Blogg Ormsins
Sverrir
Bloggarar

Skrifa í gestabók

Skoða gestabók

Ef þú vilt senda Orminum skeyti þá er það hægt hér

Eldra blogg

This page is powered by Blogger.

-->

fimmtudagur, október 31, 2002miðvikudagur, október 30, 2002
Við verðum að styrkja þetta

Þvílíkur munur fyrir Orminn að finna sér réttlætingu fyrir því að leika með kubba orðinn 23 vetra gamall. Fyrsti alvörudagur grunnskólakennarans sem leiðbeinanda legóhópsins (fyrir
vísindadagana) var í dag. Hugsa sér að bloggari sé farinn að nota gömlu frasana aftur: „Við þurfum aðeins að styrkja þetta hérna“ og „mig vantar bara einn kubb“.

(Sæluhrollur)

Vetrarfrí í Rimaskóla

Nú er vetrarfrí í Rimaskóla á morgun og hinn daginn. Það er gott. Þó er jafnframt ljóst að kennarastéttin vinnur engar vinsældakosningar með þessum nemendafríu dögum.

Frambloggari flytur

Þeir bloggarar sem hafa tjáð sig um vistaskipti Stefáns og Bryndísar virðast kampakátir.

Allir nema Ormurinn sem hér tjáir blendnar tilfinningar sínar.

Hann er svo sem sáttur við að ungu Valsmennirnir leiti umbúða þar sem þeirra er von og uppskeri. Einnig er hægt að sætta sig við þetta fyrir hönd Stebba og Bryndísar. En lengra nær það ekki. Nú verður far ei meir frá Minjasafninu.

Reyndar er óráðlegt að reita nútímalegasta bloggarann til reiði. Orminum veitir ekki af ráðgjöf varðandi mataræði þar sem hann slafrar í sig Cheeriosi að ráði Bjartmars.

en ek heiti Sverrir 20:49




Tannlæknakvíði

Líkt og
Atli er Ormurinn haldinn tannlæknakvíða. Síðustu ferð var frestað sökum veikinda í vikunni sem leið en heimsókn er þó óumflýjanleg um miðjan nóvembermánuð. Spurning um að gangast á hendur þessari þjóðlegu „átaksdellu“ og nota tannþráð kvölds og morgna?

Reyndar kom það á daginn fyrir fáeinum misserum að Kötturinn og Ormurinn eru hjá sama (dýra)tannlækni. Þegar bloggari benti Viðari á þessa sniðugu staðreynd þá var viðkvæðið stutt: „Já, harðhentasti maður landsins.“

Þótt undirritaður hafi ekki mikinn samanburð virðist vera nokkuð til í þessu hjá drengnum. Vonandi að hann sé kominn með leisi.

en ek heiti Sverrir 06:25




þriðjudagur, október 29, 2002
Lestrarkver handa íslenskumanna börnum

Það var ein setning sem
Ármann gleymdi í upprifjun sinni á Gagni og gamni:

Sísí símar til mömmu. Sísí er sísífrandi um ís. „Ísí á því“, segir mamma við Sísí sína.

Ætli nokkur geti raunverulega verið sísífrandi?

en ek heiti Sverrir 21:08




Ormurinn rumskar og Bob Moran

Í gær svaf bloggari af sér seinnipartinn og kvöldið (þegar hann ætlaði bara að „leggja sig“ fyrir kóræfinguna kl. 17) en vaknaði svo kl. 2 í nótt. Síðan var sofið frá kl. 5 til 8 eftir blogglestur o.þ.h. Með þessum 13 klst. var unninn upp talsverður hluti svefnleysis helgarinnar og aðfaranætur mánudagsins.

Þegar blogg gærdagsins voru skoðuð í nótt kom í ljós mjög skemmtileg umræða um barnabókmenntir. Þátttakendur verða víst fljótt sakaðir um nostalgíu og ekki lætur Ormurinn slíkar tilhneigingar aftra sér í innleggi hans hér á eftir.

Bobs þáttur Morans

Kristbjörn ræddi m.a. um að hann hefði hámað í sig bækurnar á barnadeild Borgarbókasafnsins. Meðal bókaflokka sem nefndir voru til sögunnar voru Frank og Jóa bækurnar og svo hinn æsilegi bókaflokkur um Bob Moran (sem eru sko alls enginn flokkur).

Bob Moran var hin sanna hetja í huga Ormsins. Hann var vel að sér í vísindum, kunni jiu jitsu, hafði frábæran einkaþjón og ók um á jagúar-sportbíl (ef bloggari man rétt). Sem sagt últrasvalur gaur.

Og ekki var andskoti hans síðri. Hr. Ming eða Guli skugginn gat risið upp frá dauðum þar sem hann geymdi fjölda eintaka af sjálfum sér djúpfryst í íshelli (sbr. bækurnar Tvífarar Gula skuggans og Endurkoma Gula skuggans). Var hann því vel að því kominn að vera andstæðingur hetjunnar.

Það sem höfðaði þó ekki hvað síst til blogganda var vísindaumfjöllunin í bókunum. Í upphafi bókarinnar um endurkomu Gula skuggans er t.d. umfjöllun um það hvernig hægt er að frysta fólk. Orminum er þó í fersku minni ummæli annars bloggara sem þótti þetta bara flækjast fyrir spennandi frásögn (kannski hefur hann séð í gegnum delluna). Annars eru það aðeins Ólafur Jóhannes og Snabbi bróðir (ásamt Jonna) sem bloggari man eftir í svipinn að hafi haldið upp á bækurnar.

En Bob Moran bætti ekki aðeins við raunvísindaþekkinguna. Titill bókarinnar Græna vítið er t.d. sóttur til brasíliska landsvæðisins Mato Grosso, sem hefur þaðan í frá verið eftirlætishérað Ormsins í Brasilíu. Reyndar gilti þetta um fleiri strákabókaflokka að þeir víkkuðu sjóndeildarhringinn. T.d. gerðist ein bókanna um Hauk flugkappa að mestu leyti á eynni Kergulen í suðurhöfum. Og hver man svo ekki eftir því þegar Frank og Jói mættu hingaðtil að fylgjast með æfingum geimfaranna? Pétur Most bækurnar (sem fóru reyndar afar hægt af stað) kenndu svo undirrituðum að blanda púður (sem hann hefur ekki hagnýtt) og Eric Speed kenndi Orminum allt sem hann kunni um um kappakstur áður en sýningar hófust á formúlunni.

Vefurinn hans Bobs Morans

Það var nú ekki ónýtur vefur sem bloggari rakst á er hann leitaði eftir fróðleik um Bob Moran, Hin opinbera heimasíða um Bob Moran. Síðan er á frönsku (dó!) en út frá þjóðfánum gat Ormurinn fundið yfirlit yfir útgefnar bækur á íslensku frá Prentsmiðjunni Leiftri. Hefur bloggari greinilega lesið þær fæstar en enn er lag.

Upplestur Ármanns

Kristbjörn minntist reyndar einnig á upplestur Ármanns Kr. á bókasafni Hlíðaskóla. Undirritaður var einnig svo heppinn að ná m.a. að hlusta á hann lesa bókina Fúsa froskagleypi veturinn 1986-87. Það er ein af bestu bernskuminningunum. Blessuð sé minning hans.

Frakkinn

Af frakki er það að frétta að hann fór kl. 5 í gærmorgun. Snæbjörn kvaddi hann með kveðjunni „sjáumst um páskana“. Þá verður frí frá bróðurnum.

en ek heiti Sverrir 13:59




mánudagur, október 28, 2002
Ferð á Fróðá

(Gefið út á sunnudagskvöldi kl. 23:37 - ólag á bloggernum)

Ormurinn er kominn heim frá Fróðá, glaður í bragði en dauðþreyttur (eftir að hafa rorrað fram til kl. 8 í morgun). Þessi ferð var góð.

Það kom á daginn að aðeins hálfur hópurinn var talinn upp í eldra bloggi. Við bættust
Módsjóurnar (Imba, Auja, Sonja, Hildur og Bryndís) sem fóru fimm saman á Yarisnum Skógardísarinnar. Reyndar ætluðu þær að taka enska vinkonu með (sem þær kalla sín í milli Þórgunnu í gríni eftir skólasystur sinni) en hún reyndist hafa öðrum hnöppum að hneppa. Ormurinn var hinn sáttasti enda ekki gæfulegt að fá slíkan kvenmann á svæðið. Óli nokkur kom einnig með kærustu sinni, Írisi. Voru því 14 manns sem skemmtu sér við glaum og gleði á föstudagskvöldið.

Á leiðinni vestur kom í ljós á skilti Vegagerðarinnar við Vegamót að betri færð var á Vatnaheiðinni en Fróðárheiði. Var því farið norður yfir fjallgarðinn, sem var ekki ónýtt í ljósi þess að Ormurinn hefur ekki áður farið um Vatnaheiðina, yfir nýju brúna á Hraunsfirði, né um endurbyggðan veg í Búlandshöfða.

Ormurinn stundaði lítt drykkju (að tveimur bjórdósum frátöldum) í ferðinni en það sama er ekki hægt að segja um förunauta hans. Í dag kom í ljós að lítið var um bjór í þeim dósum sem hafðar voru meðferðis. Var ástandið á einhverjum eftir því. Ísleifur bauð reyndar upp á ógeðsdrykk ferðarinnar um miðjan dag í gær, síðasta bjórinn sem hann hafði lagt frá sér áður en hann fór að sofa (og ekki náð að klára). Lagði enginn í svo þunnan [flatan] bjór í þynnkunni.

Á Fróðá kom berlega í ljós hve fólk er háð netinu sem tæki til úrskurðar í hinum ýmsu álitaefnum (fyrir utan almenna netfíkn). Hófst m.a. upp umræða um kynlitninga og til að menn væru vissir í sinni sök hringdi Ormurinn í sérlegan álitsgjafa sinn í líffræðilegum efnum, Dverginn, og leysti hann greiðlega úr málum. Eru honum hér þökkuð vel unnin störf.

Og sjaldan er haldið í þá ferð sem ekki auðgar andann nokkuð. Í veiðihúsinu var útgáfa Heimsmetabókar Guinnes frá 1985 (með Jóni Páli framan á) og þar var m.a. fjallað um met staurahúkara, sem sumir hverjir hafast við í pallkofum. Jafnframt kom fram sá góði punktur að heimsmetið í þessari grein sé trúlega elsta afrekið sem enn stendur (45 ár), sett af súludýrlingnum Símoni (sem uppi var á árunum 521-597).

en ek heiti Sverrir 02:35




föstudagur, október 25, 2002
Bloggfall og Fróðárundur

(Blogg frá föstudegi - sett inn af Sindra vegna ólags á bloggernum)

Þegar lesendur líta þetta blogg er Ormurinn farinn upp í sveit á bæinn Fróðá við Ólafsvík ásamt
Ísleifi, Jonna, Svenna, El Mundo, Ívari og Ástu. Hér eru taldir upp sex bloggarar en alls eru sjö í föruneytinu að Orminum meðtöldum. Þvílíkt bloggstuð sem verður um helgina.

Bloggandi var að hugsa um að hafa getraun um hvaða bók hann tæki með sér en hætti við. Hún yrði of erfið (NOT).

Bloggarinn liggur hins vegar niðri þegar þetta er ritað (17:41) og því þarf að grípa til slíkra örþrifaráða að biðja annan mann um að setja þetta inn til þess að skýra bloggfall morgundagsins/dagsins (þ.e. raunbloggfall laugardagsins sökum fjarvista, gæti verið að sýndarbloggfall sé ekkert ef Dvergurinn setur þetta inn á morgun). [innsk. Dvergs; þar varð Orminum ekki að ósk sinni]

Bloggari er móðgaður út í Gísla (sem bloggari þorir ekki að linka á), ekki vegna linkaádeilu heldur vegna niðurlags blogga hjá manninum. Honum getur ekki verið
sjálfrátt.

