á örskotsstundu hvað hann hafi gert af sér það kvöldið. Bæjarferðin er honum enn í fersku minni en hann sér ekki gjörla hvar stelpan kemur við sögu.

„Við vorum á Sólon og þú veifaðir til okkar.“ Leiðbeinandinn skammast sín niður í hársrætur og tautar fyrir munni sér nokkur orð um hve óþægilegt það sé að vera ómannglöggur.

Klukkutíma síðar þann sama dag bítur bloggari endanlega höfuðið af skömminni þegar hann fer rangt með nafn stelpu í hinum stjörnufræðibekknum, stelpu sem hann hafði ekki borið kennsl á réttri viku áður.

Pitsa með n-földum aukaosti

Pitsan í gærkvöldi bragðaðist vel (ískalt, hlutlaust mat yfirkokksins). N-faldur aukaostur kemur sterkur inn sem pitsuálégg.

Xiberius og Rhamsez

Bloggari hitti þá kumpána í íbúð móður þess fyrrnefnda á Hjarðarhaganum í gærkvöldi. Íbúðin er glæsileg og bílakosturinn fyrir utan var all-glæsilegur. Svo Innlits-útlits blogginu sé framhaldið þá var Lazy boy sófinn í stofunni að gera góða hluti. Nú er ljóst hvaða framkvæmdir verða næst á dagskrá á heimili bloggara.

en ek heiti Sverrir 19:25




Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.