Jæja. Nú er Ísleifur á leiðinni. Best að fara í sturtu.

en ek heiti Sverrir 18:49




Legóþraut

Grunnskólakennarinn hefur nú fengið það verkefni að aðstoða lið Rimaskóla í
þrautakeppni Barnasmiðjunnar og Verkfræðideildar HÍ. Felst verkefnið í grófum dráttum í því að smíða tæki úr legói sem á að fara upp á pall, taka þar upp tennisbolta og skila honum svo af sér við enda brautarinnar; sem sagt mjög í anda keppni vélaverkfræðinema.

Hópurinn, sem er einvalalið skipað tveimur stelpum og tveimur strákum, á að hittast í fyrsta sinn í dag. Það að smíða úr legókubbunum er nú alveg nógu spennandi en einnig á að forrita fjarstýrða mótora og sá hluti er örugglega ekki síður skemmtilegur. Forvitnilegt er að sjá hvað upp kemur úr kassanum á skrifstofu skólastjóra á eftir..

en ek heiti Sverrir 00:07




fimmtudagur, október 24, 2002
Mark Steel stóð sig vel hjá M.Ú.R.

Það var þétt setinn bekkurinn á uppistandi Mark Steels sem
Málfundafélag úngra róttæklinga stóð fyrir í Stúdentakjallaranum í kvöld. Það sem Orminum þótti áhugaverðast var umfjöllunin um Tatchertímann í Bretlandi, nokkuð sem stóð yfir fyrstu ellefu árin af ævi bloggara eða svo (löngu áður en hann komst til vits og ára).

Í upphafi minntist Mark á hvað honum þætti sérkennilegt að hér væri fólk að grobba sig yfir því að hafa spjallað við Tatcher. Glottu fundarmenn við tönn enda mönnum enn fersk í minni mynd af ónefndum stjórnmálafræðiprófessor með Tatcher í Mogganum í fyrradag. Þegar Ormurinn sá hana rifjaðist einmitt upp fyrir honum orðtak sem fjallaði um skrattann og ömmu hans. Hmmm.

en ek heiti Sverrir 23:17




Nú massabloggarinn fundinn er

Það var orðið langt síðan Ormurinn leit við hjá
Erlingi. Það var þar sem stendur „svona bloggar maður“.

Kannski er þessi „molamenning“ að skemma allt bloggrápið, hver veit?

En fyrst er það breski spekúlantinn á Stúdentakjallaranum.

en ek heiti Sverrir 20:38




Ormurinn er ekki gjafmildur hvað varðar einkunnir

Nú eru báðir bekkir búnir að fá út úr stjörnufræðiprófunum. Meðaleinkunnin var ekki of há í þetta sinn heldur á bilinu 6,5 til 7 í báðum hópum. Voru prófin of svínsleg? Nei, ekki ef þrír til fjórir í hóp eru með 8,5 eða hærra og hæstu einkunnir 9,5 og 9,4.

Svolítið skrýtið að blogga um þetta eftir að nemendur komu að máli við kennarann í dag og sögðu alla í bekknum lesa bloggið hans. Þegar bloggari sagðist mundu draga úr bloggi um stjörnufræðina lögðust nemendur eindregið gegn því og vildu að hann yki MR-bloggið. Hér hafa þeir það.

Hvað sem gengi núverandi 6. bekkjar líður þá er ljóst að gamall nemandi frá því í vor,
Ønundur, fengi heldur bágt fyrir ef hann vísaði til fyrirsagnar í bloggi sínu sem heimildar um staðsetningu örnefna í sólkerfinu. Skilji þeir sem vilji.

en ek heiti Sverrir 19:10




Áhugaverðar mannlífspælingar

Orminum þykja mannlífsstúdíur þeirra
Viðars (þar sem krókódíll er í aðalhlutverki) og Önundar (tyggjóklessa miðdepillinn). Þetta blessaða mannfélag getur stundum verið svolítið skrýtið.

en ek heiti Sverrir 13:28




Þegar flett er uppi skemmtilegu bloggi

Hún var ánægjuleg
vísunin sem Ormurinn fékk frá Google leitarvélinni áðan. Um sannleiksgildið verða hins vegar aðrir að dæma.

en ek heiti Sverrir 12:22




Stjörnuspekidiss í morguns-árið

Í gegnum
nýyrðasmiðjuna Málþvottahúsið (þar sem afmælisbarn dagsins kemur m.a. við sögu) rakst Ormurinn á síðu yfir stjörnur með sérstakt heiti (þ.e. þær stjörnur sem heita eitthvað meira en t.d. kappa Orionis eða einhverju númeri eftir staðsetningu).

Þegar bloggari fletti upp björtustu stjörnunni í nautinu, Aldebaran, (merkinu sem hann fæddist í skv. stjörnu„spekingum“) kom í ljós að hún er einnig skilgreind eftir því flotta nafni Oculus Tauri, Auga nautsins. Ekki nóg með það, heldur var þessi appelsínuguli risi einn af fjórum verndurum himins skv. persneskum stjörnufræðum. Sem sagt: Svöl stjarna.

Þar sem bloggari kennir stjörnufræði er víst rétt að taka það fram að hann er raunverulega fæddur í hrútsmerkinu, enda miðast stjörnuspekin öll við uppröðunina á himninum eins og hún var í fornöld (ásamt því að dvöl sólar í stjörnumerkjum er mislöng en er jöfnuð út í dýrahringsfræðunum). Hér er hægt að fletta upp „raunverulegu“ stjörnumerki sínu (eins og það skipti máli). Sést þá m.a. að þeir sem fæðast fyrrihluta desembermánaðar eru í raun í stjörnumerkinu naðurvalda Ophiuchus en ekki í sporðdrekanum (13. og „týnda“ stjörnumerkið í dýrahringnum).

Stjörnuspekin væri svo sem ágæt ef allir tækju svipað mark á henni og flugi hrossagauksins í upphafi sumars eða völuspá Vikunnar. Því er hins vegar ekki að heilsa. Í strætisvagni um daginn heyrði Ormurinn í stjörnu„spekingi“ sem var að spá í kortin hjá hlustanda í beinni. Sá hann út frá afmælisdegi konunnar og „fræðum“ sínum (2500 ára gömlum) að einhverjir sem umgengust konuna stæðu í deilum (sem er náttúrulega sárasjaldgæft). Konan kannaðist að sjálfsögðu við það. Bað „spekingurinn“ hana jafnframt að reyna að standa hjá í þessum deilum og sjá hverju fram vindur enda væri hún með rísandi sól í vatnsbera eða eitthvað álíka.

Ormurinn gerir sér fyllilega grein fyrir að fíflin á svæðinu eru náttúrulega innhringjararnir sem kóa svo með þegar spámaðurinn „sér“ í kortunum einhver almenn atriði sem koma fyrir í lífi venjulegs fólks. Þessi maður í útvarpinu er væntanlega enginn svindlari að því leyti að hann vafalaust trúr sínum forngrísku kreddum. Það að svona lagað sé klætt í „vísindalegan“ búning fer hins vegar óstjórnlega í taugarnar á bloggara.

Eftir þennan reiðilestur er þó rétt að minnast á einn góðan hlut sem stjörnuspekin hefur fært okkur, stjörnuspá Dags-Tímans. Það var þó eitthvað sem vit var í.

Að lokum má minnast á hlekk á minnislista Davíðs sem bloggari sá á síðu Oddsins. Foringinn verður að muna eftir að taka þessa menn úr umferð.

en ek heiti Sverrir 07:08




miðvikudagur, október 23, 2002
Ormur haslar sér völl á nýjum vettvangi

Jæja, þá er Ormurinn búinn að sjá barnið sitt, sem eingetið var að undirlagi
Munda og mun prýða Þjóðarbókhlöðuna bráðlega. Það verður spennandi að sjá viðbrögð kunningja úr , þ.e. þeirra sem fatta djókinn.

en ek heiti Sverrir 23:20




Snabbi bróðir rúlar feitt

Bróðir Ormsins kom áðan heim glaðbeittur. Hann hafði líka góða ástæðu til þess. Birgir Guðjónsson og Bjarni Gunnarsson, stærðfræðikennarar við
MR, stefndu honum í dag í kaffisamsæti í Skólabæ næsta sunnudag. Þar á hann að taka við viðurkenningu fyrir þátttöku sína á efra stiginu í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna. Er þetta þá annað árið í röð sem Snabbi kemst á blað.

Fyndni punkturinn við þetta allt saman er að drengurinn er á fornmáladeild I. Hann fær fimm tíma í grísku og fimm tíma í latínu í hverri viku, auk þriggja tíma í fornfræði. Kennslustundirnar í stærðfræði eru hins vegar aðeins þrjár.

en ek heiti Sverrir 15:29




Valur er rétt val

Það er ekki laust við að bloggara fljúgi ö-lösturinn í hug er hann les
þetta.

en ek heiti Sverrir 12:57




Hausverkun

Hausverkurinn er ekkert á þeim buxunum að hafa sig á brott. Best að fara að hitta læknirinn í dag ef þess er nokkur kostur.

en ek heiti Sverrir 06:59




þriðjudagur, október 22, 2002
Breyttir starfshættir Ormsins

Bloggari boðar nýja starfshætti, borun (orma)ganga og byggingu brúa. Hann hefur játað það fyrir sjálfum sér að of viðamikið er orðið að fylgjast með (lang-)flestum á
molasíðunni góðu (tengillinn „bloggarar“ í tenglasafninu). Því tók hann til þess ráðs að skoða alla sem skráðir voru á rss-veitunni og meta hvort þeir væru með blogg við hæfi liðdýra. Þeim var svo steypt saman í veituna góðu, „bloggarar í náðinni“, til þess að einfalda vísitasíu Ormsins í bloggheimum (ekki virkaði að taka inn neina nag-hlekki). Þá eru þeir sem skráðir eru á molana en er ekki að finna á listanum (birtir ekki alltaf alla) fallnir í ónáð blogganda skv. skilgreiningu.

Ármann Jakobsson er í hópi þeirra sem ekki notfæra sér þjónustu Molanna. Slóðina til hans hefur því þurft að slá inn til þessa en þar sem hann er svo faglegur að bæta hlekk á Orminn á síðu sína er við hæfi að bloggari geri slíkt hið sama. Þar með er brotið lögmálið um að bloggari sem linkað er á þurfi að hafa samdrukkið með Ormi einhvern tíma síðasta hálfa árið (kannski var skemmtikvöldið ein stór vinstrimanna- og bloggsamdrykkja?).

Fyrrum kollegi Ormsins úr MR, Geir Ágústsson, linkaði víst á Ormsbloggið í gær og sagði bloggandi kennurum fara fjölgandi við útitaflið. Hann hefur trúlega ekki munað eftir íslenskukennaranum Ármanni og það er heldur ekki víst að hann kannist við Rúsínubloggið hjá Ragnhildi Jónsdóttur, hagfræðigúrúi.

Annars barg Geir forfallakennaranum í eðlisfræðinni í vor þegar prenta átti út hið margrómaða skyndipróf Ormsins. Kann bloggarinn Ønundur honum væntanlega bestu þakkir fyrir. Á bjórblogginu er jafnframt vísun á mynd af þeim hressa fír, Ómari Ómari, en Orminum hlaust sá heiður að vinna með þeim gæja og Gústa, pabba þeirra bræðra, í Hrauneyjum (í slagtogi við Ungverjalandsbloggara). Gústi vélstjóri er ásamt ónefndum handboltaköppum tvímælalaust í hópi erkitöffara.

Viðar fer á kostum í vísnahorni dagsins. Mannkynið stendur í ævarandi þakkarskuld við prof. Sverre Gudmundsen fyrir að hafa fært kvæðin í letur, enda þekkja allir fallvaltleika munnlegrar geymdar. Þessi hluti var í boði Ókólnis - bjórsalar ehf.

Sá mikli bloggforkur Karl Ágúst hefur bætt Orminum í safn bloggara á síðu sinni. Skal hér goldinn hlekkur við hlekk (sem lög gera ráð fyrir) víst partíprinsippið er fyrir bí hvort eð er. Skv. færslunni virðast spennandi blogg í vændum.

Óvéfengjanlegt skúbb dagsins er í boði Franks Cassata og tengist áramótaskaupinu.

Mundi höfðaði til sterkt til hégómagirndar Ormsins áðan og lét bloggandi undan freistingunni. Afraksturinn má sjá á kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar bráðlega.

Annars var fróðlegt að fá að vita það hjá annálaritaranum Örvari að Landsbókasafnið ætli að hysja upp um sig buxurnar varðandi varðveislu heimilda af netinu (sbr. athugasemd við bloggfærsluna að neðan). Mjög gott mál.

Ísleifur bendir í bloggi með yfirskriftinni „Séð og heyrt á Ísafirði“ á eina bestu hnakkasíðu sem sést hefur.

Ásamt breyttri yfirferð ætlaði bloggandi að taka upp þá hætti að birta efnismikið blogg (og forunnið) árla dags en nota síðdegið eða kvöldið til að segja frá því helsta sem hefði drifið á daga Ormsins (í knappara bloggi). Þetta prinsipp er strax brotið í fyrsta bloggi svo að framhaldið verður að koma í ljós. Tvö svona í viðbót og bloggari fer beinustu leið í fangelsi, án 2.000 krónanna.

en ek heiti Sverrir 23:15




Blogg og skráning heimilda

Uppsalabloggari var með mjög áhugaverðar pælingar í gær, sem m.a. leiddust í vangaveltur um það hve magnað það væri að hafa aðgang að bloggum íslensku vesturfaranna, nú eða Jósefs frá því fyrir 2000 árum.

En hér rekast bloggarar á eitt alþekkt vandamál, þ.e. varðveisla heimilda. Nú er þekkt að erfitt er að ná í tölvugögn sem geymd voru eftir öðlum stöðlum og skrifuð með öðrum forritum en nú tíðkast. Jafnvel reynist illt að nálgast barnung gögn sem vistuð voru með (nú) úreltu ritvinnsluforriti.

Einnig skilst bloggara að sá aðili sem skyldur er til að leggja sig fram um að varðveita menningararfinn, Landsbókasafn Íslands, sé ekki að standa sig sérstaklega vel við að varðveita efni af netinu. Veldur fjárskortur þá væntanlega nokkru um, auk þess sem það tekur tíma fyrir nýtt fyrirbæri að ávinna sér sess í biðröðinni eftir fjárveitingum. Nú mega lesendur og aðrir bloggarar gjarnan koma með athugasemdir ef Ormurinn fer með rangt mál (það væri nú ágætt ef staðan væri betri varðandi þetta hjá þeim). Landsbókasafnið kæmi bloggurum reyndar heldur ekki strax til hjálpar því efnið er að langstærstum hluta vistað á erlendum netþjónum. Íslenskir þjónar yrðu líklega fyrstir á dagskrá og svo annað efni skrifað á íslensku sem vísað væri á frá íslenskum síðum.

Þetta lítur sem sagt ekki vel út varðandi varðveislumál hjá bloggurum.

Jæja, best að fara að prenta bloggið út í tvíriti, annað fyrir heimilið en hitt til að geyma úti í bæ.

en ek heiti Sverrir 11:55




mánudagur, október 21, 2002
Ormurinn datt út af rss.molunum

Þetta er búinn að vera erfiður dagur hjá bloggara í dag. Á leið til vinnu sinnar í
Rimaskóla fékk hann svo heiftarlegan höfuðverk að hann fór út á næstu biðstöð, tölti yfir á Minjasafnið góða, meldaði sig veikan í skólanum og lagði sig hjá Stefáni og félögum. Ekki er verkurinn farinn, enda stalst Ormurinn í tölvuna í dag (allt í lagi - þetta er fíkn) og svo mátti hann til með að mæta á kóræfingu. Hún var vel mönnuð í alla staði og reyndist hin mesta bót (fyrir sálina a.m.k.). Mikið er gaman að syngja.

Annars hafa þau undur og stórmerki gerst að Ormurinn datt út af fyrirsagnalistanum á Molunum í fyrsta sinn í dag. Þetta kann að hljóma hrokafullt að miða allt við þennan bloggara, sem hér skrifar, en hjá honum hefur hins vegar aldrei orðið bloggfall frá því að hann hóf blogg 8. ágúst (þótt ein eða tvær færslur hafi ratað inn á síðuna þegar klukkan var gengin fimm mínútur í eitt). Þar að auki hafa færslurnar sjaldnast verið bara ein yfir daginn (oftar þrjár til sex á dag). Hér er því þó alls ekki haldið fram að saman fari magn og gæði. Virkni hefur hins vegar ávallt verið talin dyggð í bloggheimum.

En þar sem svo margir eru farnir að nota rss veituna (og blogga að staðaldri) er færsla frá því árla dags dottin út um kvöldmatarleytið. Það er af sem áður var þegar svo fáir virkir nýttu sér kerfið að neðsti maður á lista var með um 40 klst. gamla færslu. Þetta þýðir þó jafnframt það að nú verður Ormurinn að koma sér upp eigin lista.

Svo í lokin er rétt að nefna einn nýjan til sögunnar á listanum, Atla Tý Ægisson, hvers bróður bloggari er allkunnugur. Hann var að skríða yfir þúsund gesta markið á teljaranum í dag og óskar Ormurinn honum til hamingju með þau tímamót.

en ek heiti Sverrir 19:14




Sérkennileg einkunnagjöf á blogginu

Ýmsir bloggarar kjósa að gefa hinu og þessu einkunn. Er trúlega vinsælast að gefa þessu og hinu nokkrar stjörnur eða einkunn frá 0 upp í 10. En þó eru nokkrir sem veita „óhefðbundna“ umsögn og er einkunnaskalinn oftar en ekki tengdur nafni síðunnar eða bloggarans. Hér skulu týnd til nokkur dæmi um slíkt sem Ormurinn hefur séð á blogginu:

Fyrstan ber að nefna til sögunnar Viðar en
kerfi hans tekur mið af einkunnagjöf Penguin Guide To Classical Music og getur einkunnin verið frá (*) til *** og jafnvel R (rósetta). Hauskúpu, H, gefur Kötturinn ef honum er herfilega misboðið. Hjörleifur, bróðir hans, styðst við svipað kerfi.

Svo má næstan telja bróður Nóra, Hauk hagnað. Sá er með óvenjulegan stjörnukvarða þar sem Hagnaðurinn gefur allt frá 0 og upp í 100 stjörnur.

Á Græna skítnumhafa bloggarar fundið upp kvarða fyrir vísindaferðir, sem er mjög viðeigandi, þ.e. að gefa ferðunum og gestgjöfum einkunn í formi glasa. Þessi aðferð fær tvímælalaust 5 glös af 5, kalt mat.

Næstsíðasta hópinn, sem bloggari man eftir, fylla tveir bloggarar sem leiða nafnið á kvarðanum beint út frá nafni ritstjórans. Kirk gefur einkunn í „Kirkum“ og Ísi, hefur ákveðið, upp á sinn lítilláta máta, að nefna kvarða Ísalandsins eftir forsetanum. Umsögn er gefin í „ísum“.

Svo er það loks maðurinn með sniðugasta fyrirkomulagið að mati Ormsins, Á bloggsíðunni „Hefaistoz´s Workshop" gefur Ingólfur smíðaguð kvikmyndum einkunn í fjölda smiðshögga. Fjögur smiðshögg vita á gæðaræmu.

en ek heiti Sverrir 05:56




sunnudagur, október 20, 2002
Fyllerísblogg dauðans

Hér er sótölvað blogg ungra Íslendinga í henni Kaupmannahöfn.

en ek heiti Sverrir 22:16






Þetta er rosalegt.

Nú er Ormurinn strax búinn að svíkja það sem stóð í fyrirsögninni hér að neðan. Einnig skal það upplýst að heimildavinnu fyrir massablogg árla dags á morgun er lokið.

en ek heiti Sverrir 22:09




Sunnudagsblogg hið síðara

Frakkinn Julien var dreginn í mat til afa og ömmu í dag. Amma var nú flinkust manna í því að reyna að hafa umræðurnar á ensku en fyrir utan Snæbjörn kunni enginn þarna frönsku. Urðu umræðurnar oft á tíðum skondnar þegar hún endursagði seinni hlutann á ensku þannig að fyrri hlutinn fylgdi ekki með. En hún stóð sig þó betur en þumbinn hann Ormurinn.

Julien er annars bara að rokka. Það hefur sýnt sig að hann er mjög sjálfbjarga m.v. aldur, enda þýðir ekkert annað á heimili þar sem enginn mamma er til þess að hafa áhyggjur af hinu og þessu varðandi gestinn. Hann fær sér sjálfur að éta það sem honum sýnist (s.s. Cheerios í morgunmat og súkkulaðiköku núna áðan í kvöldmat) og á föstudaginn, þegar Snabbi var sofandi (þunnur) og bloggari mættur til vinnu (líka þunnur), kom hann sér sjálfur niður í skóla til hinna Frakkanna en hópurinn fór svo saman á hestbak í Þjórsárdalnum.

Það er samt spurning um að láta verða af því að taka ákveðna mynd (sem bloggandi hefur ekki ennþá séð) um villuráfandi útlending í Reykjavík þegar Frakkinn fer í 3 daga jarðfræðiferð í vikunni.

en ek heiti Sverrir 18:34




Þá var kátt í Höllinni

Tónleikarnir í gær voru fínir. Ormurinn og föruneyti sá bara í skottið á Orgelkvartettinum Apparatinu en þeir virtust álíka grillaðir og hljóðfæraskipunin benti til. Samt menn með húmorinn í lagi.

Svo stigu hiphopararnir í Blackalicious á stokk. Það var tvímælalaust það atriði sem Ormurinn var hrifnastur af. Algerir töffarar. Ekki skemmdi að bræðurnir dilluðu sér fyrir miðju, 5 metra frá sviðinu.

Um The Hives er kannski ekki mikið að segja hér. Virtust standa sig vel í rokkinu og voru með væld sviðsframkomu þótt snyrtimennskan væri ávallt í fyrirrúmi. Málið er bara það að bloggari hefur lítið gaman af rokki.

Gus Gus liðar eigruðu um sviðið eins og bavíanar í náttfötum með íslenska fossa á tjaldi í bakgrunni. Algert markaðsrúnk. Hversu skemmtileg er hljómsveit þegar breikdansarar stela senunni undir lok spilamennskunnar?

Fatboy Slim hóf leikinn með tilþrifum. Aftur var Ormurinn á besta stað, fremst fyrir miðju, en þar var líka of mikið af strákum að troða sér svo að hann fór aftur í sal til að geta dillað sér við tónlistina (sem hefur væntanlega verið nokkuð kostuleg sjón). Feiti strákurinn stóð sig vel en bloggari, sem vissi ógjörla við hverju var að búast, varð samt fyrir nokkrum vonbrigðum. Trúlega búinn að byggja upp of miklar væntingar. Einnig var svolítið mikið af dópvísunum í þessum tónlistarflutningi fyrir hans smekk.

Að tónleikum loknum kom bloggandi auga á ónefndan ungpólitíkus. Hann var ekki alveg viss en eftir að meinti ungpólitíkusinn heilsaði undirrituðum var hann viss. Að því er best er vitað hafa þeir ekki haft nein samskipti síðan fyrir 14 árum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan.

Í það heila tekið er Ormurinn sáttur.

en ek heiti Sverrir 11:54




laugardagur, október 19, 2002
Fatboy Slim með texta

Ormurinn hlustaði áðan á tvær síðustu breiðskífur danstónlistarmannsins
Norman Cooks með texta. Bloggari viðurkennir samt að þetta sé tæplega jafnkrefjandi og að hlusta á óperur með textabók í hönd (það hefur hann þó aðeins gert við óperur Niflungahringsins í félagi við Viðar og Sjonna.)

Mínímalismi danstónlistarinnar auðveldar mjög verkið. Seint yrði frasinn „Push the tempo“ uppistaðan í aríu.

Nú er aðeins eftir að reyna að ná tökum á textanum við lag Blackalicious „Make You Feel That Way“, sem yngri bróðirinn kann reiprennandi. Ætli sé svo ekki við hæfi að góna á myndbandið þeirra, ásamt Fatboy Slim myndböndunum á eldhússmakkanum.

En fyrst eru það borgarar með Gunnari Eyþórssyni, Snabba, Julien, Alexöndru og Snorra Beck.

en ek heiti Sverrir 15:26




Múrinn góður í dag

Besti og frægasti bloggarinn fer á kostum á
Múrnum í dag. Reyndar er glensið aðeins á kostnað ónefnds alþingismanns Reykvíkinga en það kemur nú vart að sök.

en ek heiti Sverrir 14:53




Tónleikadagur

Tónleikarnir stóru eru í kvöld og því tekur dagurinn í dag mið af því. Yfirferð á prófum, semja tvö íslenskupróf og kennsluáætlun í stærðfræði. Laga til ef Ormurinn nennir.

Alexandra, kærasta litla bróður, stakk upp á því að hópurinn myndi elda saman. Reyndar var fimm manna Airwaveshópurinn í pitsum hér í gær: Snæbjörn, Gunnar Eyþórsson, Julien, Alex og bloggari. Spurning samt um að innbyrða rétta matinn hæfilega snemma þegar mið er tekið af því að tónleikarnir standa frá átta til þrjú.



en ek heiti Sverrir 10:51




föstudagur, október 18, 2002
Síðasti dagur vinnuvikunnar

Ormurinn er ennþá þunnur þar sem hann situr í hliðskjálf Minjasafns OR (já,
Stebbi er með myndavélakerfi) og bryður þurran Korna (með vafasamt hollustugildi) og sýpur af vatni úr Selectukútnum frammi. Bloggara rámar í ágætt hugtak til að lýsa svona aðstæðum, skáldlegt réttlæti.

Í morgun vaknaði bloggandi rétt rúmlega átta. Því var ekkert betra að gera en að rúlla í vinnuna með leigubíl að síðasta bloggi loknu. Það voru svo sem bara tveir stærðfræðitímar og einn íslenskutími á dagskránni í morgun, sem betur fer, enda frí í MR í dag. Það stendur víst í sambandi við árshátíð gærdagsins.

Gærdagurinn

Gærdagurinn hófst með bakstri fyrir meintan kökudag í M-bekknum. Svo kom upp úr dúrnum að hann átti að vera í næstu viku. Það varð niðurstaða málsins að kaka kennarans yrði étin en hann slyppi við að koma með köku næst. Nemendur voru kurteisir og hrósuðu köku Ormsins, en sem sannur bakari var hann ekki nógu sáttur við útkomuna úr bakstrinum. Þessi kaka var ekkert spes og verður bloggara hvatning til að gera betur eftir jól.

Svo tölti stóðið upp á Hlemm (einhverjir nemendur þó á bíl) á Náttúrugripasafnið til að skoða tunggrjót. Allt var þetta nú bjagað í minningunni. Bloggara hélt að þarna væru einhverjir tunglhnullar (bjartsýnn!) en þá var það víst eitthvert korn inni í glerkúlu (sem ekki var nógu kyrfilega gætt að mati Ormsins). Rykfallni geirfuglinn var á svæðinu í góðum félagsskap flottra dýra eins og sæköngulóar, hafarnar og lúsífers (töffarafiskurinn). Þó var það tveggja metra kykvendi, sæskjalla af Ströndunum sem rúlaði feitast á safninu (unglingamál frá Sveini Yngva).

Það er dapurlegt að náttúrugripasafn í ríku landi (a.m.k. af peningum og sérstæðri náttúru) sé á hrakhólum. Svona safn ætti að vera kjörinn staður til kennslu, afþreyingar og til að auka á fróðskapinn. Hitt náttúrugripasafnið sem Ormurinn hefur farið á var í Mapútó, höfuðborg Mósambíks, um síðustu áramót. Það safn kúldrast ekki inn af þröngum stigagangi (var lyfta þarna?) á 3. og 4. hæð í húsi við Hlemmtorg, heldur er þeir Mósambíkmenn með safn sitt í einu af flottustu húsum borginnar. Safnið er svo makalaust eftir því. Samanburðurinn er Frónbúum afar óhagstæður, ekki síst í ljósi þess að landsframleiðsla þessa 17 milljón manna lands er af sömu stærðargráðu og landsframleiðslan á Íslandi.

Skemmtilegur atburður gerðist samt í tunglgrjótsskoðunarferðinni. Krakkarnir buðu stjörnufræðikennaranum sínum í teiti í Kaldaselinu hjá syni Valla í Fræbblunum. Ekki var laust með að kennari væri upp með sér.

Gærkvöldið

Kennari hitaði aðeins upp fyrir teitina með því að staupa sig fyrir framan tölvuna og segja öllum á MSN-inu að hann væri að verða ölvaður og á leið í partí. Engum gelgjuskap fyrir að fara á þeim bæ. Svo var haldið í leigara upp í Seljahverfið, þar sem vel var tekið á móti Orminum. Var U2 fyrst á fóninum en svo var það hiphopið (m.a. Blackalicious) og trúlega náði sú sena hámarki með lagi Naughty by Nature.

Ónefndur nemandi ákvað að hækka ekki kennaraeinkunn sína með því að segjast hafa séð til uppeldisfrömuðarins að áfengiskaupum á Eiðistorgi við þriðja mann (þ.a. tveir undir lögaldri). Reyndar jafnaðist það út þegar nemandinn (kvk.) stóð fyrir því að kennara voru veittar tvær fullnægingar (staup). Náði kennari á endanum þokkalegum árangri á drykkjusviðinu þetta kvöld (ekki með neinum hastarlegum afleiðingum þó), enda eins gott í ljósi þynnkunnar í dag. Bróðir Ormsins hringdi og upphófst þá metingur milli bræðra um hvor hefði drukkið meira. Var þetta trúlega fyrsta fjardrykkjukeppnin sem bloggandi tekur þátt í.

Sá maður (þ.e. yngri bróðirinn) var einmitt í hópnum sem undirritaður hitti fyrir utan Breiðvang. Var Snabbinn í slagtogi við tungumálagúrúið og spurninganördinn Atla Frey Steinþórsson, sem haldið hafði staupaþing bekkjarins þá um kvöldið. Upphófust fagnafundir miklir fyrir utan staðinn og gaf einhver menntaskólagæskurinn kennaranum hálftóman vodkapela (er þar komin skýringin á rámri röddinni í morgun?).

Úr Ármúlanum var haldið í leigubíl niður í Hafnarstrætið á Nonnabita (eftir lögeggjan Kattarins fyrr um kvöldið), þar sem bloggari pantaði kjúklingabát í fyrsta og síðasta sinn. Næst verður það karríbátur með kjúklingi. Á Lækjartorgi hitti hann svo Svenna og Munda, sem fengu sér vöfflu í vöfflubílnum eftir Airwavesrölt.

Upp úr eitt sofnaði Ormurinn svo svefni hinna réttlátu.

en ek heiti Sverrir 12:45




Þynnka dagsins

Ekki laust við að Ormurinn sé aðeins þunnur eftir
árshátíðarteiti í gærkvöldi. Meira af því síðar ef það er þorandi að blogga um það á þessum vettvangi.

En fyrst er það Rimaskólinn.

en ek heiti Sverrir 08:22




fimmtudagur, október 17, 2002
Póstkort frá ferðalöngum

Ormurinn var að fá póstkort frá þeim félögum,
Hjalta og Jóa. Þeir voru staddir í Marokkó þegar kortið var sent og áttu þá viku eftir af ferðalaginu, sem endar í Mílanó. Bloggari vonar að þeir komist klakklaust heim.

en ek heiti Sverrir 17:10




Hvíts pakks saga

Trukkakeppnin er greinilega möst þegar farið er til Bandaríkjanna. Þetta vekur upp hugrenningatengsl við sögu af hjónum sem komu fram hjá Jerry Springer. Konan var ósátt við mann sinn og hafði haldið framhjá (og viðhaldið náttúrulega mætt í þáttinn o.s.frv.).

Það kom í ljós að óángægjan hafði byrjað strax eftir brúðkaupið. Karlinn kom því nefnilega til leiðar að á kvöldi brúðkaupsdagsins drifu nýbökuðu hjónin sig á trukkakeppni! Þetta er greinilega lykillinn að góðu kvöldi.

Svo er hvíts pakks saga.

en ek heiti Sverrir 15:46




Nýbökuð skúffukaka

Ilmurinn af nýbakaðri súkkulaðiköku fyllir eldhúsið á Lynghaganum. Það var víst fyrir viku sem Ormurinn gaf það loforð að í dag, á árshátíðardegi Skólafélags MR, skyldi vera kökudagur. Svo er hugmyndin að bekkurinn rölti upp á Hlemm að skoða tunglgrjótið á Náttúrugripasafninu.

en ek heiti Sverrir 07:08




miðvikudagur, október 16, 2002
Afkvæmi guðanna

Það má með sanni segja að þessa dagana sé Ormurinn „afkvæmi guðanna“. A.m.k. eru síðustu þrjár heimsóknir í gegnum leitarvélar frá fólki sem vafraði um netið í leit að fróðleik um þá ágætu sveit, Afkvæmin. Helgast þetta allt saman af gömlu bloggi þar sem bloggandi fór með
viðlag þess lágkúrulega lags Upp með hendur.

Það er jafnframt ljóst að þetta blogg tryggir Orminum enn betri sess hjá leitarvélum í framtíðinni þegar flett verður upp strengnum „Afkvæmi guðanna“.

en ek heiti Sverrir 22:16




Fyrstur með bloggið

Hver var fyrstur með bloggið,
Ísleifur eða Baggalútur?

en ek heiti Sverrir 22:05




Nafn með rentu?

Þar sem Ormi er málið skylt er trúlega við hæfi að vekja athygli á
greininni um fólkið á kössunum á Tíkinni.is. Hér er svo álit sem bloggari er ekki alveg sammála (málið aftur skylt en á annan hátt).

Þessi bloggar þó af viti.

en ek heiti Sverrir 19:20




Gamall lærifaðir - nýr starfsbróðir

Ormurinn hitti Hildi Einarsdóttur, umsjónarkennara sinn í 8. og 9. bekk HE í
Hagaskóla, á Ægissíðunni í gær. Hún spurði náttúrulega hvort bloggari væri ekki í Háskólanum. Nei, ekki í vetur. Undirritaður hefði ákveðið að helga veturinn kennslu í Rimaskóla og MR.

Þetta væri e.t.v. ekki í frásögur færandi eitt sér nema af því að fyrir örfáum dögum skrifaði gamall félagi Ormsins úr þeim sama skóla, Karl Ágúst Ipsen, í gestabókina. Hann stýrði skólablaði í Hagaskóla sem bloggari og Snorri Beck, ásamt fleiri góðum mönnum, áttu þátt í að koma út. Haustið 1995, að Hagaskóla loknum, tóku svo bæði Karl og Ormurinn þátt í útgáfu hverfisblaðs húmanista í Vesturbænum (hvar Metúsalem Þórisson var prímus mótor). Það endaði því miður allt í hávaðarifrildi og leiðindum en fennt hefur yfir þau fyrir löngu.

en ek heiti Sverrir 12:33




þriðjudagur, október 15, 2002
Þjóðarbókhlaðan franska

Páll Hilmarsson bendir í færslu dagsins á vefsíðu sem hann segir innihalda „eitthvað það svalasta í öllum heiminum“.

Fyrr má nú vera úrdrátturinn.

en ek heiti Sverrir 19:29




Listafróðleikstímabili lýkur

Það var aðeins einn listi í viðbót sem Ormurinn átti eftir að koma á framfæri við lesendur (í bili a.m.k.).

Eftirlætisvatnsföllin Ormsins á Mýrdalssandi:

1. Austarikælir
2. Skálm
3. Vestarikælir

en ek heiti Sverrir 13:34




Endurtekið efni

Hvað á manni að finnast þegar ágætur bloggari birtir tvær gamlar færslur í röð? Ein gömul gæti gæti birst fyrir mistök en vart tvær.

Þetta útleggst á góðri gámaíslensku sem „endurtekið efni“.

en ek heiti Sverrir 12:10




Gamall leikur og ljótur rifjaður upp

Síminn hringir á Lynghaganum. Vinur Snæbjarnar er í símanum:

Ormurinn: „Halló.“
Vinur: „Sæll vertu!“
Ormurinn: „Sæll!“
Vinur: „Við ætlum öll að hittast með Frakkana okkar hjá bla, bla og gera bla, bla.“
Ormurinn: „Einmitt“
Vinur: „Og svo ætlum við að fara bla, bla“
Snæbjörn: „Já. Ég kem með Frakkann minn.“
Vinur: „Á ég þá ekki að koma að sækja þig?“
Ormurinn: „Jú, jú.“

Í framhaldinu fær vinurinn svo endanlegt samband við Snæbjörninn.

Það er nefnilega þannig að símaöt bræðranna (þegar þeir eru ekki í útlöndum!) fara oftast þannig fram að einhver, köllum hann Leiksopp, hringir á Lynghagann og svo fær hann (Leiksoppur) samband við þá bræður til skiptis. Það er reyndar örlítill munur á raddsviðinu (einn syngur tenór, annar bassa) en það sem kemur helst skringilega út er hvað viðmælandinn er ávallt „ferskur“ í símtalinu.

Kunningjar Ormsins hafa reyndar oftar lent í þessu en vinir Snabbans. Ætli það sé nú samt ekki skynsamlegast að nefna engin
nöfn.

en ek heiti Sverrir 11:14




Prófúrlausn á nýjum belg

Eitt af verkefnum dagsins hjá Orminum verður að fara yfir forfallapróf í stjörnufræði. Þau nýmæli urðu að einn nemenda vildi taka prófið á tölvu (bar við að hann ætti erfitt með skrift) og skilaði því svo á disklingi í lok tímans. Prófblaðið var reyndar nýtt til þess að rissa upp eina skýringamynd.

Svo er að sjá hvort þessi nýbreytni komi ekki bara vel út.

en ek heiti Sverrir 05:06




Jarlaskáldið geysist fram bloggvöllinn

Allt það sem lesendur vildu vita um föstudagskvöldið (* en Ormurinn þorði ekki að segja frá).

en ek heiti Sverrir 00:10




mánudagur, október 14, 2002
Nú einn duglegasti bloggarinn er fundinn

Hr. mikilvirkur.

en ek heiti Sverrir 23:45




Stjörnuglópur

Ormurinn gekk göngutúrinn langa nú rétt áðan alla leið upp á Valhúsahæðina. Þar sást ekki sála. Svo kom bloggari við hjá
Ísleifi á leiðinni heim.

Það var fögur stjörnusýn í kvöld. Tunglið óð í skýjum í suðri en í vestri tindraði Arktúrus, rétt fyrir neðan karlsvagninn. Svo er nefnilega mál með vexti að bæði hausthiminninn og vorhiminninn eru tilkomumiklir. Nú eru karlsvagninn, Arktúrus og sumarþríhyrningurinn (Vega, Deneb og Altair) sem ráða ríkjum að kveldi. Upp úr áramótum verða hins vegar Óríon, ökumaðurinn, nautið, litlihundur og stórihundur í öndvegi, ásamt vetrarþríhyrningnum (Betelgás, Prókýon og Síríusi).

Ef bloggari á að vera hreinskilinn, þá lítur listinn yfir eftirlætisstjörnuhimnana svona út:

1. Vorhiminninn
2. Hausthiminninn

Hér er trúlega við hæfi að rifja upp þau tvö skipti sem bloggandi hefur dvalið að nóttu til utan stórborgar sunnar á hnettinum. Í fyrra sinnið, sumarið 2000 var hann við stjörnuskoðun í stjörnuathugunarstöð á eyjunni Tenerife. Þar sá hann þrennt stórmerkja; vetrarbrautarslæðuna, sporðdrekann og bogmanninn. Kom í ljós þegar hann öfundaðist yfir vetrarbrautarslæðunni við sunnanmenn, þá öfunduðu þeir bloggara yfir því að sjá norðurljósin oft að vetri til. Trúlega stóð þó upp úr að sjá sporðdrekann með stórrisann Antares. Það var stórfengleg sjón.

Seinna sinnið var um síðustu jól. Þá voru bræðurnir staddir ásamt fjölskyldunni við Krügergarðinn í S-Afríku. Gat þar að líta suðræn merki, s.s. kjölinn (hluti af forna Argosarmerkinu), suðurkrossinn og fylgivetrarbrautir okkar, Magellanskýið stóra og litla, mátti sjá þar berum augum. Segja má að tvær stjörnur hafi náð að tróna á himninum, Síríus og Kanópus (tvær björtustu fastastjörnurnar). Það sem er hins vegar sérkennilegt við stjörnuhimininn þar syðra er að Óríon er á hvolfi og stjarnan Kapella í ökumanninum var rétt fyrir ofan sjóndeildarhring. Á leiðinni frá London suðureftir sáu drengirnir Óríon á hlið (væntanlega rétt norðan við miðbaug).

Þá hefði nú getað verið fróðlegt að líta á hringiðuna í klósettskálinni!

en ek heiti Sverrir 23:01




Af Frakka

Fransmaður er inn kominn,
hvar skal sita sjá?

en ek heiti Sverrir 17:52




Gömul vísa

Kalt stöðumat hjá Orminum endurómar í einu erindi Hávamála:

Ósvinnur maður
vakir um allar nætur
og hyggur að hvívetna.
Þá er móður
er að morgni kemur,
allt er víl sem var.

en ek heiti Sverrir 17:51




Fransmaðurinn kemur

Seinnipartinn á morgun taka bræðurnir á móti Frakka sem ætlar að dvelja hér í tvær vikur og gistir mestallan tímann á Lynghaganum. Strákurinn er víst 16 ára, í menntó og hefur m.a. áhuga á kvikmyndum, leikhúsi (ekki mikið gagn að því hér), sjónvarpi og íþróttum.

Vonast Ormurinn til að hann kunni eitthvað svolítið í ensku eða þýsku (því undirritaður kann ekki eitt orð í frönsku) en stutta, þriggja línu tölvubréfið sem Snæbjörn fékk gaf ekki vonir um mikla færni í enskri tungu.

Heimilismenn gerðu sitt besta til að sannfæra afa og ömmu um það í dag að í góðu lagi væri þótt ekki væri nein dagskrá skipulögð. Og þó. Það er víst pitsupartí framundan annað kvöld og næsta laugardagskvöld mætir drengurinn með bræðrunum í Höllina á Airwavestónleikana.

en ek heiti Sverrir 02:20




sunnudagur, október 13, 2002
Rykfallinn sem sérstætt lýsingarorð

Ormurinn heyrði lýsingarorðið rykfallinn í fyrsta sinn notað sem sérstætt lýsingarorð í síðustu viku. Ekki það að hann heyri orðið oft notað hliðstætt með nafnorði. Var þetta í tengslum við samræmdu prófin og vísaði orðið rykfallinn til rykfallins prófgæslumanns. „Já, það kom einn rykfallinn að fylgjast með prófinu fyrir þremur árum.“

Vonandi móðgast
enginn þótt þetta sé nefnt hér í framhjáhlaupi.

en ek heiti Sverrir 20:15




Lóðið

Það var lóðið!

en ek heiti Sverrir 18:03




Uppflettingar í leitarvélum

Ormurinn hefur verið að fá nokkrar tilvísanir síðustu dagana eftir að netverjar hafa flett upp orðum eins og
bloggari og bloggarar í leitarvélum Google og Yahoo.

Það er hins vegar ekki fyndni parturinn, heldur tilvísanir frá leit eins og þessari (!). Ormurinn fyllist stolti á röngum forsendum.

Einnig virðist sem nemendur hafi reynt að hafa upp á kauða. Hvernig ber annars að skilja leitarstrenginn „Sverrir + stjörnufræði“? Það kom reyndar upp úr dúrnum fyrir föstudagstímann nemandi nokkur, Bogi 6. M, hafði fundið síðuna en það var víst eftir öðrum leiðum.

Kannski á barnaskólakennarinn von á glottandi andlitum í tíma í Rimaskóla á morgun?

en ek heiti Sverrir 11:56




laugardagur, október 12, 2002
Massablogg: Minningarbrot frá föstudeginum 11. október og aðfaranótt laugardagsins 12. október



Rimaskóla, kl. 9:30

Kennarinn situr yfir í samræmdu prófi 7. bekkjar í stærðfræði. Prófið reynist ekki jafnerfitt og hluti íslenskuprófsins daginn áður. Þar áttu krakkagreyin að krossa við rétta merkingu orða í setningum eins og:

Á Mídasi var einn mikill ljóður.
Kisa spektist og beið malandi.
Atvinna er stopul víða um land.
Hesturinn reyndist ódæll.

Þetta telur kennarinn alveg vera menntaskólatækt.



Menntaskólanum í Reykjavík, kl. 12:20

Undirritaður situr aftur yfir í prófi, nú er það eigið próf sem hann leggur fyrir nemendur í stjörnufræði. Eftir fyrri stjörnufræðitímann tekur
Jónatan ekki ólíklega í það að Ormurinn fái far heim úr skólanum. Þetta hefur áhrif á töku ákvörðunar um áfengiskaup í Austurríki.



Menntaskólanum í Reykjavík, kl. 13:45

Menntaskólakennarinn ungi ber flóttalegur tvo poka með áfengi inn á skólalóðina. Mætir þar sópransöngkonu úr MR-kórnum, sem hann er vanur að stríða talsvert á á kóræfingum. Nú geldur hún hí með híi. Eftir að hafa reynt að fela ÁTVR-pokana bak við „kennaratöskuna“ mætir Jonni söguhetjunni til bjargar og ekur með Orminn vestur eftir, færandi varninginn heim.



Lynghaga 24, kl. 17:30

Ormurinn vaknar eftir að hafa fengið sér kríu. Stefnan tekin á 10-11, þar sem ákveðið er að kaupa m.a. rauðlauk á pitsurnar. Kemur í ljós að okurbúllan selur ekki vanilluskafís. Þá fór bloggari að reikna og ákveður að kaupa sinn ís í Vídeóljóninu. Milli hálfsjö og sjö tínast drengirnir úr ´96-liðinu á Lynghagann. Gvendur sýnir þann myndarskap að aðstoða við baksturinn og sannar enn einu sinni að tiltektarsagan af spurningaliðinu í teiti í 3. C vorið 1996 er sko engin nútímaþjóðsaga. Kjartan biður bloggara ekki nota orðið „Lynghagabræður“ um undirritaðan og bróðurinn vegna tiltekinna hugrenningartengsla. Það er tekið til íhugunar.



Lynghaga 24, kl. 20:30

Góður almannarómur er gerður að pitsunum. Gildir hið fornkveðna: „Vanir menn, vönduð vinna“. Teningunum er kastað og stefnan tekin á skemmtikvöld Múrsins.




Hallveigarstöðum, kl. 23:30

Hófið reyndist standa vel undir hrokafulla heiti. Gaman þótti Ormi að sjá hvernig félagi Stefán lifði sig inn í hlutverk sín í því kostulega leikverki Atómstöðinni á 7 mínútum. Annars vísar bloggari áfram til frekari umfjöllunar góðra manna, hvað skemmtikvöldið varðar. Bloggara reiknast til að á svæðinu hafi verið a.m.k. 12 virkir bloggarar svo að þessi viðburður er trúlega fyrsta „bloggarapartíið“ (sbr. irkarapartí) sem undirritaður er viðstaddur.



Hallveigarstöðum, Austurvelli, Stjórnarráðinu, kl. 23:30-24:00

Svo virðist sem búið sé að sníða klæði úr þessum hluta handritsins. Eitthvað rámar undirritaðan þó í að hafa staðið að tilfærslu fána innan marka 101 Rvk í samráði við klifurköttinn Jarlaskáldið. Viðstödd þær aðfarir (allsendis saklaus þó) voru Erna, Gneistinn og Sverrir.



Biðröð við Næsta bar, kl. 24:00

Ísleifur ákvað að slást í för með Orminum, eftir að hafa setið að drykkju á Prikinu. Biðröð var við næsta bar (!), svo löng að ótiltekinn eðlisfræðikennari, sem á afar dýran flagaratrefil, gafst upp á biðinnni með samkennurum sínum, Ármanni og Orminum. Á barnum var margt röflað en helst man undirritaður eftir að hafa fengið aðstoð nafna síns við að bera kennsl á ótiltekinn sagnfræðing, sem kennir kúgildi við . Ekki hvatti hann þó til frekari kynna þegar þarna var komið við sögu.



Vegamót bistro-bar, kl. 1:30

Ormurinn og forseti Ísalands tjúttuðu af list við old-skool undirleik Robba Chronic. Ísleifur drakk þessa tónlist að vísu í sig á sokkabandsárum sínum í Hagaskóla en það er ekki fyrr en síðustu misserin sem bloggandi hefur náð þeim þroska sem þarf til að hlusta á hipphoppsjittið. Gamall nemandi, Ari Tómasson, heilsaði kennara á dansgólfinu, hress að vanda. Ormurinn var þó heldur óhress með myndatökur á staðnum. Náði að vísu að víkja sér undan myndbandsupptöku en lenti á mynd hjá einvherjum paparazziljósmyndara. Varð Ísi að róa söguhetju niður, sem talaði um barsmíðar og myndasmið í sömu setningu. Fangseljan við diskinn mælti með eplasnafsstaupum til að róa manninn niður. Réði hún heilt.



Prikinu, kl. 3:00

Eftir stutta viðdvöl á Kaffibarnum komu djammendur á kaffihúsið Prikið. Þar var heldur daufleg vist. Þegar efri hæðinni var lokað fengu félagarnir lánuð áhöld af staðnum til ótakmarkaðs tíma, til viðbótar staupunum af Vegamótum. Voru því þrjú bjórglös, þrjú staup og þrír öskubakkar (!?) í jakka Ormsins er heim var komið.



Nonnabita, kl. 3:30

Ísleifur varnaði söguhetju kebasins svo að heilsusamlegur Nonnabiti var látinn duga. Aldrei þessu vant pantaði Ormurinn karríbát á Nonna með kjúklingi (ok, smá svindl). Einhver var á svæðinu í hrókasamræðum við Skota og á leiðinni út hitti menntaskólakennarinn nemanda sinn, Manúelu, glottandi. (Undirritaður komst að því áðan að hann er ennþá með penna „í láni“ frá Nonnanum.) Það voru slompaðir menn sem stigu inn í leigubíl og héldu heim í Vesturbæinn um fjögurleytið. Var þó enginn „Ein Meter Bier“ í spilinu þetta kvöldið, þótt magnið væri nokkru meira ef allt er talið.


en ek heiti Sverrir 13:15




Á eftir djammi kemur...

Ormurinn er ekki til stórræðna núna, eftir að hafa farið á skemmtikvöld
Múrsins í gærkvöldi og slysast svo á kráarrölt í kjölfarið, með forseta Ísalands.

Ormurinn og hann bundust reyndar fastmælum um það í nótt að horfa saman á landsleikinn. Nú er hersis hefnd við hilmi efnd - kúrsinn er tekinn heim til forsetans.

en ek heiti Sverrir 13:15




föstudagur, október 11, 2002
Tíðni uppfærslna hjá Rss bloggurum

Ormurinn fylgist reglulega með tíðni nýrra blogga á
fyrirsagnasíðu Rss molanna. Sumir detta aldrei út af síðunni (þ.e. uppfylla skilyrðið að blogga a.m.k. einu sinni á sólarhring).

Undirritaður hefur sjaldan séð jafnmikla virkni og í seinni hluta þessarar viku. Vísunin neðst á síðunni er í blogg sem er innan við 30 klst. gamalt (og eru þó nefndir 60 bloggarar á síðunni). Það er af sem áður var (fyrir 2 vikum) þegar sjá mátti blogg frá laugardagskvöldi á aðfaranótt þriðjudags.

en ek heiti Sverrir 13:19




Hugtakanotkun í drykkjufræðum

Ormurinn rakst á nýtt hugtak í bjórfræðum á
heimasíðu Svansins, „ein Meter Bier". Hinn vínbloggarinn má nú til með að kynna sér málið.

Hvenær ætli þetta komi til landsins?

en ek heiti Sverrir 13:16




Komið upp um strákinn Tuma

Það má segja að
þessi bloggari hafi komið upp um bróður sinn.

en ek heiti Sverrir 12:59




Pitsuboð að Sverri

Ormurinn, í samstarfi við bróður sinn, býður heilu spurningaliði í pitsur í kvöld. Já, það verður ekki ónýtt fyrir þá
Arnór, Guðmund og Kjartan (lið MR ´96) að fá að slafra í sig Lynghagabökum. Svo er stefnan tekin á skemmtikvöld Múrsins.

Hvar ætla lesendur að vera þegar „Atómstöðin á 7 mínútum“ verður frumsýnd?

Eða ætti Ormurinn frekar að spyrja: Verður rauðlaukur á pitsunni í kvöld?

en ek heiti Sverrir 08:28




Orð dagsins

Ögurvíkingur notar orðið „stagkálfur“ um undirgefni mannsins í selskinnskápunni við valdamenn í BNA í grein í Morgunblaðinu í morgun.

en ek heiti Sverrir 08:23




fimmtudagur, október 10, 2002
Haukurinn hefur talað

Haukurinn hefur frá mörgu að segja.

en ek heiti Sverrir 21:02




Myndbönd mánaðarins

Áðan mundi Ormurinn eftir því að hann á eftir að velja myndbönd októbermánaðar úr safninu á eldhússmakkanum.

Fyrst varð fyrir valinu „Right here, right now“ með Fatboy Slim. Snilldarmyndband sem þróun mannsins frá því að fiskkvikindi syndir í sjónum og skríður svo á land, uns
bollan, sem er framan á umslagi plötunnar You´ve Come a Long Way Baby, kemur til sögunnar.

Annað myndband með tónlistarmönnum sem eru á hátindi frægðar sinnar er við lagið „Pyramid Song“ með hljómsveitinni Radiohead. Gullfallegt myndband sem sýnir tölvuteiknaða Atlantis á sjávarbotni. Svo er þessi líka angurværa melódía undir.

Þriðja myndbandið sem varð fyrir laginu er gamalkunnugt, „We Are the Robots“, með Kraftwerk. Um það þarf víst vart að fara fleiri orðum.

en ek heiti Sverrir 20:25




Viggó viðutan

Það er alltaf gaman að lesa
Viggó viðutan.

en ek heiti Sverrir 19:44




Dagur reiðinnar

Ormurinn komst að því fyrir margt löngu að dómsdagur er með sína eigin
heimasíðu, hverrar umsjónarmaður er tölvunörd og Ferrarieigandi.

en ek heiti Sverrir 18:30




Airwaves

Bræðurnir á Lynghaganum eru búnir að festa kaup á fjórum armböndum á Airvawestónlistarhátíðina eftir viku. Stefnan er þó einkum sett á tónleikana í Höllinni (e.t.v. í slagtogi við
bloggara nokkurn) því sá yngri er á leið á árshátíð á fimmtudagskvöldið (þegar íslenskir rappa á Gauknum). Það er þó stór spurning hvað menn gera varðandi tónleikana í Iðnó með Bang Gang á föstudaginn.

Nú kynnu þó einhverjir lesendur að spyrja: Þurfa þeir bræður armband á báðar hendur? Nei, en það veitir víst ekki af fjórum armböndum þegar Alexandra og Fransmaður slást í hópinn. Um Fransmann verður frekar bloggað síðar.

en ek heiti Sverrir 16:11




Nýyrði og orðasmíð

Erna er með afar skemmtilegar (og fróðlegar)
íslenskupælingar í dag.

en ek heiti Sverrir 13:40




miðvikudagur, október 09, 2002
Örsögur á netinu

Bloggari rakst á
þessa síðu með safni sniðugra örsagna hjá kunningja foreldra sinna, Guðmundi Ingólfssyni.

en ek heiti Sverrir 21:00




Bloggarar í Kastljósinu

Salvör og Stefán stóðu sig vel í umræðu um bloggið í Kastljósinu áðan, rétt eins og við var að búast.

Það kom frekar lítið á óvart að umræðan skildi hefjast með því að fjalla um orðnotkun í tengslum við bloggið. „Bloggarar“ og „að blogga“ er víst enskt slangur sem fellur ágætlega að íslenskunni (lítið bögg að nota það). Salvör og Stefán vörpuðu fram þremur orðum sem þau hafa heyrt sem valkost við bloggið: vefleiðari, annáll og leiðabók. Ekkert þeirra er þó tamt enn sem komið er en hverjum þótti blöndungur tamt orð í upphafi? Kannski finna íslenskir bloggarar upp orð eins og hjólabrettamenn sem tala vissulega um „að skeita“ en nefna sig síðan skötur jafnt sem skeitara. (Annálstalið kallar reyndar fram hughrif í þessa veruna: „Björn lögmaður kom með skipi að Gásum þennan vetur með nýja löggjöf til landsmanna. Ísbjörn gekk á land í Öxarfirði. Var unninn eftir að hafa etið tvö börn.“)

Þessar orðapælingar geta þó orðið býsna skemmtilegar. Hvers vegna eru blogglatir menn t.d. kallaðir aumingjabloggarar en ekki bloggaumingjar, bloggratar eða bloggræflar? Reyndar gerði undirritaður orðsmíðatilraun með „bloggfalli“ (yfir annað kunnulegt fyrirbæri úr bloggheimum), sem er notað innan ákveðins hóps.

Meðal þess bitastæðara í þættinum var greining Salvarar á netskrifum stjórnmálamanna (hlutur sem Ormurinn hefur nokkuð velt fyrir sér). Þegar hún var spurð að því hvort reglulegir pistlar Björns Bjarnasonar eða dagbókarfærslur Sivjar Friðleifsdóttur teldust blogg, sagði Salvör stjórnmáladagbækurnar uppfylla mörg skilyrðanna fyrir bloggi, þ.e. ákveðinn rammi á vefsetri utan um reglulegar færslur og allt í tímaröð. Hins vegar vantaði upp á að þau vísuðu út fyrir bloggið, þ.e. út á aðrar vefsíður og önnur blogg, og því væru færslur þeirra frekar eintal en blogg (sem fæli þá í sér tilvísanir og einhverja gagnvirkni). Annars fannst bloggara eiginlega nóg um formalismann á köflum.

Stefán ræddi svo um samfélag bloggara á Íslandi (eru bloggarar sá minnihlutahópur sem orðalag Ormsins gefur til kynna?). Fyrir um tveimur árum var það smátt og þá ekki hvað síst bundið við nemendur í viðskipta- og hagfræði/verkfræði í HÍ. Fólk innan hópsins og í kringum hann komst yfir að fylgjast með stórum hluta blogganna. Síðustu misserin hefur það svo þanist út og skutu þau Stefán og Salvör á að það væru a.m.k. 300 bloggarar á landinu (sem blogga þá nokkuð reglulega). Jafnframt hefur það brotnað upp. Þónokkrir bloggarar eru talsvert lesnir af mörgum (þó ólíkt milli hópa) en síðan láta bloggarar duga að kíkja á bloggandi vini sína. Þetta með að lesa frægu bloggarana virkar stundum á undirritaðan svipað og að fylgjast með sjónvarpsþáttum eða fréttum (krafan um að „fylgjast með“). Öfgafyllsta og jafnframt skondnasta birtingarmyndin er þó setningin: „Varstu búinn að lesa það á blogginu mínu...?“

Ráð undirritaðs til að „fylgjast með“ er að fara daglega inn á fyrirsagnalistann á rss.molunum. Þar hefur m.a. í þessum blogguðum orðum birst vísun á pistil hjá Björk Hauksdóttur um Kastljósið. Björk veltir einmitt því sama fyrir sér og undirritaður hefur brotið hugann á tveggja mánaða afmæli bloggs Ormsins.

Hvers vegna blogg?

en ek heiti Sverrir 20:29




Kastljósið í kvöld

Lítill fugl hvíslaði því að Orminum að Kastljósið í kvöld gæti verið óvenjuáhugavert. Hann selur það þó ekki dýrara en hann keypti.

en ek heiti Sverrir 14:08




Ormur haslar sér völl

Ormurinn hefur tekið að sér gamalkunnugan starfa á nýjum vettvangi.

Hvers vegna? Jú, átta ára reynsla og ágætar vonir um að allt gangi upp.

en ek heiti Sverrir 14:08




Gísli kemur sterkur inn

Umræður spunnust um það í tímum hvort Gíslasaga segði frá einhverju áhugaverðu. Kennari studdi Gísla og benti á mannvíg, bardaga, galdra, forspár og svakaleg ástamál en nemendur létu sér fátt um finnast. Þeir tíndu meðal annars til Hringadróttinssögu Tolkiens sem væri saga þar sem eitthvað gerðist.

Þá kom kennari með krók á móti bragði. Sagði hann af málaséníinu Tolkien sem kunni m.a. íslensku og fékk nöfnin á bæði Fróða og Gandálfi úr fornbókmenntunum íslensku (þ.a. Gandálf úr Völuspá). Almannarómur snerist nú heldur með fornbókmenntunum við þessi tíðindi.

en ek heiti Sverrir 10:09




Spjallað við bílstjóra

Aldrað par á leið á Hornstrandir (Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín) fær far með flutningabíl á heiði á Vestfjörðum. Bílstjóri leikinn af Magnúsi Ólafssyni:

Geiri: „Heldurðu að bróðir þinn geti flutt okkur þangað?“
Bílstjóri (hranalega): „Ég held ekkert um það sem ég veit!“

Skömmu síðar.
Geiri: „Heldurðu að bróðir þinn geti flutt okkur þangað?“
Bílstjóri (hranalega): „Ég held ekkert um það sem ég veit!“

(Úr Börnum náttúrunnar)

en ek heiti Sverrir 01:02




þriðjudagur, október 08, 2002
Skólablogg og orðsifjar

Ormurinn er ennþá í skólanum. Hverju sætir? Jú, slæm nýting starfsdags um daginn m.a., ásamt því að bloggara þykir auðveldara að einbeita sér þegar hann einokar svæðið. Hvers vegna svo lengi? Jú, það tekur tímann sinn að ljósrita og „gorma“ 15 stærðfræðihefti (60 bls. hvert), einkum þegar bókbandið lært er eftir prufu/villu aðferðinni.

Ætli sögnin „að gorma“ sé ekki svipuð að uppruna og „hrífa“ (í merkingunni að raka), sem sver sig aftur í ætt við orðasambandið „að orfa með sláttuorfanum“. Já, hver segir að unglingavinnan auðgi ekki málvitundina?

en ek heiti Sverrir 19:41




Nýbakaður pabbi

Orminum líður vel með að vera orðinn
bloggpabbi. Að vísu sver króginn sig í ætt við Heimdall hvað fjölda foreldra varðar.

en ek heiti Sverrir 17:45




Uppsprettandi auglýsingar

Lesendur
Morgunblaðsins á netinu hafa væntanlega látið svonefnda „pop up“ glugga fara í taugarnar á sér. Orminum fannst þó yfirskriftin á einum þeirra ansi kyndug: „Tryggðu þér áskrift“

Það fer greinilega hver að verða síðastur!

en ek heiti Sverrir 17:45




Bílabófar

Þessi saga ljær máltækinu „að koma eins og þjófur að nóttu“ nýja vídd.

en ek heiti Sverrir 13:46




Orðhákur í stjórnmálunum

Í
frétt á vef Morgunblaðsins um dansk-íslenska menningarstofnun var rætt við stjórnmálamenn. Þar sagði m.a:

„Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagðist vera mjög drums um þessar hugmyndir menntamálaráðherra, þ.e. ófús til að taka undir þær.“

Þarna hefur blaðamaður fengið skýringar á orðalaginu og undirrituðum lesanda veitti víst heldur ekki af.

Svona láta aðeins rokkarar út úr sér.

en ek heiti Sverrir 07:53




mánudagur, október 07, 2002
Heimabakað?

Góð pæling í gær um
meintan heimabakstur hjá Uppsalabloggaranum.

en ek heiti Sverrir 22:18




Rauður af bræði

Eins og sjá má af síðustu
færslu er farið að fjúka í Sindrann. Heyrst hefur að hann hafi fengið Þorgrím nef á svæðið.

en ek heiti Sverrir 22:17




Ormurinn espaður

Blogg sumra
manna gera ekkert annað en að espa upp löngunina í blogganda. Tívolíferð, íslenskur silungur, Danmerkurdvöl og 12 ára viskí, sá er ekki að skafa utan af því.

en ek heiti Sverrir 21:51




Lögmálið hið rússneska

Ármann er ekki einn um að velta fyrir sér orðfari vísindanna. Undirritaður varðveitir efnafræðiskýrslu
Kattarins og Þorgeirs, bróður Ønundar, frá því í MR. Hafði hún yfirskriftina „Gjörningrinn lausnir“ og var þar rætt m.a. rætt um óreiðulögmálið, er þeir samstarfsmenn kusu að kallað „hið rússneska“. Þetta eru jú sömu menn og vildu innleiða hugtakið um „geðsjúka manninn í Evrópu“ um Ítali (hliðstætt við Tyrkjaveldið).

Sem nærri má geta voru undirtektir dræmar hjá þeim Skarphéðni Óskarssyni og Hauki Sigurðssyni, kennurum.

en ek heiti Sverrir 21:42




Orðafar í vísindum

Ármann setur fram hugmynd að nýrri þýðingu á „chaos theory“ á blogginu sínu í dag.

Áhugavert! (Það geta nú ekki allir unnið við þetta).

en ek heiti Sverrir 21:34




Amen

Ormurinn er búinn að vera slappur í dag og keppist nú við tölvuna að ná að lesa flest bloggin (ekki þó bloggin sem Tilveran vísar á) á
molunum og svo þau sem síða Ormsins vísar til (ok, örfá til viðbótar).

Undirritaður hefur á fjórum bloggum í dag rekist á frasann „að setja amen á eftir efninu“. Hvert er málið?

en ek heiti Sverrir 21:18




Ormurinn vinnur boltaleiki

Undirritaður lét það eftir strákunum í stærðfræði 9. bekkjar að fara í fótbolta í tíma. Hluti af fríðindunum kennarastarfsins er heimadómgæslan, þ.e. dómarinn dæmir alltaf með liði kennarans. Ormurinn missti það meira að segja út úr sér að „það væri gaman að skjóta í nemendur“ þegar hann þrykkti í einn. Skamm, skamm!

Skemmst er frá því að segja að úrslitin urðu á einn veg. Liðin sem kennarinn var í unnu 6-1 og 5-3.

en ek heiti Sverrir 11:13




Dauði af völdum hláturs

Banamein Ormsins var
þetta.

Er hægt að hugsa sér betri meðmæli?

en ek heiti Sverrir 01:23




sunnudagur, október 06, 2002
Verðandi sögukennari

Bloggari rakst á eina villu í pistli
Kattarins um framtíðarstarfið. Þar átti ekki að standa „ef“ heldur „þegar“.

Það sér það líka hver heilvita maður að ekki er hægt að brenna inni með svo góðar spurningar.

en ek heiti Sverrir 23:26




Uppsalir

Ormurinn biður
Þórdísi Uppsalabloggara ekki bugast þótt einhverjir sænskir kíki á bloggið.

en ek heiti Sverrir 23:23




Hestamennska

Þegar Ormurinn las
hrakfallasögu Svavars rifjaðist upp fyrir honum síðasta skipti er hann skrapp á hestbak. Það var fyrir 12 árum og endaði ferðin sú á því að hann féll af baki reiðskjótanum suður af brúnni yfir Hamarkotslæk (látlausu brúnni), nálægt þeim stað sem 10-11 er í Setberginu.

en ek heiti Sverrir 17:45




Góð föstudagsmynd

Ormurinn gat alveg samsinnt því í sunnudagsmat hjá afa og ömmu að föstudagsmyndin hefði verið góð. Hann las það nefnilega á
blogginu frænda síns og ömmu (en eins og minnugir þekkja veit amman allt um blggið).

Þetta er víst aðferðin til að fylgjast með sjónvarpinu þegar lítið er gónt. Lesa annarra manna blogg og hlýða þolinmóður á frægðarsögur nemenda af Sveppa og félögum. Það má þó segja undirrituðum til afsökunar fyrir slappleikann að PoppTíví er ekki á heimilinu.

en ek heiti Sverrir 14:49




Börnin

Bróðir Ormsins var alveg viðþolslaus í gærkvöldi, svo mikið fýsti hann að sjá Börn náttúrunnar. Undirritaður stakk upp á að bræðurnir horfðu á Skytturnar en við eftirgrennslan kom í ljós að sú mynd var ekki einu sinni til á Aðalvídeóleigunni og fór Snabbi því út að leigja Börnin. Ef hægt er að tala um einhverja sameiginlega eftirlætismynd heimilismanna, þá er það þessi. Best að bloggari stilli sig um lofgjörðina en þó má segja að hver sena í myndinni sé eins og málverk, svo nostursamlega er hún unnin. Vandvirknina má svo auðveldlega yfirfæra á frammistöðu leikaranna og tónlistina í myndinni.

Ormurinn hafði séð myndina nokkrum sinnum og gat því leyft sér að rýna í smáatriðin. Þá kom margt skemmtilegt fram. Ekki er hann til dæmis viss um að allir áhorfendur hafi áttað sig á því að myndina megi tímasetja út frá fyrsta jójófári
Coca Cola, en á Umferðarmiðstöðinni, þegar Geiri kemur í bæinn, sést strákur með jójó. Ergó: Það atriði er tekið upp þegar undirritaður var í 11 ára bekk (vorið 1991 þegar brasilíski „heimsmeistarinn í jójóleikum“ kom til að kenna íslenskum ungmennum jójólistina).

Bloggandi benti einnig bróður sínum hróðugur á að atriðið þegar jeppinn gefur upp öndina geti ekki verið tekið upp á Vestfjörðum. Í atriðinu á undan er parið nefnilega statt í Skálanesi eða Króksfjarðarnesi í A-Barðastrandarsýslu en í atriðinu á eftir eru þau á heiði þar vestra. En hvernig má sjá að atriðið er ekki tekið upp þar? Jú, þótt farið sé að skyggja má þó greina mastur í háspennulínu í baksýn. Þessa gerð mastra er hins vegar ekki að finna á Vestfjörðum. Hún er hins vegar uppistaðan í Búrfellslínu 2 og Sogslínum (og reyndar á smákafla í byggðalínunni í Vatnsskarði og á Holtavörðuheiði) svo að þetta atriði er líklega tekið upp hér sunnanlands (trúlega í Kömbunum).

Síðan voru það táknin og dulúðin í myndinni. Á rölti sínu á heiðinni gengu hjónaleysin fram á steypuhrærivél, sem var að blanda steypu ein og yfirgefin. Kannski var henni stillt upp sem eins konar „hjóli gæfunnar“ íslensku þjóðarinnar? Einnig var magnað að sjá jeppann hverfa í hamarinn á flótta undan vörðum laganna og drauginn/hafmeyjuna undir hömrunum á Hornströndum. Svo endaði myndin með píslargöngu Geira, berfættum, upp í gömlu ratsjárstöðina á Straumnesfjalli, þar sem engill vitrast honum og hann hverfur í þokunni yfir til betri vistar.

Svo felldi okkar maður nokkur tár yfir kaflanum úr gömlu Hornstrandarmyndinni hans Ósvalds Knudsens (þar sem Kristján Eldjárn var þulur).

en ek heiti Sverrir 11:49




Fólkið í landinu

Þetta kemur úr hörðustu átt.

en ek heiti Sverrir 00:04




laugardagur, október 05, 2002föstudagur, október 04, 2002
Mátturinn

Ormurinn var á Minjasafninu Orkuveitunnar og hitti þar ótiltekinn stjórnmálamann, hverjum Mátturinn er hvað sterkastur í.

Alger töffari sá. Best að þvo sér ekki um spaðann næstu dagana.

en ek heiti Sverrir 20:40




Fornfálegi kennarinn

Sumir kynnu að halda að það væri leiðinlegt að kenna saman hlutinn aftur og aftur. Það er þó ekki alveg rétt þar sem það kemur maður í manns stað í sæti nemenda og alltaf berast nýjar ábendingar frá nemendum sem halda undirrituðum við efnið.

Sú ávirðing sem vakti mesta athygli Ormsins í vikunni var þegar hann var sakaður um að tala „forníslensku“. Vissulega hefur kennarinn beðið menn í hverjum tíma að taka ofan og tylla sér niður en það verður nú ekki talin dauðasök. Einnig verður seint sagt að það sé málfar fornt þegar bloggari gantast með að nemendur skuli ekki kýta heldur sitja á sárs höfði.

Það eina sem jaðrar við forníslenskuna er flutningur undirritaðs á fyrstu dróttkvæðu vísunum í Gíslasögu. Engar kvartanir hafa hins vegar borist vegna þess.

en ek heiti Sverrir 17:05




The Riddler

Nú situr Ormurinn yfir prófi í stjörnufræði og er spakur sem spói. Reyndar barg kennarinn árshátíð skólans fyrir fáeinum mínútum, þar sem nemandi í prófinu hafði lagt fyrir sérlegan bíl árshátíðarnefndar en bloggari leyfði að nemandi lánaði árshátíðarmönnum bíllyklana. Af öðrum góðverkum er helst að nefna að hann hleypti nemendum sínum að jafnaði 5 mínútum of snemma út úr tíma í morgun.

Það er ekki laust við að undirrituðum þyki
Forseti Ísalands stundum tala í gátum.

en ek heiti Sverrir 11:52




Í ruslið með hroðvirknina

Kennarinn hefur fundið nýtt ráð gegn hroðvirkni nemenda sem virðist duga sæmilega. Þegar hann skoðaði vinnubók í stærðfræðitíma kom í ljós að þar voru aðeins svör en engir útreikningar. Ekki efaðist undirritaður um að nemandi hefði reiknað þetta samviskusamlega en það skipti þó engum togum - síðan var rifin úr bókinni, krumpuð í kúlu og flaug með körfuboltasveiflu í ruslið.

Kannski gekk kennari of langt í þetta sinn en þessa róttæka aðferð virtist bera ávöxt. Hver var að tala um hættu á valdhroka?

en ek heiti Sverrir 01:26




fimmtudagur, október 03, 2002
Diss dagsins II

Á að taka ofan fyrir
Stefáni bloggara?

en ek heiti Sverrir 20:58




Hlunkurinn kveður sér hljóðs

Já, þótt Ormurinn hafi örlítið fitnað seinni hluta árs er hér ekki rætt um það heldur
þennan bloggara.

Samlíkingin við Samfylkinguna fyrir ofan þriðju neðstu greinaskil í löngu færslunni finnst undirrituðum svolítið sniðug. Eins skotið á munntóbakið.

en ek heiti Sverrir 18:32




Ormurinn óbermi

Þetta var nú óþarfi.

en ek heiti Sverrir 18:26




Langhundur

Undirritaður hefur fundið rétta orðið fyrir
þetta blogg. Hér er meira að segja á ferð svona brota-langhundur (e. fractal), þ.e. bloggið er langhundur sama hvar borið er niður og sama hve lítill bútur er skoðaður.

Já, svona fer fyrir mönnum sem biðja Orminn um aðstoð en vilja ekki í kórinn.

en ek heiti Sverrir 17:41




Nemendur spyrja

Nemendur bæði í MR og Rimaskóla spurðu undirritaðan að því í dag hvort hann væri með heimasíðu. Hann játti því en var ekki tilbúinn að gefa veffangið upp (hvað þá að fara inn á síðuna um skjávarpann eins og nemendur báðu um). Það verður þó sýnu erfiðara fyrir unglingadeildina að finna þetta þar sem ýmsir bloggarar eru í MR.

Í upphafi vetrar þegar bloggari gerði sér grein fyrir stöðu sinni sem kennari og virkur bloggari spáði hann því að það tæki menntskælinga þrjá daga að finna síðuna og unglingana ekki meira en þrjár vikur.

Það er þó best að gleyma ekki
ónefndum bloggara.

en ek heiti Sverrir 11:22




Íslenskuæfingin góða

Ormurinn fór með nemendum sínum yfir æfinguna góðu, þar sem nefna átti íbúa sveita, bæja og landa. Þegar spurt var um Brasilíu kom svarið „Brassar“ en kennari útskýrði að þótt það skyldist ágætlega þó væri Brasilíumenn trúlega formlegra. Eins sagði kennari að „Ólsarar“ væri óformlegra heiti á Ólafsvíkingum (en af hverju var Hellissandur ekki í æfingunni?). Eistland kom þó ekki fyrir (en einhver íslenskumaðurinn líkti orðinu „Eisti“ við það að við værum kölluð „Ísar“ - nokkuð til í því).

Besta uppástungan kom þó varðandi íbúa Kjósarinnar. „Kæsir“ skulu þeir heita (en ekki Kjósverjar). Ormurinn var þó ekki með eintak af bókinni með verkefnunum leystum (enda væri það hundleiðinlegt og tæki alla spennu úr kennslunni). Því gat hann ekki svarað hvað íbúar Norður- og Suður-Múlasýslu eru kallaðir.

Einhverjar uppástungur?

en ek heiti Sverrir 08:10




miðvikudagur, október 02, 2002
Gísli fer sunnan

Ljós-Gíslinn fer á kostum í dag í því að deila á menn og málefni. Þótt Ormurinn sé ekki sammála honum varðandi íslenskan fótbolta og pólitíkina þá dáist hann að því hve Gísli er ófeiminn.

en ek heiti Sverrir 21:12




Ormurinn kemur víða við

Sjonninn er búinn að setja Orminn inn í rss gluggann sinn. Eitt klapp fyrir honum.

en ek heiti Sverrir 20:50




Kubbamógúllinn

Þjarkur (róbóti) úr tæknilegói, grár fyrir járnum, beið Ormsins er hann kom inn á skrifstofu skólans í dag. Með lofttjökkum mátti stýra bæði höndum og augum.

Ástæðan fyrir dvöl hans í skólanum var sú að legómeistarinn Sigurður stóð fyrir kynningu á uppfinningakeppni grunnskólanna fyrir 5. bekk. Þegar undirritaður hafði fengið að taka í spaðann á honum kom upp úr dúrnum að hann var Íslendingurinn sem bloggandi hafði heyrt af að hefði unnið hjá
LEGÓ. Ekki er bloggari frá því að þetta hafi verið draumastarfið um skeið.

Undirritaður spurði hvort hann væri verk- eða tæknifræðingur en hann sagðist vera sjálfmenntaður, reyndar með 14 ára reynslu að sögn er hann réði sig til LEGÓ.

Hvílíkur töffari!

en ek heiti Sverrir 20:22




Persabréf

Ormurinn fékk bréf áðan frá eiganda persnesku síðunnar með „hringtorgi dauðans“ sem hann vísaði á í gær. Þar sem hann skilur víst ekki íslensku vill hann að undirritaður setji saman umsögn á ensku um bloggið.

Best að verða við því. Ekki á hverjum degi sem færi gefst á því að eignast persneskan pennavin.

en ek heiti Sverrir 14:29




Vargur í véum

Oft ratast
Ívari satt orð á munn.

en ek heiti Sverrir 14:09




Kraninn

Bloggarar hafa kveðið upp sinn dóm um Hegrann: Flottasti krani í heimi (eins og sjá má af mynd neðst á
blogginu hans Daða).

en ek heiti Sverrir 11:19




Hundafár

Það má segja að hluti íslenskutímans hafi farið í hundana í dag. Þegar kennarinn komst inn í umræðuna sem stóð yfir á aftasta bekk kom í ljós að þar voru menn að giska á nafnið á hundi eins nemandans. Kom í ljós að hann heitir Pjakkur eftir margar (frumlegar) ágiskanir og hefur seppi m.a. leikið í kvikmyndinni Ikingut (já, Haukur!).

Það kom kennara mjög á óvart að þegar hann sagðist þekkja annan Pjakk þá spurði einn nemandinn hvort sá byggi nokkuð á Hellu (sem er hárrétt). Hundur þessi er víst alltaf með eiganda sínum á torfærumótum(!!)

Þessir nemendur eru bara snillingar.

en ek heiti Sverrir 11:13




Draumfarir

Undirritaðan dreymdi í nótt að hann sprangaði um miðbæinn með þekktum bloggara. Ormurinn var alveg að rifna af stolti.

En eigi er mark að draumum.

en ek heiti Sverrir 08:10




þriðjudagur, október 01, 2002

Sverrir/Male/21-25. Lives in Iceland/Reykjavík/Vesturbær, speaks Icelandic. Spends 40% of daytime online. Uses a Fast (128k-512k) connection. And likes Music
This is my blogchalk:
Iceland, Reykjavík, Vesturbær, Icelandic, Sverrir, Male, 21-25, Music.